Færslur: 2014 Júní

28.06.2014 11:23

Folöldin hans Ölnirs

 

Þessi flotti hestur fæddist um Jónsmessuna móðir er Rák frá Hallkelsstaðahlíð og faðir Ölnir frá Akranesi. Hún Astrid er eigandi folaldsins sem hlotið hefur nafnið Dani frá Hallkelsstaðahlíð.

Það var skemmtilega hugmynd að kalla hann Dani því hvað er betur við hæfi þegar eitthvað rautt og hvítt fæðist í eigu danskfæddrar dömu.

 

 

Þarna er hann Lokkur frá Hallkelsstaðahlíð nýfæddur. Lokkur er undan Létt frá Hallkelsstaðahlíð og Ölnir frá Akranesi, það síðast sem fæðist undan honum þetta árið hér í Hlíðinni.

 

 

Létt fer gjarnan eins hátt uppí fjall og hún getur þegar hún kastar en er samt róleg þegar komið er til hennar að skoða afkvæmið.

 

 

Kapteinn litli Skútu og Ölnirsson er orðinn stór og brattur, honum finnst þessir litlu bræður sínir ósköp barnalegir. Hann er núna kominn með mömmu sinni í hólfið hjá honum Káti mínum en þar verða lögð drög að nýjum vonum.

 

 

Nú er loksins komið nafn á þessa dömu en hún hefur hlotið nafnið Andvaka frá Hallkelsstaðahlíð.

Andvaka Ölnirs hljómar það bara ekki ljómandi vel ?

Þær mæðgur Karún og Andvaka láta sér fátt um finnast en húsfreyjan er mjög ánægð með nafnið.

Oft fæðast góðar hugmyndir á andvökunóttum og því trúi ég því staðfaslega að eitthvað gott hafi fæðst þegar sú litla fæddist.

Nú eru þær mæðgur komnar út að Bergi þar sem Karún hittir Múla frá Bergi sem vonandi er góður að búa til hryssur. Múli er undan Kappa frá Kommu og Minningu frá Bergi. Spennandi foli með 8.51 fyrir byggingu.

 

19.06.2014 21:31

Gleðin og allt hitt líka.

 

Þessa myndarlegu hryssu fékk ég undan henni Karúnu minni, faðirinn er Ölnir frá Akranesi. Sú litla hefur enn ekki fengið nafn enda skal vanda valið þegar uppáhaldið er annarsvegar. Hef fengið nokkrar uppástungur en engin þeirra hefur hitt í mark. Verð að drífa mig að nefna hana áður en hún fer af bæ með mömmu sinni til að hitta einhvern spari stóðhest.

 

 

Hér á myndinni er hann Hallkell frá Hallkelsstaðahlíð, faðir er Hersir frá Lambanesi og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð. Þessi garpur er sprækur og búinn að vera á harða hlaupum síðan hann fæddist. Nú er hann farinn með móður sinni í Steinsholt en þar er Kolskör á stefnumóti við hann Skýrr frá Skálakoti.

Vonandi gengur það samkvæmt áætlun og ég fæ hryssu næsta vor ;)

 

 

Þarna er hún Kveikja litla dóttir Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð og Stimpils frá Vatni nýfædd. Myndar folald sem komin er í Skipanes með móður sinni til að hitta Vita frá Kagaðarhóli.

 

 

Það var svo í morgun að hún Skúta kastaði jörpum hesti sem hlotið hefur nafnið Kapteinn frá Hallkelsstaðahlíð. Faðir hans er Ölnir frá Akranesi. Kapteinn er stór og myndarlegur hestur sem skartar hring í öðru auga, svona uppá punt. Já það er hreint ótrúlegt að hún Skúta sé búin að eignast tvö afkvæmi síðan hún veiktist. Skúta er undir daglegu eftirliti 365 daga á ári og er fóðruð á sérvöldu ,,góssi,, meiri hluta ársins. Hér á bæ telur það enginn eftir þó að smá snúningar séu í kringum þessa drottningu.

 

 

Hér sjáið þið augað fína sem gerir heilmikið fyrir hann Kapteinn litla.

 

 

Já það er eins gott að vera í sambandi þarna eru Mummi og Skúta sennilega að setja fréttirnar á fésbókina. Skúta eignaðist marga góða vini sem fylgdust með henni þegar hún var sem veikust, svo það er eins gott að ,,ritarinn,, hennar á fésinu standi sig í fréttafluttningnum. Mér sýnist samt á svipnum á Skútu að hún sé ekkert endilega að huga að fésvinum og velferð þeirra. Sonur hennar og grasið eru mun meira freistandi þennan daginn.

