Flokkur: Daglegt líf í Hallkelsstaðahlíð

10.01.2010 22:32

Folaldasýning í máli og myndum I hluti



Í gær var haldin árleg folaldasýning í Söðulsholti sem eins og undanfarin ár heppnaðist með mikilli prýði. Til leiks voru skráð 78 folöld sem að voru velflest falleg og hreyfingagóð.
Sigurvegari sýningarinnar var hann Dökkvi frá Dalsmynni sonur Vonar frá Söðulsholti og Eldjárns frá Tjaldhólum. Gullfallegur foli með skemmtilegar hreyfingar og hreint ekki klárgengur eins og ég hefði kannske haldið miðað við faðernið, hann var einnig kosinn flottasta folaldið af áhorfendum. Innilega til lukku með gripinn Dalsmynnisræktendur. 
Kátur minn sonur Auðs frá Lundum og Karúnar varð svo í öðru sæti, ég var að sjálfsögðu himinnlifandi með það. Þar sem við stóðum og tókum á móti verðlaununum kom það nú samt uppí hugann að það færi nú sennilega betur um Svan en mig þegar kæmi nú að því að setjast á bak.............allavega svona fyrst um sinn eða þangað til eðaltöltið kemur.
Í þriðja sæti var svo Snasi Þóroddsson frá Miðhrauni. Nánari úrslit getið þið séð inná síðunni hjá Söðulsholti sem er tengill hér á síðunni.



Þarna er hún Rjóð okkar í léttri sveiflu hún stóð sig með prýði og komst í úrslit í hryssuflokknum. Hún er undan Sunnu og Feykir Ándvarasyni frá Háholti.



.............vá eins gott að forða sér frá þessu pokadrasli.



Þarna er Kostur minn sonur Tignar frá Meðalfelli og Sparisjóðs frá Hallkelsstaðahlíð.



Það eru nú ekki allar myndirnar góðar sumar hreyfðar en þarna er Kátur sem er litli bróðir Sparisjóðs.



Þetta er Stjarna frá Hallkelsstaðahlíð hún er dóttir Upplyftingar og Feykis frá Háholti.



Passið ykkur...........ég ætla að sleppa.....víví..........ég bara stekk.



Eins og alltaf á viðburðum í Söðulsholti var andinn og mannlífið gott.
Skúli blístrar, Guðjón les, Dúddý hugsar, Mummi glottir og Benni passar kaffið sitt.



Ræktendur voru spenntir að sjá hvað fram færi...............greinilega eitthvað skemmtilegt.
Arnar, Jófríður, Ásdís, Siguroddur og Svanur, Rauðkollsstaðabóndinn leit undan.



Aðrir nýttu tíman vel og kynntu sér upplýsingarnar í sýningaskránni..........já og hölluðu sér og létu fara vel um sig svona eftir matinn.



Þeir voru hressir að vanda þessir strákar Bjarnarhafnabóndinn, Högni Bærings og Diddi Odds.



Þarna eru svo jarlar að vestan Sölvi, Stefán, Friðrik og hún Ásta í Borgarlandi sem kemur alltaf með eitthvað spennandi á svona sýningar. Átti sigurvegarann í hryssuflokknum hana Jódísi.



Þau létu sig ekki vanta fyrrverandi ábúendur í Hrauntúni Dúna og Rögnvaldur.



Þessir áttu bara eftir að syngja fyrir mig en þetta eru ,,söngbræðurnir,, Ásberg og Öddi.

Þetta var skemmtilegur dagur í Söðulsholti takk fyrir það gestir, bændur og búalið.

05.01.2010 22:45

.......og þar með var draumurinn búinn.



Þetta er hann Ófeigur minn........alltaf klár í vinnuna þessi elska og mesta átvagl sem ég þekki.

