Færslur: 2010 Desember

31.12.2010 18:41

Gleðilegt nýtt árKæru lesendur og vinir.
Við hér í Hlíðinni sendum ykkur óskir um gleðilegt nýtt ár með farsæld og friði.
Kærar þakkir fyrir það liðna ,,sjáumst,, heil á nýju ári.

29.12.2010 23:30

Sauðfé og fréttirÞarna er Kjartan bóndi á Dunki með kynbótahrútinn Dunk frá Dunki.

Ég átti alveg eftir að segja ykkur frá öllum hrútakaupunum sem að ég fór í núna í haust.
Þessi flotti kappi er eðalblanda úr ræktun þeirra Kjartans og Guðrúnar, hann stigaðist mjög vel í haust og er núna önnum kafinn við að bæta kollóttastofninn hér í Hlíðinni.
Ein góð kvöldstund fór líka í kynbótapælingar á jötubandinu á Bíldhóli. Afraksturinn varð tveir kollóttir hrútar og ein svartgolsótt gimbur. Hrútarnir eru mjög ólíkir og verður gaman að sjá hvor á eftir að standa sig betur í kynbótunum. Þeir hlutu nöfnin Bíldhóll og Músi. Síðan er það sú golsótta sem fékk frábæran dóm og í beinu framhaldi nefnd Ofurgolsa.
Mikilvægt skref var stigið í sauðfjárræktinni hér í gær (sko að mínu mati) þegar að forustukindin á bænum brá sér suður á Mýrar á stefnumót. Fora heitir kindin og er mikil gæðagripur af forustukind að vera spök og skemmtileg en afar létt á fæti þegar það á við.
Af gefnu tilefni þá fer hún ekki útaf landareigninni nema á bíl svo að það getur enginn nema smalar á mínum vegum kvartað yfir henni og það mundi þeim aldrei detta í hug.
Gripurinn sem að hún fór að hitta er af eðal forustukyni og því væntingarnar miklar og að sjálfsögðu er draumurinn að fá gimbrar.
Já sauðfjárræktin er skemmtileg og alveg hægt að drepa tímann með henni eins og hrossaræktinni.

Í dag var drauma vetrarveður hestamannsins, snjóföl, logn og blíða með frábæru færi.
Enda var dagurinn vel nýttur og varð þar af leiðandi ansi langur en svona er það þegar mikið er gaman.
Fyrirmyndarhestar dagsins urðu bara nokkuð margir og því erfitt að gera uppá milli.
Á morgun þarf svo að smella nokkrum örmerkjum í gripi og halda áfram að klippa kviði (bumbur) og raka undan faxi.

Á morgun er líka sýnikennsla á vegum Félags tamningamanna með Sigurbirni Báraðrsyni knapa ársins.
Sýnikennslan fer fram í Gustshöllinni Kópavogi og hefst kl 20.00 allir velkomnir.
Aðgangseyri er stillt í hóf og er kr 1000,- en skuldlausir FT félagar fá frían aðgang.

26.12.2010 23:07

Góð jól


Gleðilega hátíð kæru vinir, vonandi hafið þið haft það eins gott og við hér í Hlíðinni um jólin.
Já þau hafa verið hreint yndisleg með afslöppun og notalegheitum sem voru orðin kærkomin eftir mikið at og stúss síðustu vikurnar.
Takk fyrir allar skemmtilegu jólakveðjurnar svo að maður tali nú ekki um gjafirnar.
Talandi um gjafir já þær voru af ýmsum toga og allar góðar er samt einkar ánægð með hrútadagatalið. Feðgarnir fengu jólagjafir sem eru heldur betur sniðugar en ég þori ekki að segja frá þeim hér á síðunni, svona af einskærri tillitsemi við ykkur.
Jólamyndirnar koma von bráðar inná síðuna flestar eru þær nú af flottri frænku sem að hélt uppi stuðinu fram eftir kvöldi.Já það er ýmislegt sem maður finnur í myndasafninu frá því herrans ári 2010.
Við fórum alveg heilan dag í frí og tókum okkur bíltúr um Borgarfjarðardali á leiðinni heim komum við að Húsafelli  og reyndum styrk okkar á hellunum góðu.Það er skemmst frá því að segja að einn fjölskyldumeðlimur náið gripnum á loft en til að hinir njóti vafans þá er ekki birt mynd af því hér.Þið getið svo bara í eyðurnar........................

Nú er tími hugmynda er varða áramótaheiti, mér persónulega líkar vel að ,,gleyma,, öllu svoleiðis en er samt að hugsa um að strengja eins og eitt um þessi áramót.
Hef bara ekki enn fundið spennandi verkefni sem er þess vert að gera eitthvað með það.
Flestir sem að ég þekki velja eitthvað heilsutengt eins og megrun endalausa hollustu eða eitthvað sem er nærri því víst frá fyrsta degi að þeir geti alls ekki haldið.
Ég lofa því að það er ekkert slíkt í mínum huga. Hef ennþá nokkra daga til að hugsa mig um.

24.12.2010 17:31

Gleðileg jólKæru vinir !

Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með kærum þökkum fyrir það líðna.

