Færslur: 2012 Mars

25.03.2012 22:15

Það var lagið

Sýning vestlenskra hestamanna sem haldin var í Borgarnesi heppnaðist vel og var skemmtileg. Fjöldi gæðinga kom fram og ef mér skjátlast ekki þá sýndu rúmlega 80 knapar hesta sína. Eins og stundum áður ætla ég að deila með ykkur hvað mér fannst af áhorfendabekknum.
Fyrst vil ég nefna tvær hryssur sem að heilluðu mig mikið það voru þær Kná frá Nýja-Bæ og Elja frá Einhamri. Kná er 6 vetra gömul undan Alvari frá Nýja-Bæ og Þóru frá sama bæ, hún var sýnd af Sigurði Óla Kristinssyni,Fákshóla tamningamanni. Fas og glæsileiki einkenndi þessa hryssu og maður fékk á tilfinninguna að höllin væri ekki nógu stór til að hún gæti sýnt okkur allt sem hún vildi. Elja frá Einhamri er gæðingur sem heillar með fegurð og fágun, hún var sýnd af Jelenu Ohm. Hryssan Skriða frá Bergi er líka ein af mínum uppáhaldsgripum þegar kemur að svona sýningum. Kattmjúkur og viljugur gæðingur undan Aroni frá Strandarhöfði og gæðingamóðurinni Hríslu frá Naustum. Skriða dansaði með eigandann Jón Bjarna um höllin og sýndi enn einu sinni hvað eðlismýkt gerir mikið fyrir gæðinga.
Sporður frá Bergi sonur Hríslu og Álfasteins frá Selfossi var góður og ég var virkilega ánægð með að hér í Hlíðinni eru til fimm afkvæmi hans.
Jakob Sigurðsson kom með Árborgu frá Miðey og sýndu þau saman glæsilega gæðingafimi.
Frábært par sem að alltaf heillar með hrífandi samspili og faglegri reiðmennsku.
Jakob kom líka fram með stóðhestana Abel frá Eskiholti og Asa frá Lundum glæsihestar og eftirtektarvert hvað hrossin hjá þeim Jakobi og Torunni í Steinsholti eru vel undirbúin og fallega sýnd.
Linda Rún og Sigvaldi Lárus komu með fallegt atrið i frá Tamningastöðinni Staðarhúsum.
Börn, unglingar og ungmenni áttu stóran þátt í að gera sýninguna svona skemmtilega og gerðu það með glæsibrag.
Þau slógu líka á létta strengi og gerðu grín að nokkrum þekktum knöpum úr heimabyggð.
Já þetta var bara gaman...................takk fyrir góða skemmtun allir þeir sem eitthvað lögðu af mörkum við að gera þetta svona flott.

Sá að hún Iðunn í Söðulsholti hafði verið dugleg með myndavélina svo að vonandi kom myndir inná þá síðu fljóttlega.

21.03.2012 21:30

Mæðraskoðun



Þá er það örstutt sauðfjárblogg með ,,feitum,, fréttum frá sónarskoðun.

Númer eitt... kella er bara nokkuð kát en þó hefðu vetur gömlu kindurnar mátt standa sig betur.  Gemlingarnir stóðu sig afar vel og verða í spes dekri fram á vor svo og allar þrílemburnar. Mun færri voru geldar en í fyrra og munar þar mest um gemlingana.
Þennan morguninn fóru tuttugu og tveir hausar í hinstu ferð með honum Óla á Völlum norður í land. Geldar kindur, sauðir og lömb sem hafa komið eftir venjulegan förgunartíma.
Já vel á minnst sauðir....aðalforustusauður búsins til margra ár hann Páll postuli mun nú stjórna fjárrekstrum í grænu högunum hinu meginn.
Við ,,starfi,, hans er tekinn móflekkóttur eðal forustusauður sem hlotið hefur nafnið Jóhann.
Honum til aðstoðar er Litla-Pálína sem er aðal forustukindin enda stórættuð og getur rakið sínar ættir lengst norður í land.
Ég hef ekki haft tíma til að fara endanlega í vísindarannsóknir varðandi tölulega frjósemi eða einstaka hrúta. En læt hér fylgja með fréttir af þeim gripum sem eiga flesta ,,kunningja,, eftir samvinnu í réttum eða sauðburði.

Garðabæjar Golsa ber væntanlega tveimur eðalgripum í vor, það gerir líka Ofur Golsa frá Bíldhóli. Fjárhúsdrottningin Svört (Sindramamma) er að sjálfsögðu með þrjú lömb eins og venjulega. Ása Aronsvinkona er með tveimur og nýkomna Lambabamba er með einu lambi.
Málglaða Grána er með tveimur og gamla Pálína líka en henni hefði nú verið fyrirgefið þó svo hún hefði bara komið með eitt.

Ef að eitthvað gáfulegt kemur út úr rannsóknarvinnu minni mun ég láta ykkur frétta af því.
En sem sagt það munu að líkindum fæðast á annað þúsund lömb ef að Guð og lukkan leyfa þetta vorið.

