Færslur: 2022 Október
24.10.2022 12:53
Haustið 2022.
Fallegt haustveður í Hlíðinni og kindurnar í góðum málum í blíðunni.
|
23.10.2022 20:03
Lóa okkar.
Anna Júlía Hallsdóttir var fædd í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal 3 febrúar 1930. Hún lést þann 5 október á Dvalar og hjúrkunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi. Foreldrar hennar voru hjónin Hallur Magnússon og Hrafnhildur Einarsdóttir í Hallkelsstaðahlíð. Anna Júlía var eitt tólf barna þeirra hjóna. Þau eru Einar, f.1927, Sigríður Herdís,f.1928, Sigfríður Erna,f.1931, Ragnar, f.1933, Margrét Erla, f.1935, Guðrún, f.1936, Magnús,f.1938, Sveinbjörn,f.1940, Elísabet Hildur,f.1941, Svandís, f.1943, og Halldís, f.1945. Látin eru Magnús, Einar, Guðrún, Svandís, Ragnar, Sigríður Herdís og Sigfríður Erna. Anna Júlía eða Lóa eins og hún var ævinlega kölluð byrjaði ung að vinna við bú og heimilishald foreldra sinna í Hallkelsstaðahlíð. Anna Júlía fór til náms á Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Hún flutti síðan til Reykjavíkur og vann m.a í Vinnufatagerð Íslands, var í vist á nokkrum heimilum og starfað í fiski. Einnig var hún kaupakona á Seylu í Skagafirði. Rúmlega þrítug flutti hún heim í Hallkelsstaðahlíð og bjó þar til í lok febrúar árið 2020 en þá flutti hún á Brákarhlíð. Útförin fer fram frá Kolbeinsstaðakirku laugardaginn 15 október og hefst kl 14.00
Hér á eftir koma minningarorð sem ég ritaði um Lóu.
Lóa móðursystir mín hefur kvatt í hinsta sinn. Hógvær, hlý og þakklát eins og hún var ævinlega. Hún fékk tíma til að kveðja og var þakklát fyrir það. Stór fjölskyldan var henni allt og góðar fréttir af henni var lífið sjálft. Ég á henni að þakka umhyggju, hlýju og gleði fyrir fimm ættliði. Amma Hrafnhildur og Lóa áttu traust og gott samband alla tíð. Mamma og Lóa voru afar nánar sérstaklega síðustu árin þegar þær töluðu saman í síma amk einu sinni á dag. Þegar mamma féll frá þá erfði ég þessar stundir. Símtal frá Lóu fyrir tíufréttirnar var orðinn fastur punktur í lífinu. Fréttir af daglegum störfum hér í Hlíðinni voru bestu fréttirnar fyrir hana. Þegar Mummi sonur minn kom í heiminn varð hann eins og ég einn af hennar börnum. Ekki minnkaði hlýjan og aðdáunin þegar Atli Lárus sonur Mumma fæddist. Lóa dýrkaði litla manninn og var dásamlegt að sjá þau hittast. ,,Hvað er að frétta af litla polla,, og svo ljómaði hún. Minningar mínar frá unga aldri eru margar tengdar Lóu og hennar lífi. Hún kenndi mér að spila grúfu, prjóna og stoppa í ullarsokka. Ef að maður bað Lóu að gera eitthvað þá var það alltaf sjálfsagt. Hún gerði alltaf allt fyrir alla sem hún gat og það með bros á vör. ,,Lóa hvar er þetta og hvar er hitt,, og Lóa fann alltaf allt. Þolinmæði var henni ríkulega gefin og sást það best á samskiptum hennar við börnin sem voru á hennar lífsleið. Hún var nánast amma allra þeirra og gaf sér endalausan tíma. Klukkustundirnar sem að hún var að svæfa börn eða lesa fyrir þau eru klárlega óteljandi. Óteljandi eru líka sokkarnir og vettlingarnir sem að Lóa prjónaði og gaf ættingjum og vinum. Þeir munu ylja um ókomin ár bæði líkama og sál. Þegar ég var lítil átti ég þann draum heitastan að kunna og fá að marka lömb. Eins og gefur að skilja er það ekki verk fyrir börn en Lóa fann lausn á þessu máli. Tíminn kom innvafinn í pappír á þessum árum. Pappírnum safnaði Lóa saman og klippti síðan út eftirlíkingu af lambseyrum. Þessi lambseyru sem Lóa bjó til skiptu tugum í hverri viku og voru nýtt upp til agna. Lóa var ekki mikill bóndi en nokkur voru þau verk sem að hún tók að sér sem skiptu afar miklu máli í búskapnum. Kíkirinn var aldrei langt undan og mörgum kindum bjargaði hún þegar hún sá eitthvað sem þarnaðist nánari skoðunnar. Fjárstofnin hennar var ekki stór en saman stóð af Lögg og Fegurð sem voru endurnýjaðar eftir þörfum. Hún taldi hrossin í hverri girðingu oft á dag og fylgdist vel með að ekkert færi út fyrir. Það voru mikil viðbrigði þegar hún flutti á Brákarhlíð og lagið kíkirinn á hilluna. Þegar Lóa flutti á Brákarhlíð voru skrítnir covid tímar en hún tók þessum umskiptum af æðruleysi eins og henni einni var lagið. Lóa og Svenni áttu góðar stundir saman á Brákarhlíð rétt eins og hér heima. Samkennd, hlýja og virðing einkenndi þeirra daglegu samskipti.Starfsfólki Brákarhlíðar eru hér færðar innilegar þakkir fyrir hlýja og góða umönum. Við hér í Hlíðinni þökkum Lóu fyrir það sem hún gaf okkur öllum. Minningin um ljúfa, góða og umhyggjusama konu lifir og yljar. Sigrún Ólafsdóttir og fjölskylda.
|
- 1