22.01.2014 22:20
Janúarskot
Já ég veit það er ekki sól og sumar en það má samt skoða það á myndum.
Ég veit líka að ekki hef ég verið sérlega dugleg að smella inn fréttum hér síðustu vikurnar.
Hér kemur smá skot.
Nú er allt á fullu og hesthúsið þétt skipað, loksins komið gott veður allavega í bili.
Við höfum fengið góða hjálp í hesthúsið en það er hún Marie frá Danmörku svo eigum við von á henni Natashju okkar aftur fljóttlega.
Það er eflaust misjafnt eftir því hver er spurður hver er hestur vikunnar í hesthúsinu en mér finnst það vera hún Bára litla Arðasóttir.
Astrid fór noður eftir jólafríið með þrjú hross með sér Fannar, Framtíðarsýn og Trillu. Nóg að gera hjá henni í skólanum og bara spannandi tímar framundan.
Folöldin ganga ennþá undir hryssunum ef að frá eru talin þau Snörp Leiknisdóttir og Gosi Gosason en þau komu inn þegar mæðurnar fóru í ,,grænu hagana hinu meginn,,
Já þær voru búnar að skila sínum með glæsibrag Tign frá Meðalfelli og Snör frá Hallkelsstaðahlíð.
Svona er lífið og mikið hugsa ég fallega til þeirra þegar þessar tvær koma uppí hugann.
Hin folöldin koma svo inn á næstunni, kannske bíða þau bara eftir folaldasýningunni sem vonandi verðu fljóttlega í Söðulsholti.
Lífið í fjárhúsunum gengur sinn vana gang en ég verð að viðurkenna að nú er stressið fyrir fósturtalningu að ná sér á strik. Ég hef þó enga ástæðu til svartsýni eða það tel ég mér allavegana trú um. Heilsufarið hjá fénu er bara gott og ekkert sem gefur tilefni til annars en bjartsýni.
Við meira að segja heimtum kind með lambi í síðustu viku en þá kom hún Kúðhyrna og bankaði uppá hjá nágrana mínum hinumegin við fjallið. Alltaf gaman að fá fé af fjalli.
Hann Ástarbrandur er að ljúka störfum en hann kom hér fyrir jólin til að leggja sitt af mörkum til að viðhalda og kynbæta ferhyrndastofninn. Nú er bara að bíða og sjá hvort ég verði ekki aflögufær næsta haust af ferhyrndum gimbrum. Ég fékk nokkrar beiðnir í fyrra sem að ég gat ekki uppfyllt því það fæddust aðeins tvær ferhyrndar gimbrar í fyrra.
Dekur í Danmörku er ekki daglegt brauð á þessum bæ en þess var notið í ríkulegu mæli um síðustu helgi. Kaupmannahöfn heilsaði með roki og sliddu en móttökurnar að öðru leiti voru hreint út sagt frábærar. Skoðunarferðir, heimsókn í dýragarðinn, þrammað á Strikinu, kaffihús við Nýhöfn að ógleymdri heimsókn í Carlsbergverksmiðjuna.
Gaman hefði verið að hafa meiri tíma og líta við hjá enn fleiri vinum og kunningjum.
Það verður næst ;)
Veisluhöld og fínerí, já kærar þakkir fyrir frábærar móttökur Sanni og Sören þetta var ógleymanlegt.
04.01.2014 21:06
Rokr.......... þið vitið
Þegar veðrið er eins og það er verð ég bara að ylja mér við sumarmyndir og brosa.
Á myndinni er hún Auðséð mín undan Karúnu og Sporði frá Bergi.
Auðséð er á fjórða vetri og er komin inn fyrir nokkru enda tímabært að byrja tamningu á gripnum.
Æfinguna fram og niður er nauðsynlegt að æfa og spurning hvort það er ekki auðveldara svo liggjandi ? Alveg þess virði að prófa sko.
Svo kemur alltaf að því að maður verður að rífa sig upp og fara að gera eitthvað af viti.
Já eitthvað af viti, verður allavega að vera eitthvað innandyra því hér hafa verðið ansi margir metrar á sek. síðustu daga.
Hávaðarok og fljúgandi hálka er nú ekkert í uppáhaldi hjá mér en þar sem ég var búin að ná sáttum við vinkonu mína Pollýönnu þá er það bara fínt.
Inúítagöngulagið og 95 ára reglan klikka ekki og hafi maður þetta tvennt að leiðarljósi eru manni allir vegir færir jafnvel í hálku.
Allt í standi og þorrablót á næsta leiti getur maður nokkuð beðið um meira ??
31.12.2013 15:39
Gleðilegt ár
Það er við hæfi þegar farið er yfir viðburði síðasta árs hjá okkur hér í Hlíðinni að þessi mynd sé upphafið. Þarna er hún Hjaltalín frá Hallkelsstaðahlíð en það var einmitt hún og móðir hennar Skúta sem héldu okkur svo sannarlega á tánum í byrjun ársins. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér en það gerði ég hér á blogginu. (Sjá blogg 8 júlí s.l)
Því er hinsvegar við að bæta að mæðgurnar eru báðar eldhressar í dag en Skúta þarf samt að vera á sérstöku fóðri. Hún fór undir stóðhestinn Ölnir frá Akranesi en þar sem ekki er leyfilegt að sóna hana verður það bara að koma í ljós síðar hvernig hefur til tekist.
Hvað gerum við ekki fyrir drotninguna ?
Hjá okkur fæddust 9 folöld á árinu og sem betur fer hefur allt gengið vel með þau hingað til.
Við eigum von á 7-8 folöldum á nýju ári ef að allt fer sem ætlað er.