Nýjar hestamyndir eru svo væntanlega mjög fljóttlega.

17.03.2012 22:17

Marsinn hennar Lömbubömbu



Friður og ró í fjallinu...........Stekkjaborg í andlegri íhugun og vissi ekki að ,,pressan,, var að smella mynd af henni.

Talandi um frið og ró............. það hefur væntanlega verið friður og ró hjá fjárhópnum sem að fannst útigenginn fyrir nokkrum dögum. Hópurinn fannst í landi Miklaholtssels og leit alveg ótrúlega vel út miðað við það hvað veðrið hefur verið leiðinlegt í vetur.
Það er spurning hvort að hópurinn hefur eitthvað notið góðs af skógræktinni hans Guttorms bónda í Seli ? Vonandi ekki gert neinn ursla eða skandal þar.
En friðurinn var úti hjá kindunum þegar Svanur í Dalsmynni mætti til þeirra með fjárhundana sína og náði að handsama þær, enda við ofurefli að etja á því sviði.
Ég var himinlifandi að heimta kindina Lömbubömbu og son hennar sem að sjálfsögðu hefur hlotið nafnið Svanur Gutti. Hinar kindurnar voru frá Ystu-Görðum og Mýrdal, nú verður tíminn að leiða það í ljós hvort að einhverjar kynbætur hafa átt sér stað í úti vistinni góðu.



Eins og sjá má þá líta þau mæðginin Lambabamba og Svanur Gutti vel út svona miðað við að vera fyrst núna að koma inn. Mars er greinilega uppáhalds mánuður hjá Lömbubömbu því hún er fædd í mars og heimtist svo með stæl í mars.



Dekrið og uppáhaldið byrjaði snemma og á þessum aldri var hún nefnd þessu ágæta nafni.
Nafnið kom eftir mikið krakkaknús og tæpitungutal enda festist það rækilega á gripinn.
Þarna er Astrid að leggja henni lífsreglurnar en hefur trúlega gleymt að segja henni að strjúka ekki í aðrar sveitir eða taka sér bólfestu í annara manna skógrækt.



Þarna er hún sakleysið uppmálað á leiðinni út í lífið með mömmu sinni og bróðir.
Flökkukindur eru ekki alltaf vinsælar og stundum eru þær teknar úr umferð fyrr en aðrar kindur. En þar sem Lambabamba hefur frá upphafi átt dyggan og góðan aðdáendahóp er næsta víst að hún verður ekki tekin strax úr umferð. Enda algjör óþarfi þar sem hún hefur ,,örugglega,, lært að hlýða bæði Svani og hundunum...................fullkomlega.
Takk fyrir smölunina Svanur, nú er kella kát.


13.03.2012 23:15

Listinn góði

Eins og ég sagði ykkur frá þá hefur verið birtur listi yfir þá knapa sem voru með lang fæsta áverka á síðasta ári úr tíu kynbótasýningum eða fleiri.
Það skal tekið fram að margir fleiri knapar náðu góðum árangri en hér er bara horft til þeirra knapa sem sýndu a.m.k tíu sýningar. Fjórir knapar eru ekki skráðir með neina áverka og tveir af þeim sýna yfir 30 hross og þar af voru nokkur í verðlaunasætum á Landsmóti.

Í stafrófsröð.

Nafn                                                Fjöldi                     Hæfileikar            Áverkar               Hlutfall
Anton Páll Níelsson                  10                             7,88                              1                          10%
Erlingur Ingvarsson                  10                             7,82                              1                          10%
Gísli Gíslason                                38                             7,73                              0                         0%
Hekla K Kristinsdóttir               10                             7,87                              0                         0%
Helga Una Björnsdóttir            10                             7,83                              1                          10%
Jakob S Sigurðsson                     86                            7,94                              7                           8,1%
Jóhann K Ragnarsson                21                             7,82                              1                           4,8%
Karen L Marteinsdóttir            10                              7,58                             0                           0%
Mette Mannseth                          30                             8,16                               0                           0%
Sara Ástþórsdóttir                     10                              8,09                             1                           10%
Steingrímur Sigurðsson           13                               8,09                             1                           7,7%
Vignir Siggeirsson                      10                              7,77                             1                            10%

Eins og þessi listi ber með sér eru fullyrðingar sem stundum hafa heyrst um að ekki verði komist hjá áverkum ef sýna eigi mörg hross til árangurs, hreinlega rangar.
Mín skoðun er sú að á hverju ári eigum við að birta lista yfir þá sem bestum árangri ná á þessu sviði. Það er hvatning til knapa um að leggja sig fram og góðar upplýsingar fyrir hrossaræktendur.
Að hampa því sem jákvætt er huggnast mér betur en að rífa niður og vellta mér upp úr því neikvæða.

Til hamingju knapar góðir þetta er góður listi.

10.03.2012 22:28

Það liggur svo makalaust ljómandi á mér............



