22.01.2012 13:35

007 smá BondEkki veitir nú af góðviðrismyndum þessa dagana.......svo ég smellti hér inn einni slíkri.

Það er nú ýmislegt sem að ég hef haft fyrir stafni síðan ég skrifað síðast hér inná síðuna.

Og vitið þið hvað ??? Nú er ég orðin Bondína eða svona næstum því eftir að við skelltum okkur á Bond tónleika sem fram fóru í Hörpunni. Mjög skemmtilegir tónleikar með frábærum listamönnum og aðal erindið að skoða húsið Hörpuna.
Ég hef ekki vit á húsum hvað þá tónlistarhúsum en ef að Harpan væri hesthús þá finndist mér plássið illa nýtt.
Þetta var góð ferð og alveg þess virði að hlusta á frábæra tónleika og sjá Hörpuna.

Um helgina var Mummi með frumtamninganámskeið í Grundarfirði, hann kom heim í kvöld ánægður með hestakost og nemendur. Alltaf gaman að koma í Grundarfjörðinn.

Hér var gott veður í dag þó svo það gengi á með éljum og færðin ekki svo slæm m.v síðustu vikurnar. Útigangurinn var grandskoðaður og þá sérstaklega folöldin og hryssurnar.
Allt var í stakasta lagi og ekki annað að sjá en hrossin hefðu það virkilega gott með hey og steinefnaföturnar sívinsælu.

Enn fjölgar í fjárstofninum því í kvöld fengum við símtal um að við ættum lamb suður í Borgarhreppi. Spennandi að vita hvað er þar á ferðinni og ekki slæmt þegar fleira fé skilar sér af fjalli.

Handbolti já það er eins gott að ég skrifaði ekkert á föstudaginn en í dag var ég sátt og verð það vonandi líka bæði á þriðjudaginn og miðvikudaginn..........

                                                                 

18.01.2012 22:02

Af andlegu uppnámi og ýmsu öðruColgate hvað ????

Ég er í andlegu uppnámi eða var það allavega fyrir ekki svo löngu síðan, það er ekkert grín fyrir ráðsetta húsfreyju að horfa á handbolta. Leikurinn í kvöld var rosalegur og eins gott að uppáhalds norska vinkona mín hún Randi var ekki með mér í sófanum, ég sagði svo margt ljótt áður en sigurinn var í höfn.
Já það er alltaf fjör hér á bæ þegar handbolti er í sjónvarpinu, dómarnir vitlausir ef að við erum að tapa en frábærir þegar betur gengur. Það er ekki bara í hestamennsku sem að dómararnir eru misvitrir og óviðráðnlegir þegar maður er í stúkunni eða brekkunni.
Svona fyrir ykkur sem að ekki hafið verið eða reynt að vera gestkomandi hér þegar spennandi leikur er í sjónvarpinu þá er hér lýsing sem að getur átt við..........
Poppið flaug út um allt gólf, Salómon yfirköttur flúði í bílskúrinn og hundarnir fóru að gellta því þeim fannst þessi óp líkjast smalahljóðum.
Enginn reynir að hringja nema einu sinni.....á meðan leikur stendur yfir.
Og svo heldur fjörið bara áfram á næstunni og rólegheitin hjá okkur hér í Hlíðinni......

Í gær brunaði ég á fund með mótsstjórn Landsmóts 2012 þar sem staða mála varðandi mótið var rædd. Ágætis fundur og vitið þið hvað rétt rúmir fimm mánuðir í landsmót.....
Þetta verður bara skemmtilegt og örugglega frábær gæðingaveisla eins og á LM s.l sumar.

Það hefur verið gott reiðfæri að undanförnu og ýmislegt sem að ég ætti nú að fara að mynda, svona til að gefa ykkur einhverja hugmynd um það hvað er að frétta.
Fyrirmyndar hestar dagsins...........uuuu......Glottadóttir, Hrymsdóttir og Gosadóttir eins og þið sjáið eiga þessar elskur bara feður og engin nöfn......svona snemma vetrar:)


16.01.2012 08:51

Annasöm helgi og þreytandi netsamband

Annasöm helgi er að baki, útilegukindurnar komnar heim og veðrið búið að vera með skárstamóti til útreiða og annara útiverka.
Núna er færðin orðin góð til okkar og verður það vonandi eitthvað áfram.

