08.02.2015 16:19

Þorrablót........ kafli eitt.

 
 

 

Árlegt þorrablót UMF Eldborgar var haldið í Lindartungu s.l föstudag með glæsibrag að vanda.

Húsið var troðfullt og mikil stemming enda allt í besta lagi, frábær matur, skemmtiatriði og félagsskapur.

Ætli sé ekki best að láta bara myndirnar tala sínu máli........

 

Þessir voru svo fljótir að fara í sín sæti að það gleymdist að fara úr yfirhöfnunum.

Hrannar og Mummi bara gátu ekki beðið lengur......

 

Þessi voru hress að vanda og mætt í hornið sitt, Dúddý og Gau komin í stuð.

 

Þar sem að Sigfríð og Jón voru ekki mætt í fjörið var tekinn upp ,,fulltrúi,, þeirra sem að sjálfögðu var ættaður frá Nóa Síríusi vini okkar.

Haukur Skáneyjarbóndi kannaði gæði innihaldsins.

 

Jónatan á Kaldárbakka kominn í sitt sæti og Gunnar lítur eftir að allt fari vel fram.

 

 

Þegar þessir voru í Laugargerðisskóla voru þeir oft nefndir Tímon og Púmba.

Þeir voru einmitt svolítið svona Tímon og Púmba á blótinu, frekar gaman hjá þeim.

 

 

Svo var brostið í söng...........Magnús og Sigfús Helgi tóku á því í söngnum.

 

 

...............þessir voru líka liðtækir í söngunum.

 

 

Nágrannar okkar úr Eyja og Mikl voru að sjálfsögðu mættir.

 

 

Þeir eru ráðsettir þarna Þverárbræður, Haunsmúlabóndinn og fleiri.

 

 

Sennilega hefur ljósmyndarinn verið hræðilegur..........eða hvað ?

Þóra og Björg voru samt í hörku stuði alllllla nóttina.

 

 

Bara slakir á ,,barnum,, kallarnir og komnir í kúabúskapinn.

Skúli, Haukur og Mummi með rólegaramóti ákkúrat þarna.

 

 

Mig grunar að Emmubergshjúunum hafi ekkert leiðst á þessu blóti.

Bjöggi og Sigga svo krúttleg saman.

 

 

Kristján Stóra-Hraunsbóndi og Albert á Heggsstöðum krifja málin.

Albert óvenju þungur á brúnina en það lagaðist þegar á leið.

 

Þetta er bara byrjunin á fullt af myndum sem ég mun smella hér inn á næstunni.

En þið sem að stóðuð fyrir þessu þorrablóti, kærar þakkir fyrir frábæra skemmtun.

Er strax farin að hlakka til þess næsta........

 

 
 
 

 

 

04.02.2015 20:55

Kaldir þorradagar í Hlíðinni

Þetta er Baltasar frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Arður frá Brautarholti og móðir Trilla frá Hallkelsstaðahlíð.

Myndin er tekin í mesta frosti vetrarins til þessa -11 gráðum.

Já myndatökudömunum var fórnað í frostinu.

 

 

Lyfting frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Gosi frá Lambastöðum, móðir Upplyfting frá Hallkelsstaðahlíð.

 

 

Óðinn frá Lambastöðum, faðir Sólon frá Skáney og móðir Fenja frá Árbakka.

 

Og síðast en ekki síst er hér mynd af Fleytu frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Stígandi frá Stóra-Hofi og móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð.

Þessi mynd er tekin í kuldanum umræddan dag en þá var Mummi að fara á henni úti í þriðja sinn.

Fleyta litla sem er bara á fjórða vetri var sannarlega hestur dagsins, hún er bara spennandi.

 

Þegar hér var komið við sögu höfðu myndasmiðirnir gefist upp og horfið á braut.

En ég mun á næstunni halda áfram að kynna fyrir ykkur nokkur af þeim hrossum sem eru hér í tamningu og þjálfun.

 

 

 

 

 

 

 

 

27.01.2015 23:01

Gleðilegt ár til ykkar héðan úr Hlíðinni.

Mummi á Káti, Skúli á Gosa og Sigrún á Sparisjóði.

 

Nú er orðið tímabært að óska ykkur öllum gleðilegs ár og friðar á því herrans ári 2015.

