Færslur: 2011 Júlí

31.07.2011 18:47

Hundalíf



Þarna eru vinirnir Ófeigur og Freyja tilbúin í leikinn góða ,,bandvitlaus,,
Eins og tryggir blogglesarar taka eftir er Freyja litla glænýr hundur hér í Hlíðinni, ættartala og sagan um hana kemur seinna.



Og þá hefst leikurinn sem á köflum verður strembinn og hættulegur...............



Þó koma ljúfir kaflar þar sem að leikurinn er nokkuð jafn.



,,Ófeigur nú verðum við að mæla rétt svo að þú hafir ekki lengri endann...........og svindlir,,



...........hahaha ég held að ég hafi leikið á Ófeig, sjáið þið ekki að ég er að teyma hann.




........O nú komst hann að því að ég var alveg að vinna.............vá hvað þú ert þungur Ófeigur.



En ég náði völdum aftur............iss sjáið hvað Ófeigur er aumur........smellti honum bak við þúfu og sigraði hann.............eða ekki.



En Ófeigur gefst aldrei upp.............sjáið þið úlfssvipinn á honum ??? Svolítið hættulegur.....



............ég skal ekki tapa fyrir þessum lúða.................ætlið þið ekkert að hjálpa mér ???



Já já alvöru harka að færast í leikinn.............enginn auka spotti leyfður hér.............litla freka Freyja.



Ófeigur við erum samt vinir er það ekki ????

31.07.2011 11:28

Lífleg vika



Augnablik......................

Þetta er dæmigerð mynd fyrir andrúmsloft síðustu viku.
Þarna eru Mummi og ein grá og góð í léttum dansi.

Já það var líflegt hér í vikunni og mikil umferð bæði manna og hesta hér um slóðir.
Nágrannar okkar hjá Hestamiðstöðin Söðulsholti komu hér ríðandi með stóran hóp, Grundfirðingar með sunnlennsku ívafi komu hér við, góðir gestir frá Þýskalandi í verslunarhugleiðingum, hópur af norðurlandinun og margir fleiri. Að ógleymdum hryssueigendum sem komið hafa með hryssur eða sótt hryssur hingað til okkar.
Góðir grannar komu svo ríðandi í gær og fengu smá fylgd úr hlaði að gömlum og góðum sið.
Nokkur tamningahross hafa farið heim og önnur komið í þeirra stað. Það er alltaf gaman að temja og kynnast hrossum undan nýjum stóðhestum sérstaklega er það skemmtilegt þegar við þekkju til hrossanna í gegnum móðurina. Kannske tamið hana eða eitthvað undan henni áður. Í vikunni var að fara heim hryssa undan Markúsi frá Langholtsparti sem var fyrsta Markúsarafkvæmið sem að við höfum tamið hér heima. Mummi var með fola undan honum í tamningaprófinu á öðru árinu á Hólum, það var flottur foli sem gekk mjög vel með.
Hryssan er bráðefnileg sérstaklega er ganglagið frábært, mjúk, hreingengi og flugrúm.
Nú er hryssan farin heim í frí þar sem að hún bætir við líkamlegum vexti og sinnir ,,bóklega,, þætti tamningarinnar.
Fyrsta afkvæmið sem að við temjum undan Aðli frá Nýja-Bæ er skemmtileg hryssa sem lofar góðu. Alltaf svo gaman að spá í ættir og uppruna þeirra hrossa sem hingað koma.

29.07.2011 11:18

Skjónufélagið..........já sæll



Stofnfundur hins háæruverðuga Skjónufélags var haldinn hér í Hlíðinni þann 26 júlí 2011.
Engin stjórn var kjörin, algert þingræði !
Samþykkt að enginn fái inngöngu nema annar falli frá.
Stofngripurinn Zebra Skjóni kynntur og verður hann afhentur þeim félagsmanni sem á hæst dæmda skjótta hross ársins á hverju ári.
Niðurlag fundargerðar ,, neyttum matar og drykkjar í óhófi, hlógum okkur til óbóta,,

Á myndinni getið þið séð hvernig át, drykkja og hlátursköst geta útleikið annars gullfallegt fólk. Á næsta fundi verða myndatökur aðeins leyfðar í upphafi fundar ekki í lok samkvæmis eins og þarna.

Fyrir ykkur sem að þekkið ekki fólkið á myndinni..................