Á laugardaginn skruppum við í heimsókn uppað Stað en þar var opið hús hjá nýjum eigendum. Sýnikennslur og frábærar mótttökur enda mætti fjöldinn allur af fólki.
Bara gaman þegar líf er að færast yfir hestamennskuna þrátt fyrir erfitt verðurlag að undanförnu.

Laugardagurinn var líka sá dagur sem við hefðum átt að sjá til sólar en svo varð nú ekki.
Þrátt fyrir það bakaði ég sólarpönnukökur og lét eins og glaðasólskin væri, hvað annað?

Það var svo í gær sem að ég fékk góða gesti og kannske fáið þið að sjá afraksturinn af þeirri heimsókn innan tíðar.12.01.2012 21:54

Brjóst, snjór og fundið fé.................

Nei nei það er allt í lagi að lesa lengra þetta er ekkert dónalegt............

Ég er búin að hlusta á ca átta fréttatíma í dag og að auki horfa á einn góðan þátt af heimildamyndinni Aðþrengdum eiginkonum. Það var því ekki útí loftið sem að ég tuldraði fyrirsögnina upphátt um leið og ég rölti inní herbergi til að setjast við skriftir. Útundan mér sá ég skelfingarsvip húsbóndans sem hafði greinilega illar bifur á því hvað kæmi á eftir fyrirsögninni.
En það er engu logið um það að þessi málefni hafa vinninginn í fréttum landans þessa vikuna.

Sennilega munu margir velta fyrir sér ,,brjóstgæðum,, á næstunni og varla hverfur snjórinn alveg í bráð.

En þá að lið númer þrjú..................fundið fé.
Það gleður alltaf aumt hjarta sauðfjárbóndans (rollukellingar) þegar fé finnst sem ekki var komið af fjalli. Og ekki var það nú verra þegar gripirnir voru einmitt þeir sem sárt var saknað svona m.v ræktunarvonir. Já tvær rollur og tvö lömb komu í leitirnar handan við fjallið í dag, hef ekki enn fengið fullnægjandi fréttir aðrar en þær hvaða gripir þetta eru.
Kannske smelli ég myndum þegar gripirnir koma í hús hér heima í Hlíðinni.
Lengi er von á einum..................hvað þá fjórum.

Það var dásamleg blíða hér í dag sem var vel notuð af flestum og fjöldi hrossa fékk að reyna frábært færi. En á morgun verður vafalaust komin rigning sem æskilegt væri að bræddi hálkuna sem er hér á veginum. Væri þakklát fyrir að fá annað hvort kannt eða miðju fyrir bílinn til að ,,halda,, sér í þegar brunað er um afleggjarann.

09.01.2012 22:15

Gleðilegt ár 2012Þar sem við vorum frekar léleg að taka myndir þessi jólin þá er hér ein gömul og góð sem tekin er á seinni hluta síðustu aldar. Eins og sjá má eru kræsingar á borðum og allir í sínu fínasta pússi. F.v ,,húsfreyjan,, þarna með næstum því ljósarkrullur, amma Hrafnhildur, Halldís Bíldhólsfrú, Dúna Hrauntúnsfrú og Sveinbjörn velhærður og dökkur.
Já það finnst mikill fjársjóður í gömlu myndunum.

En......... kæru vinir við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegs árs farsældar og friðar á nýju ári með kæru þakklæti fyrir heimsóknirnar hingað á síðuna.
Vonandi eigum við eftir að eiga ánægjulega samleið á því herrans ári 2012.

Eins og þið hafið tekið eftir þá hef ég ekki verið dugleg að setja inn fréttir síðustu dagana, það á sér skýringar sem að ég tel best að vera ekki að tíunda hér enda er það heilög stefna hjá mér að geðvonskast í algjöru lágmarki hér á síðunni.
Ég hef sem sagt verið að mestu netlaus síðustu tíu dagana og ef að netið hefur komið inn þá hefur það stoppað stutt og verið hægfara.
Netsambandið hjá Hringiðu er dæmi um það hvernig starfskraft þú vill ekki hafa í vinnu.