Já og kærar þakkir fyrir það liðna. Við hér í Hlíðinni erum bara spræk á nýju ári og hlökkum til að takast á við spennandi ár.

Að vanda eru engin áramóta heit að þvælast fyrir en þó ekki þar með sagt að ekkert sérstakt sé á döfinni.

Krefjandi verkefni hvert sem litið er og þó nokkuð af spennandi uppákomum..........stafrófið dugar varla......

T.d ef að við hugsum um það byrjar á F : Fullt af spennandi fákum. Féð í fullu fjöri (vonandi). Fjárhundum fjölgar. OG....... Frúin fimmtug.

Já já svona verður þetta árið 2015.

 

En nú er það nútíðin en ekki framtíðin og þó........

 

Til að segja ykkur aðeins frá nokkrum tryppum sem verið er að vinna í um þessar mundir læt ég fylgja með folaldsmyndir af þeim.

Ég er ekki enn búin að smella af þeim mynd í fullri aksjón.

 

 

Krakaborg frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Sporður frá Bergi, móðir Þríhella frá Hallkelsstaðahlíð.

Hún er fædd árið 2011, þessi mynd er tekin í janúar 2012.

Myndin er tekin af Iðunni Svans sem vonandi fyrirgefur mér ,,lánið,,

 

 

Stekkjaborg frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Hlynur frá Lambastöðum, móðir Dimma frá Hallkelsstaðahlíð.

Hún er fædd árið 2011 myndin er tekin í janúar 2012.

Myndasmiður Iðunn Svansd.

 

 

Fleyta frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Stígandi frá Stóra-Hofi, móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð.

Fleyta er fædd í júlí 2011 og þá er þessi mynd tekin.

Hún hefur ekki sparað fínu sporin og fer vel með knapann.

 

 

Randi frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Soldán frá Skáney, móðir Snör frá Hallkelsstaðahlíð.

Hún er fædd í júní 2011 myndin er tekin á um sumarið.

Randi er eitt stæðsta hrossið í hesthúsinu þó svo að hún sé bara á fjórða vetri.

Sveinbjörn frændi minn fylgist spenntur með tamningunni á Randi en hún er í hans eigu.

Þegar hann varð 70 ára komu þau Randi og Haukur í Skáney færandi hendi og gáfu honum folatoll undir Soldán.

Hryssan var að sjálfsögðu nefnd í höfuðið á Randi. Hún er stór og myndarleg og verður vonandi sér og sínum til sóma.

Nánari kynningar á tamningahrossum koma við fyrsta tækifæri.

 

 

 

 

 

 

30.12.2014 22:24

Syndir á síðustu stundu.

 

Þegar húsfreyjan átti að vera heima að mylja kertavax úr jóladúkum, þurka af, krydda áramótasteikina og gera dásamlegan áramótadesert.......... stakk hún af.

Já já bara eins og áramótin væru ekkert svo merkileg eða í það minnsta húsfreyjuhlutverkið væri bara grín.

En verkefnið var mun mikilvægara en það að svona smotterí stoppaði hana. Kindur uppí fjalli þegar farið er að síga á háannatíma sparihrútanna.

Það var því brunað af stað til fundar við góðan granna í næstu sveit sem fundið hafði fimm kindur. Eftir snjó, flughálku og rok var veðrið gott en jörðin var í mýkra lagi og alveg nóg af vatni.

Þrír vaskir drengir ruku til fjalla en frúin æfði glæfra og torfæruakstur, þó ekki utan vega.........að neinu ráði. Freyja vestfirðingur var með í för karlpeningunum til halds og trausts.

Eftir drjúgan trimmtíma komu svo allir smalarnir (bæði menn og hundur) til baka með kindurnar fimm. Næstum ekkert smalabrjálaðir.

Þá hafði okkur bæst liðsauki en einn hrossaeigandi var á leið til okkar til að sækja hross úr tamningu. Hann var gripinn glóðvolgur í fyrirstöðu og uppá hestakerruna hans voru kindurnar reknar.

Við áttum tvær fullorðnar kindur en Bíldhólsbændur áttu eina tvílembu. Þær voru keyrðar heim og í leiðinni var spjallað yfir kaffi og smákökum í eldhúsinu á Bíldhóli.

Fjárheimtur hafa batnað til mikilla muna í desember og ef að hann hefði rúmlega 40 daga á sínum vegum yrði húsfreyjan ánægð.