Á myndinni er jólakötturinn Salómon svarti að bíða eftir að pakkarnir verið opnaðir.

21.12.2010 23:01

Jólin eru að koma.....Ég var að rifja upp árið í myndasafninu mínu og fann þessar glaðlegu og hressu dömur þar.
Astrid og Króna, Anne og Freyja, Sandra og Folda.

Nú er Astrid farinn til Danmerkur í jólafrí og Anne væntanleg á milli jóla og nýárs, spurning hvenær Sandra kemur aftur ? :)

Bakstri, þrifum og öðrum skemmtileg heitum er skipt bróðurlega á milli ábúenda svo að innan skamms tökum við undir í jólalaginu.........og syngjum ,,nú mega jólin koma fyrir mér,,
Hefðin er sterk og flestar uppskriftir þær sömu og síðast en þó með smá útúr dúrum.
Þrif og gardínuþvottur á sínum stað því hin hefðbundni vorhreingerningartíminn hentar mér afar illa. Á þeim tíma eru hestamót, dómstörf, sauðburður já og bara vorið og þá hemst ekki húsfreyjan inni við.

Á morgun er það svo jólasveinastarfið sem bíður pakkadreifingar með nettu hangikjötsívafi.

18.12.2010 12:26

Sauðfjárrækt og fundir

Það hefur margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast og eins og þið hafið séð ekki verið mikill tími til ritsmíða.
Sauðfjárræktin hefur tekið drjúgan tíma,fundir og að sjálfsögðu jólaundirbúningur sem þó er kominn styttra en æskilegt getur talist.  En er maður ekki alltaf á síðustu stundu hvort eð er?

Hér voru kindur sæddar dagana 15 og 16 desember samtals 55 stykki.
Hrútarnir sem að notaðir voru þetta árið eru: Kveikur frá Hesti, Hukki frá Kjarláksvöllum, Hriflon frá Hriflu, Frosti frá Bjarnastöðum, Borði frá Hesti, Laufi frá Bergsstöðum, Kostur frá Ytri-Skógum, Ás frá Ásgarði, Bogi frá Heydalsá, Bokki frá Dunki og Sómi frá Heydalsá.
Nú stendur yfir mikill vísinda verknaður það er að segja velja samna gripi fyrir heimahrútana sem hafa góðfúslega afþakkað frekari ,,heimilisaðstoð,,
Nánar um það síðar.

Á fimmtudagskvöldið komum við í stjórn Félags tamningamanna saman og skelltum okkur á jólahlaðborð í höfuðborgina.
Skemmtilegt kvöld og mikið spjallað með góðu fólki, aldeilis næg verkefni framundan.
Takk fyrir kvöldið kæru vinir.

Á föstudaginn var svo fundur hjá Fagráði í hrossarækt, langur en góður fundur og mörg málefni rædd. Alltaf nóg um að vera hjá hestamönnum.


12.12.2010 23:46

Skemmtilegur dagurFormaður Félags hrossabænda og fjallkóngur Kristinn Guðnason hlustar á sitt fólk syngja ,,gordjöss,, sönginn góða í afmælisveislunni í dag.

Það var brunað á suðurlandið í dag en Kristinn í Árbæjarhjáleigu fagnaði þar 60 árum.
Eins og við var að búsast var veislan vegleg og dugði ekkert annað en stórt íþróttahús undir mannskapinn. Já hundrað manns á hver 10 ár, ekki amalegur vinahópur það.
Ágúst rektor á Hvanneyri stjórnaði samkomunni og fórst það afar vel eins og við var að búast. Rifjaði hann upp margar skemmtilegar sögur frá samstarfsárum sínum og Kristins sem að allar voru drepfyndnar. Guðni Ágústsson fór á kostum bæði á sinn kostnað og afmælisbarnsins og margir fleiri lögðu sitt af mörkum til að skemmta afmælisbarninu og veislugestum. Svo er alltaf gaman að hitta hestafólk spá og spjalla að sjálfsögðu um hross.
 Já svo sannalega skemmtileg veisla og veitingarnar frábærar.
Takk fyrir skemmtilegan dag.

Ég lít nú öðru hverju á almanakið og tel dagana til jóla er samt enn róleg enda búin að baka slatta af smákökum. Verkefnalistinn er samt á sínum stað...........og fer ekki neitt.

12.12.2010 00:18

Ýmislegt..............Sumarslökun...............

Í dag komu þrjú folöld í hús og er þá öll hersingin komin á vetrarstaðinn sinn.
Þau sem að komu inn í dag voru Gróa Glymsdóttir, Þjóðhátíð Glymsdóttir og Jörp Hlynsdóttir.
Viðja var líka tekin inn og nú hefst alvara lífsins hjá henni enda nokkuð ljóst að hún fer ekki í sjálftekið frí eins og í fyrravetur. Já nú var ekkert djamm og flandur í boði fyrir Viðju.
Hrellir sonur hennar dafnar vel og hefur engar áhyggjur af því að faðernið er ekki alveg á hreinu hjá honum.

