Færslur: 2014 Júlí

29.07.2014 15:38

Kapteinn og litlu álfadrottningarnar

 

Það gerist margt í þokunni skal ég segja ykkur.

Stundum koma litlar og fallegar álfadrottningar til að hitta vini sína.

 

 

Hann Kapteinn litli var hvergi smeikur, hér skoðar hann vinkonu sína og er frekar nærsýnn.

 

 

Stundum eru álfadrottningarnar tvær og þá er öruggara að Skúta fylgjist vel með hvað fram fer.

Stóri kallar fela sig þá bara bak við mömmu til vonar og varnar.

 

 

Úpps nú eru þær alveg að koma............. ætti ég að hlaupa ??

 

 

Já já þið megið alveg taka mynd af mér..............er ég sætur svona ?

 

 

.................eða er þessi stelling kannske betri ??

 

 

Nú erum við bæði hissa ............... en hvað haldið þið að Skúta sé að hvísla að litla álfinum.

Já það var bara gaman að fá þessar flottu álfadrottningar úr Garaðbænumí heimsókn.

 

 

 

26.07.2014 23:00

Nokkrar kátar hryssur.

 

Þessi elska skemmtir okkur oft og mikið verður dagurinn góður eftir reiðtúr á henni.

Hún er eiginlega að verða alveg uppáhalds hjá mér og reyndar fleirum.

Þarna eru þau Mummi í góðum gír.

Gangskör frá Hallkelsstaðahlíð 5. vetra gömul undan Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð og Adam frá Ásmundarstöðum.

 

 

Bára frá Lambastöðum er skemmtileg hryssa og mikið er hún stundum lík honum Gosa hálfbróður sínum.

Bára er 5 vetra undan Arði frá Brautarholti og Tinnu frá Lambastöðum.

 

 

Þessi hryssa Lyfting frá Hallkelsstaðahlíð er dóttir Gosa frá Lambastöðum og Upplyftingar frá Hallkelsstaðahlíð. Þarna er hún í léttri sveiflu hjá henni Astrid á góðum degi. Lyfting er 6 vetra gömul.

 

 

Framtíðarsýn frá Hallkelsstaðahlíð faðir er Gosi frá Lambastöðum og móðir Sunna frá Hallkelsstaðhlíð.

Á myndinni eru þær bara kátar hún og Astrid. Framtíðarsýn er 7 vetra gömul.

23.07.2014 23:53

Heyja.... heyja..... hey.....

Kátur frá Hallkelsstaðahlíð.

Það var ekki mikil rigning í dag................. og það náðist að rúlla nokkrum tugum af rúllum.

Já þetta er allt að koma og útlit fyrir að allur heyskapur klárist í rigningunni og þá er það bara sólbað þegar alvöru þurrkurinn kemur. Maður má nú láta sig dreyma í rigningunni. Annars batnar þetta ekkert við vælið, veðrið er gott og ca. 600 rúllur komnar í plast og ekkert hey hrakið.

Eftir langan og mikinn rúnnt um suðurlandið er ég alsæl með það græna sem komið er í rúllurnar hjá okkur. Greinilega ekki sjálfgefið á ná því svoleiðis. Já ég hef farið ansi víða í vikunni þó svo að ferðalagið teljist ekki til sumarfrís, og þó. Það er skemmtilegt að hitta hestafólk og stússast í hesta og þá sérstaklega hryssufluttningum. Koma við á bæjum ræða nýafstaðið landsmót og spekulegra í stóðhestum. Þetta er allavega meira gaman en að liggja í sólbaði. Ferðin var farin til að sækja hryssur sem lokið höfðu sínum stenfumótum við stóðhesta og fara með aðrar hryssur. Nú er bara að krossa fingur og vona að allt þetta flandur skili árangri og þær séu með folöldum. Sjö hryssum hefur verið haldið en aðeins ein komin heim með staðfestu fyli. Kolskör mín er komin heim með staðfest fyl undan honum Skýr frá Skálakoti. Ætli það verði ekki rauð hryssa ?

Við hér í Hlíðinni erum í óða önn að safna myndum af söluhrossum sem að vonandi birtast hér á næstunni.

Gott væri að fá aðeins meiri sól svona í eins og einn dag þá mundi nú eitthvað gerast.

Get samt upplýst að það eru nokkur býsna spennandi ;)

13.07.2014 22:35

Afrekin á knattspyrnuvellinum............

Mynd: Aðalsteinn Maron.

Þessi litli sjarmur var alveg til í að láta smella af sér mynd í góða veðrinu.

Kapteinn litli er að verða nokkuð taminn eftir tíðar heimsóknir okkar til Skútu mömmu hans. En eins og áður hefur margoft komið fram hér á síðunni þarf Skúta mikið eftirlit og er því aldrei höfð langt undan.