F.v aftari röð, Hulda Guðfinna framkvæmdastjóri okkar hestamanna FHRB. FT. Þristsfélagsins, Skjónufélagsins og verðandi meðlimur ferðafélagsins ,,Beint af augunn,,
.............og dæmir á heimsmeistaramótinu í Austurríki að sjálfsögðu í anda Skjónufélagsins.
Jón Ólafur, Kænumeistarakokkur, hestaíþróttadómari  með meiru og það mikilvægasta sambýliskraftur Erlu Guðnýjar.
Erla Guðný landsþekkt húsmóðir úr Garðabænum, uppáhalds verknámsneminn okkar frá Hólaskóla og aðalfulltrúi okkar Skjónufélagsfélaga í keppnisbrautinni á LM 2011.
Skúli bóndi, yfirskúrari, súpukokkur (Dísu) og nýórðinn skjónueigandi.
Mummi formaður útgerðarfélagsins Skútan ehf og væntanlegur skjónueigandi, er um þessar mundir ,,Skjónufélags starfsmaður í þjálfun,, og temur skjótta hryssu fyrir húsfreyjuna.

F.v neðri röð, Oddrún Ýr sérlegi LH fulltrúinn okkar og  næstum því verknámsneminn okkar, dæmdi í anda Skjónufélagsins á LM 2011.
Næst í röðinni er ,,hlátursútgrátin,, húsfreyjan með stofngripinn Zebra Skjóna.
Þórdís Anna væntanlegur sendiherra Skjónufélagsins í Þýskalandi, FT dugnaðarforkur, LH skvísa og bara uppáhalds Dísan okkar allra í Hlíðinni.
Astrid fyrrverandi Hvanneyrarskvísa, væntanleg Hólaskvísa og mikilvægur tengiliður okkar við konunglegt Danaveldi.



Glæsigripurinn Zebra Skjóni sem án efa verður mjög eftirsóttur á næstu árum.

Þar sem að félaginu hafa borist fjöldinn allur af umsóknum um aðild sem er ekki í boði að svo stöddu skal á það bent að leyfilegt er að stofna aldáendaklúbb..................Skjónufélagsins.
Æskilegt er að klúbburinn hafi fulltrúa frá sem flestum landshlutum.........

Myndasirpa frá fundinum mun birtast hér á síðunni um leið og húsfreyjunni gefst næði til að setja þær inn og eftir að þær hafa verið ritskoðaðar í smásjá félagsins.

 

25.07.2011 22:52

Á morgun er skjóttur dagur



Á morgun verður  stofnfundur Skjónufélagsins haldinn við hátíðlega athöfn hér í Hlíðinni.
Af því tilefni er skjótt myndaþema með blogginu í dag......................þarna er yfirgrillarinn á Fáséð minni.
Já það verður gaman að hitta Skjótta liðið og gera eitthvað skemmtilegt..........kannske verða myndatökur leyfðar..................og myndir birtar síðar.



Þessi er alveg........................Auðséð frá Hallkelsstaðahlíð.

Í dag var brunað með hryssur á heimaslóðir sem að höfðu verið hér í ýmsum erindagjöðum.

Nokkrar voru hér í heimsókn hjá stóðhestum aðrar í tamningu og sumar í hestaferðinni góðu. Nú fer að styttast í sónarskoðun hjá nokkru hryssum sem að hafa farið af bæ undir stóðhesta og nú er bara að bíða með tilheyrandi spenningi eftir útkomunni þar.
Skyldi vera gæðingur á leiðinni undan Dyn frá Hvammi, Ugga frá Bergi, Spuna frá Vestukoti ????  Kemur í ljós.................bara búið að staðfesta fyl í Kolskör undan Arði frá Brautarholti.

 

24.07.2011 23:29

Góður dagur



Þessar dömur voru forvitnar þegar ég hitti þær í fjallinu fyrir stuttu............
Sú jarpa er Randi frá Hallkelsstaðahlíð en hin er Krakaborg frá Hallkelsstaðahlíð.



Krakaborg er undan Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi.



Randi er undan Soldán frá Skáney og Snör frá Hallkelsstaðahlíð, hér eru æfingar í gangi sem auka örugglega gangfimi og lipurð.

