Færslur: 2009 September

27.09.2009 22:05

Laufskálinn,Sparisjóður á skólabekk, kaupfélagstuð og tilnefningar í vafasömum flokki......



Ef að ykkur finnst veðrið á myndinni hér að ofan ekki gottt þá ættuð þið bara að vita hvernig það varð þegar leið á daginn................
Þarna er verið að reka stóðið til réttar í Laufskálarétt en þangað var einmitt brunað um helgina í góðra vina hópi. Veðrið var frekar leiðinlegt en þó getur maður sagt svona eftirá að það hefði getað verið verra. Við vorum í sama góða félagsskapnum og síðasta ár ,,síungar sparisjóðsgellur,, og fylgdarlið. Og er eins líklegt að þetta verði framvegis árviss viðburður.
Við fórum norður á föstudaginn og var eftirlætið mitt hann Sparisjóður tekinn með. Enda alveg frábær hópur fyrir hann svona sparisjóðs eitthvað........... Sparisjóður verður á Hólum næstu vikurnar þar sem hann nemur gagnleg og gáfuleg fræði hjá Mumma. Það er vonandi að hann takið námið alvarlega og standi sig með prýði.
Ég fékk smá fréttir af þeim þremur folum sem að fóru norður að Hólum um daginn til náms og eru þær frekar jákvæðar.
Á laugardaginn byrjuðum við daginn með því að bruna í Kaupfélagið á Sauðárkróki. Mér finnst alltaf jafn gaman að koma í Kaupfélagið og skoða þessa flottu búð þar sem allt milli himins og jarðar er til. En ég er alltaf jafn örg þegar ég eftir heimsóknir í KS hugsa til þess hvernig allt hefur klúðrast og tapast í burtu úr mínu kaupfélagssvæði Borgarnesi. Væri nú ekki margt öðru vísi í Borgarnesi ef að það væri alvöru kaupfélag, sláturhús, kjötvinnsla og mjólkursamlag?  Ég held það, en ég er gamaldags og stuttskólagengin svo að þetta er kannske vitleysa. Mér er í fersku mynni svar gamals manns sem var spurður hvort að honum þætti ekki hræðilega dýrt allt í kaupfélaginu, hann var fljótur til svars þó níræður væri
,,það er dýrt að kaupa það, ódýrt að sleppa því,,
,,það er gott að hafa það, vont að vanta það,,
en nóg af svona kaupfélagsergelsi.

Um hádegið var svo brunað í réttina til að sýna sig og sjá aðra og um kvöldið var svo lifað og leikið sér framá rauða nótt.


Þarna er þessi föngulegi hópur saman kominn fyrir utan Hótel Varmahlíð,partur af hópnum var farinn heim. Það skal tekið skýrt fram að ég tók myndina bara svona til að fyrirbyggja allan misskilning um gegnsæi.
Helga Björk, Sigurbjörg, Arnar, Bjarni, Margrét, Guðríður Hlíf, Skúli og Guðjón.
Takk fyrir samveruna...........

Það er gott að eiga góða að eins og ég hef margoft reynt.
Þegar við komum heim höfðu Þóra, Astrid og Magnús klárað að taka upp allar kartöflurnar. Þvílíkur léttir...............og takið eftir þau urðu ekki úti þrátt fyrir rok, hagl og leiðindi.

Þessa helgina var ekki tilnefndur fyrirmyndarhestur dagsins heldur fóru fram tilnefningar í flokknum ,,vandræða, glæpajúða,uppátækjahundar helgarinnar,,
Flestar tilnefningar hlutu fyrirmyndarbræðurnir Ófeigur og Þorri fyrir verkið ,,úlpa húsfreyjunnar étin,,
Nánar um það síðar.....................................irrrrrrrrrrrrrrrrr irrrrrrrrrrrrrr

23.09.2009 22:20

Réttir í máli og myndum.



Eins og ég sagði ykkur frá í síðasta bloggi þá var gaman um réttirnar. Hér koma nokkrar myndir sem staðfesta það smá sýnishorn.