Mikið hefur verið að gera í tamningum og þjálfun bæði fyrir okkur og eins fyrir okkar góða fólk. Mummi hefur líka átt gott ár í reiðkennslunni en hann hefur verið með námskeið og sýnikennslur. Góður hópur er í knapamerkjakennslu hjá honum í Söðulsholti og eins hefur hann verið að taka nemendur í einkatíma.
Mummi hefur verið að fara til Svíþjóðar og nú á næstu bætir hann við í ,,landasafnið,, og mun á nýju ári skreppa á framandi slóðir.
Hann er með mörg spennandi hross í þjálfun svo það er sannarlega nóg að gera hjá kappanum.
Þarna er höfðinginn Gosi frá Lambastöðum en hann bíður örugglega spenntur eftir árinu 2014 eins og margir aðrir. Við höfum verið að temja á annan tug tryppa undan honum í sumar og haust, það er gaman skal ég segja ykkur.
Astrid er við nám á Hólum en síðast liðinn vetur fór hún í verknám til Randiar og Hauks á
Skáney. Hún hefur líka verið að fara aðeins út til Finnlands og verið þar með kennslu hjá henni Ansu okkar og fleirum. Á myndinni situr hún spennandi fola undan Glotta frá Sveinatungu sem að er í eigu hans Jonna á Kænunni ;)
Ég var að telja það saman um daginn að hér hafa verið að meðaltali 35 hross á járnum allt árið. Rúmlega 60 aðkomu hross hafa verið tamin þetta árið, sum hafa stoppað í mánuð en önnur hafa verið hér í mun fleiri mánuði. Bara gaman að spá í þetta allt saman.
Síðast liðið sumar var líka líflegt hvað ferðamennsku varðar en hingað til okkar komu fleiri hestahópar en áður hefur tíðkast. Móttökur, sýnikennslur og reiðsýningar fylgja svo það er alltaf líf og fjör þegar þessa hópa ber að garði.
Svo eru það líka þeir sem bara birtast og hafa gaman, fjölbreytileikinn gerir lífið bara skemmtilegra.
Þegar hestaáhuginn er mikill er nauðsynlegt að fylgjast með og reyna að auka við sig þekkingu.
Á árinu vorum við bara nokkuð dugleg að fara á námskeið og fyrirlestra, má þar m.a nefna námskeið hjá Eyjólfi Ísólfs sem haldið var í Króki, námskeið hjá Jakobi Sigurðs sem haldið var í Skáney og svo mætti áfram telja.
Þegar ég hugsa til baka þetta árið þá er mér afar ofarlega í huga allt það góða fólk sem starfað hefur og verið hjá okkur þetta árið. Ekki svo að skilja að það sé eitthvað nýtt að hjá okkur sé afbragðsfólk síður en svo. En ég hef kannske ekki alltaf hugsað um það hvað þetta er dýrmætt.
Ef að mér skjátlast ekki þá hafa verði hér átta manns á þessu ári auk frændfólks og vina sem eru okkur einnig ómetanleg. Þetta unga fólk hefur komið frá 4 löndum þ.m.t Íslandi.
Kærar þakkir fyrir það hvað þið hafið verið yndisleg, skemmtileg og dugleg.
Félagsmál hafa alltaf skipað stóran sess í mínu lífi og svo sannarlega kryddað það.
Nú í desember gaf ég ekki kost á mér til áframhaldandi formennsku hjá Félagi tamningamanna. Árin í félagsmálum hestamanna voru orðin mörg og svona ykkur að segja þá hrökk ég við þegar ég komst að því að ég hef starfað á þeim vettvangi í 25 ár.
Fyrst voru það félagstörf hjá Hesteigandafélagi Borgarness síðar Hestamannafélaginu Skugga, þá stjórn Hestaíþróttasamband Íslands, gjaldkeri Landsambands hestamanna, formaður Hestamannafélagsins Snæfellings, formaður Félags tamningamanna og auk þess seta í nefndum og ráðum. Til dæmis seta í Fagráði í hrossarækt og nefndum á vegum ráðuneyta.
Að starfa fyrir hestamenn er gaman og lærdómsríkt en það getur líka verið ansi krefjandi.
Þetta hefur verið frábær tími og síðast en ekki síst er það allt þetta fólk sem ég hef kynnst, því líkur fjársjóður. Takk fyrir samstarfið.
Árið var nokkuð viðburðaríkt hjá FT en uppúr stendur Gullmerki Einars Öder og meistarapróf Mette Mannseth. Það verður gaman að fylgjast með nýrri stjórn og ég veit að þessir flottu fulltrúar eiga eftir að standa sig með prýði.
Þessir öðlingar kvöddu okkur á árinu en þetta eru mæðginin Þorri og Deila.
Ég hef hugsað mér að smella hér inn við tækifæri umfjöllun um hana Deilu sem var stórkostlegur smalahundur og ótrúlega skynsöm tík. Hennar er sárt saknað en vonandi stendur Freyjan undir væntingum og fyllir uppí hennar skarð.
Hann Þorri kallinn var nú meira svona félagsskapur já alveg ágætis félagsskapur.
Hver segir að allir eigi að verða úrvals smalahundar ?
Það væri ekki satt ef að ég segði ykkur að sauðfjárárið hjá okkur hér í Hlíðinni hefði verið farsælt.
Ó nei öðru nær við vorum bara sleginn niður í orðsins fyllstu merkingu þegar við létum sónarskoða í vetur. Hátt á þriðja hundrað kindur höfðu látið lömbunum og þegar vorbókinni var skilað í vor hafði talan hækkað. Þetta þýddi að við fengum hátt í 500 lömbum færra en vejulega þetta árið til nytja.