Nú fer að styttast í að Mummi, Fannar og Gosi fari norður að Hólum í skólann en hann byrjar 12 janúar.
Til að komast í topp aðstöðu til að æfa sig hafa þeir félagar farið út í Söðulsholt og fengið að nota reiðhöllina til æfinga. Við höfum svo tekið önnur hross með og leikið okkur þar á kvöldin. Bæði við og hrossin hafa haft gagn og gaman af enda er þetta skemmtileg tilbreyting.
Takk kærlega fyrir okkur Söðulsholtsbændur.


07.12.2010 23:39

Of langt gengið ????Stundum hellist yfir mann löngun í eitthvað t.d langar mig oft í súkkulaði en í kvöld var það engin spurning. Mig langaði mest af öllu að fara í hestaferð á Löngufjörur helst strax og í góðu veðri eins og myndin sýnir svo vel.
En sennilega er heppilegast að bíða til vors með þetta og í staðinn bara láta sig dreyma.

Já talandi um drauma, ég hef ekki verið sérstaklega áhugasöm um drauma síðan ég var táningur og það er nú svolítið síðan. Man þó að ef að ráðningin var ekki góð í einni draumráðningabók þá var það bara að fara í þá næstu, svo að maður tali nú ekki um þá þriðju. Algengasta ráðningin var þannig að draumurinn boðaði langlífi,dauða, giftingu eða ríkidæmi. Svo var bara að velja ,,réttu,, bókina miðað við aðstæður.
En í nótt dreymdi mig nágranna mína hinu meginn við fjallgarðinn, þau voru í miklu stússi við að smala kálfum og kindum. Og þar sem að mig dreymir svo sjaldan mátti ég til að segja frá draumnum í morgun. En þar sem að ég á enga draumráðningabók þá bara réð ég hann sjálf og ákvað að þetta boðaði það að eitthvað af fénu mínu kæmi í leitirnar. Kannske var þetta nú frekar óskhyggja en ráðning. En viti menn um hádegið er hringt, fjórar kindur fundnar og það var að sjálfsögðu annar granninn sem að mig dreymdi sem fann þær.
Skemmtileg tilviljun og hver veit nema ég fari að trúa ruglinu mínu eftir þetta.
Ætla samt að sofa rótt í nótt og láta ekki draumana trufla mig.

Jólastússið gengur hægt en örugglega hér á bæ, þó eru gamlar hefðir helst í hávegum og húsfreyjan leiðinlega vanaföst í þessum efnum.
Nú í morgun heyrði ég skemmtilegan pistil um Grýlu gömlu í morgunútvarpinu. Þar komu fram margar hugmyndir um það hvernig Grýla í ,,raunveruleikanum,, liti út. Ég fór að rifja upp hvernig hún hefði verið í mínum huga á yngri árum. Myndin var alveg skýr já það var sko mynd af henni í gömlu Vísnabókinni. Hún var ekki sérlega fríð en það var eitt sem að mér fannst spennandi og jafnvel öfundaði hana af á tímabili. Já hún var með hófa.
Hvað ætli ,,hrossasóttin,, geti gengið langt hjá börnum eins og mér????

05.12.2010 23:23

FT fundurVíkingur deildastjóri hrossaræktardeildar Hólaskóla, Siggi Sæm Skeiðvallabóndi, Kristinn Hugason ráðuneytismaður og hestaskvísurnar Sússanna og Hrafnhildur.
Á föstudaginn var aðalfundur FT fundurinn var haldinn á Kænunni í Hafnarfirði.
Hér eru nokkrar svipmyndir frá fundinum en fleiri myndir koma í albúmið fljóttlega.Þjóðólfshagabóndinn var í góðu sambandi og er einbeittur á svipinn hér.Stund milli stríða, hér er starfsmaðurinn okkar og hægri hönd Hulda Guðfinna Geirsdóttir að gæða sér á veitingunum hjá Jonna Kænukokki.

Fleiri myndir síðar og fréttir á heimasíðu FT sem er tengill hér á síðunni.


02.12.2010 22:51

FT fundur og fleira

Það var fallegt vetrar veður hér í Hlíðinni í dag, örlítið frost, logn og sólin skein í fjöllin.
Já nú sést ekki sólin aftur hér fyrr en 14 jánúar og þá verða sko bakaðar pönnukökur að gömlum sið.
Svo er orðið svo jólalegt þegar við horfum uppí gamla hús, seríur og ljós í öllum gluggum.
Mér sýnist að ég sé nú þegar búin að tapa í fyrirhuguðu stjörnustríði.

Aðalfundur Félags tamningamanna er á morgun og verður haldinn á Kænunni í Hafnarfirði og hefst kl 18.oo
Auk venjulegra aðalfundastarfa mun Víkingur Gunnarsson deildarstjóri hrossaræktardeildar Hólaskóla kynna nýtt BS nám við skólann.
Kvöldverður í boði félagsins, vonandi sjá sér sem flestir fært að mæta og taka þátt í starfinu.

Nákvæmar hestafréttir bíða betri tíma en nú er heldur betur að lifna yfir hesthúsinu.
Ég held að besti hesturinn í dag hafi verið uppáhalds hesturinn minn.......................allavega sá næst besti.

  • 1