Hann og bróðir hans Þorri fagna eins árs afmælisdegi sínum í lok janúar. Þeir eru mjög áhugasamir og verða vonandi góðir fjárhundar allavega eru þeir efnilegir þessa dagana.
Eftir að þeir unnu sín ,,afrek,, þegar húsbændurnir voru í Laufskálarétt áskotnuðust þeim þessi fínu einbýli öðru nafni búr, við það fækkaði umtalsvert möguleikunum á að framkvæma eitthvað eftirmynnilegt. En eins og þið kannske munið átu þeir úlpu húsfreyjunnar, smökkuðu aðeins á þvottakörfunni, nöguðu dyrastafi og færðu vinnukonunni löpp af dauðri kind við afar lítinn fögnuð hennar. Allt þetta náðu þeir að gera á mjög stuttum tíma og lá því fyrir að annað hvort yrði að fjárfesta í búrum eða róandi fyrir Astrid. Ég valdi búrin lyf eru svo asssskoti dýr.

Það gekk mikið á hjá þjóðinni í dag og allt í einu allir komnir með einhverja skoðun á þjóðmálunum. Ég var ánægð með forsetann fór meira að segja heim úr hesthúsinu til að horfa á fréttatímann. Dreif mig svo að ríða út og hlustaði á útvarpið svona á milli hesta en um kaffileitið var orðið tímabært að slökkva á útvarpinu í hesthúsinu. Maður getur nú ekki boðið hestunum uppá hvað sem er.
Svo er bara að búast við því versta og vona það besta en við verðum samt að muna það að miðað við allar spár þá ættum við að vera löngu komin til fj......

Aftur á móti hef ég meiri áhyggjur af gangi mála hjá bæjarstjórninni í minni sveit eins og þar stendur. Fréttir af þeim málum síðustu daga hafa ekki verið gæfulegar og grunar mig að ekki sé að vænta neinna skemmtitíðinda þaðan á næstunni.

Mig dreymdi það eina nóttina að gamli Kolbeinsstaðahreppur væri enn í hreppa tölu.
Það var góður draumur en svo hringdi síminn...........og þar með var draumurinn búinn.





03.01.2010 22:43

Gleðilegt ár !



Kæru vinir !

Við hér í Hlíðinni sendum ykkur bestu óskir um gleðilegt ár farsæld og frið á nýju ári, með kærum þökkum fyrir það liðna. Sjáumst vonandi sem flest á nýja árinu 2010.
Áramótin hér voru indæl og góð þrátt fyrir að hvorki hafið verið skotið upp flugeldum eða fögur áramótaheiti strengd af minni hálfu. Hér kom saman góður hópur sem meðal annars  gleymdi sér við að spila Kollgátuna vel fram eftir nóttu.
Á nýársdag var svo brunað í árlegt nýárskaffi að Bíldhóli þar sem terturnar þekja nokkra fermetra, takk fyrir skemmtilegan dag.
 Á leiðinni heim blasti kófdrukkinn máninn við okkur utan frá Múlenda og lýsti svona ljómandi vel upp Þríhellurnar. Það getur stundum verið nauðsynlegt að hafa myndavélina við höndina.

Síðustu dagar hafa verið vel nýttir til tamninga bæði hefur veðrið verið gott og svo jólafríið hjá Mumma að klárast svo það var um að gera að leika sér svolítið.
Annars er það að frétta að nú er Mummi farinn til Jakobs og Tórunnar í Steinsholt þar sem að hann verður í verknámi frá Hólaskóla í vetur. Ekki amalegt hlutskipti það fyrir drenginn.
Hér heima er allt að komast í venjulegan gír eftir jólahaldið og daginn farið að lengja sérstaklega finnur maður muninn þegar smá snjóföl er til að lengja birtutímann.
Um eitt hænufet á dag eins og amma sagði alltaf.

Ég hef verið að hugsa um hvernig árið 2009 hefur verið og er bara komin að þeirri niðurstöðu að það hafi verið nokkuð gott þó með nokkrum undantekningum.
En árið 2010 það verður alveg stórfínnt..........eigum við ekki öll að vera sammála um það?

Hér koma að lokum tvær myndir sérstaklega fyrir litla vinkonu mína í Garðabænum sem er sérstakur uppáhalds aðdáandi Salómons og Snotru.



Þarna er Salli jólaköttur að ,,laga,, jólaskreytinguna hann var ekki alveg ánægður með útlitið.



Fer þetta ekki mikið betur svona ?