Við þurftum ekki að þola mikið fjölmiðlaáreiti um áramótin en þá vorum við útvarpslaus, sjónvarpslaus, símalaus já og alveg vitlaus....................eins og hrossin okkar sem að hata flugelda.
Já það er ekkert grín að búa undir háum hömrum í þröngum dal þegar áramótaskothríðin dynur yfir. En allir lifðu þetta af bæði menn og hestar sem er fyrir mestu þó svo að geðslag húsfreyjunnar hafi hrunið í ca 6.0 um stundarsakir.

Já talandi um tölur þá hef ég verið að horfa á myndir frá landsmótinu og hugsa mikið um dóma og einkunnir. Sumt sem fyrir augun ber á þessum diskum staðfestir það sem maður taldi sig sjá á mótinu en annað veldur vonbrigðum já bara nokkuð miklum vonbrigðum.
Meira hvað það er alltaf gaman að spekulegra í hrossum, hvenær ætli það eldist af mér ???

Nú er allt komið á fulla siglingu í hesthúsinu eftir örlitla slökun um hátíðirnar og hvert pláss að verða fullsetið. Óveðursdagar fóru í tannröspun, járningar og snyrtingar auk þess sem að inniaðstaðan var fullnýtt.
Folaldasýningunni sem að vera átti í Söðulsholti um næstu helgi hefur verið frestað fram í febrúar enda eins gott þar sem veður og færð hefur verið hundleiðinlegt.

Vonandi verður netsambandið betra á næstunni svo að ég geti smellt hér inn nýjum fréttum.

30.12.2011 22:15

Árið 2011Þessi er tekin heima á hlaði áður en alvöru snjórinn kom.

Núna þegar áramótin eru skammt undan er rétt að rifja smávegis upp frá því herrans ári 2011.
Árið hefur verið bæði gott og slæmt en engin ástæða er til að rifja upp það sem slæmt var.
Heldur blása í lúðra fagna og hlakka til af öllum lífs og sálar kröftum, þannig erum við bændur og verðum jafnvel þó á móti blási og það af krafti.

Janúar var mánuður nýrra hesta og skemmtilegra folaldasýninga en veðrið var samt svo slæmt hér í Hlíðinni þegar okkar sýning var haldin að folöldin ,,sátu,, heima þetta árið.
Þennan mánuðinn þakkaði maður fyrir inniaðstöðuna.

Ferbrúar var mánuðurinn sem að allur aflögu tími hjá húsfreyjunni fór í að undirbúa afmælissýningu Félags tamningamanna sem haldin var í Reykjavík þann 19 febrúar.
Þorrablótið var haldið að venju í Lindartungu og var alveg eins skemmtilegt og venjulega, þið skulið bara skoða myndirnar í albúminu hér á síðunni ef að þið trúið mér ekki.
Og vitið þið munuð sannfærast.
Mikið var að gera í tamningum og við fegnum nýjan flottan fjárhúskött sem átti að verða eilífur hér eins og þær skeppnur sem að mér huggnast vel. En svo varð ekki og höfðinginn Keli veiktist og dó daginn eftir kvennareiðina góðu í ágúst. Andlát Kela tengdist samt á engan hátt þessari frækilegu kvennareið, bara svo enginn vafi leiki á því síðar meir.

Mars var bara þessi venjulegi mars með góðu og vondu veðri, tamningum og dómstörfum.
Mars er þessi mánuður sem að er stórlega vanmetinn og flestum finnst að ekkert gerist í en það er nú öðru nær þegar vel er að gáð.

Apríl er mánuðurinn minn þá nýtur maður blíðunnar sem að oftast er, ríður út, dæmir hross og fylgjist með Skeifukeppni á Hvanneyri. Já svona er maður vanafastur. Í apríl er líka tíminn til að hugsa um hvernig folöldin og lömbin sem að fæðast í maí verða.
Svo skellti kerla sér líka til Noregs í apríl og kom heim í maí........náttúrulega að dæma hesta, hvað annað kemur kellunni út fyrir landsteinana en hross???