Á myndinni hér fyrir ofan eru Einar Lambastaðabóndi, Mummi, Skúli, Freyja vestfirðingur og Flosi nágranni minn og bekkjarbróðir.

Já við Flosi vorum saman í grunnskólabekk ca 10 ár fyrir örfáum árum eins og þið hljótið að sjá.

Áður en haldið var af stað í morgun höfðum við fegnið vaska drengi úr Björgunarsveitinni Elliða í árlega heimsókn. Þar sem við höfum ekki skotið upp flugeldum í 15 ár fjárfestum við ekki í svoleiðis varningi. Enda fengið nóg af því að elta trylt hross um víðan völl (meira að segja í sparifötunum) nokkur ár í röð.

Það er þó alveg sjálfsagt að styrkja starf björgunarsveitarinnar sem alltaf er til reiðu þegar mikið liggur við. Það gerum við með glöðu geði enda alltaf að þvælast upp um fjöll og vitum aldrei hvenær við þurfum á þeim að halda. Fengum meira að segja góða aðstoð frá þeim í fyrra við að handsama kindur sem lent höfðu á glapstigum.

Átti alltaf eftir að sýna ykkur myndir frá því.

 

 

Þetta eru kapparnir sem handsömuðu Mókollu og Sprækuhvít í febrúar s.l

F.v Flosi á Emmubergi, Gísli í Mýrdal, Björgvin í Ystu-Görðum, Alti Sveinn í Dalsmynni, Andrés í Ystu-Görðum og Skúli.

 

 

Það var ekki árennilegt að færa þessar elskur til betri vegar..............enda eru þær ekkert lofthræddar.

 

 

Andrés er mikið fyrir mórautt og þarna er hann einmitt búinn að ná Mókollu ofaní gilinu.

 

 

Það gekk á ýmsu................en saman komu þau uppúr ánni.

 

 

Það þurfti að síga niður í gilið svo það var eins gott að finna traustan klett.................

 

 

Þarna er Sprækahvít komin í taum og meira að segja hreppsstjórinn heldur um taumana.

Eins gott að haga sér....................

 

 

Og þá er að komast upp..........

 

 

...................og það tókst.

Ef að myndatökumaðurinn (konan) væri aðeins minna lofthrædd hefðuð þið fengið alvöru glæframyndir.

Sennilega er dróni nauðsynlegur í svona myndatökur ef að vel á að vera með svona gunguljósmyndara.

Takk fyrir aðstoðina enn og aftur Björgunarsveitin Elliði og munið kæru sveitungar að styðja okkar menn.

29.12.2014 21:56

Alvöru vetur.

 

Það getur verið fallegt í tunglsljósinu og ekki skrítið að álfarnir vilji dansa.

Þessi mynd er tekin eitt kvöldið þegar tunglið lýsti allt upp og snjórinn hjálpaði til við að gera enn bjartara.

Svo var skreytt með norðurljósum þegar á leið en þolinmæði ljósmyndarans dugði ekki til að mynda þau.

Annars hefur verið alvöru vetur í okkar Guðdómlega Hnappadal síðast liðnar vikurnar. Það eru komin þó nokkur ár síðan það hefur þurft að moka snjó frá öllum húsum dag eftir dag. Þegar þannig viðrar er tímaferkt að setja inn rúllur og gefa útigangi.

Nú er hinsvegar komin asa hláka og smá von til að mestu svellin fari. Ég var samt að vona að þjappaði snjórinn yrði bara áfram til að gefa birtu og svo er það svo frábært reiðfæri. En rokið það má alveg fara í frí.

 

 

Hún Caroline fór í jólafrí en áður en hún fór var konungurinn Salómon að sjálfsögðu knúsaður.

Þarna stilla þau sér upp, annað þeirra er mun brosmildara en hitt.

 

 

Þessi sjarmur kann lagið á vinkonum sínum, þarna er hann með henni Marie.

 

 

Eins og sönnum snyrtipinna sæmir bíður Salómon hér eftir jólabaðinu.

Já sumir fara í sturtu aðrir bara í ,,pottinn,,

Það vantar reyndar einn kaldan á kanntinn hjá honum svona til að toppa pottferðina eins og hjá hinum köllunum.

 

 

Ég ætlaði að fara einn góðan veður dag og smella nýjum myndum af folöldunum og stóðinu en það hefur ekki enn hafst af.