Í gær riðum við með gestunum okkar frá Stakkhamri að Hömluholti, ferðin gekk vel og fjaran var frábær. Mig er strax farið að hlakka til þegar við förum aftur á fjörurnar innan skamms.
Annars gekk nú á ýmsu áður en við fórum af stað að heiman í gær. Gönguhópur einn af mörgum lagði á fjöllin frá okkur um hádegisbilið. Um miðjan daginn birtist svo lögreglan og sjúkrabíll hér á hlaðinu. Kom þá í ljós að einn af göngugörpunum hafði fengið brjóstverk og þurfti á hjálp að halda. Var því rokið af stað til fjalla á jeppum og fjórhjóli sem að flutti læknir og lögreglu til sjúklingsins. Aðstæður voru þannig að ákveðið var að kalla til þyrlu sem að kom eftir ótrúlega stuttan tíma og lenti á svokölluðum lærri bekk í Rögnumúla.
Var sjúklingurinn fluttur suður og er vonandi á batavegi.

Það var gestkvæmt í Hlíðinni um helgina og ansi líflegt hestar og hryssur komu og fóru.
Hestaferða og gönguhópar fóru hjá og margt fleira skemmtilegt í gangi.

Nú er bara að fara undirbúa Skjónufélagshittinginn sem verður hér á þriðjudaginn.........

23.07.2011 11:23

Fjörurnar og Rómeó - Júlía.



Fjörurnar er alltaf jafn skemmtilegar og ekki er nú verra að fá blíðu af bestu gerð þegar þær eru riðnar. Í gær riðum við frá Tröðum að Stakkhamri með góðum erlendum gestum.
Síðan er stefnan tekin á meiri fjörureið í dag frá Stakkhamri að Hömluholti.
Aðla fjöruferðinn okkar er svo eftir og verður væntanlega farin um miðjan ágúst með rekstri og fjöri. Hver vill þá vera með ???


Nú hefur Mummi tekið ákvörðun um undir hvaða stóðhest Skúta skuli fara þetta árið.
Ég er nú svolítið ánægð með ákvörðunina fyrir hönd þess útvalda sem er Sparisjóðurinn minn. Skúta er uppáhaldið hans Mumma svo að greinilegt er að hann metur Sjóðinn minn mikils. Svo er bara að bíða og sjá hvað út úr þessu kemur.

Rómeó og Júlía.....................nei, nei Skúta og Sparisjóður.......................



Júlía...........Skúta..........



Rómeó...................Sparisjóður...............



...............er alveg að koma.....................



..................og nú eru frekari myndatökur bannaðar.........næsti þáttur í óperunni.

20.07.2011 14:52

Flotta Fleytan ,,flýtur,, á tölti.



Fleyta frá Hallkelsstaðahlíð, móðir Skúta frá Hallkelsstaðahlíð, faðir Stígandi frá Stóra-Hofi.




Eins gott að hafa skrefin stór svo að mamma fari ekki á undan mér..................



Og drífa sig....................



Já, já svolítið reffileg líka...............



Úff það er heitt.................



Og lyfta svolítið líka.............




Mamma............er þetta ekki að verða gott hjá okkur ?????

19.07.2011 13:26

Hlíðin mín fríða og ýmislegt fleira.



Hlíð frá Hallkelsstaðahlíð fædd árið 2007.
Faðir Glymur frá Innri- Skeljabrekku og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð.

Það kom rigning hér í gær sem að klárlega er aðal frétt vikunnar enda sama og ekkert rignt í margar vikur. Grasið lifnaði, brúnin léttist á bændunum og meira að segja fiskarnir tóku stökk í vatninu. Svo er bara að vona að einhver meðalvegur sé til í úrkomustjórnun og að það rigni ekki stanslaust fram á haust. Við erum ekkert farin að heyja en óðum fer nú að styttast í það.


Skúta hans Mumma kastaði þann 16 júlí s.l  merfolaldi undan Stíganda frá Stóra- Hofi. Hryssan hefur hlotið nafnið Fleyta og bætist það með í ,,bátaflotann,, hjá kappanum.
Mummi hefur ákveðið undir hvaða stóðhest Skútan á að fara en nánar um það síðar.

Á föstudaginn var brunað vestur á Þingeyri við Dýrafjörð til að dæma gæðingamót hjá Hestamannafélaginu Stormi. Þetta var glæsilegt afmælismót hjá þeim og margir góðir hestar.
Mér eru afar minnistæðir synir Óðs frá Brún sem að voru mjög áberandi á þessu móti flestir aðeins 5 vetra gamlir. Ræktandi þessara fola er Árni bóndi á Laugabóli við Arnarfjörð.
Aðstaðan hjá þeim Stormsmönnum er hreint frábær ný reiðhöll, góður völlur og flottar útreiðaleiðir. Það var mjög gaman að koma á þetta mót og ekki sveik nú blíðan á vestfjörðunum frekar en fyrri daginn þegar ég er þar á ferðinni.
Innilega til hamingju með afmælið Stormarar og takk fyrir góðar móttökur.

