19.05.2009 23:18

Vorið góða.............
Þau eru mörg handtökin í sauðburðinum og frábært að hafa á sínum snærum úrvals harðsnúið lið sem hjálpar okkur ómetanlega. Þessi unga dama vildi t.d létta á þrengslunum í fjárhúsunum og taka eitt lamb með sér í Garðabæinn. Ekki mikið mál þegar maður hefur úrvals íslenskan fjárhund við hendina til að smala.
Síðasta vika hefur verið afar fjörug og nú eru einungis 180 kindur eftir að bera. Við höfum verið að marka og setja út síðustu daga og óðum fækkar kindum og lömbum í húsunum.

Eitt folald er fætt og var það hún Snör sem reið á vaðið þetta vorið og eignaðist jarpan hest sem hlotið hefur nafnið Mói. Faðirinn er hann Sparisjóður minn sem stendur stolltur í stíunni sinni. Verst er að ég held að hann viti svo sem ekkert af hverju hann eigi að vera stolltur, afkvæminu eða sjálfum sér. Nú á næstunni er svo von á folöldum m. a undan Auði frá Lundum, Feikir frá Háholti, Arði frá Brautarholti, Gosa frá Lambastöðum og Adam frá Ásmundarstöðum svo eitthvað sé nefnt.

Salómon er störfum hlaðinn þessa dagana og brjálað að gera í fuglaskoðun. Verst hvað þeir eru fljótir að fljúga og erfitt að skoða þá í nærmynd. En hann er vongóður um að einn góðan veðurdag eða nótt geti hann fundið fallega tegund og jafn vel haft ,,kló,, á einum.


12.05.2009 23:27

Sauðburður..................
Undan farnir dagar hafa verið bara nokkuð rólegir og lítið að gerast í sauðburði, en það breyttist heldur betur í dag þegar allt fór á annan endann. Í morgun báru tvílembur hver í kapp við aðra og eftir hádegi byrjuðu þrílemburnar að keppa. Við reynum alltaf að taka eitt lamb af þremur hjá þrílembunum og venja undir einlemburnar ef þess er nokkur kostur. En í dag bar aðeins ein einlemba, ekki nokkurt skipulag á þessum ættleiðingamálum hjá kindunum.
Eftir hádegið fórum við svo með fullorðnu hrútana og geldfé á kerru suður að Hafurstöðum, það gekk allt vel þar til að Claasinn varð of þungur fyrir jörðina og hún gaf sig. En allt gekk þetta nú upp fyrir rest og núna er allt orðið með kyrrum kjörum í fjárhúsunum og Claasinn kominn heim á hlað. Þökk sé góðum granna. Okkur hefur bæst heljar liðsauki bæði utan og innan dyra sem gerir okkur kleift að láta þetta allt ganga. Núna eru bara skipulagðar vaktir allan sólarhringinn.

Fyrirmyndarhestar dagsins voru allir hestarnir í hesthúsinu sem tóku því með jafnaðargeði að við vorum meira og minna í fjárhúsunum í dag. En eins og áður hefur komið fram þá erum við komin með harðsnúið lið sem nú er á vöktum allan sólarhringinn. Svo að við getum snúið okkur að hestunum á morgun.

Mikið af myndum bíður þess að húsfreyjan hafi tíma til að smella þeim hér inn við fyrsta tækifæri.

08.05.2009 22:44

Vonandi verður þetta snjóléttur sauðburður.
Voff, voff... hættu, hættu Gosi þú verður skítugur þetta er alveg bannað.................

Ég verð nú að játa að snjórinn sem var á jörðinni í morgun vakti ekki sérstaka lukku í Hlíðinni. Og því síður rokið og kuldinn sem var í allan dag, en þar sem ég er í eðli mínu óhóflega bjarsýn settist ég niður í ,,hugsistólinn,, minn og fór yfir allt það jákvæða sem væri í vændum. Gott veður, fullt af lömbum, glæsileg folöld, mikil spretta, ný ríkisstjórn? Aaaa er svolítið efins um að það síðasta verði jákvætt. En best að vera til friðs og vona það besta.