Það dugði ekki minna en þrír gítarspilarar, tveir þeirra eru þarna og auk þess sérstakur laga ráðgjafi sem valdi óskalögin.



Húsráðendurnir voru kátir með skemmtilega gesti.....................



..............og þarna er Hallur frændi minn að messa yfir lýðnum og þá sérstaklega Þóru.



Og sumir tóku því rólega og horfðu á góða mynd meðan söngurinn stóð sem hæðst.



Eins og sjá má þá tók söngurinn á og urðu menn jafnvel sveittir af átökunum.



Svo urðu sumir syfjaðir þó það væri fjör.



En það sofnaði bara einn í vaskinum þetta kvöld.............................og svaf þar þegar að Astrid myndatökumaður kom að honum. Eins gott að enginn skrúfaði frá vatninu.

22.09.2009 23:16

Í réttum er þetta helst.



Þarna eru vaskir sveinar að leggja af stað til að smala Oddastaðafjall þetta eru Skúli, Hrannar og Pétur. Þeir voru hluti af heilmiklu smalagengi sem smalaði Oddastðafjall á fimmtudaginn.
Smalamennskan gekk vel og var allt féð rekið hér heim í Hlíðina þar sem það var dregið í sundur, ókunnugar kindur fóru áleiðis til síns heima en okkar kindur útá tún.

Það var þoka niður í miðjar hlíðar svo það var eins gott að rata.



Þarna má sjá þau Astrid og Sveinbjörn á lokasprettinum.



Á föstudaginn var svo aðal smalamennskan hjá okkur þegar Hlíðar og Hafurstaðalönd voru smöluð. Við vorum svo heppin að fá mikinn fjölda af aðstoðarfólki sem kom og veitti okkur ómetanlega aðstoð við leitir og ýmislegt fleira.
Ég held að ég fari rétt með að kvöldmatinn í Hlíðinni borðuðu rétt um 40 manns.
Á þessari mynd eru Óskar, Ragnar og Pétur að slaka á eftir erilsaman dag.



Hrannar, Skúli og Óskar rifja upp eitthvað skemmtilegt úr fjallinu......



Ungar dömur laðast meira að sumum en öðrum..........þarna eru Halldóra, Sveinbjörn og Astrid.



...........gat nú verið kellurnar komnar í Grandið.



Þokkalega ánægðar..............húsfreyjan og Sigfríð súkkulaðikona.



Já ............Jón láttu hana heyra það...............æviráðni vinnumaðurinn frekar áhyggjufullur.



Á laugardaginn var svo Vörðufellsrétt þar var mætt með fríðu föruneyti og dregið af miklu kappi. Veðrið lék við okkur í réttinni þetta árið og þurftum við ekki að flýja haglél þetta árið.
Það tilheyrir að mæta í kjötsúpu á Bíldhóli þennan dag og síðan í réttarkaffi þegar réttarstörfum er lokið.
Þegar við komum heim var svo brunað í Hraunholt þar sem að við áttum þó nokkurn fjölda fjár. Á heimleiðinni þaðan greip okkur mikið hreingerningaræði hvað smalamennskur varðar og hugðstum við taka með okkur eina lambrollu frá okkur sem við sáum á leiðinni. Þetta töldum við að tæki svona 10- 15 mínútur og yrði létt verk og löðurmannslegt með fullt af fólki. En annað kom nú á daginn því Kolla hafði ákveðið að heim ætlaði hún ekki með góðu þrátt fyrir að hafa eytt langri ævi hér í Hlíðinni. Rauk hún af stað og þá í öfuga átt miðað við það sem eigndurnir hefðu helst kosið.Þegar útlitið var þannig að Deila hefði fullan sigur ákvað Kolla að nú skyldi gripið til rótækra aðgerða og ekkert minna en sund útí Hlíðarvatn dyggði til undankomu. Hvort að viljinn hjá Kollu var ekki nógu einbeittur eða ellin farin að segja til sín þegar kom að því að leggjast til sunds er ekki alveg á hreinu en eitt er víst Skúli var heldur sneggri og gat rétt svo rokið úti vatn og gripðið í sunddrottninguna áður en hún drekkti sér. Var Kolla handtekin með það sama og henni dröslað uppí bíl og flutt heim.
Klukkan var orðin margt þegar hangikjötið var snætt í því efra þann réttardaginn. Um kvöldið var svo aðeins kíkt í söngbók með undirleik og haft töluvert gaman vel fram á nótt jafnvel alveg fram á morgun. Það er bara þannig að menn þurfa mislangan svefn.