Þarna er ein mynd sem tekin var í haust þegar hryssurnar komu heim í hausthagana. Sú rauðblesótta heitir Kveikja og er undan Stimpli frá Vatni og Þríhellu, sá jarpi er Hallkell undan Hersi frá Lambanesi og Kolskör, sá skjóttir er Lokkur undan Ölni frá Akranesi og Létt.

 

 

Lokkur, Hallkell, Gletta undan Gosa og Bliku, Útséð sú gráa er undan Sólon frá Skáney og Sjaldséð.

Á bak við er svo Auðséð og Sjaldséð.

Ég er búin að eignast nokkrar ,,séðar,, Fáséð, Sjaldséð, Auðséð og Útséð. Á nokkrar hugmyndir eftir í seríunni.

 

 

Systurnar Andvaka og Auðséð voru ekki samvinnuþýðar þegar ég var að reyna stilla þeim upp.

Nærmyndir voru mikið uppáhalds hjá þeim en vonandi tekst að ná af þeim mynd við tækifæri.

Andvaka sú brúna er undan Ölni frá Akranesi, Auðséð undan Sporði frá Bergi og báðar eru þær undan Karúnu minni.

 

 

Samkomulagið var nokkuð gott þegar steinefnafatan var sett til þeirra.

Sjaldséð, Auðséð og Hniðja allar í hollustunni. Það er mikið svona áramóta er það ekki ????

 

 

Þessi mynd er svona heimildamynd þegar folaldshryssurnar eða stóðið er rekið á milli hólfa.

Karún alltaf fyrst og hefur stjórn á öllum flotanum, hvað með það þó hún sé orðin 20 +

Sumir bera bara aldurinn vel.

 

 

Flottir bossar komnir á sinn stað, gott að kroppa en allt stóðið var komið á fulla gjöf í byrjun desember.

 

Framundan eru mörg og tíð blogg með nýjustu fréttum krydduð með fullt af myndum.

M.a fréttir af fjárheimtum, tamningum (bæði hesta og hunda) jólafjöri og margt, margt fleira.

Verið nú dugleg að ,,like,, síðuna hjá mér það er ákveðinn þrýstingur á kellu að standa sig í fréttafluttningi.

Góðar stundir.

 

 

 

24.12.2014 13:49

 

29.11.2014 23:15

Líf og fjör

 

Svo að ég sé nú alveg heiðarleg og deili með ykkur alvöru laugardags stemmingu læt ég fylgja með mynd.

Þið sem sagt getið fengið að sjá hvað er með húsfreyjunni í sófanum þetta kvöldið.

Já já bara grand á því og les nú hrútaskránna eins og vera ber á þessu árstíma.

Af sauðfjárbúskapnum hér eru helstu fréttirnar þær að fjárfjöldinn eru kominn yfir 720 vetrarfóðraðar. Rúmlega 160 lífgimbrar og 10 lambhrútar. Ennþá vonast ég samt eftir því að eitthvað fleira skili sér af fjalli.

Verkefnalistinn í sauðfjárdeildinni er alltaf langur á haustin en nú fer hann að styttast. Það er búið að ríja, flokka, sprauta og ýmislegt fleira. Við ákváðum að gefa öllu fénu vítamínforðastauta til að stuðla að auknu heilbrigði, ekki eru heyin svo girnileg. Þetta verkefni var í orðsins fyllstu merkingu algjört staut. Fyrst var byrjað að reyna gefa þetta inn eins og ormalyf en það gekk ekki vel. Eftir æfingar á ca 200 kindum fundum við upp góða aðferð sem reyndist líka afar fljóttleg. Stundum er reynslan besti kennarinn.

Á næstunni eru það svo vangavelltur um hrútaval og eins gott að það verði frá u.þ.b 10-15 des en þá er ætlunin að fjörið hefjist.

 

Þessi kappi er kynbótagripur í Skáney en á ættir sínar að rekja hingað í Hlíðina.

Hann er sonur Sigrúnar kynbótakindar í Skáney sem var undan Ferningi mínum.

Hann stigaðist býsna vel í haust og verður vonandi bara til sóma.

Gaman að fylgjast með þessum ,,ættingjunum,,

 

Talandi um Skáney þá var dekurhelgi um þá síðustu, gisting, veisla og frábært námskeið hjá Jakobi Sig.