28.12.2009 23:20

Gaman gaman víííí



Það var ljómandi blíða í Hlíðinni í dag og enn var myndavélin á lofti.
Ég og Fannar fíni vorum aðeins að leika okkur og Mummi og Proffi fengu að fljóta með.
Á þessari mynd dreymir okkur um að komast bráðum á ísinn sem er þarna í baksýn sléttur og fínn. Það styttist óðum ef að frostið heldur svona áfram en það er samt betra að fara varlega vatnið er jú 26 metra djúpt sumstaðar.



Mummi tók þarna skeifnasprettinn á Proffa og það eru bara tvær vikur síðan Fannar fór á járn eftir haustfríið sitt.



Gaman að hafa þetta fína reiðfæri á túninu.



Ummmmm.......... hann er nú alltaf skemmtilegur þessi, það er ekki skrítið þó að ég sé spennt að sjá hvernig bróðir hans Vörður verður. Það eru myndir af honum hér fyrir neðan frá því í gær.



Það er nú venjulega þannig að ég þjálfa þennan og Mummi hinn en ræktandinn verður stundum að fylgjast með gripunum sínum (Fannari)




Og svo að drífa sig heim...........það var nú svolítið kalt í dag.

27.12.2009 22:01

Vörður með væntingum



Þrátt fyrir kulda og nokkura dag ofát rauk ég út með myndavélina í dag þegar Mummi var að ríða út og smelli af nokkrum myndum. Ég tapaði þó af nokkrum góðum tækifærum sem flugu framhjá á meðan ég var að gefa.
Á þessari mynd er hann Vörður minn sem er undan Tign minni og Arði frá Brautarholti, hann er ekki nema rúmlega tveggja mánaða taminn. Kellingin er bara a.....montin af honum.



Þarna koma þeir til baka úr reiðtúrnum en mér og myndavélinni var orðið svolítið kalt eins og sjá má á myndinni.



Þessir voru ,,kaldir á kanntinum,, en ég náði ekki mynd af þeim á ferðinni............ekki núna.
Annars var dagurinn alveg ljómandi góður riðið smávegis út í frostinu, lesið, horft á tónleika, já og auðvitað borðað svolítið. Allir í því efra eins og við köllum það komu í kaffi og svo var bara spjallað og leikið sér.

20.12.2009 22:54

Jóla jóla


Jóla hvað ? eru allir að verða vitlausir veit fólk ekki að jólin koma alltaf einu sinni á ári?
Þarf endilega að klára allt jafnvel það sem aldrei er gert?

Smá grín auðvitað er ég svona rugluð líka en það vill nú samt þannig til að ýmislegt sem þarf að gerast á þessum tíma í sveitinni er bráðnauðsynlegt. Ég er t.d ekki viss um að ég yrði hýr á brá í byrjun maí ef að það færist fyrir að koma hrútunum í kindurnar svona vel fyrir jól.
Hér í Hlíðinni hafðist það af í gær, líka eins gott því að er gamall siður sem haldið er  fast í þó svo að yfirleitt sé búið að sæða miklu fyrr.
Við vorum búin að láta sæða um 5o kindur þann 17 des og fyrir þá sem eru útlærðir í hrútaskránni læt ég fylgja með hvaða hrúta við notuðum.
Þeir hyrndu voru Raftur frá Hesti, At frá Hafrafellstungu, Hvellur frá Borgarfelli og Grábotni frá Vogum 2. Þeir kollóttu Kjói frá Sauðadalsá, Bolli frá Miðdalsgröf og Neisti frá Heydalsá.
Karl Phillp forustuhrúturinn flotti frá Sandfellshaga var líka á dagskránni hjá mér en eitthvað klikkaði hjá meistaranum á hrútastöðinni svo að ég fékk ekkert úr honum. Þannig að Pálína mín forustuá verður bara að sætta sig við eitthvað holdugrakyn en forustukyn.
En nú er sem sagt allt með kyrrum kjörum í fjárhúsunum frjálsar ástir og eintóm hamingja.
Reyndar veiktist einn sparihrúturinn heiftarlega rétt áður en við settum þá saman við og er óvíst á hvorn veginn þau veikindi fara. Sá sem veiktist er undan Dökkva frá Hesti og var settur á með fullt af stigum í farteskinu og gerðar miklar væntingar til hans. En svona er þetta stundum ekki á allt kosið.