Ferðin norður að Hólum hjá okkur í stjórn Félags tamningamanna heppnaðist vel og fundurinn var góður. Við skoðuðum aðeins hvað nemendurnir voru að gera og sáum að það voru allir að setja sig í gírinn fyrir lokaprófin í næstu viku. Mummi smellti sér aðeins á bak Þríhellu fyrir mig og leist mér bara vel á hana. Hún er öll að koma til og vonandi að meðferðin hjá Sússí dýralækni virki vel.

Það voru mörg hross járnuð í Hlíðinni í dag og þó nokkuð riðið ,,út,, inni og reyndar aðeins úti líka. Verð samt að játa að skilyrðin til þess voru ekki góð og á köflum varasöm.
Fyrirmyndarhestur dagsins var skemmtilegur Hróðssonur sem er algjör töffari en með afar lítið hjarta. Hann er rétt að byrja sinn tamningatíma en lofar mjög góðu og verður flottur ef að vel tekst til.
Við erum farin að fylgjast vel með hryssunum og bíðum spennt eftir fyrsta folaldinu.
Sauðburðurinn fer örugglega að bresta á af fullum þunga svo það er skynsamlegt að fara að halla sér.

Á morgun verður vonandi betra veður og allt í blóma.


05.05.2009 21:41

Vorið er ekki alveg visst.


Þetta vor er nú ekki alveg sannfærandi, allavega var rigningin ekki alveg viss hvort hún ætti að vera rigning eða kannske bara snjór. Ég hugsaði til orða sem eitt sinn voru sögð hér í Hnappadalnum ,,líklega er áburður í maísnjónum,, og hresstist mikið við það.
Það er stund milli stríða í sauðburðinum núna, rollurnar sem voru sædda eru bornar og ekki alveg komið að hinum. Reyndar er ég ekki ánægð með hversu margar rollur sem voru sæddar hafa ekki haldið. Alvöru fjörið hefst svo um og upp úr næstu helgi.
Það fæddist upprennandi kynbótahrútur í gær hann er undan sjarmatröllinu Kveik og henni Sparisvört sem hefur nærri því allt til að bera sem hæfir ofurkind. Það skal sérstaklega tekið fram að hann mun ekki hljóta nafnið Steingrímur. En nafnið Sindri kemur sterkt til greina.
Einnig er fæddur mókollóttur sjarmur sem kemur nú bara nokkuð sterkur inn þegar hugsað er til frekari kynbótaafreka.

Á sunnudaginn fór hann Dregill aftur norður að Hólum þar sem hann og Mummi ætla að lesa saman fimmgangsfræði. Nú er að koma að loka sprettinum í náminu á þessum vetri.
Ég ætla að kíkja á þá félagana á morgun þegar að ég skrepp norður með góðum félögum mínum í stjórn Félags tamningamanna. Alltaf spennandi að koma að Hólum.
Í dag var fundur með kynbótadómurum og stjórnarmönnum í Fagráði í hrossarækt fundurinn var haldinn á Miðfossum. Þetta var fínn fundur þar sem rætt var um hvort að færa eigi einhvern hluta af kynbótasýningunum inná hringvöll.

Fyrirmyndarhestur dagsins var Bikar Oddsson (ekki bróðir Davíðs) hann var frábæri í dag.

02.05.2009 22:28

Gosi kominn með farseðil.Þetta var nú góður dagur eins og ég reyndar leyfði mér að vona í morgun líkt og aðra morgna. Rauk á fætur eldsnemma og gaf hrossunum til að keppninsgaurarnir yrðu búnir að borða áður en lagt yrði af stað. Í dag var nefninlega úrtökumót hjá hestamannafélaginu Glaði fyrir Fjórðungsmót í sumar. Gosi kallinn var bara í nokkuð góðu stuði og gerðu þeir félagarnir Skúli og hann sér lítið fyrir og sigruðu B flokkinn. Svo nú er bara að halda dampi vanda sig og æfa næstu vikurnar. Mummi fór líka með Dregillinn í A flokkinn og fékk bara fínar tölur fyrir allt nema skeið. Dregill lenti í 5 sæti sem er varahestasæti svo það borgar sig að halda sér við efnið og smyrja fimmtagírinn.