Maí er mánuður hrossaræktandans og sauðfjárbóndans........maí er líka mánuðurinn minn því þá er svo margt að gerast. Lömbin, folöldin, fulgarnir og allt.......já vorið er tíminn.
Í maí kom líka innslag í Landanum á Ruv um Hótel Víking sem að sigldi hér á vatninu fyrir nokkrum áratugum..........já það rifjast margt upp þegar ég fer yfir bloggið mitt um áramót.

Júní var mánuðurinn sem landsmótsúrtökurnar og íþróttamótin voru því var mikið að gera í dómstörfum. Það er alltaf jafn gaman að dæma góða gæðinga og flotta knapa ég fæ bara aldrei leið á því.
Ferðahópar bæði ríðandi og gangandi að ógleymdum veiðimönnunum okkar fóru hér um.
En júní var líka svolítið leiðinlegur eða öllu heldur veðurfarið en ég lofaði að nefna bara jákvætt svo að þetta er nóg um það. Kannske segir það allt að síðustu kindurnar fóru út daginn sem að við fórum á landsmótið á Vindheimamelum.
Landsmótið var skemmtilegt og hestakosturinn hreint og beint ævintýri.
Júní er mánuðurinn sem að ákveðið er endanlega undir hvaða stóðhesta hryssurnar fara.

Júlí var ferðamanna og heyannamánuðurinn með fjörureiðum og skemmtilegheitum. Þá var líka stofnfundur Skjónufélagsins svo að eitthvað verulega skemmtilegt sé nefnt.
Hópur af hestum hafið eigandaskipti sumir fóru til annara landa aðrir fóru styttra.

Ágúst jáhá þarna kemur einn enn uppáhaldsmánuðurinn frábær hestaferð sem að seint verður hægt að toppa, kvennareið og ýmislegt fleira.
Hestaferðin er í máli og myndum hér á blogginu ég lifi mig alveg inní ferðina við að skoða og er strax farin að skipuleggja næstu ferð.

September er réttarmánuðurinn mikli með öllum sínum venjum og hefðum. Smala, raga í fé, vigta lömb já og svo fengum við líka heimsókn og aðstoð alla leiðin frá Danmörku.
 Svo fengum við líka svo skemmtilega heimsókn frá Hvanneyri í september.
Í september fór ég líka í afar snögga en skemmtilega hringferð með nefndarmönnum sem að sátu með mér í nefnd um landsmót hestamanna. Frábær ferð og tekin alveg á mettíma.

Október er smala, smala, smala, smala hey............með tilheyrandi fjöri, sviðamessum og hrútasýningum. Reyndar bættist við að Mummi var með frumtamninganámskeið í lok október svo að hross komu líka við sögu þennan mánuðinn í fleiri hlutverkum en smalahross.

Nóvember er mánuðurinn sem að allir halda fundi og þá sérstaklega hestamenn sem að tryllast í fundahöldum í nóvember. Ráðstefnur, aðalfundir og verðlaunauppskeruhátíðir.
Sauðfjárbændur klippa kindur og lesa hrútadóma af miklum móð enda kemur hrútaskráin út í nóvember.

Desember er ekki minn mánuður og þó jú jú hann er líka fínn en ég vil helst geta eytt löngum tíma í vísindarannsóknir í fjárhúsunum. Það er nefninlega þannig að ég er svo sérvitur og smámunasöm í kindastússinu að það er merkilegt að nokkur nenni að vera með mér í því.
En allt hafðist þetta og þann 15 des var allt klárt fyrir sæðingar og þann 18 var öllum hrútum sleppt í óheft svall.
Þegar þetta allt var frá var næsta mál að huga að jólahaldi eins og venjulegt fólk. Baka, þrífa, versla og rugglast eins og allir hinir. Njóta þess svo að borða skötu og hafa gaman á jólunum.

Já það hefur svo sem ekkert sértstakt gerst á þessu ári og þó ????
Það er ótrúlega gaman að renna yfir gamla bloggið og myndirnar í albúminu til að rifja upp.
Margt kemur í ljós og ég held meira að segja að það sé stundum líf og fjör hér í Hlíðinni góðu.

Ég renndi yfir bloggið og myndirnar til að rifja upp og vitið þið hvað það var bara gaman.