Já Hótel Skáney klikkar ekki frekar en fyrri daginn.

Þarna er stund milli stríða, Haukur og Jakob komnir í hundana.

 

Þessi flotta dama var að sjálfsögðu mætt í tíma og gaf ekkert eftir.

Fet ,,maður byrjar alltaf á feti,, brokk og auðvitað stökk.

Jakob og Sunna aðstoðarkennari mjög ánægð með Keilu og snildar knapann hennar.

 

Þessar voru brosmildar á kanntinum Randi og Hrafnhildur.

 

 

Það er ekki hægt að vera alsstaðar og því töpuðum við af árshátíð Hestamannafélagsins Snæfellings. Hún var haldin á sama tíma og námskeiðið í Skáney.

Snekkja Glotta og Skútudóttir hlaut verðlaun sem hæst dæmda 6 v hryssan hjá félaginu.

Mummi var útí Danmörku að kenna svo hann mætti ekki heldur, það var því hjálpsamur sveitungi sem tók við verðlaununum og kom þeim til skila.

Snekkja lét sér fátt um finnast og bíður bara eftir Konsertsafkvæminu eins og við.

 

Árshátið Vestlenskra hestamanna heppnaðist vel en hún var haldin á Laugum í Sælingsdal.

Við fórum í góðra vina hópi........... þarf nokkuð nema þessa mynd til að sjá hvað var gaman ?

Þessi eru bara alltaf í stuði eins og sjá má.

 

Skúli og Randi að undirbúa dansinn sem var tekinn virkilega alvarlega þetta kvöldið.

 

Og þessir voru kátir Haukur bóndi í Skáney og Kolbeinn í Stóra-Ási.

 

Gufudalsbændur og dýralæknirinn skemmtu sér vel.

 

Alltaf stuð í Dölunum.

 

Bíldhólsbændur héldu veglega veislu til að halda uppá 70 ára afmæli (140) þeirra hjóna.

Gleðin var við völd eins og við var að búast, mikið sungið og hinir ýmsu skemmtikraftar stigu á stokk.

Á myndinni hér fyrir ofan syngja Melsbræður, Mummi og Hjörtur af lífi og sál.

 

Glaðlegir þarna bændur í Mýrdal og Ystu-Görðum, sennilega að rifja upp smalamennsku á Skógarströnd.

 

Jóel afmælisbarn og Sigurður Kálfalækjabóndi taka lagið.

 

Selma á Kaldárbakka var hestasveinn hjá Bíldhólsbændum í hestaferðunum s.l sumar.

Hún og Mummi tóku lagið fyrir afmælishjúin.

 

Og enn er það söngur, Sigurður á Kálfalæk, Ásberg í Hraunholtum, Friðbjörn Örn í Laugargerði, Mummi og Hjörtur í Búðardal.

 

Þessi stóðu vaktina í eldhúsinu og að auki þjónuðu þau til borðs. Vantar reyndar einhverja á þessa mynd.

Alvöru lið sem gerði þetta kvöld frábært.

 

Eins og þið sjáið hefur verið ýmislegt um að vera síðustu vikurnar en vitið þið hvað ?

Þetta er bara smá brot.

Nánar um það síðar.

 

 

03.11.2014 22:38

Haustannir

Dimmaleira heimalingur er virðuleg kind og ánægð með E lömbin sín.

Það hefur verið lítill tími til að sitja við skriftir síðustu vikurnar eins og þið hafið séð.

Stúss með jafnt lífs sem liðið sauðfé, smalamennskur, eftirleitir, slátrun og margt fleira.

Það var góð tilfinning að setjast niður í gærkveldi og vita að slátursamstrið þetta haustið væri frá. Lifrapylsa, blóðmör, svið, gúllas, hakk, file, lundir, hangikjöt og allt hitt........klárt þetta árið.

Við fengum góða hjálp og var aðstoðafólkið á fjölbreyttum aldri sem sagt 4 ára og uppúr.

Að öllum ólöstuðum voru frænkur mínar Daniella og Emilía skemmtilegustu hjálparhellurnar. Daniella var í bleikum ,,prinsessu,, skóm með háum hælum (sérlega henntugir í sláturgerð).

Hún saumaði vambir af miklum móð og afrekaði 10 stykki. Emilía hafði enga þolinmæði en svona uppá félagsskapinn kom hún reglulega og klappaði vömbunum rétt til að fá ,,góðu,, lyktina af höndunum. Hún sá aftur á móti um að svara í símann og það var svo sannarlega gert með stæl.