En það hefur ekki bjargað neinum að væla svo það var ekki annað í boði en standa upp hrista sig og halda áfram. (sjá nánar á bloggi 23 mars)
Auðvitað birti upp og nú er allt komið á fullan snúning, húsfreyjan áhugasamari en nokkru sinni fyrr og meira að segja verslaði sér bæði kynbótahrúta og gimbrar. Að auki var svo fenginn hrútur að láni, annar kom í vist og nokkrar ær voru keyrðar af bæ til að eiga stefnumót við golsóttan rolludraumaprins.
Feðgarnir fylgjast með og segja gjarnan ,,æi mömmu þinni datt þetta í hug,, eða eitthvað í þeim dúr. Nú er bara að bíða og vona að ekki komi neitt uppá með hjörðina og allt fari vel.
Það er víst gaman að vera sauðfjárbóndi en því fylgir góð blanda af raunsæi og Pollýönnu.
Höfðinginn Salómon svarti fagnaði 14 árum þann 4 apríl síðast liðinn og er þar með ,,formlega,, fermdur. Samkvæmt formúlunni er hann því orðinn 98 ára í mannsárum.
Hann ber aldurinn vel vinnur hóflega, hvílir sig passlega og hagar sér skemmtilega.
Já það er krefjandi verkefni að vera hefðarköttur svo eins og sjá má á myndinni þarf hann líka að hita upp söðulinn fyrir húsfreyjuna.
Það má samt segja að árið 2013 hafi verði gott fyrir okkur hér í Hlíðinni, allir við góða heilsu og hvað er þá hægt að kvarta ? Að vísu eru þau í því ,,efra,, ekki að yngjast en það er víst lögmálið. Þau nutu allavega jólanna og gátu öll verið heima sem er ekki sjálfgefið þegar á þennan aldur er komið. Hann Ragnar er fluttur á Dvalarheimilið Brákarhlíð í Borgarnesi en kemur að sjálfsögðu heim um jól, réttir og aðra stórviðburði.
Um áramót er fólk gjarnan upptekið af því að strengja áramótaheit og með því að friða samviskuna eftir uppgjör ársins sem er að kveðja.
Auðvita á það líka við um mig jafnvel þó svo ég viti að það þýðir nú ekkert að basla í einhverju óraunhæfu. Er það ekki þroskamerki að sýna æðruleysi ?
Hver ætlar ekki að verða mjór á næsta ári nú eða því þar næsta ??
Hætta að reykja, drekka, taka í vörina.
Hætta að gera þetta eða hitt og kannske bara byrja að gera eitthvað sem er gasaleg hollt eða gaman.
Vera jákvæður og skemmtilegur nú eða hvað sem er.
Um þessi áramót kemur mér eitt áramótaheiti í huga.
Gæti hentað svo mörgum......
Vanda orðræðu, sýna virðingu og vera góð.
Það er jafn auðvellt að opna munninn og tala vel um samferðamennina eins og að lasta þá.
Héðan úr Hlíðinni sendum við okkar bestu óskir um gæfuríkt komandi ár með þökkum fyrir það liðna. Sjáumst hress og kát á nýju ári.
29.12.2013 22:27
Jóla ............
Jóla jóla já þessar voru aldeilis í stuði þegar kom að því að opna pakkana á jólakvöldið.
Eins og venjulega smelltum við okkur uppí ,,það efra,, og fögnuðum jólunum með ungum og öldnum.
Áttatíu ára aldursmunur gerir lífið bara skemmtilegara og þannig var það einmitt þessi jólinn.
Sumar jólagjafir voru vinsælli en aðrar og voru dömurnar í þessum bangsagöllum allt kvöldið. Eftir mikið ofát og erilsama daga var ekki laust við að ég öfundaði þær af þessum búningum. Hefði örugglega verið gott að sofna í þessu undir bók í sófanum.
Bækur já vel á minnst ég fékk skemmtilegar bækur í jólagjöf þar stendur uppúr bókin Sauðfjárrækt á Íslandi sem er aldeilis frábær. Vilborg Arna pólfari og Illugi Jökuls klikka ekki frekar en við var að búast og Skagfirskar skemmtisögur eru klassi.
En að sjálfsögðu hafði ég Guðna með í rúmið á jólakvöldið, hvað annað ?
Jólaveðrið og færðin eigum við nokkuð að ræða það ?
Jóladress húsfreyjunnar var föðurland, lambhúshetta og ullarsokkar, bara ekki nokkur leið að vera meiri pæja en það í þessu helv.... veðráttu.
Það bíður bara betri tíma og þá verður það eitthvað skal ég segja ykkur.
Og svo komu kindur í dag.............. já það fréttist af kindum í Höfðalandi.
Því brunuðu Mummi og Ásberg Hraunholtabóndi af stað í morgun og náðu þremur kindum með hjálp Dalsmynnisbænda.
Alltaf gaman að fá kindur og heldur potast nú talan niður á við sem vantar.
Annríkið hjá hrútunum er heldur að minnka þó með undantekningum, Loðmundur er kominn í sjálftekið frí og á meðan er það Borgarfjarðarsjarmurinn Klossi sem leysir hann af.
Ástarbrandur hefur áhyggjur af fyrirliggjandi verkefnum á öðrum bæjum en vonar það besta.
Vökustaur er kominn með fjarrænt augnaráð og er farinn að þrá rólegheit og kynlífsbann.
Ástarseiður lítur út eins og vannærð fyrirsæta þó með horn og Dimmir hefur útlit slagsmálahunds frá níunda áratugi síðustu aldar.
Rósinkar er reglulega rólegur og rómantískur.
Annars er allt gott að frétta af hrútastofninum og kynbótastarfinu í fjárhúsunum.