29.12.2011 22:36

Snjókorn falla.............Sumir sem að ég þekki fara ansi langt á bjartsýninni, geta jafnvel flutt fjöll og hvað eina.
Salómon svarti tilheyrir sennilega þeim hópi..........
Salómon svarti er einstaklega hrifinn af kjúklingum í matinn og leit helst út fyrir það einn daginn að hann væri kominn í kjúklingaræktina. Allavega var hann ,,lagstur á,, og beið bara eftir að úr egginu kæmi einn tilbúinn í ofninn.
Eða sýnist ykkur það ekki ????

Hér er allt að fara á kaf í snjó og þarf að fara þónokkuð aftur í tímann til að finna annað eins.
Það er orðið hluti af verkum dagsins að moka snjó en eins og flestir vita þá er snjórinn oftast þar sem að hann á ekki að vera. Væri alveg til í að senda smá af honum í Bláfjöllin allavega skaflinn sem að kemur fyrir framan húsið svo ég minnist nú ekki á þann sem kemur við hlöðudyrnar.
Að keyra inn rúllur og gefa útigangi tekur um það bil helmingi lengri tíma en venjulega. Í svona tíðarfari er eins gott að fylgjast vel með hrossunum og finnst okkur að það sé nauðsynlegt að skoða þau daglega á meðan tíðin er svona.

Á meðan ég var að gefa og moka í hesthúsinu týndi ég til nokkra eftirmynnilega punkta í huganum sem ég hef hugsað mér að koma hér inn sem nokkurskonar annáli 2011.
Þeir voru orðnir nokkuð margir og kannske full hestatengdir en vonandi hef ég það af að koma þeim hér inn á morgun.
Það er bara þannig í mínum lífi að hápunktarnir eru nærri alltaf eitthvað tengdir hestum.27.12.2011 21:45

Jóla jólaGet nú ekki sagt að ég elski þessi bönd nema þegar við erum að reka allavega ekki þegar myndatökur eru annarsvegar.
Ég smellti þessum þegar ég var á ferðinni með myndavélina í bílnum en var svo skömmuð þegar öll ,,fína,, girðingin kom með á myndirnar:(  En þar sem að ég á hestinn og þónokkuð í knapanum líka þá lét ég bara myndina vaða hér inn og biðst bara afsökunar á girðingunni..........svo maður tali nú ekki um staurana líka........þurfa alltaf að þvælast fyrir..........

Jólin voru einkar notaleg með tilheyrandi ofáti og rólegheitum sem að ég taldi mér trú um að við ættum inni. Bara til að gefa ykkur innsýn í dæmið þá er hér smá sýnishorn af matseðlinum....... Þorláksmessa guðdómleg skata með alvöru bragði, heimareykt hrossabjúgu um kvöldið, Svínki litli var einstaklega góður á aðfangadagskvöld og tilheyrði afgöngunum til dagsins í dag. Úrvals hangikjöt á jóladaginn sem endaði svo eins og Svíkni afgangar með ýmsu góðgæti. Til að seðja svo hungrið á milli var það bakkelsi og konfekt.
Já á svona dögum er eins gott að hafa á áttundahundrað ,,kostgangara,, í útihúsunum sem að þurfa sitt bæði kvölds og morgna þannig að trimmið er þó nokkuð.
Nú eru það ýsa og grjónagrautur sem efst eru á óskalistanum næstu daga.

Á annan dag jóla fór Mummi út til Danmerkur, þegar hann fór héðan varð að moka hann út í orðsins fyllstu merkingu. Afleggjarinn var alveg ófær og Heydalsvegurinn hálf leiðinlegur.
Allt hafðist það samt og núna spókar hann sig í danaveldi í 10 stiga hita og huggulegheitum.

Þetta er alveg orðið gott af snjó hér í Hlíðinni og mikið væri ég fegin ef að hann gæti allavega verið kyrr nú eða bráðnað í rólegheitunum. En reiðfærið er gott svona þegar búið er að moka og þjappa snjóinn, verður maður ekki að vera svolítið jákvæður??
24.12.2011 12:27

Jólakveðja úr Hlíðinni.Kæru vinir !

Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegra jóla með bestu óskum um farsæld og frið á nýju ári.