Í hesthúsinu er líka líflegt þar bættist t.d við ein stórglæsileg moldótt hryssa í dag, spennandi að vera bæði myndarleg og með fallegan lit. Svo er bara að sjá til hvort hún verður ekki líka ljómandi góð.


Hér á bæ var tekinn smá bakara sveifla í dag og bakaðar einar fimm sortir af smákökum og rúllutertur. Fyrir liggur svo að bæta við á morgun og svo er það jólaísinn góði sem ekki má klikka. Síðan eru eftir nokkrar pakkaferðir og kaffiinnlit til vina og kunningja hefðbundið og vonandi illbreytanlegt.
Jólin eru alveg að koma og það er nú bara allt í lagi því þetta hefst allt fyrir rest.

07.12.2009 21:07

Hormónar og hvolpavit er það góð blanda???

Á laugardaginn var brunað á ungfolasýningu í Söðulsholt, þar voru saman komnar vonarstjörnur framtíðarinnar í það minnsta eiganda sinna. Héðan úr Hlíðinni fengu tveir fararleyfi þeir Léttlindur Hróðsson og Sparisjóður Gustsson.
Þar sem að myndatöku kunnáttan hér á bæ er frekar takmörkuð þá voru flestar myndirnar sem að teknar voru og áttu að sýna samkomuna í myndum frekar en máli frekar daprar.
Í stuttu máli sagt hreyfðar, svartar og jafnvel það sem mynda átti ekki inná myndinni.
Ég leyfi mér því að benda ykkur á tvær síður sem að báðar eru tenglar á þessari síðu þær eru Dalsmynni (blogg) og Söðulsholt (fréttir) og myndir frá sýningunni.
Þar getið þið m.a séð myndir af Sparisjóði og Léttlind.
Framistaða þeirra félaga var eins og við var að búast þegar ungir garpar fá tækifæri til að sýna sig og sjá aðra á almannafæri. Sérstaklega á þetta við um það þegar hormónar og hvolpavit hafa tekið völdin og útsýnið er annað en fagur fjallasalur.
Léttlindur var frekar einmanna í höllinni og hefur sennilega leitt hugann að því hvort að svona flennistórt hús væri nokkuð sláturhús. En eftir því sem á sýninguna leið óx honum kjarkur og tók hann nokkrar ágætis rispur í lokin. 
 Myndatökukonan í Söðulsholti náði allavega góðri mynd af honum.



Sparisjóður..............ja þessi mynd lýsir vel hugarástandi hans á sýningunni sem var sirka svona ,,hér er ég um mig frá mér til mín,, og mér er slétt sama hvað þið vilduð sjá, ég er að sína mig og ræð sko alveg einn hvernig. 
Kannist þið við þetta hugarástand þegar hormónaungar byrja að fara á djammið????
Já mér datt það í hug.
Ég veit ekki hvort að þetta var snertur af víðáttubrjálæði eftir að hafa verið í Hjaltadalnum og Hnappadalnum en púðrið og krafturinn var alveg nægilegt í nokkra hesta.
Og ekki datt honum í hug að upplýsa að töltið væri laust og hann hreint ekki nískur á það í reið, heldur þeyttist um á harðastökki eða fljúgandi brokki. Hann gaf sér þó tíma til að stoppa og skoða sig í stóra spegilinum.
Sumir bara ráða ekki við sig þegar þeir sleppa að heiman en það eldist nú af flestum.................



Svona er hann nú yfirleitt þessi elska stilltur,góður og meðfærilegur við húsfreyjuna.



Hjúkk...........kúlurnar eru þarna ennþá þó svo ég hafi látið eins og flón en það var samt öruggara að athuga það sjálfur.

En það er svolítið skýrari mynd af honum inná Dalsmynnisblogginu.
Á næstunni koma nokkrar mannlífsmyndir frá sýningunni en þær heppnuðust sumar.

04.12.2009 21:51

Góð kennslusýning hjá Ísólfi Líndal.



Aðstoðarljósmyndarinn minn er heldur betur umsetinn þarna alveg að hverfa í hópinn.

