Færslur: 2012 Desember

27.12.2012 22:35

Smá myndaflakk en enginn áramótapistill kominn



Þarna er Mummi að keppa á Skútu frá Hallkelsstaðahlíð sem nú hefur það hlutverk að framleiða vonandi gæðinga fyrir eigandan. Byrjað er að temja tvær dætur Skútu, Snekkju sem er á fimmta vetri undan Glotta frá Sveinatungu og síðan Trillu sem er á fjórða vetri undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu. Næst í röðinni er svo Þjóðhátíð sem er undan Glymi frá Skeljabrekku, þá er það Fleyta undan Stíganda frá Stóra-Hofi og að lokum hestur undan Sparisjóði mínum. Skúta er núna fylfull eftir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum.

Það er ótrúlegt hvað maður getur gleymt sér í gömlum myndum og þar með ekki gert neitt af viti sem maður ætlaði. Í staðinn fyrir að skrifa gáfulegan áramótapistil koma nokkrar myndir héðan og þaðan. Vonandi hafið þið gaman af þeim.



Þarna er hann Kátur minn hann er undan Auði frá Lundum og Karúnu. Kátur er á fjórða vetur og kominn vel af stað í tamningu.



Þetta er Kátur þegar hann var folald alltaf frekar sperrtur þó svo að hann hafi alltaf verið spakur.



Þessi mynd er tekin á folaldasýningu í Söðulsholti fyrir nokkrum árum, þarna eru tvær dætur Baugs frá Víðinesi. Þetta eru hryssurnar Fáséð frá Hallkelsstaðahlíð og Sjaldséð frá Magnússkógum. Sjaldséð var sýnd í vor og er komin í 1 verðlaun við ákváðum að hafa hana gelda í ár en Fáséð er enn ósýnd.
Bráðskemmtilegar hryssur með mikinn persónuleika og ekki skemmir litadýrðin.



Þessi dama er líka komin inn og byrjuð í tamningu en þetta er Stjarna frá Hallkelsstaðahlíð undan Feyki frá Háholti og Upplyftingu frá Hallkelsstaðahlíð.



Stoltur sonur Alvars frá Brautarholti og Tignar minnar er úrvals fyrirsæta og sperrir sig gjarnan fyrir myndatökur.



Það gera reyndar líka þær frænkur Stekkjaborg og Krakaborg, Stoltur á bakvið.
Stekkjaborg er undan Hlyn frá Lambastöðum og Dimmu en Krakaborg er undan Sporði frá Bergi og Þríhellu.



Þessi mynd er tekin fyrir nokkrum árum eða á þeim árum sem Mummi og Dregill voru í Garðabænum að leika sér.



Og að lokum........það er örugglega rosafjör í Finnlandi núna hjá þessum dömum, þá varð ég að smella inn einni mynd frá uppvaskinu í Hallkelsstaðahlíð. Í þá gömlu góðu :)



Og svona voru þessi flottu partýljón á góðum degi, sungið og haft rosagaman.


26.12.2012 21:05

Jólaró og líka jólafjör



Hér eru litlu flottu frænkur mínar að bíða eftir því að borðhaldið hefjist og að sjálfsögðu biðu þær þar sem útsýnið yfir pakkahrúguna var gott.

Já við höfum átt notaleg jól með öllum skemmtilegu hefðunum og ýmsu öðru sem ekki er hefðbundið en gott samt. Eins og venjulega borðuðum við öll saman í gamla bænum og sáum svo fólkið ungt og eldra taka upp gjafirnar. Síðan skelltum við okkur í það ,,neðra,, og tókum upp okkar gjafir. Kvöldið endaði svo með heljarinnar súkkulaði og kökuboði sem renndi stöðum undir það að sennilega er alltaf hægt að borða aðeins meira ef að viljinn er fyrir hendi.



Þessar dömur fengu m.a garn og lopa til að prjóna á hálfa þjóðina en sen betur fer bækur líka til að líta aðeins upp frá prjónaskapnum.



Þessi var ánægður með sínar gjafir en kortið frá nafna og fjölskyldu var samt best.



Daniela og Mummi að ræða eitthvað mjög merkilegt og Snotra reynir að leggja ,,voff,, í belg.