Á sunnudagsmorgunn var svo rekið inn allt safnið þá rigndi mikið og allt var sóðalegt.



Réttarstörfin gengu vel enda harðsvíraður mannskapur okkur til aðstoðar.
Ókunnugar kindur voru rétt um 5oo eins og venjulega þær voru keyrðar niður í safngirðingu við Mýradalsrétt. En fé granna okkar hér á næstu bæjum fór til síns heima.
Einnig voru tekin frá 500 lömb til slátrunnar og rúmlega 200 sem fóru á fóðurkál og ætla að stækka þar næstu vikurnar. Allt þetta at var búið kl 21.00 og er það algjört met á þessum langa ,,rolludegi,,

Eins og áður sagði kom fjöldi fólks að aðstoða okkur og vil ég þakka þeim öllum kærlega fyrir hjálpina. Það er okkur mikilvægt að fá alla þessa hjálp hvort sem hún er í fjallinu, réttinni eða eldhúsinu. Takk fyrir okkur.

Eins fljótt og ég hef tíma mun ég setja inn fleiri myndir og segja ykkur hvað gerðist mánudag og þriðjudag.................læt hér staðar numið að sinni.

21.09.2009 23:19

Afsakið hlé.................


Ég er komin til byggða þó svo að lítið sem ekkert hafi heyrst eða sést frá mér að undanförnu.
Það er nú bara þannig að ég hef ekki haft neinn tíma til að setjast niður við tölvuna og segja ykkur fréttir. Ég tók fullt af myndum af mönnum og málleysingjum sem að koma inn um leið og ég hef tíma.

Hér kemur smá yfirlit yfir síðustu daga en allt kemur nánar við fyrsta tækifæri.

Miðvikudagurinn 16 sept sjá fyrra blogg.
Fimmtudagurinn 17 sept vel heppnuð smalamennska á Oddastöðum.
Föstudagurinn 18 sept smöluðum Hlíðar og Hafurstaðalönd (kannske pínu meira)
Laugardagurinn 19 sept farið í Vörðufellsrétt og einnig sótt fé í Hraunholt.
Sunnudagurinn 2o sept rekið inn hér heima dregið í sundur, lömb tekin frá í slátur og ókunnuga féð keyrt í Mýrdalsrétt.
Mánudagurinn 21 sept rákum inn 500 sláturlömb og smöluðum smá meira.
Þriðjudagurinn 22 sept 500 lömb fara norður á Sauðárkrók í slátur, Mýrdalsrétt og frúin bloggar örugglega...........................

16.09.2009 23:06

Fyrsti í leitum...............



Á þessari mynd er hún Ansu okkar frá Finnlandi að vinna með hest í hringgerðinu, Deila athugar hvort að allt fari ekki vel fram.

Það rigndi mikið í dag og fyrripartinn var það næstum eins og í leitunum í fyrra sem sagt rok í kaupbætir. En föstudagurinn aðal leitardagurinn lítur vel út samkvæmt nýjustu veðurspám.
Annars er ég að spá í að nýta mér speki sem mér var einu sinni sögð en þá í annari merkingu.
Það var þannig að kona nokkur var voða niðurdregin vegna þess að hana hafði dreymt draum sem táknaði eitthvað voðalegt samkvæmt draumráðningabókinni hennar. Þeim sem voru í kringum hana og tóku þátt í þessum dapurlegu umræðum leið ekki vel og reyndu eftir fremsta megni að hughreysta hana. Þá barst þeim þessi góði liðsauki sem var kona á áttræðis aldri sem sagðist hafa fundið góð ráð við svona málum fyrir u.þ.b 50 árum síðan.
Það væri til fullt af draumráðningabókum og ef að draumurinn boðaði illt í einni bók þá væri bara að fara í þá næstu. Draumarnir væru hvort eð er alltaf fyrir giftingu, dauða eða langlífi svo að ef að þér hugnaðist ekki dauðinn þá yrðir þú að velja langlífi eða giftingu.
Þannig að ég les veðurspá á mörgum stöðum og hlusta líka á hana í útvarpinu. Vel svo bara þá bestu og hef gott veður sem oftast.

