Færslur: 2013 Mars

27.03.2013 22:42

Í hundunum......



Hundalíf í Hlíðinni gæti þessi mynd heitið en hún var tekin við skemmtilegt tækifæri.
Snotra sú gula, Deila sú gamla, Ófeigur og Þorri hvert eitt með sitt hlutverk í lífinu.



,,Kæri himnafaðir,, nú eða bara kæri húsbóndi hvað getum við gert fyrir þig í dag ???

Góðir dagar að baki með blíðu til tamninga og annara verka hér í Hlíðnni.
Við höfum verið svo heppin að hafa góðar aðstoðarkonur hér með okkur síðustu daga sem hafa heldur betur verið liðtækar. Ekki er svo verra að vera orðin ,,góðkunningi,, lögreglunar sem hefur riðið út með okkur síðustu daga. Já það gerist ýmislegt skemmtilegt í sveitinni.

Um síðustu helgi var svo brunað á sýningu vestlenskra hestamanna í Borgarnesi.
Skemmtileg sýning með mörgum góðum hrossum og flottum knöpum en var kannske fulllöng fyrir venjulegt fólk. En fyrir dellu fólk eins og mig sem skemmtir sér alltaf vel við að horfa á hross var þetta bara fínt. Nokkur hross eru mér sérstaklega eftirmynnileg og einnig var gaman að sjá nokkra knapa sem skáru sig úr annars góðum hópi knapa með fyrirmyndarreiðmennsku.

Framundan eru góðir páskadagar með vonandi mörgum góðum stundum.

23.03.2013 13:18

Af gefnu tilefni



Þögn er gulls ígildi en þögnin mín hér á síðunni var ekkert tengd gulli öðru nær.
Hún er þannig til komin að ég hafði ekkert að segja í nokkra daga eftir að við sónarskoðuðum fjárstofnin hjá okkur. Með öðrum orðum rúmlega tvö hundruð kindur sónuðust tómar.
Eins og gefur að skilja er mikið búið að velta fyrir sér hvað veldur en ekkert augljóst hefur komið í ljós hvorki frá okkar hendi eða dýralæknanna. Sextíu kindur voru sendar í sláturhús en þar átti að taka úr þeim sýni og freista þess að komast að því hvað er að valda þessu.
Það skal tekið fram að útkoman úr gemlingahópnum er góð þ.e.a.s rúmlega lamb á gemling.
Margar spurningar hafa komið uppí hugann.
Dýralæknarnir telja ekkert sem bendir til þess að þetta sé smitandi þar sem að einn árgangur sleppur svona vel, en aðgát skal höfð.  Eins ef að ég tek sama fjölda og var geldur í fyrra og reikna með fengnum kindum núna þá er frjósemin góð í þeim hópi.
Þessar geldu kindur eru á mismunandi aldri, voru hjá 15 hrútum, átu af 6 jötum, voru í 12 króm drukku úr 12 vatnsrörum, fegnu engan fóðurbætir, ekkert ormalyf eða aðra meðhöndlun á þessum tíma.
Tveir kettir eru í húsunum en þeir halda sig mest í jötunni hjá gemlingunum sem komu best út.
Sjaldan eða aldrei verið gefið betra hey, ekki gefið úr sömu rúllunni á allar jöturnar.
Og af gefnu tilefni sumar fengu síld en aðrar ekki og þar á er enginn munur nema síður sé.

Nú bíðum við bara eftir því að fá niðurstöðurnar úr sýnatökunni og vona að eitthvað komi í ljós svo hægt sé að varast þessum leiðindum á næstu árum.

Eins og fram hefur komið ætlaði ég ekki að koma þessum upplýsingum á framfæri hér á síðunni.  Ég hef það að leiðarljósi að reyna eftir fremsta megni að íþyngja ekki fólki með neikvæðu rausi aðrir geta séð um það.
En þegar vinir og kunningjar voru farnir að hafa samband og spyrja mig hvort virkilega væri búið að skera allan bústofninn ? Hvort nokkuð lamb mundi fæðast að vori ?
 Hvort allt væri að fara fjandans til af síldargjöf ?
 Þá sá ég mig tilneydda til að smella hér inn smá upplýsingum.

Bústofn og mannskapur hér í Hlíðinni hafa það gott eftir efnum og ástæðum í það minnsta fögnum við vorkomu þrátt fyrir allt.

Einkunnarorð nýliðins Búnaðarþings voru ,,bændur segja allt gott,, ég hef ákveðið eftir langar og strangar samningaviðræður við sjálfan mig að gera þessi orð á mínum.




11.03.2013 22:36

Í þá gömlu góðu daga........



Í þá gömlu góðu daga gæti þessi mynd heitið nú eða bláa gengið í skóginum.
Mér finnst samt ekki svo langt síðan hún var tekin og þó ?? 
Myndin er tekin á síðustu öld, fyrir hjálmamenningu og áður en softsell og skóbuxur tröllriðu öllu fatavali hestamanna.
Tilefnið er ræktunarbússýning okkar í Hlíðinni árið 1992 á Fjórðungsmóti sem haldið var á Kaldármelum.