 

 

Þessi bíður bara eftir því að fá Ölnirsafkvæmi en Rák er ekki köstuð enn svo að Astrid verður bara að bíða. Snotra leggur henni lið við biðina og andlegan stuðning.

 

 

Það eru oft góðar stundir sem verða til í hestagirðingunum. Þarna eru spekingar að spjalla og hafa gaman saman, takið eftir brosinu sérstaklega á Snotru.

 

 

Þessar dömur stóðu sig bara nokkuð vel á Miðfossum um daginn. Snekkja fór í 1 verðlaun með 8.25 fyrir hæfileika og aðaleinkun uppá 8.13 og Gangskör fór í 8.08 fyrir hæfileika og aðaleinkun uppá 7.91. Nú er það bara í höndum eiganda Snekkju hvort að hún fer í folaldseignir eða aftur í dóm. Gangskör, eigandinn og þjálfarinn stefna óthrauð að því að hún nái fullri heilsu og smelli sér aftur í dóm. Hún á klárlega inni en alvarleg sýking og veikinda vesen hafa tafið hana á leiðinni til að vera ein af spari hryssum húsfreyjunnar.

 

 

Þarna er mynd af Gangskör og Jakobi í léttri töltsveiflu á Miðfossum. Mummi hefur þjálfað Snekkju og Gangskör en á Miðfossum sýndi lærimeistari hans Jakob Sigurðsson hryssurnar með glæsibrag eins og honum er einum lagið. Takk fyrir það Jakob.

 

 

Gangskör mín er stórbrotin persóna og fer ekki alltaf troðnar slóðir en kjarkinn vantar ekki. Hún lét sig ekki muna um að liggja á gluggunum þegar húsfreyjan var í afslöppun á þjóðhátíðardaginn.

Lætur sér ekkert óviðkomandi, já svona er víst eftirlitsiðnaðurinn í dag.

 

 

Gæðum heimsins er misskipt og ekki eru allir jafn heppnir það er víst. Sparisjóðurinn minn er einn af þeim sem alveg þarf að hafa fyrir sínu en geðprýðin og gæfan munu án efa sigra að lokum. Nú stendur þessi elska í stíunni sinni og bíður þessa að mega fara út að sinna skyldustörfum. Þessi gleðigjafi húsfreyjunnar slasaðist um miðjan maí og á enn í þeim meiðslum. Hann og húsfreyjan ætluðu svo sannalega ekki að vera í þessu stússi um há bjargræðistímann.

En okkar tími mun koma sannið þið til.

Það er huggun harmi gegn að afkvæmin hans sem verið er að temja gleðja um þessar mundir meira en flest annað. Og hryssurnar sem bíða eftir honum...... já þær eru tilhlökkunarefni.... fyrir Sjóðinn.

 

Speki dagsins:

Að gleðjast með góðum er gott en væla með vondum vont.

 

 

 

 

04.06.2014 09:00

Af refum, kosningum, Spuna og lífinu í Hlíðinni

 
 

 

Það er bannað að taka morgungöngu innan um lambféð með skipulagða árás í huga. Þessi rebbi fékk svo sannarlega að reyna það og tríttlar nú um í grænu högunum hinumegin. Svona fyrir þá sem hugsanlega eru viðkvæmir fyrir myndum af þessu tagi. Fáið ykkur sæti lokið augunum og hugsið ykkur að launaumslagið ykkar sé fullt en skyndilega kemur refur og byrjar að borða alla fimmþúsundkallana. Já já það eyðist sem af er tekið.

 

 

Gamla refaskyttan var ánægð með veiði tamningamannsins sem verður sennilega að rifja upp kúrekataktana og vera búinn hatti og byssu í morgunreiðtúrnum. Vopnið sem notað var er riffill sem áður var í eigu Gústavs heitins Gústavssonar sem var refaskytta hér fyrir nokkrum áratugum. Hann var í miklu sambandi hingað vestur og beið þess með óþreyju að skotin yrði tófa með byssunni. Hann náði ekki að lifa það en hann lést fyrir nokkrum vikum. Ég hef samt fulla trú á að hann hafi fylgst með og fagni nú á öðrum stöðum að rebbi valsi ekki hér um meir. Mummi skaut rebba fyrir ofan Þrepin sem kölluð eru, svona fyrir þá sem til þekkja.

 

 

Þarna er hún Marie að skoða rebba enda ekki á hverjum degi sem að hægt er að skoða þá í svona miklu návígi.