Það var fyrsti í leitum í dag og við tókum smá upphitun fyrir næstu daga. Ég, Skúli og Astrid fórum af stað og Sveinbjörn veitti faglega ráðgjöf úr bílnum. Við smöluðum það sem við köllum inní hlíð og útá hlíð. Þetta er eina svæðið sem að við smölum ekki á hestum svo að þarna reyndi á lipurð og þol. Allir skiluðu sér heim hressir og kátir svo að við teljumst því vera bara nokkuð spræk. Afraksturinn voru ríflega hundrað kindur.

Í dag komu þær mæðgur Bráðlát og Svartasunna heim eftir dvölina hjá honum Stikli frá Skrúð. Gott fólk tók þær mæðgur með sér áleiðis hingað vestur þar sem við vorum í smalastússi svo að ég hef ekki ennþá fengið að vita hvort að Bráðlát er fengin.
Svartasunna hafði stækkað mikið og var spök og skemmtileg.

16.09.2009 10:49

Flipi með enskri kynningu.


Vildi bara láta ykkur vita að nú er kominn flipi hér fyrir ofan sem heitir ,,english,,  endilega komið því til skila til þeirra sem þurfa á því að halda.
Ég verð að deila því með ykkur hvað er gott að eiga góða að þegar halda á úti svona heimasíðu. Það þarf sko að halda mér við efnið ef að ég fengi nokkru ráði væri ég alltaf úti.

Takk Tommi, Tóta, Hulda Geirsdóttir og  Mummi ,,litli,,

15.09.2009 22:42

Næstum út í veður og vind........



Ef að þið skoðið vel þá sjáið þið regnbogann þarna rétt við húshornið, ég held að hann þýði örugglega að það verði blíða um réttirnar. Enda búið að vera alveg þokkalegt veður í dag.

Í gær rauk húsfreyjan ásamt fríðu föruneyti úti kálgarð að taka upp kartöflur. Veðrið var nokkuð gott hlýtt en strekkings vindur. Þegar freyjan og föruneytið höfðu hamast þó nokkra stund fór heldur að bæta í vindinn. Loks kom að því að vindurinn og við fórum að togast á um kartöfluföturnar en þar sem við öll töldum okkur hraust og fær í flestan sjó héldum við áfram eins og ekkert væri.  Þegar lengra leið á daginn fór líka að rigna,  já og sko rigna í alvöru. Síðan bætti ennþá meira í vindinn en áfram var haldið af miklu kappi. Skyndilega fór Astrid danska vinnukonan okkar að segja okkur að ef að það væri svona veður í Danmörku þá kæmi maður í sjónvarpið og segði fólki að það ætti að vera heima hjá sér. 
Stuttu eftir þá umræðu fylltist fatan hjá húsfreyjunni og hún stóð upp úr moldarbeðinu og hugðist losa kartöflurnar í poka skammt frá. Kom þá í ljós að sennilega væri þetta vont veður og ekki bara á danskan mælikvarða. Þar sem að húsfreyjan hefur nokkurs konar innbyggð ankeri tókst hún ekki á loft, en litlu mátti muna. En Guði sé lofa að þetta var ekki vinnukonan hún hefur engin ankeri.
Þegar hér var komið við sögu var ákveðið að tímabært væri að taka hlé á kartöflu upptökunni og láta kartöflurnar spretta aðeins meira.
Var það samdóma álit allra viðstaddra að þær mundu spretta alveg ljómandi vel þar til að það kæmi gott veður.