Fjörið getur orðið þreytandi og þá er gott að taka gæðastund með Snotru til að ná þreki fyrir pakkaopnun. Undir borði er bara ágætlega friðsælt.
Þegar litlu frænkurnar eru í heimsókn hér í gamla bænum stingur Snotra okkur af og flytur í gamla bæinn á meðan þær stoppa. Þegar þær fara drattast hún svo heim og gerir sér okkar félagsskap að góðu.



Feðgarnir voru brosleitir að fylgjast með þegar pakkarnir opnuðust einn af öðrum, já það er alltaf gaman að sjá gleðina yfir góðum gjöfum.



Við Salómon tókum eitt gott knús í tilefni jólanna og sættumst á að hann mundi ekki færa mér músasteik í jólamatinn.

Annars hefur margt verið að gerast síðustu vikuna sko annað en jólafjör.
Daginn fyrir Þorláksmessu þegar ég var u.þ.b að bruna af stað inní dali að sækja mér vestfirska eðalskötu fékk ég símtal. Á línunni var Kjartan bóndi á Dunki sem tjáði mér að ég ætti ljóngáfaðar kindur sem hefðu bara stokkið í veg fyrir sæðingamanninn sem átti leið um.
Nei nei þetta eru engin ósannindi, Ásbjörn frændi minn og frjótæknir var sannarlega á ferðinni, kindurnar hlaupandi niður við veg og þurftu á þjónustu að halda. Allt staðreynir sem renna stoðum undir það að kindur eru ekki sauðheimskar.
Þegar ég svo renndi í hlaðið á Dunki voru þeir búnir að smala kindunum heim í fjárhús.
Það var því kát kella sem brunaði heim með fimm kindur og vænan skammt af eðalskötu og hnoðmör. Takk fyrir smölunina Ásbjörn, Kjartan og aðstoðarfólk.
Eftir hádegi í dag annan dag jóla fékk ég svo annað símtal og nú var það Flosi nágranni minn á Emmubergi sem var á línunni. Hann hafði þá verið á ferðinni og séð til kinda, Flosi var ekkert að tvínóna við hlutina og rauk til og smalaði þeim heim að Dunkárbakka. Ekki var hamingjan minni með þessar sex kindur þó svo að engin skata væri sótt í sömu ferð.
Takk fyrir Flosi, eintóm hamingja að fjölga í fjáhúsunum.

Jólafrí er svolítið huglægt í sveitinni það þarf að gera öll útiverkin en þau eru gerð með öðrum hætti þegar maður er í jólafríi. Svo er bara að taka það rólega eins og hægt er og njóta þessa að vera jólakelling nú eða kall.
Mummi flaug til Svíþjóðar í nótt en þar biðu nemendur sem verða á reiðnámskeiði hjá honum fram að áramótum. Ef að allt gengur upp þá lendir hann seinnipartinn á gamlársdag og rétt nær í steikina eins og Astrid sem kemur heim frá Finnlandi sama dag.

Alltaf eitthvað fjör í gangi hér í Hlíðinni.

24.12.2012 14:19

Gleðilega hátíð

23.12.2012 11:10

Reiðnámskeið

Reiðnámskeið

Dagana 25-27 janúar 2013 í Söðulsholti



Kennari: Guðmundur M. Skúlason, reiðkennari FT

Aðalmarkmið námskeiðsins er að auka þekkingu, gleði og ánægju í hestamennskunni.

Janúar er frábær tími til að koma sér í gírinn, fá smá fróðleiksmola og aðstoð um það hvernig skynsamlegt sé að haga þjálfuninni hvort sem fólk ætlar að gera hestinn sinn að betri reiðhesti eða stefnir á keppni.

Verð fyrir fullorðna kr 17.000.-

Verð fyrir börn, unglinga og ungmenni kr 12.000.-


Innifalið í verði eru fimm reiðtímar, hesthúspláss, súpa og brauð í hádegi laugardag og sunnudag.

Greiða þarf kr 5000.- staðfestingagjald við skráningu.

