15.09.2012 22:12

Óformlegt fjárstúss



Þessi mynd gæti heitið ,,Sjö á lofti, ein á jörð,, en þarna svífa Vörður Arðs og Tignarson og Snekkja Skútu og Glottadóttir niður brekkuna áleiðis heim að hesthúsi.

Kindastússið er svo sem ekki formlega byrjað hér í Hlíðinni en þrátt fyrir það höfum við verið í fjárfluttningum í allan dag. Það var smalað í Hraunholtum í dag og smá forskot var tekið fyrir innan fjall.  Afraksturinn......í meira lagi m.v undanfarin ár sem hugsanlega þýðir sögulegar tölur í okkar samlamennsku um næstu helgi.  En hver veit ??

Ég smellti gleraugunum á nefið og tók smá yfirlit þegar fé kom í hús svona eins og alvöru fjárbændur eiga að gera. Niðurstaðan eftir þessa skoðun var sú að ef ég væri jákvæð þá væru hér vænir dilkar og vel útlítandi. En ef að ég væri neikvæð þá væru hér ormar sem mundu bara gera ursla í meðalvigtinni.
Ég ákvað að gæta hófs í svartsýni og skynsemi í bjartsýni..........svo ég er bara góð og vona það besta en býst við því versta.

Undirbúningur fyrir réttirnar er margvíslegur að vanda hér í Hlíðinni. Sumt er raunhæft að klára fyrir réttir annað er draumsýn ein sem alltaf er samt rifjuð upp af og til.
Fjárhústiltekt, girðingar, réttarviðgerðir og ofaní burður er ,,lögbundið,, hér á staðnum.
Bakstur og matarstúss er tilheyrandi enda er matseðillinn oftast sá sami. Slátur hér, gúllas þar, heimatilbúinar kjötbollur og að sjálfsögðu kjötsúpa með slátri. Nýja kartöflur, rófur og hvítkál. Ekki má nú gleyma heimagerðri rúllupylsu og kæfu. Baksturinn er líka svolítið hefðbundinn, mikið og margar tegundir.
Já það er ýmislegt leyfilegt þessa viku sem smalafjörið stendur sem hæðst.