Færslur: 2011 Maí
27.05.2011 01:52
Vorið er komið...........vonandi.
Þarna sjáið þið hann Fjarka Þristson með mömmu sinni Rák frá Hallkelsstaðahlíð.
Já vorið er sennilega komið allavega eru komin tvö folöld, hestur undan Þristi frá Feti og Rák frá Hallkelsstaðahlíð. Óskin var að fá jarpskjótta hryssu undan Þristi en raunin var brúnn hestur. Ég er samt harla ánægð með gripinn og tel að gæðin verði bara ennþá meiri fyrst að ekkert púður fór í litinn. Held bara aftur undir Þristinn og kanna hvort að ég fái ekki skjótta hryssu sem að t.d gæti heitið Hulda.
Snör átti jarpa hryssu sem hlotið hefur nafnið Randi frá Hallkelsstaðahlíð en Sveinbjörn frændi minn fékk þennan fína toll undir Soldán frá Skáney í afmælisgjöf í fyrra og er nú einni glæsihryssu ríkari.
Ekki kasta fleiri hryssur alveg á næstunni en það styttist samt í fleiri folöld.
Sauðburðurinn er langt kominn en óvenju margt fé er ennþá inni miðað við dagatalið.
Veðrið hefur verið einstaklega leiðinlegt og þó svo að maður geti ekki vælt þar sem að við sluppum við öskfall er þetta tíðarfar hundfúllt.
Við höfum fengið góða aðstoð frá fjölmörgum í sauðburðinum og eflaust margir farið örþreyttir heim eftir ,,helgarfrí,, í sveitinni.
Ekki hefur allt aðstoðarfólkið verið hátt í loftinu.........................
Og Botnuflekka er mjög ofarlega á vinsældarlistanum.................enda gullfalleg og litfríð.
Pálína mín sem að brá sér af bæ til að bæta forustustofninn er heldur betur að standa sig og bara móflekkóttum hrúti og svartflekkóttri gimur í fyrradag.
Þarf að mynda gripina við fyrsta tækifæri.
Eins og þið hafið séð hefur ekki verið mikill tími til að sitja við ,,bloggskrif,, en nú verður farið í það verkefni að standa sig betur við það.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
21.05.2011 12:43
Enginn heimsendir
Glæsilegar mæðgur þær Sylvía Sigurbjörnsdóttir og Fríða Hildur Steinarsdóttir.
Í gær var brunað norður að Hólum til að vera við útskrift hjá flottu Hólakrökkunum.
Sylvía hélt uppteknum hætti og sópaði til sín öllum verðlaunum sem í boði voru fyrir nemendur á þriðja ári. Sannarlega flottur fagmaður á ferð sem að sló einkunnamet við skólann og hefur alla burði til að slá fleiri góð og mikilvæg met í framtíðinni.
Ekki gekk þó allt eins og helst var á kosið og þrátt fyrir góðan dag skyggði það á að Fannar og Gosi eru báðir úr leik í bili sökum meiðsla. Það gerir það að verkum að Mummi fer ekki í lokapróf fyrr en síðar í sumar.
Það er alltaf hátíðleg stund að mæta þarna norður og klæða nýútskrifaða reiðkennara í FT jakkana.
Innilega til hamingju með áfangann ég veit að þið verðið sjálfum ykkur til mikils sóma í framtíðinni og það er fyrir mestu.
Síðustu vikur hafa verði stembnar í meira lagi þar sem að veðrið er í illum ham og lítið sem ekkert hægt að setja út af lambfé. Enda er ástandið þannig í húsunum núna að hvert sem að litið er má sjá lambfé.
Sauðburðurinn hefur gengið þokkalega en þónokkuð er ennþá eftir að bera.
Við höfum fengið góðan liðstyrk við sauðburðinn sem heldur betur munar um.
Ég hef enn ekki gefið mér tíma til að fara með myndavélina en það kemur að því.
Að lokum ekki hefur bólað neitt á heimsendi hér en við búum nú á mörkum hins byggilega heims svo að það kemur kannske að því......................
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
09.05.2011 10:02
Vorið góða
Hniðja litla Tignar og Sparisjóðsdóttir skoðar heiminn með Geirhnjúkinn í baksýn.
Nú fer spennan að aukast og biðin eftir folöldunum að styttast, tvær hryssur eru komnar í eftirlitshólfið góða. Það eru hryssurnar Rák frá Hallkelsstaðahlíð sem er fylfull við Þristi frá Feti og Snör frá Hallkelsstaðahlíð sem er fylfull við Soldáni frá Skáney. Þeim til halds og trausts verður svo hún Tign mín frá Meðafelli sem nú er fylfull við Alvari frá Brautarholti.