Ég heyrði ávæning af einu símtalinu......... ,,amma er í kjallaranum að hræra blóð, það er úr einhverjum dánum..... Sigrún og Daniella eru að sauma bumbur af dauðum kindum...........og ég er rosalega svöng.

Dömurnar voru mjög duglegar að smakka ýmislegt sem telst framandi fyrir fólk með nýja kennitölu. Blóðpönnukökur, slátur, steikta lifur, grjónagraut með rófum svo að eitthvað sé nefnt.

Svona sveitamatur fyrir fullorðna eins og Daniella kallar það. Það var svo á sunnudaginn sem boðið var uppá ,,fallega,, lita ilmandi berjasúpu. Já það var einmitt þá sem ungfrú Emilíu var ofboðið allavega svona í augnablik. Góður sessunautur jós súpu á disk og gafa dömunni sem hrærði lengi og starði þögul ofaní diskinn.

............... Eftir smá stund tautaði hún við sjálfan sig í hálfum hljóðum ,,amma var að hræra blóð í gær,,

Það er ekki grín að kynnast lifnaðaháttum og matarvennjum þeirra fullorðnu.......... wink

Lífgimbrar og hrútar eru löngu komin á gjöf og framundan er að taka hitt féð á hús.

Það þýðir að rúningur er á næsta leiti. Veðurspáin segir að morgundagurinn sé upplagður til að taka veturgamlar kindur inn, vonandi græðum við rúningsmann í verkið sem fyrst.

Margt hefur verið í gangi annað en sauðfé og slátur þó svo það hafið tekið mikinn tíma.

Menningunni hefur líka verið gert hátt undir höfði af okkar hálfu. Hæst ber frumsýning í Þjóðleikhúsinu, eitthundrað og fjögurtíu ára afmæli Bíldhólshjóna og nokkrar aðrar veislur.

Alltaf gaman að skemmta sér með góðu fólki.

Símon minn undan Arioni frá Eystra-Fróðholti og Karúnu kom heim í dag. Hann hefur verið í sumardvöl á Kistufelli síðan í júní. Kappinn leit vel út og húsfreyjan kát með að fá hann heim í Hlíðina.

Mummi fór til Svíþjóðar og Danmerkur fyrir helgina þar sem hann var með reiðnámskeið. Búið að vera líflegir tímar í reiðkennslu hjá honum og mikið framundan í því.

21.10.2014 22:48

Vetrarstemming

 

Já það koma margir fallegir dagar hér í Hlíðinni þó svo það blási á milli.

Verst er þó hvað úrkoman hefur verið mikil og blaut, leiðindaveður fyrir menn og skepnur.

Eins gott fyrir hestamenna að fylgjast með hrossunum og kanna hnjúska.

Folaldshryssurnar fóru í hausthagann sinn í dag og voru heldur betur kátar með það. Þær litu vel út og folöldin höfðu stækkað og breyst heilmikið frá síðustu heimsókn til þeirra.

Ég fékk mér líka göngutúr og skoðaði tryppin sem verið hafa hér inní hlíð. Hjá þeim voru móttökurnar svo einlægar að ég átti í vök að verjast og var næstum því étin. Næstu daga þarf svo að skoða allt stóðið og fara yfir hvort að allt sé ekki eins og best verður á kosið.

Hópur af spennandi tryppum er komin á hús og nú er bara að fara á fullt þegar kindastússið er farið að minnka. Feður þessara tryppa eru m.a Aldur og Arður frá Brautarholti, Feykir frá Háholti og Sparisjóður minn.

Nokkur söluhross eru einnig í þjálfun og má t.d sjá myndband af einni hryssu inná söluflipanum hér á síðunni.

 

 

Þarna er hún Caroline að spjalla við Kveikju Stimpilsdóttur.

Já hann Siggi á Vatni ætti nú bara að vita hvað Kveikja er flott, gullfallegt folald undan Stimplinum.

 

 

Caroline með Hallkelsstaðahlíð í baksýn, aldeilis gott veður.

 

 

Svona gægðist sólin uppfyrir Klifshálsinn fyrir nokkrum dögum síðan, já það eru mörg listaverkin í náttúrunni þessa dagana.

Þarf svo að smella inn sauðfjársamantekt við fyrsta tækifæri.