23.12.2013 22:37
Gleðilega hátíð
Já ég veit kæru vinir ritletin hefur verið við völd hjá húsfreyjunni síðustu vikurnar en hér kemur allavega jólakveðjan til ykkar.
Það er nú ekki þannig að ekkert hafi verið um að vera hér í Hlíðinni síðustu vikurnar þó að ég hafi ekki komið neinu í verk hér á síðunni.
Eftir aðalfundinn góða hef ég einungis mætt á einn fund en það var desember fundur Fagráðs í hrossarækt sem haldinn var fyrir stuttu. Skemmtilegur fundur en með þeim lengri sem ég hef setið eða sennilega sá allra lengsti heilir 11 tímar.
Margt var rætt og vonandi góðar ákvarðanir teknar sem nýtast hrossaræktinni í framtíðinni.
Það hefur verið líf í hesthúsinu og öll pláss þétt setin enda kominn sá tími þegar allt fer í fullan gang.
Natashja og Hanna fóru báðar heim fyrir jólin og njóta þess nú að vera með sínu fólki um hátíðirnar. Jens frá Þýskalandi sem kom til okkar og var hjá okkur í svolítinn tíma er líka farinn. Mikið hvað við eru heppin með þetta góða fólk sem til okkar kemur.
Takk fyrir samveruna þið eruð frábær.
Mikið fjör er núna í fjárhúsunum en jólagleði hrútana stendur nú sem hæst. Hér voru sæddar tæpleg 80 kindur og var það gert 13 og 14 desember. Hér voru notaðir 13 hrútar af sæðingastöðinni svo að vonandi kemur eitthvað spennandi út úr því.
Einn hrút fékk ég lánaða sunnan úr Borgarfirði og virðulegt ræktunarfélag sem ég tengist eignaðist annan sem hér er í notkun.
Ætti nú að smella inn myndum af þessu köppum við tækifæri.
Þann 14 desember settum við hrútana í gemlingana og strax upp úr því fórum við að setja hina hrútana saman við.
Ef að allt gengur upp hefst því sauðburðurinn aðeins fyrr en venjulega hjá okkur.
Já já ég spái góðu vori eins og þið sjáið.
Þann 21 heimtum við svo einn gemling með lambi en góður granni á Skógarströndinni fann fénaðinn. Alltaf gaman að fá kindur af fjalli.
Já nú eru það blessuð jólin sem eru handan við hornið.
Við hér í Hlíðinni sendum ykkur góðar jólakveðjur og vonum að þið hafið það sem allra best.
08.12.2013 11:42
Gullmerkið til hans Einars Öders
Það var einstakur heiður fyrir mig að fá að afhenda Einari Öder Magnússyni gullmerki Félags tamningamanna á aðalfundi félagsins í gær.
Þetta var eitt af mínum síðustu embættisverkum sem formaður félagsins og örugglega eitt það skemmtilegasta á ferlinum.
Læt hér fylgja með það sem kom uppí hugann hjá mér við það tækifæri.
Gullmerki Félags tamningamanna er æðsta viðurkenning sem félagsmanni getur hlottnast. Til að hljóta gullmerki félagsins þarf stjórn að vera sammála um valið, og það var hún svo sannarlega á síðasta fundi.
Stjórn Félags tamningamanna hefur ákveðið að sæma Einar Öder Magnússon gullmerki félagsins.
Einar Öder er landsþekktur hestamaður og kunnur fyrir störf sín í þágu íslenska hestsins. Einar hefur um áratuga skeið unnið að framgangi hestamennskunnar hér innan lands og verið öflugur talsmaður hestsins og íslenskrar reiðmennsku á erlendri grundu.
Hann var um árabil landsliðseinvaldur og í því starfi sýndi hann svo sannarlega að þar fór fagmaður á ferð. Að velja keppendur, styðja þá og styrkja til árangurs er ekki öllum gefið.
,,Og svo er hann svo asskoti skemmtilegur,, sagði einn sem fylgt hefur honum víða á stórmótum erlendis.
Einar hefur komið með einum eða örðum hætti að starfi Félags tamningamanna um áratuga skeið. Hann gekk í félagið 1984 og lauk tamningaprófi árið 1987.
Einar var varaformaður félagsins í nokkur ár og hefur tekið þátt í starfi félagsins með einum eða öðrum hætti alla tíð.
Hann er einn af þessum góðu dýrmætu félagsmönnum sem láta í sér heyra ef þeim líkar ekki það sem gert er, en klappar líka á bakið ef vel er gert.
Hann lætur sig málin varða og er með því öflugur og mikilvægur félagsmaður.
Þegar ég rífja upp minningar af Einari kemur fyrst upp í hugann hann og Leira frá Þingdal.
Hann og Sauðárkrókshestar.
Hann og Oddur frá Selfossi á Vindheimamelum að keppa í gæðingafimi.
Einar að temja í Stykkishólmi.
Og ógleymanlegir eru þeir Einar og Glóðafeykir á síðasta Landsmóti.
Ég verð líka að nefna erindi sem Einar hélt á upprifjunar námskeiði dómara fyrir stuttu síðan.
Erindið bara yfirskriftina Fagmennska í fyrirrúmi,
ég er sannfærð um að það voru fleiri en ég sem hugsuðu um þetta innlegg hans í marga daga.
Því eins og áður hefur komið fram er strákurinn ekki bara fróður heldur líka bráð skemmtilegur.
Það er mér sérstök ánægja að næla í þig gullmerki FT og sýna þér með því þakklætisvott fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara í reiðtúr með þeim hjónum Einari og Svönu s.l haust en þá riðum við í þæfingsfæri yfir Kerlingaskarð með kvikmyndatöku fólk allt um kring. Þar voru á ferðinni fræknir frakkar að gera kvikmynd um íslenska hestinn.