Í gær var brunað suður í reiðhöll Hestamannafélagsins Andvara á kennslusýningu sem haldin var á  vegum Félags tamningamanna. Það var reiðkennarinn Ísólfur Líndal sem uppfræddi mannskapinn af mikilli snild. Ísólfur kom víða við og kom fróðleik sínum vel til skila með einföldum útskýringum á ,,mannamáli,, og mynti oft þó nokkuð á frænda sinn 'Isólfsson. Hann kom einnig með athygglisverð hross með sér sem hann notaði til að útskýra og sýna búnað og vinnubrögð. Þessi hross gáfu það til kynna að þau ætluðu svo sannarlega að láta að sér kveða á keppnisvellinum síðar.
Takk fyrir fróðlega og skemmtilega sýningu.
Við í stjórn Félags tamningamanna erum himinlifandi með aðsóknina á þá viðburði sem við höfum boðið uppá að undanförnu, þar sem á annað þúsund manns hafa mætt. Þetta hvetur okkur til að leggja mettnað okkar í að bjóða uppá fleiri og fjölbreyttari viðburði á næstunni.
Endilega smellið á FT hér undir ,,tenglar,, á forsíðunni og kynnið ykkur hvað er framundan, margir nýir viðburðir væntanlegir og ný heimasíða opnar innan skamms.

Á morgun er kominn nýr dagur og þá er meiningin að skella sér á ungfolasýningu í Söðulsholt.

02.12.2009 21:23

Ferðaveðrið góða...........



Þetta er hún Rjóð litla Sunnu og Feykisdóttir að gæða sér á grænum stráum.

Þó svo að það sé víst afar hallærislegt að tala um veðrið þá ætla ég samt að gera það enda var rokið og bylurinn aðalmálið í Hlíðinni og víðar í dag. Það vildi svo til að húsfreyjan þurfti að mæta á fund hjá Umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar í dag og veðrið ekki eins og best verður á kosið öskubylur. Húsfreyjan er orðin svo heilaþvegin af einhverju bulli um að alltaf sé versta veðrið í Hlíðinni eða að minsta kosti í gamla Kolbeinsstaðahreppi að hún rauk af stað sannfærð um að blíðan tæki á móti henni fyrir sunnan Hítará.
Ferðin byrjaði nokkuð vel með auðum vegi og engu útsýni en þegar lengra var komið varð á veginum myndarlegur skafl. Þar sem að húsfreyjan er innfædd fjallakelling lét hún bara vaða í skaflinn og gekk ferðin bara vel alveg þangað til hún fór að efast um að komast í gegn. Hik og efi eru ekki góðir ferðafélagar í ófærð síst þegar snjórinn er blautur og þungur.
Það endaði því með að húsfreyjan og sparibíllinn sátu föst á afleggjaranum og þurftu að kalla út heimavarnarliðið til að draga sig upp. Var svo haldið áfram í von um sól og blíðu  á suðrænum slóðum. Enginn var skaflinn á leiðinni í Borgarnes en rokið brjálað, útsýnið afar lítið og vegurinn......ja ég sá hann voða sjaldan.  Ég og eðalvagninn erum svo oft búin að fara þessa leið að við bara rötuðum og meira að segja komumst hjálparlaust heim. En ferðin sóttist seinnt tveir tímar í Borgarnes og einn og hálfur heim.
Og eitt mikilvægt það er ekki alltaf versta veðrið hér í fjöllunum.
Fundurinn ?????? Jú jú hann var ágætur allavega betri en veðrið.



Inngangurinn var ekki gestvænn í gær eins gott að þið vitið að það er hægt að fara bakdyramegin (hundsmegin).

01.12.2009 22:27

Úpps.....fyrsti des hvað?


Þau voru ánægð með rúlluna sína í dag þessi enda kalt og ónotalegt hér í Hlíðinni.

Það er alltaf þannig að þegar fyrsta alvöru frostið kemur þá fer maður að kvarta og skilur ekkert í því að þetta komi á óvart. Þó svo að gráðurnar hafi bara verið 6 þá var tilfinningin öruggleg nálægt 20 gráðum í dag.