Ég hef fengið misjöfn viðbrögð við síðasta bloggi en þar rakti ég spennusögu sauðfjárbónda.
Ein góð vinkona mín úr landbúnaðargeiranum sá meira að segja ástæðu til að hringja í mig og kanna andlegt ástand mitt.  Auðvitað var það gott og húsfreyjan himinn lifandi enda ný kominn úr frábærum reiðtúr þegar síminn hringdi.
Og að sjálfsögðu held ég því fram að ég hafi ekki farið í fýlu síðan rétt eftir miðja síðustu öld eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Á myndinni erum við frændsystkynin Þóra, Hallur og ég sem var ekki í sérstöku fyrirsætu stuði eins og sjá má.

Við skelltum okkur á góðan fund suður að Hvanneyri í vikunni en þar voru þeir félagar Guðlaugur Antonsson, Kristinn Guðnason og Lárus Hannesson á ferð.
Þetta er árleg hringferð þeirra félaga en eins og einhverjir muna þá fór ég með þeim fyrir tveimur árum síðan. Ferðasagan er hér á blogginu með myndum og ferðalýsingu.
Í fyrra var það Haraldur Þórarinsson formaður LH sem fór með þeim en í ár er það formaður gæðingadómarafélgsins Lárus Hannesson sem er þriðja hjólið.
Margt fróðlegt kom fram og var m.a listi yfir helstu fyrirmyndarsýnendur kynbótahrossa gerður opinber. En það er listi yfir þá aðila sem sýna fleiri en 10 hross í kynbótasýningum ársins og eru til fyrirmyndar hvað áverka varðar.
Ég birti þennan lista hér fljóttlega því mér finnst sjálfsagt að kynna hvaða fólk þetta er sem nær þessum góða árangri.

Í dag fór ég á árlegt endurmenntunarnámskeið gæðingadómara sem haldið var í Reykjavík.
Ágætis námskeið og alltaf gaman að hitta mannskapinn, þá er ég búin að fara á endumenntunarnámskeið bæði í íþrótta og gæðingadómum þetta árið.
Veðrið var ekki skemmtilegt á heimleiðinni og mátti eiginlega segja að ég fyki heim.
Ég var meira að segja svo hress eftir ferðalagið að ég rauk til og bakaði bæði snúða og skinkuhorn þegar heim var komið.
Svona getur húsmæðraveikin blossað upp, já rétt eins og flensan.

Aftekningar standa yfir þessa dagana svona þegar ekki er útreiðaveður og þar sem nóg hefur verið af umhleypingum þá er þetta bara að verða komið vel á veg. Eins gott að vera búin að taka af þegar Nossarinn okkar hann John kemur að sóna kindurnar.

Allt gott að frétta úr hesthúsinu og nú verð ég að fara að standa mig betur við að taka myndir af hrossunum sem eru í þjálfun. Þið verðið jú að geta fylgst með eða hvað?

Að lokum til að fyrirbyggja allan misskilning þá liggur ljómandi vel á mér þessa dagana.



03.03.2012 21:54

Burtreið og kerlingatuð......



Þetta er myndin ,,Baksvipur,, nú eða ,,Burtreiðin,,

Já ,já ég er alltaf að hugsa um hversu gaman er að ríða fjörurnar í góðum hópi.
Þegar ég skoða myndasafnið mitt og leita að myndum til að setja inn með blogginu þá eru myndirnar frá fjöruferðunum alltaf ofarlega á listanum.
En fjöruferðir bíða þar til í sumar nema náttúrulega ég finni einhvern í fjöru............

Það var vor í Hlíðinni í dag og frábært útreiðaveður sem að var vel nýtt hjá aðal tamningamanninum. Við hin fylgdum góðri heiðurskonu síðasta spölinn.

Síðustu vikur hefur sauðfjárbóndinn í mér rokið stundum upp í hressilegu stresskasti sem oftast hefur endað með ærlegu húsfreyjutuði af bestu gerð. (VERSTU)
Áhyggjurnar hafa verið margvíslegar..........
Ég hef verið sannfærð um að það verði kalt og vont vor með frosti fram í júní.
Ég hef verið örugg um að verða heylaus og því til staðfestingar mistalið rúllurnar margoft.
Ég hef séð fyrir mér að rollurnar væru geldar og ófrjósamar, gelmingarnir geldir og númerin færu bara í 750. Þessu til staðfestingar hefur mig dreymt gemlingana í hoppum og leik en rollurnar allar blámerktar.
Ég var líka sannfærð um að heyin væru svo lélega að þegar kæmi að því að taka snoðið af þá mundu kindurnar líta þannig út að ég yrði að hætta að taka á móti gestum.
Ýmislegt fleira sá ég fyrir mér sem ekki verður tíundað hér en verð þó að hugga sjálfan mig í það minnsta..........
Það er búið að klippa 70 kindur og þið eruð hjartanlega velkomin í heimsókn, vonandi verður allt hitt líka í rétta átt.
Gott vor, nóg af heyjum, frjósemi og fjör þegar líða fer á verturinn............
Já þessar kellingar geta heldur betur tekið rokur...........og óþarfa stressköst.


  • 1