Sparisjóður hefur nú náð sér að mestu eftir hremmingarnar í vor og bíður þess nú með óþreyju að dömurnar (hryssurnar) hans mæti. Einkaritarinn hans settist við símann í dag og bauð hryssueigendunum að gjöra svo vel. Nú má sem sagt fjörið hefjast hjá kappanum, girðingin klár og allt til reiðu fyrir svallið.

Mummi og Astrid smelltu sér á Löngufjörurnar með hressum krökkum sem létu gamminn geisa í blíðunni. Ég tók aðeins bíltúr með hrossin þeirra og fékk að sjálfsögðu endalausa löngun til að verða bara eftir á Stakkhamri. Það er hreinlega alveg ómissandi að fara nokkra fjörutúra á ári. Veðrið var líka þannig að ekkert hefði verið betra en góður fjörusprettur.

En allt stendur þetta nú til bóta og ekkert að óttast því dagurinn í gær varð bara einstaklega vel heppnaður þó svo að ég færi ekki á fjörurnar.

Dalatúr með fulla kerru af hestum, sveitamarkaður og líflegt heimilishald með ansi mörgum þátttakendum er bara töff. Heyskapurinn fór líka á fullan skrið en bara í gær og dag, það er niðurskurður og ekki hægt að fá nema rúman sólarhring af þerri.

Annars er þurrkur sennilega ofmetinn því það rigndi í gær en heyið þornaði samt. Kannske með góðu og illu.....hefst það.

Gönguhópar og veiðimenn voru tíðir gestir hér um helgina og á næstunni koma fleiri hestahópar hingað til okkar. Já já það er ekki bara umferð í 101 sko það er líka hér í Hlíðinni skal ég segja ykkur.

Þrátt fyrir líflega helgi náði ég einu stórafreki á minn mælikvarða nú undir kvöld. Haldið ekki að húsfreyjan hafi bara horft á heilan (næstum því) fótboltaleik í sjónvarpinu. Það sögðu mér fróðir menn og reyndar þulurinn líka að þetta væri úrslitaleikurinn á HM og auðvita trúi ég því. Mér fannst nú ferkar lítið gerast framan af leiknum fyrir utan smá fæting sem varla er orð á gerandi. Þetta var farið að minna mig á það þegar maður lendir í þeirri stöðu í smalamennsku að standa fyrir og bíða. Alltaf eitthvað alveg að fara að gerast en gerist ekki...... fyrr en enginn á von á því. Og þá kannske tapar maður bara af því eins og kom fyrir mig við seinni slagsmálin.

Ég hafði heyrt talað um að Messi væri besti knattspyrnumaður í heimi og treysti því alveg á að hann mundi skora og vinna. Því hélt ég að sjálfsögðu með honum. Var reyndar ekki viss um í hvoru liðinu hann væri en sá að ég gæti komist að því þegar hann mundi skora. Svo kom markið sem ég að sjálfsögðu fagnaði þangað til ég komst að því að sá sem skoraði var als ekki Messi. Ónei þar var á ferðinni ósköp sætt krútt frá Þýskalandi sem var ekki einu sinni í liði með Messanum.

Það sem eftir lifði leiks og undir framlengingunni líka einbeitti ég mér að því að ná áttum og þá sér í lagi að jafna mig á því að sennilega kæmist ég ekki að því hvernig Messi liti út. Sko mitt vit á fótbolta nær eingöngu til þess hvort að kapparnir líta vel út eða ekki. Ég legg ekki meira á mig.

Þar sem að engir fleiri leikmenn skoruðu varð ég engu nær um nöfn og nánari upplýsingar. Það var ekki fyrr en Angela Melker knúsaði krúttið sem skoraði meira en hina að ég var viss um að þjóðverjar hefðu sennilega unnið.

Þegar ég verð stór verð ég kannske fótboltabulla.

PS.  Hvað er leyfilegt að sýna marga grátandi kalla í sjónvarpinu án þess að setja á rauða merkið ???

13.07.2014 18:43

11.07.2014 23:00

Hvar er þurrkurinn ?

 

Jæja núna má sólin og þurrkurinn alveg fara að koma hingað í Hlíðina.

Við höfum náð að rúlla tæplega 300 rúllum í tveimur atlögum með rigninguna á hælunum.

Ef að allt gengur eftir þá eigum við eftir að rúlla ca 900 rúllum svo það er eins gott að það fari að rofa.

Ég ætla ekkert að ræða málninguna á húsinu, læt eins og það standi ekki til að mála.

Ætli húsamálningaþurrkurinn þetta árið sé ekki búinn ?

Landsmótið var líka svolítið blautt og á köflum var rokið á full mikilli ferð fyrir minn smekk.

Hestakosturinn var hreint frábær og óendanlega gaman að rifja hann upp, spá og spekulegra. Ungu hrossin voru einstaklega góð og eftirmynnileg. Á engan er hallað þó svo að ég nefni Konsert frá Hofi sem aðal aðalgripinn. Ótrúlega góður og fallegur gripur.