Ég skrapp til Reykjavíkur í morgun á fund þróunarfjárnefndar í Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta var loka fundurinn hjá okkur í nefndinni en við erum búin að funda í þó nokkur skipti þetta árið. Mörg merkileg mál komu inná borð til okkar og var afar erfitt að gera uppá milli þessara góðu mála þegar kom að úthlutun.
Vonandi verður fjárúthlutun nefndarinnar hestamennskunni til góðs.



14.09.2009 22:02

Smalar kynntir til leiks..................



Þá er komið að því að kynna væntanlega stórsmala sem mæta til starfa nú í vikunni.

Fyrstan kynni ég til leiks Þorra Káts hann er ungur og efnilegur svolítið undirförull en afar áhugasamur smali. Hann á að baki örlítinn afbrotaferil sem er þó innan skekkjumarka og hægt að heimfæra að helst öllu leiti á aðra, svo sem tjaldbúa og illa staðsettar túnrollur.
Það vill svo illa til að Þorri þarf að stunda bóklegt nám í vikunni og hefur því boðað forföll.



Næstur er kynntur til leiks Ófeigur Káts hann er blíðlindur og svolítið óheppinn klunni sem vill allaf gera vel en með misjöfnum árangri. Hann á engan afbrotaferil að baki og helgast það helst af því að hjartað er frekar lítið og að hans mati mjög óskynsamlegt að vera yfir höfuð að fara að heiman. Helsti kostur hans er að eins strengs rafmagnsgirðing heldur honum alveg eins og ætlast er til með stórgripi eins og hann. Því miður verður hann upptekinn við að gæta hússins svo að hann tekur ekki þátt í smalamennsku að sinn.



Næst kynni ég til leiks íslenska fjára hana Snotru Kubbs hún er lítil, málgefin og afskiptasöm. Snotra hefur mjög mikilvæg hlutverk á heimilinu, vera mjúkur bangsahundur til að knúsa og kjassa og að bera ábyrgð á öllum afglöpum sem bræðurnir Ófeigur og Þorri framkvæma.
Af þessu sjáið þið að hún er þjökuð af vinnuálagi. Snotra vill ef að hún fær að ráða alltaf hafa síðasta orðið. Snotra er vinur vina sinna, vinir Snotru eru allir sem vilja.
Snotra verður ,,talsmaður,, hunda í leitunum.



Síðast en ekki síst er það svo hún Deila Flókadóttir gamla kempan yndislega ljúfur og góður hundur. Hún er algerlega ómissandi í leitirnar og stendur sig alltaf með prýði, verst hvað hún er að eldast. En synirnir tveir koma sterkir inn og verða vonandi búnir með það bóklega næsta haust. Deila er kurteisasti hundur sem að ég hef kynnst og vill alltaf gera manni til geðs. Deila verður yfirsmalahundur búsins eins og mörg undanfarin á.


13.09.2009 21:50

Sparisjóður grasekkill.......og smalafiðringur að auki.



Eins og þið sjáið hér á myndavalinu er kominn smalahugur í húsfreyjuna enda farið að styttast verulega í fjörið. Þessi mynd var tekin 4 september s.l og sýnir Djúpadalsána frekar aumingjalega en eins og þeir muna sem smöluðu með okkur í fyrra þá getur hún orðið ofsafengin og gráðug ef að hún fær til þess vatn. En við vonum bara að hún komist ekki í svoleiðis ham þetta haustið þrátt fyrir vafasama veðurspá.



Er ekki mikið um svona sveigur og beygur þarna á Hólum?
Rétt að æfa sig áður en alvara lífsins hefst svo að maður verði ekki mesti tossinn í bekknum.
Þetta er hann Vörður Arðsson sem núna er á Hólum í háskóla.

Ég verð að játa að ég bíð spennt eftir því að vita hvernig hestarnir þrír sem fóru norður að Hólum komi til með að standa sig í náminuu. Í næstu viku byrjar þetta fyrir alvöru og þá fyrst verður að vænta frétta.