Þegar við komum heim í dag sá ég að við eigum ekki bara fallega hvolpa heldur líka afburða skynsama. Þannig er að símtækjum er dreift um húsið til að meiri líkur séu á því að ná að svara í símann í tæka tíð. Með öðrum orðum við erum með þráðlaust tæki og svo einn gamlan góðan sem er með snúru í tólið eins og allir símar voru fyrir ótrúlega stuttu síðan. Sá sími er staðsettur í þvottahúsinu við bakinnganginn eins og hvolparnir okkar fínu. Hér í Hlíðinni kemur það oft fyrir að síminn hringjir nær stöðug í langan tíma og við ekki heima. Það hefur sennilega gerst í dag með þeim afleiðingum að Ófeigur og Þorri hafa fengið nóg. Það er afar sjaldan sem að þeir félagarnir eru kallaðir í símann svo að þeir hafa talið óþarft að svar heldur gripið til rótækra aðgerða. Dregið símann niður af hillunni og nagað sundur símasnúruna og viti menn síminn steinþagnað. Ég verð að játa að ég hef örlítið meiri áhyggjur af því ef að þeir fá leið á hljóðinu í þvottavélinni.....................

Sauðburðurinn er aðeins farinn af stað bornar ríflega 20 stykki og bara gengið nokkuð vel ennþá. Verður vonandi svo áfram. Búin að fá mókollótan hrút, svarta og svartbotnóttar kollóttar gimbrar og svarta og svartbotnóttar hyrndar gimbrar. Allt afrakstur sæðinga.

Fyrirmyndarhestur dagsins var að sjálfsögðu Gosi frá Lambastöðum og í örðu sæti Dregill frá Magnússkógum. Einnig er alltaf jafn gaman að sjá vinkonu mína gæðingshryssuna Þernu frá Spágilsstöðum sem var að keppa í dag, úrvals hryssa þar á ferð.

Ég fór og skoðaði fylfullu hryssurnar í fyrradag er farin að hlakka til að fá folöld, fyrsta hryssan getur kastað eftir rúma viku. Alltaf jafn spennandi að sjá hvað kemur úr ,,pökkunum,, verður það hryssa? hvernig á litinn? og verður það fallegt?
Annars er ég niðursokkin í stóðhestblaðið flestar lausar stundir og bölva því stundum að það skuli ekki vera skylda að hafa alla stóðhesta í blaðinu. Það væri mikið hagræði fyrir uppteknar t d húsmæður og fleira gott fólk.


27.04.2009 21:20

Það er blessuð blíðan.


Mætti þessum köppum á förnum vegi í gær og skaut einu myndaskoti á þá.
Mummi á Dregli frá Magnússkógum og Skúli á Freyju frá Lambastöðum.

Það var snildarblíða í dag og vorið svo sannarlega komið, fuglasöngur og sprettulykt í lofti.
Gaman að ríða út á svona degi það verður einhvern veginn bara allt gaman á svona dögum.

Ég var í fréttafríi í dag var búin að hlusta á allar fréttir sem ég komst yfir í nokkrar vikur. Og viti menn mér leið bara alveg bærilega, kannske verður maður bara bjartsýnni af því að hlusta á fuglasöng en framboðssöng. Annars er ég bara nokkuð sátt eftir kosningarnar svona miðað við allt og allt. Að sjálfsögðu vöktum við og biðum eftir því hvernig úrslitin yrðu. Það er alltaf svo gaman að bíða eftir kosningaúrslitum. Bíð spennt eftir því að sjá hver framvindan verður í stjórnarmyndun, verð sennilega ekki í löngu fréttafríi.

Ég var að skoða dagbókina mína í dag og komst að því að óðum styttist í að hryssurnar fari að kasta. Sú fyrsta gæti hæglega kastað í kringum mánaðarmótin og svo hver af annari og sú síðasta væntanlega í ágúst. Svolítið seint en þess virði að bíða þegar höfðingjar eiga í hlut.

Núna styttist líka í sauðburðinn, en þá hefst nú fjörið fyrir alvöru, vona bara að veðrið verði gott svo að allt féð geti farið út sem fyrst. Mörg ár síðan ekkert lamb hefur verið fætt á þessum tíma vors en nú fer að koma að því. Læt ykkur frétta þegar að konungshjónin verða fædd.

Þá er það fyrirmyndarhestur dagsins í dag sem var hún Máney Illingsdóttir lipur,litfögur og alltaf að verða samvinnuþýðari.


23.04.2009 23:04

Gleðilegt sumar.

