Færslur: 2012 Janúar

26.01.2012 21:36

Ræktun..........



Bara ein setning um veðrið....................það varð ekki næstum eins slæmt og veðurfræðingarnir spáðu svo það er ekki einu sinni ófært hingað til okkar í Hlíðinni.

Ég átti örugglega eftir að segja ykkur undan hverju folöldin sem væntanlega fæðast hér í vor eru. Það er kannske glannalegt að tala um það sem ófætt er en ég læt vaða hér með.

Létt fór undir Frakk frá Langholti.
Karún fór undir Spuna frá Vestukoti.
Kolskör fór undir Arð frá Brautarholti.
Skúta fór undir hann Sparisjóð minn.
Rák fór undir Dyn frá Hvammi.
Dimma fór undir Loga frá Ármóti.
Upplyfting undir Gosa frá Lambastöðum.

Undan þessum hryssum öllum nema Rák eru núna tryppi á fjórða vetur sem flest eru komin inn til tamningar.

Léttlindur undan Létt og Hróðri frá Refsstöðum.
Jarpur undan Karúnu og Glotta frá Sveinatungu.
Blástur undan Kolskör og Gusti frá Hóli.
Snekkja undan Skútu og Glotta frá Sveinatungu.
Sigling undan Dimmu og Sólon frá Skáney.
Lyfting undan Upplyftingu og Gosa frá Lambastöðum.

Fimm af þessum hryssum eru núna með folöld sem eru undan eftirfarandi hestum.

Létt er með Léttstíg sem er undan Sporði frá Bergi.
Karún er með Lífeyrissjóð sem er undan Alvari frá Brautarholti.
Kolskör missti undan Arði frá Brautarholti.
Skúta er með Fleytu sem er undan Stíganda frá Stóra-Hofi.
Dimma er með Stekkjaborg sem er undan Hlyn frá Lambastöðum.
Rák er með Fjarka undan Þristi frá Feti.


Svo komu nokkrar hryssur tómar frá stóðhestum sumarið 2011 og undir nokkra fáum við að koma aftur.
Já það er alltaf gaman að spá og spekulegra í þessum málum.

Fyrirmyndarhestar dagsins...............já já ég ætla bara að hafa það fyrir mig núna en ég er ánægð með MINN.

23.01.2012 23:09

Meira fé meira fé meira fé



Fegurðin á fjöllum á þessum árstíma er fyrir löngu orðin þekkt í það minnsta hjá þeim sem kunna að meta kyrrð og ró.

Í dag fóru vaskir sveinar héðan úr sveitinni inní Stóra-Langadal til að kanna hvort einhverjar eftirlegukindur væri þar að finna. Kapparnir fóru á snjósleðum, fjórhjólum og bílum. Ferðin var svo sannarlega ekki til einskis því þeir náðu þar sex kindum. Á leiðinni heim brunuðu svo Mummi og Ásberg í Hraunholtum sem að báðir voru á snjósleðum um fjöllin og fundu fjórar kindur í viðbót á Sátudalnum. Við hér í Hlíðinni áttum eina veturgamla kind í hópnum þannig að nú höfum við heimt lamb og rollu sitthvorn daginn.
Ekki væri nú slæmt að heimta hrút á morgun...........fyrst þetta er nú komið í gang.
Það er góð tilfinning nú þegar spáð er vitlausu veðri að tíu kindur séu komnar á hús í dag.



Sátan hefur nú stundum verið hlýlegri þegar ég hef riðið yfir Flatirnar á sumrin en falleg var hún engu að síður í dag. Þau eru ekki mörg stráin sem að uppúr hafa staðið fyrir kindurnar að bíta við Sátuna en hópurinn leit bara vel m.v árstíma og aðstæður.



Stóri-Langidalurinn var ansi hvítur þó svo að þar sé nú yfirleitt beit fyrir nokkra svanga munna.



Þarna er svo Hraunholtabóndinn Ásberg sem var ferðafélagi ljósmyndarans í dag.

22.01.2012 13:35

007 smá Bond



Ekki veitir nú af góðviðrismyndum þessa dagana.......svo ég smellti hér inn einni slíkri.

Það er nú ýmislegt sem að ég hef haft fyrir stafni síðan ég skrifað síðast hér inná síðuna.

Og vitið þið hvað ??? Nú er ég orðin Bondína eða svona næstum því eftir að við skelltum okkur á Bond tónleika sem fram fóru í Hörpunni. Mjög skemmtilegir tónleikar með frábærum listamönnum og aðal erindið að skoða húsið Hörpuna.
Ég hef ekki vit á húsum hvað þá tónlistarhúsum en ef að Harpan væri hesthús þá finndist mér plássið illa nýtt.
Þetta var góð ferð og alveg þess virði að hlusta á frábæra tónleika og sjá Hörpuna.