Ég vona að þessi viðurkenning nýtist þér í því frábæra starfi sem þið hjónin og fleiri eruð að vinna í Frakklandi. Það verður bara að spennandi að fylgjast með þeim landvinningum sem þar eru í uppsiglingu.
Megi gæfan fylgja þér og þínum um ókomna tíð.
Á næstunni smelli ég inn fleiri myndum frá fundinum en læt hér fylgja upplýsingar um nýja stjórn.
Súsanna Ólafsdóttir formaður.
Line Norregard
Bjarni Sveinsson
Hrafnhildur Jónsdóttir
Marteinn Njálsson
Elvar Einarsson
Karen Emilía Barrýsdóttir
Innilega til hamingju nýja stjórn Félags tamningamanna og þið kæru félagsmenn takk fyrir ánægjulegt samstarf.
05.12.2013 22:14
Takk fyrir að smala fyrir mig ;)
Þessa fínu mynd fékk ég að ,,láni,, hjá Svani bónda í Dalsmynni en hún sýnir Svartkollu mína og dætur í viðureign við sparihundana.
Já Svartkolla hefur frétta að sauðfjárræktin í Dalsmynni væri komin á mikið flug og sennilega ætlast til þess að Svanur sleppti frekar út hrút en elti hana með hundum.
Hún var ekki endilega sannfærð um að njóta leiðsagnar þegar smalarnir hittu hana og fór hratt yfir til að reyna að stinga þá af. En allt kom fyrir ekki og þeir kappar með dyggri aðstoð hundanna höfðu betur og bundu enda á dvölina í Hafursfellinu.
Eftir snarpan eltingaleik á láglendi gamla Eyjahrepps játaði þessi sig sigraða enda við ofurefli að etja. Já Svanur og félagar eru ekkert lamb að leika sér við .
Það eru ekki bara menn og hestar sem sækja í heimsókn í Söðulsholt, ónei kindur líka.
Þegar við komum að sækja óþekktarorminn var hún í vellystingum með hálm og hey inní hesthúsi í Söðulsholti. Dæturnar létu sér fátt um finnast en voru ekki nærri því eins líflegar og sú gamla.
Systurnar hlutu nöfnin Söðulsholtsmóra og Söðulsholtssvört, frumlegt finnst ykkur ekki ?
Nú er þrenningin komin heim í fjárhús og líkar það bara vel.
04.12.2013 23:00
Hestamannafélagið Snæfellingur 50 ára
Hestamannafélagið Snæfellingur varð 50 ára þann 2 desember s.l og af því tilefni komu félagsmenn saman á Vegamótum.
Á þessari mynd eru þeir félagsmenn sem voru gerðir að heiðursfélögum Snæfellings að þessu sinni. Þetta eru þau Svavar Edilonsson Stykkishólmi, Halldís Hallsdóttir Bíldhóli og Einar Ólafsson Söðulsholti.
Árlega er Þotuskjöldurinn afhentur þeim félagsmanni sem skarað hefur fram úr á sviði ræktunar, reiðmennsku eða félagsmála. Skjöldurinn er verðlaun sem að Leifur Kr Jóhannesson f.v ráðanautur gaf félaginu til minningar um hryssu sína Þotu frá Innra-Leiti.
Að þessu sinni féll hann í skaut Bjarna Jónassyni sem verið hefur framkvæmdastjóri Fjórðungsmóts á Kaldármelum.
Högni Bæringsson og Leifur Kr Jóhannesson hlutu gullmerki og var það fulltrúi HSH sem afhenti þau.
Fjöldinn allur af viðurkenningum var veittur og var mál manna að vel hefði tekist til og félagsmenn átt saman góða kvöldstund.
Þarna er hraustlega tekið undir þegar afmælissöngurinn var sungin afmælisbarninu ti heiðurs.
Þegar dagskráin var tæmd spjallaði fólk fram eftir kvöldi og naut þess að rifja upp gamlar og skemmtilegar sögur.
Húsfreyjan í Bjarnarhöfn er dugleg við að taka myndir sem hún deilir svo með okkur á heimasíðu Snæfellings. Endilega kíkið við þar, skemmtileg síða.
01.12.2013 21:59
Hátíð hjá vestlenskum hestamönnum
Vestlenskir hestamenn skemmtu sér vel þegar þeir hittust við jólahlaðborð í Stykkishólmi um helgina. Vel á annað hundrað manns mættu og voru gestirnir frá öllum hestamannafélögunum á vesturlandi.
Var það almennt álit manna að vel hefði tekist til maturinn einstaklega góður, hófleg skemmtidagskrá og andrúmsloftið jákvætt og gott.
Margir gestirnir nýttu sér hótelgistingu á Hótel Stykkishólmi og áttu því góðar stundir til að spjalla og njóta samverunnar.
Þessi viðburður er klárlega kominn til að vera og á bara eftir að stækka.
Látum okkur hlakka til vestlendingar þetta á bara eftir að verða enn meira gaman hjá okkur.
Þessir kappar báru hitan og þungan af hátíðinni þetta árið og stóðu sig með mikilli prýði.
Lárus Hannesson stjórnarformaður, Ingi Tryggvason veislustjóri og Ámundi Sigurðsson meðhjálpari.
Hafið bestu þakkir strákar þetta var gaman.
Þegar vestlenskir hestamenn koma saman er gaman og eins og þið sjáið þá skemmtu þessir sér afar vel og hafa eflaust verið að ræða einhvern stórviðburð.
Ámundi og Högni Bæringsson í Stykkishólmi.
Kátir voru karlar......................og það voru þeir svo sannarlega þessir Borgfirðingar.