Sauðburðurinn er kominn vel af stað og u.þ.b helmingur af þeim kindum sem að sæddar voru eru bornar. Vonandi eiga fleiri eftir að bætast við. Það var mjög skrítið að fyrstu 12 kindurnar sem að báru úr sæðingunum voru kollóttar en hlutfall þeirra á móti hyrndum er ca. 20 %. Ég varð himinlifandi í gær þegar fæddust tveir hrútar undan Kveik frá Hesti en Sindri minn sem að ekki kom af fjalli í fyrra var einmitt undan honum. Verða þessir tveir skoðaðir með betri gleraugunum í haust með von um jákvæða umsögn Lárusar ráðanauts.
Að sjálfsögðu hafa þessir gripir fengið nöfn sem að eru Svarti-Sindri og Sindri 2.
Eldri hrútarnir og geldar kindur voru settar út í gær, gemlingarnir bíða samt enn eftir fleiri og lengri grænum stráum.
Rúllan er skammt undan svo að ekki væsir um sparikindurnar og geldféð.
Biðin ótrúlega eftir lambamerkjunum heldur áfram og virðist ætla að vera nærri því árviss viðburður. Nýfæddu lömbin eru því farin að minna óþægilega á ,,kvikmyndastjörnur,, úr Dalalífi, rauð, blá og Guð veit hvað.
Eins gott að úr rætist hið fyrsta svo að húsfreyjan glati ekki síðustu glórunni.
Fulgalífið er í algjörum blóma hér við gluggann minn lóan kvakar og stelkurinn flytur Salómon svarta baráttusöng með þakklæti fyrir vel unnin næturstörf alveg heim að húsi.
Tjaldurinn, spóinn og endurnar sem að ég reyndar elska ekki mikið (þær fljúga uppúr skurðunum og fæla hrossin) eru öll mætt á svæðið en krían er ekki komin svo vitað sé.
Ég heyrði fyrst í hrossagauknum þetta vorið í suðaustri, er það ekki nokkuð gott ?
Er það ekki sælu og auðnugaukur ? Eða er ég eitthvað að ruggla ?
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
08.05.2011 08:47
Noregur heitur og kaldur.
Já það var gott veðrið í Grimstad laugardaginn 30 apríl þegar ég var þar að dæma.
Á mótinu voru margir góðir hestar þarna eru t.d Hárekur frá Vindási og Stikill frá Skrúð.
Um kvöldið var mér svo boðið í heimsóknir m.a á flottan veitingastað þar sem að gestirnir geta notið veðurblíðunnar og rennt fyrir fisk í leiðinni.
Mér fannst þetta nokkuð góð hugmynd sem að við gætum kannske nýtt okkur en sjarminn dofnaði svolítið þegar mér varð hugsað til þess hversu fáir svona dagar væru í boði.
En þær voru margar góðu hugmyndirnar í Noregi..............ég get örugglega sett upp hundabar þó ekki væri annað.
Ó já það getur nú líka orðið svalt við dómstörfin þó í Noregi sé..........en þessi kunni sko á það.
Þessi mynd er tekin snemma á sunnudaginn áður en að seinni blíðan ,,skall,, á hér í Grimstad.
Dómararnir Jenne og Birgitta með góðum ritara.
Smelli svo inn fleiri myndum í albúmin þegar nettengingin er bertri.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
04.05.2011 08:32
Komin heim frá Noregi
Mummi og uppáhalds vinur hans að leika sér á Hólum.
Ég er komin heim eftir að hafa átt góða daga í Noregi við að dæma flott hross og góða knapa.
Veðrið lék við mig og ég er sannfærð um að hafa komið heim með vorið. Móttökurnar voru frábærar, skemmtilegt að hitta fólkið og sjá hestana sem að ég þekkti hér að heiman.
Myndir og nánar um Noregsferð síðar.
Skúli skellti sér norður að Hólum á laugardaginn til að sjá sýningu þriðja árs nema Hólaskóla.
Sýningin að þessu sinni hét ,, Leiðin á toppinn,,
Ég dauðöfundaði hann en var samt ánægð með mitt hlutskipti en gaman hefði nú verið að sjá flottu Hólakrakkana líka. Mummi var með atriðið ,,Traust og samspil,, þar notaði hann Fannar sinn sem treystir Mumma til ótrúlegustu hluta m.a leikur sér með stóran bolta og stekkur yfir eld. Krapi kom líka fram í atriðinu til að sýna vinnuna á fyrri stigum en þeir vinirnir hafa jú ekki verði jafnlengi saman og Mummi og Fannar ,,gömlu karlarnir,,
Krakkarnir kynntu síðan lokaverkefnin sín sem að voru mjög fjölbreytt og skemmtileg.
Skúli fór líka á sýninguna um kvöldið og lét vel af.
Þann 1 maí fæddust hér lambakóngur og lambadrottning þegar gamla Útigöngu-Grána bar.
Í dag eiga svo kindurnar sem að voru sæddar tal svo að nú fer að færast fjör í leikinn.
Um helgina næstu fer svo stóra skriðan í fjárhúsunum af stað.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir
- 1