Í dag fór síðasta hryssan heim frá honum Sparisjóði, það var fullorðin hefðardama utan af Nesi sem að vonandi hefur haft bæði gagn og gaman af dvölinni.
Hann var svolítið einmanna en hresstist þegar að hann kom inní hesthús þar sem hann hitti góða félaga. Á morgun fer hann út í nýja girðingu þar sem að hann slappar af eftir annir sumarsins og safnar kröftum fyrir annríki haustsins. Það er annasamt að vera uppáhalds.

Réttin heim við fjárhús fékk aðeins upplyftingu í dag þegar að árleg yfirferð fór fram. Á morgun er það svo girðingin sem á að draga úr líkum á því að allt féð tapist út um allt þegar rekið verður inn á sunnudaginn næsta. Sem sagt undirbúningur í fullum gangi og bráðum hægt að segja eins og gjarnan fyrir jólin ,,bara eftir að kveikja á kertunum,,

11.09.2009 23:14

Mér finnst rigningin góð............í hófi.



Þarna sjáið þið hana Siglingu Sólons og Dimmudóttir hún er fædd árið 2008 .

Þurrkurinn er búinn allavega í bili, hér í Hlíðinni er það bæði jákvætt og neikvætt að mínu mati. Það jákvæða er að þá fer vatnið kannske að ná upp að girðingunum aftur og svo var gróðurinn orðin svolítið þyrstur. Það neikvæða er ef að það rignir fram að leitum þá verður fjallið leiðinlegt yfirferðar á hestum og það þykir slæmt á þessum bæ. Vonandi leysist þetta á jákvæðan hátt og það rignir bara þangað til vatnið hefur vaxið mátulega upp að girðingunum.
Svo sé ég í hyllingum logn, þurrk og passlega heitt í leitum og réttum hér í Hlíðinni.
Já það styttist í leitir nú er bara að krossa fingur og vona að sem flest af liðinu okkar geti mætt og aðstoðað okkur í kringum næstu helgi.

Hér var starfrækt bakarí í dag, já í alvöru meira að segja með tveimur starfsmönnum. Starfsmennirnir voru ég og Astrid, verkaskiptingin var ekki flókin ég subbaði út og hún vaskaði upp. Tegundirnar urðu bara nokkuð margar og uppskriftirnar stórar. Svo smökkuðum við báðar allar afurðirnar og vorum sannfærðar um að ef að við leggðum þetta fyrir okkur væri það ekki spurning við mundum slá í gegn.
Allavega hvor hjá annari.

Eins og þið hafið kannske tekið eftir setti ég inn smá myndasyrpu frá stóðsmöluninni undir takkann ,,albúm,, Ætlaði svo að vera dugleg og setja inn fleiri myndir í kvöld en það hafðist nú ekki en stendur til bóta sem fyrst.
Við höfum líka bætt við nýjum söluhrossum og eigum enn eftir að bæta þar við þegar ég hef verið duglegri að taka myndir.

09.09.2009 21:04

Miklubrautardarraðadans, skírn og fleira.



Alltaf eitthvað að bralla..............húsfreyjan og Blika að velta vöngum yfir ævafornum stöngum. Þær eru ekki bara fallegar uppá vegg þær eru líka bráð skemmtilegar uppí hesti.