Það var líka annað sem kom mér á óvart og það var dagatalið, fyrsti desember...............er það nú ekki einum of snemmt?
Jú það finnst mér, ég ætlaði að gera svo margt fyrir jól. Aðeins að skanna nánasta umhverfi (taka til) leika myndarlega húsmóðir (baka) slaka á, lesa hrútaskrána, Dalalíf og skoða stóðhesta í Worldfeng. Taka inn hross og byrja að ríða út 12 desember þá verður sko allt hreint og klárt í hesthúsinu og  auðvitað búið að sortera allar kindurnar í fjárhúsunum fyrir fengitímann. Í dauða tímanum ætlaði ég svo að þvælast í kaupstað og heimsækja vini og vandamenn. Svo eru nokkrir fundir þarna í reiðuleysi..........sem ég smelli mér á.

Eitt smáatriði gleymdist ég ætla að njóta aðventunnar og taka það rólega svo ég eigi gleðileg  jól hvað um ykkur?

29.11.2009 22:28

Vetur kallinn kominn.



Þessa fallegu mynd tók hún Astrid út um dyrnar hér heima eitt kvöldið.
Á morgun er síðasti dagur sem að sólin ætti að sjást hér í Hlíðinni á þessu herrans ári.
Hún sem sagt tekur sér frí frá því að ylja köldum Hlíðarbúum alveg þangað til 14 janúar en þá kemur hún aftur blessunin og af því tilefni eru alltaf bakaðar sólarpönnukökur hér á bæ.
Já það geta ekki allir alltaf verið sólarmegin í lífinu.



Þarna er hann Ríkur minn blessaður að viðra sig svona áður en græniliturinn breyttist í hvítt.

Veðrið hefur verið heldur betur vertarlegt hér í Hlíðinni undanfarna daga og erum við aðeins byrjuð að gefa stóðinu. Einn hópurinn hefur þó ekki sé ástæðu til að koma heimundir og unir sér einhversstaðar inní fjalli.
Við erum að bíða eftir að fá gott og bjart veður til að æða til fjalla og finna vonandi fleira fé og auðvita hesta. Annars fóru vaskir sveinar með fullt af græjum og náðu kind úr klettum á föstudaginn. Kindin sú arna fékk slæmt óþekktarkast og stökk í kletta þegar verið var að reyna að ná henni. Því miður var ég ekki með myndavélina þá en allt gekk þetta vel og allir komu heilir heim. Eins og undanfarin ár vantar okkur alltof margt fé af fjalli svo að áfram verður leitað og vonað að eitthvað komi í leitirnar.



Mig vantar í mórusafnið mitt en þarna er smá sýnishorn á leið í klippingu, helstu einkenni þessa stofns er kjötgæði, óþekkt og styggð væru öruggleg góðar í Tálkna. 



Það er alltaf góð tilfinning að sjá hjörðina aftekna á þessum tíma. Þröngt á þingi þar sem að ekki var alveg búið að klippa þegar myndin var tekin.



Að lokum Mórurnar mínar í klippingu hjá Skúla, svona........ kind númer...........sexhundruð og eitthvað. Samt allt búið núna.

26.11.2009 21:54

Annar í Hólum

Í gær fór ég í annað sinn þessa vikuna norður að Hólum þar sem að stjórn Félags tamningamanna var að funda með Hólamönnum og til að fara á verknámssýningu nemenda.
Við áttu góðan fund og sýningin hjá nemendum var ljómandi fróðleg og góð.
Það er alltaf svo gaman að koma í kennslustundir og sjá vinnubrögðin sem nemendur eru að læra og æfa sig í.
Við stjórnarmenn hér sunnan heiða lögðum snemma af stað og vorum komin fyrir hádegi á Hólastað. Þá fórum við og kíktum aðeins inní kennslustund hjá nemendum sem voru að æfa sig í reiðhöllinni og síðan fórum við í hesthúsið.
Hádegismaturinn hjá Óla kokki var góður eins og alltaf, að honum loknum funduðum við.
 Margt nýtt og fróðlegt kom fram á fundinum og alveg ljóst að menntun tamningamanna framtíðarinnar er í góðum farvegi og mikill mettnaður til staðar hjá mannskapnum.
Það er alveg ljóst að það eru virkilega spennandi tímar framundan hjá skólanum og verður gaman að fylgjast með á næstu árum.  Og síðan var það sýningin þar sem að nemendur sýndu margvísleg vinnubrögð og æfingar.
Á leiðinni heim lentum við í ævintýrum þegar ljósin á bílnum hans Marteins dofnuðu hægt og hægt  að lokum var eiginlega orðið svarta myrkur. Við vorum þá stödda við Laugabakka svo að það var bara rennt þar heim. Á vegi okkar varð hjálpsamur herra sem brást skjótt við og í sameiningu leystu hann og Marteinn málið þannig að við dömurnar þurftum ekkert að láta reyna á bifvélavirkjahæfileika okkar................sem betur fer.
Það voru því þreyttir en ánægðir ferðalangar sem voru að mæta heim vel eftir miðnætti.
Myndavélin var með í för en því miður mundi enginn eftir henni fyrr en heim var komið.