Snæfellingar nutu þess að gæða sér á öllum kræsingunum.
Við tengdamæðgur vorum bara góðar en það getur rifið í að bíða eftir matnum eins og sjá má.
Þessi eru bæði ættuð úr Kolbeinsstaðahreppnum og voru bara eldhress að vanda.
Hallur bóndi á Naustum og Anna Dóra húsfreyja á Bergi.
Söngurinn sem Lárus og félagar buðu uppá var sko ekki af verri endanum skal ég segja ykkur.
Þessi hjú snéru bökum saman skemmtu sér og eru alveg orðin alvöru í hestamennskunni já og ekki síður í sauðfjárræktinni. Hrannar og Björg í stuði.
Og það var sko gaman hjá þessum hressu skvíum, Björg og Randi alveg með þetta :)
Ég er viss um að þessi voru að rifja upp eitthvað úr síðustu smalamennsku héðan úr Hlíðinni.
Haukur í Skáney og Björg slá á létta strengi fyrir lélegan myndatökumann (konu)
Þessir ræddu málin og réttu úr sér eftir matinn.
Það var gott að hafa góða sófa til að slaka á þegar búið var að raða í sig kræsingunum.
Spjalla og kanna hvað væri nú mest spennandi af ungviðinu í hesthúsinu, já og rifja upp gamlar sögur.
Tamningafólkið í Söðulsholti og Haukur Skáneyjarbóndi ræða málin.
Sumir nutu sín betur í sófanum en aðrir............. Mummi, Ingibjörg og Valgeir úr Grundarfirðinum.
Kallarnir bara slakir og ræða málin, Skúli og Kristján Gunnlaugsson úr Stykkishólmi.
Eitthvað sposkir á svipinn þessir............
Að lokum læt ég eina hláturskast mynd flakka.......... Helga vinkona mín frá Heggsstöðum og ég skemmtum okkur afar vel eins og sjá má.
Verst að það er ekki hljóð með....................eða ekki.
Niðurstaða.......... það var rosalega gaman og alveg ljóst að þessi viðburður er kominn á dagatal næsta árs.
Formaður Hestamannafélagsins Glaðs í Dalasýslu bauð fram krafta Glaðsmanna til að halda næsta jólahlaðborð á Laugum í Sælingsdal að ári.
Hlakka til að mæta þangað en þið sem gerðuð þennan viðburð svona skemmtilegan.
Kærar þakkir.
Já vestlenskir hestamenn eru jákvæðir og skemmtilegir.
29.11.2013 16:06
Góð kvöldstund
Síðast liðinn miðvikudag var Mummi með sýnikennslu á Miðfossum en það voru félagar í Grana sem fengu hann til að fara m.a yfir þjálfun í byrjun vetrar.
Hestamannafélagið Grani á Hvanneyri er starfrækt af nemendum Landbúnaðar háskólans en er einnig opið starfsólki og staðarbúum á Hvanneyri.
Mummi fór með tvo hesta með sér þá Sprota frá Lambastöðum og Sparisjóð frá Hallkelsstaðahlíð. Sprota notaði hann til að sýna æfingar í hendi og hringteymingar. Sparisjóð notaði hann svo í reið og einnig smá leikaraskap.
Góð mæting var hjá nemendunum og mættu um 70 manns á sýnikennsluna.
Þessi mynd gæti kallast ,,bræðraspjall,, en þarna eru Reynisbræður að njóta veitinganna í hléinu.
Þessir flottu reiðkennarar mættu á sýninguna og að sjálfsögðu með litlu flottu hestamennina sína. Heiða Dís og Linda Rún hressar að vanda.
Þar sem ég er sérstök áhugamanneskja um lopapeysur varð ég að smella mynd af þessum myndarlega manni og nautgripapeysunni hans. Ég hef séð margar flottar peysur með hestum og kindum en aldrei áður svona góðri ,,beljupeysu,,
Sýningargestir ,,hesthúsuðu,, mörgum tugum af pizzum en þarna eru veitingastjórarnir að gera vörutalningu í lokin. Karen og Skapti sveitungar okkar.
Aðstoðardömurnar stóðu sig vel að vanda en þarna eru þær með Sparisjóð ný bónaðan.
Mummi og Sparisjóður enduðu svo á því að leika sér aðeins saman, fækkuðu reiðtygjum, sippuðu svolítið og þegar reiðtygin vor öll komin af var mál að hneygja sig.
22.11.2013 23:33
Fréttir dagsins með sauðfjár ívafi.
Það var vinalegt að hafa þetta útsýni út um eldhúsgluggann en nú er það búið þetta haustið enda allar kindur komnar á hús. Ja nema þær sem eiga eftir að koma fram sem ég vona að séu nokkrar. Enn of margt sem ekki hefur skilað sér svona m.v síðustu ár.
Það fer vel á með þessum enda er frábært fyrir kindur að fá góðan ,,nebbaþvott,, svona alveg frítt. Þær eru fljótar kindurnar að finna það út að Snotra dekrar við þær sem ekki stanga hana.
Eins og væntanlega glöggir fjármenn sjá þá er appelsínugult merki í þessari gimbur sem tilheyrir ekki þessu svæði hér. Þessi flotta gimbur kom saman við fullorðnu hrútana sem voru á túninu inní hlíð um daginn. Þar voru þeir settir til að sauðburðurinn byrjaði ekki á ókristilegum tíma en þangað kom þessi og nú er spurning hvort að hún beri snemma næsta vor. Móðir hennar og systir komu svo heim að Dunki og þegar þær mæðgur voru sóttar kom eigandinn (umráðamaðurinn) við til að sækja þessa gimbur.