Það hefur ýmislegt breyst frá árinu 1965 annað en ég. Þarna sjáið þið Hlíðina ekki húsið okkar, ekki fjárhúsin, ekki litlu fjárhúsin, ekki flatgrifjuna, ekki merarhúsið, ekki hesthúsið en þið sjáið gamla húsið, skúrinn við vatnið og Hótel Víking en það er allt farið. Svo sjáið þið fullt af göltum en engar rúllur. Hvað haldið þið að verði breytt eftir önnur 44 ár?

Já 44 ár, húsfreyjan átti afmæli í gær og var ,,eitthvað,, gömul. Það er svo skrítið að með aldrinum hættir maður að muna hvað maður er gamall. Kemur það ekki líka fyrir ykkur? Það er samt ekki það að maður vilji ekki vita það, maður gæti allavega haft það fyrir sig ef að svo væri en það er bara ekki eins áhugavert og það var á árum áður.
Það er gaman að eiga afmæli og fá fullt af góðum kveðjum frá vinum og kunningjum.
Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar.

Ég fór og dæmdi fullt af góðum hestum og knöpum á Miðfossum í dag þar sem Skeifukeppnin var haldin. Í bónus fékk ég svo happadrættisvinning sem var folatollur undir stóðhestinn Stikil frá Skrúð. Spennandi.

Veðrið var yndislegt í morgun sól, log og blíða en þegar að leið á daginn varð það hálf leiðinlegt. Og ég sem hélt að það væri komið sumar.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn megi sumarið verða ykkur ánægjulegt og gott.20.04.2009 23:34

Það var og með hunangsflugu í smjöri.

Mummi og Dregill vanda sig af lífi og sál.

Ennþá vor í Hlíðinni en lognið fór svolítið hratt seinnipartinn, bara hreinna loftið á eftir.

Dagurinn fór að stórum hluta í bókhald og pappíra hjá mér þó með léttu búskapsívafi og tamningum. Nokkrir góðir gestir voru á ferðinni sumir að skoða gripina sína aðrir að bæta gripum við. Hér kom t.d bráðsnotur hryssa í dag sem spennandi verður að skoða. Við vorum með alsystir hennar fyrir nokkru síðan og var hún mjög flott og skemmtileg. Þær systur eru undan honum Ófeigi frá Þorláksstöðum. Fyrirmyndarhestur dagsins var ungur og efnilegur Hrymssonur sem tekur nám sitt mjög hátíðlega.

Þessa dagana er ég mikið að spá í hvaða stóðhesta ég eigi að nota í sumar en gengur illa að komast að niðurstöðu. Er þó ákveðin í að halda undir höfðingjann Þrist frá Feti.
Held áfram að hugsa og deili því með ykkur við fyrsta tækifæri.

19.04.2009 23:15

Er ég kem heim í Búðardal....
Er ég kem heim í Búðardal...............Gosi og Skúli í léttri sveiflu.


Það er orðið alltof langt síðan ég hef gefið mér tíma til að setja inn fréttir í vefgluggann okkar. Svo ég hef ákveðið að reyna að vera svolítið dugleg á næstunni.
Annars er það ekki bara einskær leti að vera ekki búin að skrifa undan farið, heldur er búið að vera brjálað að gera. Við eru með margt á járnum núna svo að dagurinn er stundum alltof fljótur að líða. Það eru mörg spennandi tryppi í húsinu núna sum eru að stíga sín fyrstu skref á námsbrautinni en önnur eru lengra komin. Eins erum við með nokkur ljómandi söluhross á okkar snærum. Á síðustu dögum hefur oft verið erfitt að gera uppá milli hver sé fyrirmyndarhestur dagsins en í dag var það Muggur Hlynsson sem eins og fyrr er frábær reiðhestur.

Í gær skruppum við í Búðardal ég örmerkti nokkur falleg tryppi m. a  einn eigulegan hest undan Sóloni frá Skáney og Fenju frá Árbakka, vá sá á eftir að vera spennandi.
Skúli og Mummi kepptu á íþróttamótinu Mummi á Dregli og Skúli á Gosa. Árangurinn þokkalegur allavega þrír verðlaunapeningar meðferðis heim.
Veitingarnar í dölunum frábærar eins og venjulega tertur og steikur.
Takk fyrir góðar mótttökur.