Það hefur heilmikið á dagana drifið hér í Hlíðinni síðan ég skrifaði síðast á síðuna.
Á mánudaginn fór Mummi norður þar sem hann er að hefja sitt annað námsár við Háskólann á Hólum. Mér sýndist að hann væri bara mjög spenntur og áhugasamur að byrja aftur. Enda ekkert smá spennandi nám sem í boði er og skemmtilegur félagsskapur.
Þegar ég í síðustu skrifum var að telja upp krakkana ,,mína,, sem ég þykist eiga eitthvað í sem eru á Hólum gleymdi ég henni Höllu Maríu. Halla hvernig gat það nú gerst??? Halla var hérna hjá okkur í þó nokkurn tíma og var t.d að vinna hjá okkur heita sumarið fína þegar sem mest var sundriðið í vatninu.
Í gær var svo brunað með fjórfætta Hólanema norður það voru þeir Baltasar sonur Trillu, Vörður sonur Tignar og Fjórðungur sonur Sunnu og allir eru þeir synir Arðs frá Brautarholti.
Nú er bara að vona að bæði krakkarnir og fjórfættlingarnir standi sig vel í náminu á Hólum.
Mummi og Helgi eru sambýlingar á Hólum og þegar við vorum á ferðinni í gær buðu þeir uppá þessa fínu súpu, brauð og kaffi. Koma bara sterkir inn..........húslegir drengirnir og meira að segja með matreiðslubók í sínum fórum. Næstum viss um að ég fæ steik í næstu ferð.

Á sunnudaginn var litla daman þeirra Randiar og Hauks skírð í Reykholtskirkju, hún hlaut nafið Kristín Eir. Þetta var falleg og hátíðleg athöfn og svo glæsilegt kaffihlaðborð í Skáney á eftir. Ég var að rifna úr stolti yfir því að vera skírnarvottur og svo tek ég ,,ömmuhlutverkið,, alvarlega og hef rosalega gaman af því að fylgjast með þessari fallegu dömu.
Takk fyrir skemmtilegan dag og frábærar veitingar, alltaf gott og gaman að koma í Skáney.

Á mánudaginn var stjórnarfundur hjá Félagi tamningamanna sem haldinn var í Reykjavík.
Þegar ég var á leiðinni heim af fundinum hvellsprakk á miðri Miklubrautinni, sem betur fer tók bíllinn ekki af mér völdin og gat ég rennt mér útí kannt. Húsfreyjan hugðist rjúka til og skipta um dekk en áttaði sig þá á því að hún var sko aldeilis ekki á gömlu góðu toyota touring sinni. Upphófst nú heljarinnar basl og verð ég að játa að ekki var nú eingöngu lognmolla í kringum húsfreyjuna þar sem hún og trukkurinn húktu uppá götukannti í brjálaðri umferð.
Á svona stundum er nauðsynlegt öllum konum að eiga eiginmenn sem hægt er að hringja í þó ekki nema til þess að hundskamma þá fyrir að þetta hafi gerst.
Hvort að þeir geti nokkuð að því gert er svo önnur saga. 
Sem sagt í stuttu máli....hringdi í bóndann....öskureið....aðallega af því að ég gat ekki skipt um dekk........veit að það er aulalegt að ná ekki dekkinu undan.
Kvaddi fljótt og skellti á........já ég held að ég hafi kvatt, hringdi í soninn bara til að vita hvort að dekkið losnaði ekki við það og jafnvel varadekkið færi sjálft undir. Þetta var gert þó svo að hann væri norður á Hólum og ég í Reykjavík. Settist aftur inní bíl og áttaði mig þá á því að sennilega væri ég búin að vera í bráðri lífshættu þarna í útjaðri hraðbrautarinnar MIKLUBRAUTAR sem að allir virtust keyra um eins og þeir væru í tímatöku í formúlu eitt.  Meðan á þessu basli stóð ákvað bóndinn að vænlegast væri að fá góða menn húsfreyjunni til bjargar. Þar sem að hann hefur áralanga reynslu að tamningum (stundum á geðvondum hryssum) valdi hann að ræða þá ákvörðun ekkert að sinni við húsfreyjuna heldur láta verkin tala og boða mennina beint á staðinn. Mættu því heiðursfeðgar á staðinn á ótrúlegum tíma.
Ég verð að játa að ég var afar fegin komu þessara góðu manna.
En þó að ljótt sé frá að segja þá leið mér nú svolítið betur að verða vitni af því að þessi dekkjaskipting var helv......basl líka hjá vörubílstjóra og þaulvönum hagleiksmanni.
Já kellur úr fjöllunum geta ekki alltaf allt frekar en ofurkonur úr höfuðborginni.............
Takk fyrir hjálpina drengir bæði andlega og verklega.