Þar sem að hefðin var alveg að skella á þessa og hún passaði óaðfinnanlega vel í líflambakróna slóg ég til og smellti mér á þær báðar.
Nú röllta þær um með drotningarsvip og eru hæðst ánægðar með nöfnin sín Blesa og Lukka.
Loðmundur og Elvar Sterasynir eru þeir lambhrútar sem settir voru á hér í Hlíðinni þetta haustið. Vænir og fínir tvílembingar sem vonandi verað heiðurskappar með tíð og tíma. Þeir eiga sérstaka aðdáendur í Garðabænum enda synir Golsu sem þar á dygga vini.
Eftir það mikla ,,Steraæði,, sem rann á húsfreyjuna síðasta haust þegar hún kom í fjárhúsin á Dunki var þessum kappa bætt í safnið. Þarna er á ferðinni enn einn Sterasonurinn en þessi er frá Dunki. Við keyptum hrút þaðan fyrir nokkrum árum sem hefur reynst afar vel svo það var ástæðulaust að fara að flengjast eitthvað langt í burtu til að ná sér í góðan hrút.
Þessi hefur enn ekki fengið viðunandi nafn en fyrir á ég bæði Dunk og Kjartan svo eitthvað verður að finna á þennan sem hæfir. Guðrúnar er ekki sérlega þjált en hver veit ?
Nú er farið að sjást fyrir endann á rúningi þetta haustið en þarna er Vökustaur að fá sína jólaklippingu. Eins gott að vera vel til hafður fyrir fjörið sem framundan er hjá honum.
Það var afar líflegur dagur hér í Hlíðinni þennan daginn fyrir utan venjulegt stúss var ýmislegt framkvæmt. Hjalti dýralæknir mætti á svæðið og sprautaði hvern einasta hest á bænum með ormalyfi, sónarskoðaði hryssurnar og gerði auk þess nokkur minni viðvik sem uppsöfnuð voru. Sprautaði einnig tæplega 160 ásetningslömb við garnaveiki.
Stóðinu er skipt upp í þrjá hópa svo þetta voru heilmiklar smalamennskur sér í lagi þar sem við þurftum að sandbera nokkra slóða til að verjast hálkunni. Allt var í góðu lagi og mikið er nú alltaf gaman að skoða stóðið spá og spekulegra.
Þessi vinkona mín hefur heldur betur stækkað frá því að þessi mynd var tekin fyrir bráðum tveimur árum. Hún var tekin inn í dag og kemst þar með í ,,fullorðins,, hrossa tölu.
Þetta er Auðséð mín undan Karúnu og Sporði frá Bergi.
Núna er bara að byrja að temja hana og sjá hvað setur, húsfreyjan er frekar spennt ;)
20.11.2013 21:48
Bara svona mynda.......
Svona var veðrið í Hlíðinni þegar ég fór að skoða og spjalla við folaldshryssurnar í vikunni.
Algjör draumur og eins og þarna sést er vatnið farið að legggja.
Sumir höfðu það betra en aðrir, fengu sér blund í miðri rúllunni. Alltaf gott að leggja sig eftir matinn.
Karún mín fær alltaf sérstakt knús en þarna er hún með syni sínum honum Símoni Arionssyni.
Þessar flottu mæðgur sá um það sjálfar að gefa knús, þetta eru þær Létt frá Hallkelsstaðahlíð og Topplétt dóttir hennar og Topps frá Auðsholtshjáleigu.
Já það er orðið vetrarlegt hjá okkur hér í Hlíðinni og nú fer að styttast tíminn þangað til að sólin fer í árlegt frí. Við sjáum nefninlega ekki sólin frá 30 nóvember til 14 janúar.
Þessar brosmildu dömur eru duglegar í hesthúsinu og standa sig með mikilli prýði.
Hanna og Molli frá Lambastöðum svo er það Natascha og Glitnir frá Hallkelsstaðahlíð.
Alltaf líf og fjör í Hlíðinni, mikið er nú gott að setja bara inn myndir þegar ritletin er við völd.
18.11.2013 12:24
Félagsmála málin.......
Um helgina var aðalfundur Félags hrossabænda haldinn í Reykjavík og einnig árleg ráðstefna um hrossarækt. Þangað var mér boðið sem formanni Félags tamningamanna.
Nokkrar breytingar eru framundan og ljóst að við þrjú sem erum þarna á myndinni munum ekki fara í hringferð um landið eins og við gerðum saman fyrir nokkrum árum.
Nú nema við smellu okkur þá í skemmtiferð en ekki vinnuferð eins og þá.
Á aðalfundinum lét Kristinn Guðnason formaður af störfum eftir 14 ár á formannsstóli.
Guðlaugur Antonsson sem verið hefur hrossaræktarráðunautur fer í ársfrí um næstu áramót og ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til endurkjörs sem formaður Félags tamningamanna á aðalfundinum nú í desember. Já þetta er bara orðið nokkuð gott finnst mér.
Það hefur verið gaman og lærdómsríkt að starfa með þessum herramönnum.
Takk fyrir skemmtilegan tíma Guðlaugur og Kristinn.
En þar sem ég veit þið farið ekki með það lengra þá hrökk ég nú svolítið við þegar ég fór að skoða hvað ég var búin að vera lengi að stússast í félagsmálum hestamanna.
En ég get sagt ykkur að 25 ár eru ekki lengi að líða.
Ég byrjaði mín störf fyrir Hesteigendafélag Borgarness og síðar Hestamannafélagið Skugga og var þar stofnfélagi. Síðan var það Hestaíþróttasamband Íslands og þegar það sameinaðist Landsambandi hestamannafélaga var ég kjörin gjaldkeri þess. Ég var formaður Hestamannafélagsins Snæfellings í nokkur ár en Snæfellingur var mitt fyrsta Hestamannafélag og við það hef ég alltaf haldið tryggð.