Vorið er komið allavega í bili hlýtt, væta og fuglasöngur vona innilega að það komi ekki aftur vetur á næstunni. Óðum styttist í sauðburðinn og kindurnar að verða ansi bústnar, von er á fyrstu lömbunum í kringum mánaðamótin og allt fer á fullt í kringum 10 maí.
Er að leita mér að vökumanni í fjárhúsin frá mánaðamótum og allavega fram í miðjan mánuðinn. Þarf helst að vera vanur.emoticon  Dettur ykkur einhver í hug????
Munið konur eru líka menn.

Einhver útbreiddur misskilningur er í gangi varðandi mig og barnauppeldi. Ég er ekki að fara að taka börn í sveit í sumar bara svo það sé á hreinu.
Það hafa fjórir hringt í mig á undanförnum dögum, fólk sem að ég þekki ekki neitt eða mjög lítið. Ekki það að mér leiðist börn heldur hef ég bara engan tíma fyrir stærra heimilishald, elskurnar mínar.11.04.2009 21:18

Uppsafnaðar fréttir.Þetta er hann Vetur ,,okkar,, sem nú býr í Borgarnesi.

Úff ...það er búið að vera nóg að gera á öllum vígstöðum hér í Hlíðinni.
Hann Jan okkar frá Slóveníu fór frá okkur á mánudaginn eftir að hafa verið hjá okkur meira og minna síðan 26 febrúar s.l duglegur og skemmtilegur strákur sem vonandi kemur aftur til Íslands seinna. Og hver veit nema hann komi bara eftir að hafa klárað  læknifræðina og skelli sér á Hóla?  Jan takk kærlega fyrir skemmtilegan tíma sjáumst vonandi sem fyrst.

Á þriðjudaginn síðasta komu góðir gestir þau Tommi og Tóta vinir okkar, við áttum saman notalegan dag  skoðuðum hrossin og spjölluðum.
Á miðvikudaginn kom svo Mummi heim frá Hólum og sendi á undan sér tvo hesta sem við sóttum í Borgarnes. Annar var hann Vinningur minn sem nú er kominn heim og hefur heldur betur bætt sig, hitt er hann Dregill sem skrapp bara heim til okkar um páskana og fer sennilega aftur norður eftir páska.
Við erum svo heppin að fá hann Lalla okkar lánaðan um páskana, það gerir okkur þremur auðveldara að sinna hrossum frá morgni til kvölds.
Og nýtingin í hesthúsinu hefur verið hreint frábær alla dagana. Happafengur þessir strákar Mummi og Lalli, verst hvað páskafríið líður fljótt.
Margir góðir gestir hafa litið inn, einnig fórum við í afmælisveislu í gamla bæinn í gær hann Sveinbjörn átti nefninlega afmæli og af því tilefni var slegið í pönnsur og ýmislegt fleira góðgæti. Best er þó alltaf heimabakaða hveitibrauðið hjá henni Stellu.
Svo í dag var brunað suður að Miðfossum og þeir feðgar Mummi og Skúli tóku þátt í töltkeppni Skúli með Gosa og Mummi með Dregil, það gekk bara nokkuð vel og Skúli og Gosi komu heim með medalíu.

Bræðurnir Ófeigur og Þorri eru orðnir unglingar og eins og þið vitið fá unglingar gjarnan unglingaveiki. Þeir eru t. d alveg hættir að geta borðað úr sömu skál ef að þeim er boðið uppá það er nær alveg víst að þeir endi í hörku slag. Þeir fá ekki enn að fara í fjárhúsin og þeirra heimur nær ekki nema ákveðin radíus frá húsinu. Það gengur vel ennþá og eitt flaut nægir til að þeir þjóti heim að dyrum, hvað það verður lengi er svo spurning en er á meðan er.

Nokkrir dagar eru nú frá því að ég hef skrifað hér á síðuna og hafa fyrirmyndarhrossin því safnast upp í nokkra daga. Mig langar samt að nefna nokkur fyrst er það hún Kvika Hamsdóttir sem er alltaf að verða betri, síðan er það hann Vinningur minn sem er nýkominn heim og hefur bætt sig helling, Erla Piltsdóttir er alltaf að koma á óvart og að lokum verð ég að nefna einn frekan Víkingsson sem nú er að átta sig á gangi lífsins.

05.04.2009 20:08

Salli minn orðinn sjötugur???
Þessi elska varð 10 ára á laugardaginn, til lukku með það flotti draumaprins.