 

08.10.2014 21:01

Marie og vinir hennar

 

Þessar eru miklir vinir eftir hátt í tíu mánaða samveru sem senn er að ljúka.

Marie og Snotra hafa brallað margt saman og alveg er víst að Snotra á eftir að sakna vinkonu sinnar.

 

 

Og ekki hafa þessar verið síðri vinir, þarna eru þær saman Marie og Prinsessa heimalingur.

Síðan á réttum hefur Prinsessa verið með öðrum lömbum í girðingu út á Steinholti og þangað hefur Marie brunað með pelann. Já það er munur að vera innundir.

 

 

Prinsessa er myndar gimbur sem missti mömmu sína snemma á sauðburði og var strax í miklu uppáhaldi hjá Marie. Eins og þið sjáið þá er hún komin með rautt merki á kollinn sem þýðir að hún er væntanleg kynbótakind. Alveg ,,óvart,, mætti hún alltaf afganginn þegar verið var að venja undir svo að hennar hlutskipti var að verða heimalingur.

 

 

Kveðjukossinn var sætur eins og við var að búast, spurning hvort að Prinsessa sé á leiðinni til Danmerkur ???

 

 

Hún Fáséð er hinsvegar farin til Danmerkur en þar bíður hennar mikilvægt hlutverk.

Vonandi stendur hún sig vel og verður nýjum eiganda til gæfu og gleði en okkur til sóma.

Takk fyrir samveruna Marie og gangi þér allt í haginn, við hlökkum til að hitta þig aftur.

 

07.10.2014 23:03

Guðdómlegur Hnappadalur enn einu sinni.

 

Kvöldroðinn var dásemdin ein og alveg í stíl við veðrið í dag, ekki slæmt að fá 14 stig hita í október.

Ég fór líka algjöran eðalreiðtúr í dag á gæðingi sem er bara engum líkur.

Sumir dagar eru bara einfaldlega miklu betri en aðrir.

 

 

Það þarf ekki málverk á veggi þegar þetta er útsýnið úr eldhúsinu.

Sparisjóðurinn minn óheppinn að vera ekki við gluggann í þetta skiptið.

 

 

Þessi fíni regnbogi spratt uppúr Kjósinni sennilega til heiðurs okkur Marie fyrir sérstök kartöfluafrek.

Að okkar mati erum við búnar að vera ansi duglegar í garðinum.

 

 

Næstum eins og gos, einstaklega fallegt skrautið hjá okkur þennan daginn.

Haustið getur verið einn fallegasti árstíminn ef að veðrið er til friðs.

 

02.10.2014 12:01

Kveðja frá Holuhrauni

 

Laugardaginn 20 september var útsýnið svona af hlaðinu í Hlíðinni þegar við komum heim úr Vörðufellsréttinni. Sennilega hefur Holuhraunið verði að kasta á okkur kveðjum. Já ekki beint gæða loft í dásamlegri blíðu sem þá var hjá okkur í Hnappadalnum. En rokið og rigningin sem komu daginn eftir sáu alveg um að hreinsa loftið fyrir okkur.

Ég ætla ekki að eyða orðum í tíðarfarið síðustu daga því að auðvitað gæti það verið miklu verra. Úrhellisrigningin gæti verið snjór, brjálaða rokið gæti verið 30 m/sek ekki 20 sko og skítakuldinn gæti örugglega verið frost. Við höfum fullt af eldfjöllum hér í kring sem gætu alveg verið að gjósa og ýmislegt fleira sem hæglega gæti verið slæmt.

Við höfum það fínt og ekki sanngjarnt að vera með neitt væl...........punktur.

Eins og þið hafið séð þá hefur lífið snúist um kindur og aftur kindur síðustu daga. Ég hef stytt mér leið hér á síðunni með því að skella inn myndum en ekki stundað mikla skrifinsku. Það þýðir þó ekki að ég ætli ekki að segja ykkur fréttir allavega svona með.

Við höfum sent 416 lömb í slátrun og vorum bara sátt með útkomuna á þeim hópi. Þar sem ég notast helst við samanburð hér á búinu en er ekki í opinberri typpakeppni ætla ég ekki að svo búnu að birta neinar tölur.

Þær koma sennilega í lok sláturstíðar og í kjölfarið verður boðið uppá eitthvað skemmtilegt til að halda uppá nú eða drekkja sorgum.