Um helgina var Mummi með frumtamninganámskeið í Grundarfirði, hann kom heim í kvöld ánægður með hestakost og nemendur. Alltaf gaman að koma í Grundarfjörðinn.

Hér var gott veður í dag þó svo það gengi á með éljum og færðin ekki svo slæm m.v síðustu vikurnar. Útigangurinn var grandskoðaður og þá sérstaklega folöldin og hryssurnar.
Allt var í stakasta lagi og ekki annað að sjá en hrossin hefðu það virkilega gott með hey og steinefnaföturnar sívinsælu.

Enn fjölgar í fjárstofninum því í kvöld fengum við símtal um að við ættum lamb suður í Borgarhreppi. Spennandi að vita hvað er þar á ferðinni og ekki slæmt þegar fleira fé skilar sér af fjalli.

Handbolti já það er eins gott að ég skrifaði ekkert á föstudaginn en í dag var ég sátt og verð það vonandi líka bæði á þriðjudaginn og miðvikudaginn..........

                                                                 

18.01.2012 22:02

Af andlegu uppnámi og ýmsu öðru



Colgate hvað ????

Ég er í andlegu uppnámi eða var það allavega fyrir ekki svo löngu síðan, það er ekkert grín fyrir ráðsetta húsfreyju að horfa á handbolta. Leikurinn í kvöld var rosalegur og eins gott að uppáhalds norska vinkona mín hún Randi var ekki með mér í sófanum, ég sagði svo margt ljótt áður en sigurinn var í höfn.
Já það er alltaf fjör hér á bæ þegar handbolti er í sjónvarpinu, dómarnir vitlausir ef að við erum að tapa en frábærir þegar betur gengur. Það er ekki bara í hestamennsku sem að dómararnir eru misvitrir og óviðráðnlegir þegar maður er í stúkunni eða brekkunni.
Svona fyrir ykkur sem að ekki hafið verið eða reynt að vera gestkomandi hér þegar spennandi leikur er í sjónvarpinu þá er hér lýsing sem að getur átt við..........
Poppið flaug út um allt gólf, Salómon yfirköttur flúði í bílskúrinn og hundarnir fóru að gellta því þeim fannst þessi óp líkjast smalahljóðum.
Enginn reynir að hringja nema einu sinni.....á meðan leikur stendur yfir.
Og svo heldur fjörið bara áfram á næstunni og rólegheitin hjá okkur hér í Hlíðinni......

Í gær brunaði ég á fund með mótsstjórn Landsmóts 2012 þar sem staða mála varðandi mótið var rædd. Ágætis fundur og vitið þið hvað rétt rúmir fimm mánuðir í landsmót.....
Þetta verður bara skemmtilegt og örugglega frábær gæðingaveisla eins og á LM s.l sumar.

Það hefur verið gott reiðfæri að undanförnu og ýmislegt sem að ég ætti nú að fara að mynda, svona til að gefa ykkur einhverja hugmynd um það hvað er að frétta.
Fyrirmyndar hestar dagsins...........uuuu......Glottadóttir, Hrymsdóttir og Gosadóttir eins og þið sjáið eiga þessar elskur bara feður og engin nöfn......svona snemma vetrar:)


16.01.2012 08:51

Annasöm helgi og þreytandi netsamband

Annasöm helgi er að baki, útilegukindurnar komnar heim og veðrið búið að vera með skárstamóti til útreiða og annara útiverka.
Núna er færðin orðin góð til okkar og verður það vonandi eitthvað áfram.

Á laugardaginn skruppum við í heimsókn uppað Stað en þar var opið hús hjá nýjum eigendum. Sýnikennslur og frábærar mótttökur enda mætti fjöldinn allur af fólki.
Bara gaman þegar líf er að færast yfir hestamennskuna þrátt fyrir erfitt verðurlag að undanförnu.

Laugardagurinn var líka sá dagur sem við hefðum átt að sjá til sólar en svo varð nú ekki.
Þrátt fyrir það bakaði ég sólarpönnukökur og lét eins og glaðasólskin væri, hvað annað?

Það var svo í gær sem að ég fékk góða gesti og kannske fáið þið að sjá afraksturinn af þeirri heimsókn innan tíðar.



12.01.2012 21:54

Brjóst, snjór og fundið fé.................

Nei nei það er allt í lagi að lesa lengra þetta er ekkert dónalegt............