Ýmislegt hefur á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast. Á fimmtudaginn var mér boðið norður á Sauðárkrók til að halda fyrirlestur á málþingi um mikilvægi Háskólans á Hólum.
Í leiðinni var skroppið að Hólum, þar hitti ég Mumma ,,litla,, og  læddist svo inní verklegan tíma hjá verðandi reiðkennurum. Þórarinn Eymundsson var að kenna þeim og var gaman að fylgjast með og sjá hvað nemendurnir voru að gera. Skemmtilegt að koma í heimsókn á Hóla.

Á föstudagskvöldið eftir góðan útreiðadag var hópferð á leiksýningu í Logalandi þar var sýnt leikritið Töðugjaldaballið. Alveg bráðskemmtilegt leikrit söngur og dans og ekki er nú verra að kannast við flesta leikarana. Daði smalinn minn góði fór með eitt af aðalhlutverkunum og var hreint frábær. Söng, dansaði og sannaði það svo sannarlega að hann er ekki bara góður smali.Það gerði einnig Þórður bróðir hans sem spilaði í hljómsveitinni af miklum móð og kemur sterkur inn í næstu ,,réttarhljómsveit,,
Skemmtilega kvöldstund sem endaði svo með kaffi og köku hjá Þóru og Magnúsi.

Laugardagurinn var frábær gott veður og mikið riðið út og eins og stundum kvöldmaturinn á ókristilegum tíma. Um helgina urðu svolítil umskipti í hesthúsinu og núna eru stóðhestarnir orðnir fjórir. Góðir gestir litu við í hesthúsinu og skoðuðu sína gripi.
Ég komst að einu þegar ég var að telja upp hrossin sem eru á járnum að þau eru undan a.m.k 24 stóðhestum. Þeir eru Gustur frá Hóli, Hlynur frá Lambastöðum, Hljómur frá Brún, Klettur frá Hvammi, Hrymur frá Hofi, Arður frá Brautarholti, Orion frá Litla-Bergi, Stæll frá Miðkoti, Svartur frá Sörlatungu, Víkingur frá Voðmúlastöðum, Oddur frá Selfossi, Hrókur frá Glúmstöðum, Piltur frá Sperðli, Frægur frá Flekkudal, Þorri frá Þúfu, Illingur frá Tóftum, Þór frá Þúfu, Deilir frá Hrappsstöðum, Randver frá Nýja-Bæ, Skorri frá Gunnarsholti, Hamur frá Þóroddsstöðum, Huginn frá Haga, Dynur frá Hvammi, Vetur frá Hallkelsstaðahlíð og ég  er örugglega að gleyma einhverjum. Vitið þið hvað ? Ég hef skráð upplýsingar um öll tamningahrossin sem verið hafa hjá okkur síðan 1992 þau eru komin vel á annað þúsundið. Gaman að fletta, rifja upp og skoða en gaman hefði verið að eiga myndir af þeim öllum.

Hann Axel vinur okkar í Hraunholtum fermdist í dag og fórum við í þessa fínu veislu sem haldin var í Lindartungu. Við fengum nú fleiri boð um fermingaveislur í dag en því miður gátum við ekki verið í þeim öllum. En innilega til hamingju krakkar.

Þrátt fyrir veisluhöld var þó nokkuð riðið út og var fyrirmyndarhestur dagsins engin önnur en hún Ósk sem er farin að splæsa þessu fína tölti.

01.04.2009 21:36

Syndir mínar......


Jæja nú verð ég að játa syndir mínar í það minnsta svolítið af þeim.........
Því miður var frétt dagsins umvafin smá skammti af ,,skrökulýgi,, hefði samt verið gaman ef satt hefði verið. En ég lofa að þegar ég fæ vinnu í lottóinu þá bara slæ ég til og framkvæmi allt sem átti að vera á dagskránni í dag.  Annars fékk ég mörg skemmtileg viðbrögð eins og hvernig fólk ætti að mæta klætt og hvort ég gæti reddað gistingu.
Lofa eingöngu sönnum fréttum á næstunni.

Núna verð ég að fara að sofa Skagafjörðurinn eldsnemma í fyrramálið.

01.04.2009 10:14

Það stendur mikið til.