Mannlífið á Hellu var skemmtilegt reyndar eins og alltaf er á landsmótum. Það er alltaf jafn gaman að hitta vini og kunningja sem tilheyra þessum góða hópi hestamanna. Ekki skemmdi nú fyrir að hitta fjölmargt af því góða og skemmtilega fólii sem starfað hefur hér hjá okkur í Hlíðinni. Margir þeir sem við höfum kynnst í gegnum hestamennskuna og búa erlendis mæta á landsmót. Það urðu því fagnaðafundir þegar nokkrir góðir hópar komu hingað til okkar í Hlíðina. Það er alltaf gaman að fá ykkur hingað í heimsókn, skoða og ræða hesta og hestamennsku.

Já það er búið að vera líf og fjör í hesthúsinu svo maður tali nú ekki um fjallaferðir og stóðsmölun.

Takk fyrir komuna Per og fjölskylda, Tyra og fjölskylda og þið öll hin sem glödduð okkur með heimsóknum og samveru.

Þar sem að allar hryssur eru kastaðar hér á bæ er stóðhestafjörið komið af stað. Suðurlandið var staðurinn í gær en þangað var brunað með þrjár hryssur undir hesta. Þá eru sjö hryssur farnar undir stóðhesta og ólíkt því sem gert var í fyrra þá eru þær allar hjá sitt hverjum hestinum.

Já já ég treysti honum Ölni frá Akranesi fyrir fjórum góðum hryssum í fyrra og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með það,

Nánar um stóðhestavalið þetta árið síðar, það var búið að valda næstum andvöku.

Vonandi bjóða næstu dagar uppá heyskap, sveitamarkað, hestastúss, góða gesti jafnvel langt að komna. Að ógleymdum veiðimönnum, göngugörpum og ævintýrum af bestu gerð.

Það er staðreynd að sólarhringurinn er alltaf að styttast, mánuðir og ár að skreppa saman.

01.07.2014 00:27

Nýjustu fréttir og myndir af nokkrum uppáhalds.

 

Álfadís frá Magnússkógum og Mummi að keppa í úrslitum í tölti á Oddanum.

Frábær hryssa sem nú er komin undir hann Múla frá Bergi.

 

Ég var að renna yfir nýlegar myndir og ákvað að smella inn nokkrum af uppáhalds hestunum sem eru reyndar svolítið margir.  Svo það fari ekki á milli mála þá er þetta bara byrjunin, margar fleiri myndir af góðum hestum er væntanlegar á síðuna.

 

Mynd Toni ljósmyndari í Búðardal.

Þetta er hann Óðinn frá Lambastöðum og Mummi í léttri sveiflu.

Stór og myndarlegur foli sem verður skemmtilegri með hverjum deginum.

 

 

 

Höfðinginn og vinur okkar Dregill frá Magnússkógum og Mummi á góðri stundu.

 

 

Þarna eru þær stöllur Astrid og Framtíðarsýn á notalegu tölti, alveg drauma reiðhestur þessi hryssa.

 

 

Og einstaklega mikið uppáhalds þessi elska enda Gustssonur.

Er hreinlega á háum stalli í mínum huga og verður þar.

 

 

Skemmtileg prímadonna hún ,,Korka,,  og með augu sem bræða allt.

Hef bara ekki séð svona falleg augu í nokkrum hesti áður.

 

Annars er það helst í fréttum héðan úr Hlíðinni að við náðum að heyja hátt á annað hundrað rúllur í þessum örþurki sem boðið var uppá. Kláruðum Melana og tókum aðeins hér heima líka.

Ekki hefði nú verið verra að ná að taka nýræktirnar á Steinholtinu líka en maður getur víst ekki beðið um allt.

Nú er verði að keyra heim rúllur eins og enginn sé morgun dagurinn.

Síðustu hryssurnar köstuð í gær, Sjaldséð átti gráa hryssu undan Sólon frá Skáney. Hún hefur hlotið nafnið Útséð frá Hallkelsstðahlíð.

Blika kastaði rauðri hryssu undan Gosa frá Lambastöðum, hún hefur hlotið nafnið Gletta frá Hallkelsstaðahlíð.

 

Síðasta kindin bar á þjóðhátíðardaginn 17 júní og hefur nú farið til fjalla, það var kindin Kúðhyrna.

Kúðhyrna heimtist ekki fyrr 22 janúar s.l en þá kom hún heim í hlað til minna góðu granna á Emmubergi.

Þegar ég sleppti henni út bað ég hana vinsamlegast að kom nú heim á réttum tíma og vera ekki til vandræða.

Ætla rétt svo að vona að hún standi við það.

 

Veiðin í Hlíðarvatni hefur verið góð það sem af er sumri og veiðimennirnir kátir með aflann. Við höfum aðeins veitt í net en þó vantar okkur þennan veiðieldmóð sem að Einar heitinn frændi minn hafið við veiðarnar.

Margir gönguhópar hafa farið hér um og von er á fleirum, flestir eru að ganga svo kallaða Þriggjavatnaleið.

 

 

 

  • 1