Þessu gamla góð mynd er sennilega tekin árið 1979 á Hestaþingi Snæfellings en þarna sigruðum við Skjóna mín unglingaflokkinn.
Litli sæti drengurinn við hliðina á mér er Lárus Ástmar Hannesson, nafninu á hinum hef ég því miður gleymt. Takið sérstaklega eftir flottu hófhlífunum og að sjálfsögðu rauðu sokkunum.
Á þessari mynd erum við að bíða eftir úrslitunum og sennilega höfum við öll fengið veifu Hestamannafélagsins Snæfellings eins og vengja var á þessum tíma.
F.v Jóhann Hinriksson, Stykkishólmi, Kristjana Bjarnadóttir, Stakkhamri, ég og síðan Gunnar Sturluson, hrossaræktandi í Hrísdal.
En aftur að félagsmálunum hjá LH sat ég einnig í nokkrum nefndum og átti góðan og skemmtilegan tíma. Það var síðan18 janúar árið 2003 sem byrjaði að stússa í félagsmálum FT og hef verið þar viðloðandi síðan. Fyrst sem formaður FT suðurdeildar og síðan sem formaður félagsins.
Góður tími með skemmtilegu fólki, já hestamenn eru frábærir þegar þeir vilja það við hafa.
Nú eru þessi skrif farin að líta út eins og minningagrein en það var nú ekki ætlunin.
Fannst bara gaman að velta þessu fyrir mér þegar ég gerði mér grein fyrir hvað þessi tími hefur flogið áfram.
12.11.2013 11:38
Þriðjudagar eru námskeiðsldagar
Á þriðjudögum er Mummi með námskeið í Söðulsholti.
Hér á eftir koma nokkrar myndir sem teknar voru þegar hann var með sýnikennslu þar.
Það voru einbeittir nemendur sem þar voru saman komnir og greinilega eitthvað alvarlegt að gerast.
................og þessi voru ekki síður einbeitt á svip.
Þarna er góður hópur á hliðarlínunni.
Kennsla er hafin í knapamerki 1 og 4 svo eru að sjálfsögðu stakir tímar og einkatímar í boði líka. Um að gera að drífa sig nú eða bætast í hópinn þegar fólki hentar.
Hringgerði eru til margra hluta nytsamleg eins og sést á þessari mynd :)
Öll aðstaða í Söðulsholti er frábær og þarna er Einar bóndi að spjalla við mannskapinn yfir kaffibolla og kleinum.
Alltaf gaman að koma í Söðulsholt.
Þeir sem vilja smella sér í reiðtíma geta haft samband við Mumma í síma eða á netfangið hans.
10.11.2013 20:52
Örfréttir
Þegar það er slydda og slagveður er gott að rifja upp eitthvað sumarlegt og láta sig dreyma.
Það sumarlega er náttúrulega hestaferð en kannske ekki í snjó eins og þessi sem við eru í þegar þessi mynd er tekin. En veðrið var gott og ferðin skemmtilega þó ekki væri ágúst með grænu grasi og sumarblíðu.
Sá sem úthlutar okkur veðri var örugglega með sérstakt þema í dag........svona allt í boði þema. Fyrst var það haustblíða, svo kom snjófjúk, bætti í vindinn sem varð að roki og slyddu. Loks var það rok og rigning og núna er rok og svolítið kalt en ekki frost. Grófleg samantekt í fáum orðum, blíða, logn, gjóla,strekkingur, rok, snjór, rigning, slydda.
Þetta var boðið uppá í dag en aldrei lengi í einu. Spurning um nýjan veðurstjóra ?????
Hér í Hlíðinni er búið að klippa vel á fjórða hundraðið af kindum og eftir veðrinu að dæma er líklegt að útgöngubann kinda gangi í garð á morgunn.
Þessir voru hressir og búralegir einn morguninn í síðustu viku Sveinbjörn og Ásberg Hraunholtabóndi. Vinur þeirra sem er með þeim á myndinni er hinsvegar ekki eins vel fyrirkallaður. Kannski hefur hann eitthvað misjafnt á samviskunni sem snýr að lélegum heimtum bænda hér á svæðinu? En sú samviska er þá farin með honum á vit feðra sinna.
Ófeigur að teyma Freyju, nú eða öfugt.
Freyja er að verða liðtæk við smalamennskurnar og fær óspart að æfa sig þessa dagana þegar
kindurnar eru hýstar flesta daga. Áhuginn er mikill og framfarirnar ásættanlegar, ef að hún væri mennskur smali væri full ástæða til að hæla henni. Hún fer gáfulega að kindum, lítið ofvirk, lætur þær hlýða sér og hefur heyrn á við heilbrigðan karlmann.
Þessi hefðarhundur er hinsvegar með allt á hreinu brosir og hlær alla daga og er gædd mörgum góðum kostum. Gallarnir eru helst þeir að liggja ekki á skoðunum sínum né fara lágt með það sem efst er á baugi hverju sinni. Kemur henni stundum í koll en hvað er ekki hægt að fyrirgefa þegar maður sér þetta brosandi andlit með gleði og geislandi augum ????
Hún er alltaf tilbúin að aðstoða jafnvel við fleira en gott þykir þegar kemur að smalamennskum.
Og það síðasta en ekki það sísta
Málglöð í meira lagi................eins gott að ég er búin að gleyma......... ,,fé er jafnan fóstra líkt"
Natascha okkar fékk góða gesti um daginn þegar foreldrar hennar komu í heimsókn hingað.
Þessi mynd var tekin við það tækifæri og auðvita fékk Salómon að vera með vinkonu sinni á myndinni.