Kæru lesendur eins og þið hafið vafalaust frétt þá er stór dagur hér í Hlíðinni í dag. Ætlunin er að taka fyrstu skóflustunguna að veglegri nýbyggingu sem verður 2250 m2 að stærð.
Húsinu er ætlað að hýsa 100 hross og að auki er um að ræða reiðvöll, áhorfendapláss og skrifstofur. Í næsta áfanga er svo fyrirhugað að bæta við fjárhúsi fyrir 1500 fjár.
Fyrstu skóflustunguna mun svo Ásbjörn Óttarsson efsti maður á lista sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi taka, mun svo sveitungi okkar og sjálfstæðismaðurinn Björgvin Ölversson sjá um framhaldið.  Á eftir mun svo Hljómsveitin Upplyfting taka lagið og með henni tveir gestaspilarar þeir Guðmundur Steingrímsson og Grímur Atlason.
Meðan á athöfninni stendur munu þrír þekktir knapar standa heiðursvörð með vel þekkta stóðhesta sér við hlið. Þeir eru Daniel Jónsson og Þóroddur frá Þóroddsstöðum, Jakob Sigurðsson og Auður frá Lundum og ÞórðurÞorgeirsson og gamli höfðinginn Gustur frá Hóli.

Athöfnin hefst kl 16.00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

30.03.2009 22:14

Í sól og sumaryl ég samdi.....
Bylurinn er svo svartur í Hlíðinni núna að ég varð að fá mér sól í sinni og rifja upp góðan og ánægjulegan sumardag. Þarna sjáið þið heilan hóp manna og málleysingja leika sér í vatninu. Núna sjáið þið af hverju ég fer aldrei á sólarströnd, fer bara á fjörurnar eða í vatnið.
Á myndinni eru Mummi svo Hrannar og Ingvi Már í bátnum síðan koma Adda, Halla María og Magnús og að lokum Castró og Skúli. Ég stend uppí Hólmanum ( að sjálfsögðu í bikiníinu) og smelli af mynd rétt áður en ég stakk mér til sunds.
Svona dagar eru ógleymanlegir og gott að ylja sér við góðar minningar.

Hann Breki litli er mættur aftur í nám og tók nú með sér eina fína dömu. Það verður spennandi að sjá hvort að hann hefur einhverju gleymt.

Nokkrar geldar kindur og sauðir tóku sér far með honum Óla norður á Hvammstanga.
Þar mun fénaðurinn sinna nýju hlutverki í okkar þágu.

29.03.2009 21:57

Þessi fallegi dagur...........Glundroði minn nýgreiddur.

Dagurinn í dag byrjaði eins og dagar eiga að byrja frábært veður sól, logn og blíða. Ég rölti í róleg heitum uppí hesthús og naut veðurblíðunnar. Salómon ákvað að þetta væri úrvalsveður fyrir kellingar og ketti og rölti með nokkuð sem að hann hefur ekki gert lengi. Þegar við komum í húsin settist hann uppá stóran kornpoka þar sem hann hafði gott útsýni og gat fylgst með að allt færi vel fram. Alltaf gott að hafa einhvern traustan í eftirlitinu.
Við vorum svo heppin að hafa tvo vaska sveina hér um helgina svo að við þurftum ekkert að hugsa um gegningar í blíðunni.

Ég byrjaði á því að taka langan reiðtúr á henni Rák reiðtúr sem ég á eftir að muna lengi.emoticon
Það var mikið riðið út í Hlíðinni í dag eða alveg þangað til skollin var á stórhríð, það gerðist eins og hendi væri veifað. Við lögðum af stað í smá snjókomu og logni sem breyttist á svipstundu í öskubyl. Þannig að síðustu tveir kílómetrarnir heim buðu uppá nákvæmlega ekkert útsýni og hreint engan sumaryl. Hljómar svona grobbsögulega en er hreina satt.

Hún Rökkva Reynisdóttir sem verið hefur hér í hagagöngu um nokkurt skeið fór heim til sín í dag. Bráðskemmtilegt tryppi sem á örugglega eftir að verða eigendum sínum til ánægju.

Bræðurnir Ófeigur og Þorri dafna vel og eru óaðfinnanlegir allavega að eigin áliti. Snotra og Deila eru stundum mjög þreyttar á þeim og reyna að finna færi á að stinga þá af. Ég held að þær séu komnar á sömu skoðun og Salómon það er að þetta séu vandræða gripir.

Fyrirmyndarhestur dagsins var Proffinn sem lenti í alversta veðrinu.