26.11.2009 20:48

Klippingar.................



Úpps........ertu að taka mynd af mér?
Hér á myndinni er höfðinginn og uppáhaldið mitt hún Karún Orradóttir að njóta veðurblíðunnar.

Það er margt búið að afreka í Hlíðinni síðustu daga og vonandi halda afrekin áfram næstu daga.
Um síðustu helgi var klárað að taka af öllu fénu og því allur hópurinn kominn á gjöf.
Ég var að reyna að sannfæra Skúla um að það borgaði sig sannarlega að taka af sjálfur. Ég setti upp fyrir hann dæmi sem að átti auðveldlega að sanna að ég hefði á réttu að standa. Kallinn fór í klippingu um daginn sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema að hann var korter í stólnum og það kostaði litlar 3500 krónur. Og takið eftir hann fékk ekki gel, lit eða glimmer. Mér fannst því sanngjarnt að reikna með því að rollurnar fengju ,,fjölskylduafslátt,, hjá rúningsmanninum og borguðu bara 3000 krónur á stykkið. Þær voru jú að fá alklippingu en ekki bara hausaklippingu. Ef að 700 kindur borga 3000 krónur gerir það 2.100.000- tvær milljónir og eitt hundraðþúsund. Ekki svo slæmt viku kaup það.
Nei þetta er því miður ekki raunveruleikinn nema að litlu leiti og því varð Skúli bara að puða og klippa en ég að finna eitthvað raunverulegra til að sannfæra kallinn.
Öll ullin er farin og vitið þið hvað ? núna er beðið eftir ullinni hjá Ístex því stór hluti þjóðarinnar er farain að prjóna og þá má nú ekki standa á hráefninu.
Ég fékk líka símtal þar sem að fulltrúi sláturleyfishafa á Sauðárkróki var að leita að fleira fé til slátrunnar. Útfluttningur á lambakjöti hefur er mikill í haust og birðir farnar að minnka. Það verður kannske þannig í framtíðinni að erfitt verður fyrir landann að fá lambakjöt?
Það var nokkuð athygglisvert sem ég heyrði í útvarpinu um daginn þar var verið að ræða um hversu mikið vantaði uppá að þjóðir heims ættu nægan mat árið 2020.
Þar kom fram að mikil fækkun er á sauðfé í heiminum og margir sauðfjárbændur viðsvegar um heiminn væru hættir framleiðslu.
Skilaboðin til ykkar eru sem sagt þau njótið á meðan þið hafið tök á því og hugsið nú fallega til okkar sauðfjárbænda ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum.

Hún Astrid tók fullt af myndum þegar verið var að taka af en þar sem að hún skrapp í menningarreisu þá koma þær inná síðuna seinna.

21.11.2009 21:53

Hólaferðin góða.



Á þessari mynd eru Mummi og hestagullið Katla frá Flagbjarnarholti.