06.09.2009 21:19

Hin heilaga þrenning og stóðsmölun.



Hin heilaga þrenning............................Dregill, Fannar og Proffi í dekurgirðingunni.
Þessir fínu herrar fóru í haustfrí á fimmtudaginn. Dregill og Fannar eru búnir að standa í ströngu alveg frá því í desember í fyrra, vera á Hólum og keppa helling í sumar. Svo að fríið var virkilega kærkomið hjá þeim.  Proffi aftur á móti er eiginlega í sjálfteknu haustfríi í óþökk húsfreyjunnar sem að sannarlega ætlaði að nota hann miklu meira í haust. En klárinn er klár því fann hann bara fínan slagsmálahest og hljóp og tuskaðist við hann þar til báðar fram skeifurnar voru farnar og hófarnir með. Því var fátt annað í stöðunni en frí og hófasöfnun.



Á föstudaginn smöluðum við stóðinu og rákum það heim til þess að taka frá hross sem að eiga að fara að sinna göfugra hlutverki en því að bíta gras uppí fjalli.



Það var hopp og hí og hamagangur................. þarna fer hluti af stóðinu yfir Djúpadalsá.




Urðin mín ákvað að það væri sniðugt að óþekktast svolítið og hljóp á undan út leira.



..............og að lokum voru allir komnir inní gerði.
Þarna er hún Glotthildur Glottadóttir að kljást við Vörð og Léttlindur fylgjist með.



Og Mummi fann Snekkjuna sína sem er alltaf jafn geðgóð og skemmtileg. Muggur gæist inná myndina líka.

02.09.2009 22:14

Hólakrakkar, heimasæta, smölun og síðan á ensku.



Það styttist óðum í að Mummi fari norður að Hólum og hefji sitt annað námsár við skólann.
Eins og þessi heimildarmynd ber með sér þá voru vel flestir mjög áhugasamir um námið.
En það verða fleiri en Mummi á Hólum sem við þykjumst eiga eitthvað í. Alma Gulla okkar góða vinkona já og vinnukona til margra ára er að hefja þar nám. Þegar að hún kom við hjá okkur á leið norður og gisti vorum við að ræða um hvað það væri skrítið hvað tíminn líður alltaf hratt. Samt er flest eins og gerst hafi í gær. Til dæmis finnst mér það mjög stutt síðan hún kom fyrst til okkar en þegar við fórum að hugsa málið þá voru árin orðin ótrúlega mörg.  Hann Helgi okkar ákvað líka að skella sér á Hóla, það er eins með hann mér finnst að hann hafi næstum alltaf verið einn af okkur hér í Hlíðinni. Þannig að þið sjáið að ég get eignað mér fullt af góðum krökkum á Hólum þennan vetur eins og þann síðasta.
Verið þið nú stillt og dugleg elskurnar.emoticon
Já og ekki nóg með það því þrír aðrir nemendur flytja héðan norður í næstu viku og ,,setjast,, á skólabekk. Nánar um það síðar..................smá spenna.

Við fengum mjög skemmtilega heimsókn í gær hér mætti litla Hauks og Randiardóttir heimasæta í Skáney með fríðu föruneyti. Hefur hún stækkað heilmikið síðan ég sá hana síðast og fer örugglega að passa í reiðbuxur fljóttlega. Ég verð að fara að drífa mig við prjónaskapinn áður en daman stækkar mikið meira svo að ég endi ekki með fermingakjól.

Fyrir ykkur sem hafið hagsmuna að gæta þá ætlum við að smala stóðinu á föstudaginn og reka það inn tímasetningin er ekki endanlega ákveðin en hafið þið endilega sambandi.

Að undanförnu hef ég fengið mikið af bréfum erlendis frá fólki sem að skoðar heimasíðuna og er að leita sér upplýsinga um ýmsa hluti er varða hestamennsku og höfum við því ákveðið að breggðast við því.
Um þessar mundir er verið að vinna að því að koma helstu upplýsingum hér á síðunni yfir á ensku og verður það vonandi klárt sem fyrst.
  • 1