Ég er búin að hlusta á ca átta fréttatíma í dag og að auki horfa á einn góðan þátt af heimildamyndinni Aðþrengdum eiginkonum. Það var því ekki útí loftið sem að ég tuldraði fyrirsögnina upphátt um leið og ég rölti inní herbergi til að setjast við skriftir. Útundan mér sá ég skelfingarsvip húsbóndans sem hafði greinilega illar bifur á því hvað kæmi á eftir fyrirsögninni.
En það er engu logið um það að þessi málefni hafa vinninginn í fréttum landans þessa vikuna.

Sennilega munu margir velta fyrir sér ,,brjóstgæðum,, á næstunni og varla hverfur snjórinn alveg í bráð.

En þá að lið númer þrjú..................fundið fé.
Það gleður alltaf aumt hjarta sauðfjárbóndans (rollukellingar) þegar fé finnst sem ekki var komið af fjalli. Og ekki var það nú verra þegar gripirnir voru einmitt þeir sem sárt var saknað svona m.v ræktunarvonir. Já tvær rollur og tvö lömb komu í leitirnar handan við fjallið í dag, hef ekki enn fengið fullnægjandi fréttir aðrar en þær hvaða gripir þetta eru.
Kannske smelli ég myndum þegar gripirnir koma í hús hér heima í Hlíðinni.
Lengi er von á einum..................hvað þá fjórum.

Það var dásamleg blíða hér í dag sem var vel notuð af flestum og fjöldi hrossa fékk að reyna frábært færi. En á morgun verður vafalaust komin rigning sem æskilegt væri að bræddi hálkuna sem er hér á veginum. Væri þakklát fyrir að fá annað hvort kannt eða miðju fyrir bílinn til að ,,halda,, sér í þegar brunað er um afleggjarann.

09.01.2012 22:15

Gleðilegt ár 2012



Þar sem við vorum frekar léleg að taka myndir þessi jólin þá er hér ein gömul og góð sem tekin er á seinni hluta síðustu aldar. Eins og sjá má eru kræsingar á borðum og allir í sínu fínasta pússi. F.v ,,húsfreyjan,, þarna með næstum því ljósarkrullur, amma Hrafnhildur, Halldís Bíldhólsfrú, Dúna Hrauntúnsfrú og Sveinbjörn velhærður og dökkur.
Já það finnst mikill fjársjóður í gömlu myndunum.

En......... kæru vinir við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegs árs farsældar og friðar á nýju ári með kæru þakklæti fyrir heimsóknirnar hingað á síðuna.
Vonandi eigum við eftir að eiga ánægjulega samleið á því herrans ári 2012.

Eins og þið hafið tekið eftir þá hef ég ekki verið dugleg að setja inn fréttir síðustu dagana, það á sér skýringar sem að ég tel best að vera ekki að tíunda hér enda er það heilög stefna hjá mér að geðvonskast í algjöru lágmarki hér á síðunni.
Ég hef sem sagt verið að mestu netlaus síðustu tíu dagana og ef að netið hefur komið inn þá hefur það stoppað stutt og verið hægfara.
Netsambandið hjá Hringiðu er dæmi um það hvernig starfskraft þú vill ekki hafa í vinnu.

Við þurftum ekki að þola mikið fjölmiðlaáreiti um áramótin en þá vorum við útvarpslaus, sjónvarpslaus, símalaus já og alveg vitlaus....................eins og hrossin okkar sem að hata flugelda.
Já það er ekkert grín að búa undir háum hömrum í þröngum dal þegar áramótaskothríðin dynur yfir. En allir lifðu þetta af bæði menn og hestar sem er fyrir mestu þó svo að geðslag húsfreyjunnar hafi hrunið í ca 6.0 um stundarsakir.

Já talandi um tölur þá hef ég verið að horfa á myndir frá landsmótinu og hugsa mikið um dóma og einkunnir. Sumt sem fyrir augun ber á þessum diskum staðfestir það sem maður taldi sig sjá á mótinu en annað veldur vonbrigðum já bara nokkuð miklum vonbrigðum.
Meira hvað það er alltaf gaman að spekulegra í hrossum, hvenær ætli það eldist af mér ???

Nú er allt komið á fulla siglingu í hesthúsinu eftir örlitla slökun um hátíðirnar og hvert pláss að verða fullsetið. Óveðursdagar fóru í tannröspun, járningar og snyrtingar auk þess sem að inniaðstaðan var fullnýtt.
Folaldasýningunni sem að vera átti í Söðulsholti um næstu helgi hefur verið frestað fram í febrúar enda eins gott þar sem veður og færð hefur verið hundleiðinlegt.

Vonandi verður netsambandið betra á næstunni svo að ég geti smellt hér inn nýjum fréttum.

  • 1