Í gær var brunað norður að Hólum til að líta á menn og málleysingja, tilefnið var ærið tamningatryppin að klára sitt tíu vikna verkefni ,,útskrifast,, og fara til sinna heimkynna.
Það var greinilegt að það var nokkurs konar spennufall hjá nemendum eftir strembna daga.
Mér fannst að þessar tíu vikur síðan tryppin fóru norður hafa liðið mjög hratt og get því trúað því að þær hafi verið eins og örskot hjá nemendunum sem að nú voru að fara í gegnum próf með tryppin. En það var hreint ótrúlegt hvað þetta hefur gengið vel og sýningarnar voru flottar í dag.  Hver nemandi á öðru ári fær úthlutað tveimur tryppum og fær það verkefni að temja þau til prófs í tíu vikur. Nú í ár voru gerðar breytingar á prófunum þannig að nú verða nemendur að mæta til prófs með bæði tryppin en fá ekki að velja í hvaða próf hvert hross fer. Þetta gerir miklar kröfur til nemendanna og verða þau að ná ákveðnum einkunum til að standast prófið. Síðan fá nemendurnir úthlutað tveimur hestum sem eru a.m.k frumtamin og þjálfa þá í ákveðinn tíma. Próf á þeim er svo eftir tvær vikur, þannig að spennan er hvergi nærri búin.
Ég viðurkenni það fúslega að ég er afar stollt af mínum Mumma sem fékk frábærar einkunnir á bæði hrossin sín þau Kötlu og Ötul. Til lukku Mummi minn það var gaman að sjá til þín í dag.
Maður á að leyfa sér að vera ánægður og stolltur þegar vel gengur því þegar á móti blæs kemur maður alltaf niður á jörðina aftur.



Mummi og Ötull frá Hólum í léttri Skagfirskrisveiflu.




Hvað ætli þeir séu að ræða um þessir tamningamaðurinn og eigandinn????
Eitthvað gott og skemmtilegt............. ég veðja á að fyrsti stafurinn sé KATLA.



...............og svo var komið að kveðjustundinni............. þau eru ung og efnileg, vonandi hafa þau bæði haft gagn og gaman af samverunni og brosa bara á móti framtíðinni.



Eins og áður hefur komið fram þá fóru þrír folar frá okkur sem tamningatryppi fyrir nemendur. Þarna er einn þeirra Baltasar sonur Arðs frá Brautarholti og Trillu hans Mumma með tamningamanninum sínum henni Jónu G Magnúsd. Hún hefur tamið hann síðustu tíu vikurnar og sýndi okkur síðan árangurinn af því í dag.  Ég verð að segja að ég var mjög ánægð með Baltasar og samvinnu hans og Jónu. Hann var mjúkur, sáttur og fór fallega svo leit hann rosalega vel út hjá Jónu sem að mér finnst alltaf góður vitnisburður um að verkefninu sé sinnt af alúð. Takk fyrir Jóna ég er mjög sátt. Mér hefur stundum heyrst að það sé ekki sjálfgefið að ég sé það.emoticon



Þarna eru svo kapparnir Fjórðungur undan Arði frá Brautarholti og Sunnu frá Hallkelsstaðahlíð og tamningamaðurinn hans Daníel Smárason. Þeir stóðu sig með prýði á sýningunni í dag eins og þeirra var von og vísa.  Takk fyrir sýninguna Danni ég var sátt.
Þriðji folinn sem að fór norður var hann Vörður undan Arði frá Brautarholti og Tign minni frá Meðafelli, hann varð fyrir smá óhappi og slasaðist og kom heim fyrir hálfum mánuði.
Tamningamaðurinn hans var Inga Dröfn Sváfnisdóttir þeim hafði gengið mjög vel og sem betur fer gat hún fengið vinnu sína með hann metna til prófs. Vörður er allur að jafna sig og bíð ég bara spennt eftir því að halda áfram með hann. Það verður spennandi að sjá hvort að hann verður betri en stóri bróðir hans Fannar sem að hefur verið keppnis og skólahestur Mumma á Hólum. Vörður er allavega stærri. Takk fyrir þinn þátt Inga Dröfn.

Að lokum sýndi Mummi hvað Sparisjóður hafði lært í Hólavistinni og það var nú bara ýmislegt skal ég segja ykkur. En vitið þið hvað???? batteríið var bara búið svo að þið fáið engar myndir af honum núna.

Að lokum var öllum görpunum smellt uppá kerru og brunað heim í Hlíðina.
Kella var ánægð þegar allir voru komnir heim og þá var hamingjan mest að Sparisjóður var kominn á sinn stað í hesthúsinu, hef saknað hans mikið.

20.11.2009 14:47

Annríkið góða........


Annríki, annríki og ennþá meira annríki.

Farin norður að Hólum ferðasaga og myndir eins fljótt og auðið er..................