Mikil umferð hesta og gönguhópa hefur verið hér um uppá síðkastið og þó nokkuð af veiðimönnum sem að hafa bara verið kátir með aflann. Sjá gestabók hér á síðunni.

Ég er ekki búin að gleyma hvað ég ætlaði að koma inn upplýsingum um mörg söluhross á næstunni og er svo sannarlega að reyna að standa mig.

15.07.2011 09:11

Kátur kátur og góð veiði í Hlíðarvatni í Hnappadal.



Það er blíða í Hlíðinni sem að allir kunna að meta...............nema kannski grasið.



.............hann Kátur er að minnsta kosti kátur og hamdist varla inná mynd hjá mér.

Kátur er tveggja vetra sonur hennar Karúnar frá Hallkelsstaðahlíð og Auðs frá Lundum.

Karún fór þann 13 júlí í Sandhólaferju undir gæðinginn hann Spuna frá Vestukoti svo nú er bara að bíða og vona að úr því verði eitthvað skemmtilegt.

Eins og áður sagði er blíða og tilvalið veður til útilegu, veiðin hér í Hlíðarvatni hefur verið góð og nokkrir stórir og flottir fiskar voru færðir hér á land í vikunni.
Tjaldstæðin eru klár svo að við hlökkum til að sjá ykkur.

11.07.2011 14:33

Ný sölurhoss næstu daga



Þetta er hann Léttfeti frá Hallkelsstaðahlíð á fögru sumar kvöldi, nánari upplýsingar um hann og nokkra vini hans eru undir ,,söluhross,, hér á síðunni.

Nú höfum við sett nýjar myndir og upplýsingar um hesta til sölu hér á síðuna, markmiðið er að eftir viku verði komnar myndir og upplýsingar um a.m.k 10 ný söluhross.
Nú verð ég að standa mig fyrst ég sagði ykkur frá markmiðinu.

Mörg af þessum hrossum eru á góðum kjörum og hvet ég ykkur eindregið til að hafa samband og gera tilboð. Sérstakur afsláttur er í boði ef að góðar vísur fylgja tilboðunum.
Við höfum til sölu hross á öllum aldri allt frá ráðsettum reiðhestum niður í folöld fædd 2011.
Eins hvet ég ykkur til að skoða hrossin okkar á www.worldfengur.com  þá setjið þið Hallkelsstaðahlíð í reitinn ,,frá,, sem að kemur á eftir nafni og þá fáið þið upp allan nafnalistann.

Endilega hafið samband ef að nánari upplýsinga er þörf nú eða bara lítið við og heilsið uppá okkur.

09.07.2011 23:30

Dagurinn í dag.



Þarna er Stoltur frá Hallkelsstaðahlíð sonur Tignar minnar frá Meðalfelli og Alvars frá Brautarholti.
Hann er bleikálóttur eins og bróðir hans Fannar Gustsson og munaði mjóu að nafnið Fannar junior festist við hann.
Stoltur er fyrirmyndar fyrirsæta og leggur sig fram um að líta vel út á mynd.
Þann 5 júlí s.l fór hann með mömmu sinni til hans Ugga frá Bergi sem að er í girðingu hjá Jóa og Elku bændum á  Borg í Þykkvabæ.
Í þeirri sömu ferð sóttum við Kolskör að Minni-Völlum en hún hafði þá sónast með 21 dags gömlu fyli undan Arði frá Brautarholti. Þá var nú kella kát skal ég segja ykkur ,,léttstíg,, og brosandi.

Þann 4 júlí fór Létt með hann Léttstíg son sinn til Frakks frá Langholti sem að nú er í Fellsöxl. Frakkur heillaði mig mikið á landsmótinu og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu ferðalagi.

Það er mikið riðið út þessa dagana enda 3-4 að ríða út alla daga og þrátt fyrir blíðuna eru bændur hér í Hlíðinni farnir að þrá rigningu svo að einhver spretta verði hér í sumar.
En þangað til er tamið og þjálfað af miklum móð og nokkur söluhross að komast í gott form.
Húsfreyjan sólbrann svo á landsmóti að það hálfa væri nóg og með þessum sólríku dögum að undanförnu er hún farin að minna svolítið á mógolsótta kind þegar litið er í spegil.