 

 

Þessi létu sér fátt um finnast þegar það rigndi sem mest í gær og fengu sér bara blund á hestasteininum fyrir utan eldhúsgluggann. Það er alveg spurning hvort að lömbin séu að finna tilfinninguna hvernig það er að búa í blokk ? Þetta er hestasteinn sérvalinn úr Tálknafirði sem aldrei er kallaður annað en Marinó.

 

 

Frá refaveiðum að kosningum, kella var ánægð með útkomu sinna manna í Borgarbyggð. Svo að það er bara góð viðbót við annars gott vor með blíðu, grasi og vonandi gæfu. Sauðburðurinn er að verða búinn en síðustu kindurnar láta aðeins bíða eftir sér og nokkrar ,,vandræða,, kindur er eftir inni. Þær ættu bara að vita hvað bíður þeirra þegar þær fara út.

Maron vinnumaðurinn okkar fór í smá frí eftir aðal sauðburðartörnina en er væntanlegur fljóttlega.

Þau stóðu sig eins og hetjur nýja sauðburðarfólkið okkar hann og Marie.

Við fengum líka frábæra hjálp frá fullt af góðu fólki sem létti undir með okkur í sauðburðinum enda líflegt þegar hátt í 700 kindur bera og rúmlega 30 hross á járnum. Svo er dásamlegt að fá góðar ,,inni,, konur á þessum tíma sem sjá til þess að veisla er á matmálstímum. Takk fyrir alla hjálpina þið sem eruð okkur svo dýrmæt.

Folaldshryssurnar láta heldur betur bíða eftir sér en ekki er svo mikið sem ein þeirra köstuð.

Þær vita sennilega sem er að miklar vangavelltur eru í gangi varðandi val á stóðhestum og því bara best að taka því rólega.

Reyndar er Astrid búin að fá eitt folald en það er fætt á Skáney, hryssa undan gæðingnum Þyt frá Skáney og Prúð frá Skáney. Hún fór að skoða gripinn og kom alsæl heim enda ekki annað hægt með Þytsdóttir ;)

Ég fór og dæmdi Landsmótsúrtöku hjá Hestamannafélaginu Spretti um síðustu helgi.

Hestakosturinn var afbragðs góður og alveg ljóst að einhverjir fulltrúar Spretts eiga eftir að komast langt á landsmótinu. Spuni frá Vestukoti er mér alveg ógleymanlegur undir stjórn Þórðar Þorgeirssonar á Landsmótinu þegar hann kom fyrst fram. Ekki varð aðdáun mín minni þegar hann mætti til leiks hjá Spretti s.l laugardag, þvílíkur gæðingur og nú undir öruggri stjórn Þórarins Ragnarssonar. Mörg önnur hross eru mér ofarlega í huga og ekki síst hvað börn og unglingar eru glæsilega ríðandi. Ég veðja á að Sprettur komi sterkur inn á LM 2014.

 

 

Litlar frænkur mættu til að skoða sauðburðinn en þarna er Fríða María búin að hitta vinkonu sína hana Marie.

 

 

Fríða eldri skellti sér í sveitina og er þarna með vinkonunum enda er bara heilsusamlegt fyrir dömur á níræðisaldri að koma í fjárhúsin.

 

 

Íris Linda og Botni að taka stöðu mála.

 

 

Þú ert sko flottasta lamb sem ég hef séð.

 

 

................... en ég er nú svolítið smeik við þig þegar þú jarmar svona hátt.

 

 

Svandís Sif og Halldór voru hress í sauðburðarfjörinu.

 

 

Eins gott að líta eftir öllu hjá ykkur................ Svandís Sif efnilega sauðburðarkona.

 

 

Þegar maður verður þreyttur þá er bara að labba með ömmu Svandísi í Stellukaffi í gamla húsið.

 

 

Ragnar frændi minn sem nú býr í Brákarhlíð kom auðvita og skoðaði lömbin og tók stöðuna í sauðburðinum. Það er alveg ótrúlegt hvað hann þekkir og man þegar hann kemur í fjárhúsin. ,, Er þessi með þrjú lömb einu sinni enn og núna botnótt,, eða ,,kemur þessi með annan lífhrút,, Já þeir sem eru einu sinni bændur þeir verða það alltaf. Það er hægt að taka manninn úr sveitinni en ekki sveitina úr manninum. Það er víst.

Á myndinni hér fyrir ofan er Svandís Sif að máta gleraugun og spjalla við Ragnar þegar hún heimsótti hann í Brákarhlíð.

Eins og þið vitið þá hefur ekki gefist mikill tími til að setja inn fréttir og myndir en af nægu er að taka.

Vonandi hefst eitthvað af í þeim efnum á næstunni en nokkur hundruð myndir og annað efni bíða á kanntinum.

 

 

 

 

 

  • 1