Talið frá vinnstri:
Neisti undan Leisti frá Álftagerði og Jörp frá Hallkelsstaðahlí, knapi Björn Þorsteinsson.
Jarpur undan Fáfni frá Fagranesi og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð, knapi húsfreyjan sjálf.
Máni undan Grána og Jörp frá Hallkelsstaðahlíð, knapi Óskar Sverrisson.
Ágústa undan Otri frá Sauðárkróki og L-Stjörnu frá Hallkelsstaðahlíð, knapi Skúli Skúlason.
Lyfting undan Grána og Sótu frá Hallkelsstaðahlíð, knapi Ragnar Hallsson.
Bliki undan Fáfni frá Fagranesi og Bliku fra Hallkelsstaðahlíð, knapi Ragnar Alfreðsson.

Gaman að svona myndum sem láta mann rifja upp skemmtilega tíma.

Á eftir bylnum sem okkur var boðið uppá um daginn komu góðir dagar með blíðu og notalegheitum. Mikið riðið út og veðrið nýtt til hins ýtrasta enda nokkuð stór hópur á járnum. Ákafinn við að ríða út er svo mikill þessa dagana að sunnudagshryggurinn var borðaður hér á bæ kl 21.30 á mánudagskvöldi.
Eins gott að heimilisfólkið tekur þessu ofurskipulagi húsfreyjunnar með mikilli ró, vita kannske sem er að hún er miklu skárri ef hún fær að ,,ganga úti,, þegar vel viðrar.
Góðir dagar í sveitinni hressa bæta og kæta, rétt eins og Opalið.

Við erum svo heppin að hafa tvær dömur með okkur heimafólkinu núna til að hjálpa okkur í stússinu, það er hún Becký okkar og vinkona hennar hún Fransý.
Hláturmildar dömur sem víla ekki fyrir sér hlutina :)

Nú eru endurmenntunarnámskeið gæðinga og íþróttadómara frá þetta árið allavega hjá okkur hérna megin á landinu. Við Mummi brunuðum í bæinn þegar upprifjun íþróttadómara var haldinn fyrir nokkrum vikum og síðan fór ég suður á sunnudaginn á gæðingadómaraupprifjunina. 
Alltaf gaman að hitta mannskapinn á þessum árlegu samhæfinganámskeiðum,  spá og spekúlera í dómstörfum og reiðmennsku.








06.03.2013 22:29

Það Gustar



Það gustaði hressilega um okkur hér í Hlíðinni í dag og gerir enn þegar þetta er skrifað.

Í tilefni af því smellti ég hér inn myndum að fimm sonum Gusts frá Hóli sem er einn af okkar uppáhalds stóðhestum. Þessar myndir eru valdar af miklu handahófi og eru hestarnir á misjöfnum tamningastigum á myndunum. Væri gaman að eiga nýjar myndir af þeim núna.
Sá sem er efstur t.v á myndinni er Fannar frá Hallkelsstaðahlíð sonur Tignar frá Meðalfelli, þá er það Dregill frá Magnússkógum undan Kolskör frá Magnússkógum, Sparisjóður frá Hallkelsstaðahlíð undan Karúnu frá Hallkelsstaðahlíð, Krapi frá Steinum sonur Orku frá Steinum og hér neðstur er Blástur minn sem er undan Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð.

Gaman að rekja eða tengja saman hesta sem eiga eitthvað sameiginlegt en þarna er það faðernið. Svo er Sparisjóður móðurbróðir Blásturs en Kolskör er undan Karúnu eins og Sjóðurinn. Og á þessum myndum er það Mummi sem ríður þeim öllum enda ,,rændi,, ég þessari uppsetningu frá honum.
Við höfum tamið nærri því þrjátíu hross undan Gusti frá Hóli í gegnum árin og hafa mörg þeirra verið í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Bara að Glotti Gustsson hefði nú stoppað lengur á landinu góða.

Veðurfregnir............
Bylur frá því s.l nótt og ekkert lát á honum, færðin á milli íbúðarhúss og útihúsa mjög vafasöm. Tveir bílar stopp á leiðinni.......mikill fjöldi m.v íbúafjölda............hljómar þetta ekki eins og við búum í höfuðborginni ???





05.03.2013 22:18

Vetur



Þessar er miklar vinkonur eftir góða samveru síðustu vikurnar, þetta eru þær Tyra og Sigling.

Nú er Tyra farin aftur til Svíþjóðar eftir að hafa verið hérna hjá okkur í nokkrar vikur.
Við þökkum Tyru fyrir frábæra samveru með bestu óskum um velgengni í skólanum.
Það væri svo sannarlega gaman að fá þig aftur til okkar.

Já síðustu vikur hafa verið skemmtilegar og líflegar í hestamennskunni enda var þá gott veður. Mikið þjálfað og tamið hér í Hlíðinni.
Nú er aftur á móti kominn harður vetur með frosti, kulda og roki. Birrr....
Hún Becky sem er hjá okkur var að óska eftir snjó og vetri þegar hún kom spurning hvort við ættum ekki að semja við hana að vanda valið á þessum óskum sínum :)

Veðrið var þannig í dag að við ákváðum bara að rjúka í það að taka af kindunum. Gott að nota svona veður í það enda ekki pláss fyrir alla að ríða út inni í einu. Það var því slökkt á viftunum og gert svolítið notalegt í fjárhúsunum þannig að kindunum yrði ekki mikið um.

Alltaf nóg að gera í sveitinni.



  • 1