Skráning og nánari upplýsingar gefur Guðmundur M Skúlason í síma 7702025 eða á netfangi: [email protected]

Einnig er hægt að kaupa gjafabréf í jólapakkann sem gildir á námskeiðið.

15.12.2012 00:14

Ritstíflan tekin föstum tökum



Sunna litla dóttir Frakks frá Langholti og Léttar frá Hallkelsstaðahlíð að njóta blíðunnar.

Nú er kella risin eftir heldur slæma orustu við barkabólgu og leiðindar ,,kokka,, brettir upp ermar og gerir næstum allllllllttttt:) Og síðast en ekki síst vonar að aftur líði ca 30 ár þangað til næsta pest leggst á húsfreyjuna.  En ekkert væl.......upp með sokkana.

Það er alveg ljóst að ,,eftirlitsiðnaðurinn,, lifir góðu lífi og herjar á marga í þessu þjóðfélgi.
Ég er t.d ein að þeim sem þarf greinilega aukið eftirlit og því gott til þess að vita að góðir menn handan við Breiðafjörðinn hugsa til mín. Það er því eftir ,,tiltal,, frá einum slíkum sem ég gat ekki sofnað róleg í kvöld án þess að smella einhverju inná síðuna.
Bestu kveðjur á Brjánslækinn góða.

Hesthúsið er að fyllast af spennandi unghrossum svo nú eru allir dagar eins og þegar verið er að opna jólapakkana.
Eins gott að jafnréttismálaráðherra sé ekkert að þvælast þar á næstunni því kynja hlutfallið er eins og á feministafundi. Flest kvenkyns og þeim fáu sem eru karlkyns er varla vært fyrir glósum um að þeir ættu nú bara að drífa sig annað.
Stóðhestarnir eru þó undantekning og fá alla þá þjónustu og dekur sem þeim sæmir.
Stutt er síðan við fórum að gefa útigangi en nú er stóðinu gefið í þremur hópum, folaldshryssur, ungdómurinn og almúginn. Allt eftir settum reglum hverju sinni.



Þessi dama var nú heldur betur að standa sig vel í prófunum á Hólum núna í vikunni.
Skilaði þessu vandasama þjálfunarverkefni með glæsibrag og góðum einkunum.
Innilega til hamingju Astrid aldeilis flott hjá þér :)

Mummi átti góða daga í Svíþjóð um daginn þar sem hann var að kenna. Áhugasamir og góðir nemendur sem að hann hittir mjög fljóttlega aftur.

Nóg er atið í sauðfjárræktinni þessa dagana, búið að gefa öllum ormalyf og nú stendur yfir mikið at við að flokka og raða undir hrútana sem hefja störf innan nokkurra daga.
Eftir mikla yfirlegu á hrútaskrá og öðrum rolluvísindum var rokið í það að sæða svolítið.
Fyrri hálfleikur er gengi yfir en sá síðari fyrirhugaður á morgun.
Hrútar sem búið er að nota eru Steri frá Árbæ (ég sá svo flott lömb undan honum hjá Kjartani og Guðrúnu á Dunki). Soffi frá Garði, Gaur frá Bergstöðum, Kjarkur frá Ytri-Skógum og  Kvistur frá Klifmýri. Á morgun verða það svo enn fleiri Steradropar og Knapi frá Hagalandi.
Og ekki má nú gleyma gæluverkefninu henni Pálínu hún var að sjálfsögðu sædd við honum Jóakim frá Bjarnastöðum.
Það eru mörg ár síðan svona fáir fullorðnir hrútar hafa verið hér á bæ en þeim mun fleiri lambhrútar. Nú er bara að vona að allir standi sig eins og til er ætlast þegar á reynir.

Þið megið endilega halda að ég hafi verið svona löt að skrifa þar sem að ég hafi öllu stundum verið að atast í jólaundirbúiningi. Núna gæti t.d verið fullt búr af bakkelsi, Ajaxylmur um allt hús, pakkarnir tilbúnir og frúin að strauja jólakjólinn....................
Já já þetta er næstum því svona en þó finnst mér vanta svolítið uppá ........sko ennþá.
En það er nú svolítið í jólin svo rétt er að taka smá sveiflu í fjárhúsunum og njóta lífsins.
  • 1