Það voru mörg lömb falleg þetta haustið og erfitt verk er fyrir höndum að velja ásetninginn. Góður hópur af hrútum bíður þess að opinberir spekingar líti á þá og leiði mig í allan sannleikann um skynsamleg afdrif þeirra. Svo gerum við það sem við teljum gáfulegt fyrir okkur og budduna.

Eins og undanfarin ár var mjög margt af ókunnugu fé þegar við smöluðum til fyrstu réttar eða vel á sjöunda hundraðið Heimtur hjá okkur eru nokkuð góðar m.v sama tíma síðustu árin.

Síðasta vika var gjöful hvað þær varðar og fengum við kindur alla daga vikunnar.

 

Læt fylgja með hvernig Hraunholt litu út frá okkur þann 20 september 2014.

 

 

30.09.2014 09:27

Kósý kvöld

 

Réttirnar eru tíminn til að æfa raddböndin og klappa gítarstrengjum.

Þarna eru Hjörtur og Mummi í góðum gír.

 

 

Góður smali og liðtækur gítarleikari, það er góð réttarblanda.

Haukur Skáneyjarbóndi er með þetta.

 

 

Já já og fleiri gítarleikarar spruttu upp og áður en yfir lauk urðu þeir held ég fimm.

Mummi, Hjörtur, Haukur, Skúli og Hrannar.

 

 

Þessar eru nú frekar mikið uppáhalds skal ég segja ykkur. Erla Guðný og Randi Skáneyjarfrú.

 

Lúxuxvandamál er að ég á fullt af fleiri myndum sem ég þarf endilega að sýna ykkur.

 

 

27.09.2014 13:49

Vörðufellsréttarstemming

 

Það er alltaf gaman í Vörðufellsrétt og á því var engin undantekning þetta árið.

Mummi, Astrid, Haukur og Randi Skáneyjarbændur.

Þessi sem er verulega hátt uppi er hann Hjörtur yfir gítartæknir.

 

 

Þessi voru sæt saman á réttarveggnum, Maron, Kristín Eir og Marie.

 

 

Hrannar, Björgvin, Ólafur og Flosi ræða málin.

 

 

Þessi mynd heitir Hrannar og hreppsstjórinn.

 

 

Þóra húsfreyja í Ystu-Görðum ásamt fjölskyldunni í Mýrdal.

 

 

Þau eru eitthvað sposk á svipin þessi, Hildur og Hallur með frú Björgu í baksýn.

 

 

Þessi er bráðefnilegur sauðfjárbóndi, þarna er hún aðeins að fara yfir dilkinn og kann hvort við höfum nú dregið rétt. Já hún Kristín Eir er alveg með þetta.

 

 

Þóra og Dag líta yfir hópinn.

 

 

Þessar tóku smá pós, Hrefna Rós og Astrid.

 

 

Og þessi var ennþá allra hæðst uppi............... reyndar að taka myndir.

 

25.09.2014 18:02

Smaladagurinn heima

 

Það sá ekki út úr augum fyrir þoku á föstudaginn þegar leggja átti af stað í leit héðan úr Hlíðinni.

En það var bjart yfir mannskapnum sem beið þess að leggja af stað í fjallið.

Nokkuð á eftir áætlun lögðum við af stað fram í sókn og samfylktum liði til fjalla.

 

 

Ragnar og mamma stilltu sér upp á meðan við biðum eftir að þokunni létti.

 

 

Óskar aðeins að smakka á ,,mikstúrunni,, svona áður en lagt var af stað í þokuna.

 

 

Stella, mamma og Lóa voru mættar í eldhúsið, þarna taka Sigrún og Björg stöðuna á dömunum.

 

 

Hún Kristín Eir var mætt í smalamennskuna og þarna er hún með Astrid og Magnúsi.

 

 

Þessar voru hressar og kátar.
 
 

Smalamennskan gekk vel þó svo að ekki væri smalað jafn stórt svæði og venjulega.

Á sunnudaginn var svo rekið inn hátt á annað þúsund fjár og var ókunnugt vel á sjöttahundraðið.

Það kom fjöldi fólks og hjálpaði okkur ómetanlega um réttirnar, kærar þakkir öll þið sem lögðuð okkur lið.

Fleiri myndir eru væntanlegar en netsambandið bíður ekki uppá meira í bili.