Hópar koma og fara og það gera líka tamningahrossin, sem sagt líf og fjör í Hlíðinni.
Hópur af hrossum frá okkur eru nú í ferðum hjá góðum grönnum sem að ferja gesti úr svíaríki milli staða.

Í dag var svo stóðið rekið heim og góðir gestir og hesteigendur mættu til að líta á sína gripi.
Alltaf gaman að fá góða gesti í hesthúsið svo að maður tali nú ekki um í stóðsmölun.
Takk fyrir daginn hann var góður og skemmtilegur.




08.07.2011 23:53

Landsmót og fleira.........

Nú er svo langt síðan ég hef bloggað að þið hafið eflaust talið að ég væri bara hætt en svo er nú ekki. En dagarnir hafa verið full stuttir og svo brá ég mér að sjálfsögðu á landsmót hestamanna.
Já landsmótið var ljómandi gott frábært hestakostur, skemmtilegt  mannlíf og veðrið bara gott þegar á leið. Þannig að þegar upp er staðið þá man maður bara það jákvæða.
Eitt er það þó sem að ég verð að pirra mig á en það var veitingasalan á svæðinu. Ef að maður lét sér detta í hug að hunsa nestið sitt öðru hverju og versla sér eitthvað í svanginn þá var ekki nóg með að það kostaði hvítuna úr augunum heldur var það bara ekki gott.
Dæmi: lítill bolli af mánudagskjötsúpu ekki með ábót kr. 1400- smurt brauð (þunn stjúpmóður) með hangikjöti og smá salati kr. 850-

Hestakosturinn....... vá ég veit bara ekki hvar ég á að byrja, puttarnir duga ekki til að telja upp skærustu stjörnurnar.
Spuni frá Vesturkoti er ógleymanlegur gæðingur sem að heillaði mig mikið, viljugur, mjúkur, flugrúmur og eins og einn sessunautur minn komst að orði ,,algjörlega óbrjálaður,, gæðingur af bestu gerð.
Það var frábært að sjá hvernig listaknapinn Þórður Þorgeirsson sótti töluna 10 fyrir vilja og geð sem að klárinn virtist eiga skuldlaust.
Ég ætla að telja upp nokkur hross sem að koma uppí hugann svona í fljótu bragði vafalaust gleymi ég nú einhverjum stjörnum sem að ég hef heillast af en reyni.....
Frakkur frá Langholti, Loki frá Selfossi, Konsert frá Korpu, Óskasteinn frá Íbishóli, Kinskær frá Selfossi, Sjóður frá Kirkjubæ og hryssurnar DÍVA frá Álfhólum, María frá Feti, Ronja frá Hlemmiskeiði, Kolka frá Hákoti....................og mörg fleiri.
Sýningarnar með afkvæma hestunum voru skemmtilegar eins og alltaf  uppáhalds hesturinn minn þar var að sjálfsögðu Arður frá Brautarholti.
Sýningar ræktunarbúa voru flottar og erfitt að gera uppá milli búa, að sjálfsögðu héldum við með okkar fólki héðan af nesinu þeim Önnu Dóru og Jóni Bjarna á Bergi.
Til úrslita kepptu svo búin Syðri-Gegnishólar og Álfhólar sem að voru bæði með flota af stórglæsilegum hrossum og knöpum.
Og þetta eru bara kynbótahrossin hina flokkana rifja ég upp seinna.

Félag tamningamanna veitti að vanda reiðmennskuverðlaun FT og að þessu sinni var það Þórður Þorgeirsson sem að hlaut þessa viðurkenningu.
Fríður flokkur FT félaga myndaði heiðursvörð þegar Þórði var veitt þessi viðurkenning og er gaman að segja frá því að Þórður reið stóðhestinum Arði frá Brautarholti við þetta hátíðlega tækifæri.

Mannlífið á þessu móti var einstaklega skemmtilegt, allt yfirbragð og andi til fyrirmyndar.
Svo sannalega góðir dagar á Vindheimamelum, takk fyrir það þið sem að komuð því í kring.

Eins og þið sjáið þá er engin mynd hér á blogginu það er ekki komið til af góðu en uppsetningin á síðunni hefur verið eitthvað að stríða mér. Ég hef þó verið mjög dugleg að taka myndir að undanförnu sérstaklega af folöldum já og hundum. Er að vinna í málinu og get vonandi sett inn myndir fljóttlega.

Er með fullt af fréttum af nýfæddum folöldum og hryssum sem að eru farnar undir stóðhesta en geymi þær til morguns.


  • 1