Hér hefur jólaundirbúningurinn verið hefðbundinn þ.e.a.s byrjað með miklu ati í fjárhúsunum. ,,Hann,, hefur ekki verið sauðfjárbóndi sá sem að skipulagið jólin, að smella þessu svona saman. Smá grín....... Við sæddum 55 ær þann 15 desember og síðan fóru allir hrútarnir hver í sína kró þann 18 desember. Segi ykkur seinn hvaða hrúta við notuðum en get þó sagt ykkur að 10 ær voru sæddar við þeim allra vinsælasta Grábotna frá Vogum 2.
Nú ríkir friður og ró í fjárhúsunum og verður það vonandi fram yfir áramót svo að tilhugalífið nái að  blómstra sem best.

Nokkuð af aðkomu tamningahrossunum fór til síns heima fyrir jól en allt fyllist svo strax í byrjun janúar. Allt gengur vel í hesthúsinu og mörg spennandi hross eru komin á járn.
Astrid kom í jólafrí frá Hólum þann 16 des en er nú flogin heim til Danmerkur þar sem hún nýtur jólagleðinnar með fjölskyldunni.

Þegar þetta er skrifað er brostinn á öskubylur og sér ekki á milli húsa, það verður vonandi breytt þegar líður á daginn. En í kvöld borðum við saman heill hópur af báðum bæjum því ,,efra,, og héðan úr ,,neðra,,

Hafið það sem allra best með bestu jólakveðjum héðan úr Hlíðinni.20.12.2011 01:57

Kvöldstund með meisturumÞað voru allir kampakátir eftir frábært kvöld með meistaraknöpunum Rúnu Einarsd Zingsheim og Jóa Skúla.
Erindi þeirra féllu í góðan jarðveg  og voru bæði fróðleg og skemmtileg, ég vil benda ykkur á greinar um kvöldstundina bæði á www.hestafrettir.is og www.eidfaxi.isEins og sjá má var bekkurinn þétt setinn enda troðfullt hús í Harðarbóli þetta kvöldið.

Ég tók fleiri myndir við þetta tækifæri en sökum tæknivandræða á síðunni get ég ekki komið þeim inn núna. Af sömu örsökum hefur síðan verðið hálf döpur að undanförnu en vonandi fer þetta allt að lagast.Þessir strákar voru hressir að vanda Erling Sigurðsson og Trausti Þór Guðmundsson.Þessir strákar voru líka komnir til að fylgjast með meisturunum Ingimar Sveinsson og Mummi.Guðmar Þór og Elli Sig sennilega eitthvað að spá í gæðinga nú eða bara Ameríkuna.

Við FT félagar vorum mjög ánægð með það hvernig til tókst flottir fyrirlesarar og góð mæting, já meira að segja svona rétt fyrir jólin.

16.12.2011 23:44

Jóla hvað?

Ég brunaði af stað snemma í morgun suður til Reykjavíkur á fund hjá Fagráði í hrossarækt.
Í Fagráðinu sitja auk mín Kristinn Guðnason í Árbæjarhjáleigu, Guðlaugur Antonsson, Hvanneyri, Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum, Ísleifur Jónasson, Kálfholti, Víkingur Gunnarsson, Hólum, Gísli Gíslason, Þúfum og Sigurbjartur Pálsson, Þykkvabæ.
Eins og stundum áður er desemberfundurinn yfirhlaðinn af erindum og því fundurinn sannkallaður maraþonfundur. Mörg merkilega mál voru tekin fyrir og ýmsar breytingar gerðar svo að ég hvet ykkur til að fylgjast með þegar fundargerðin kemur inná  www.bondi.is

Á morgun er það svo fyrirlestur sem að FT stendur fyrir með afreksknöpunum Jóhanni R Skúlasyni og Rúnu Einars. Fyrirlesturinn verður í Harðarbóli, Mosfelsbæ og hefst kl 18.00
Nánar um þann atburð hér á  www.eidfaxi.is undir ,,hvatning frá Sigga Sæm,, og á síðunni www.tamningamenn.is  Nú verða allir að drífa sig og mæta til að hlusta á hvað þau hafa að segja okkur varðandi sínar þjálfunaraðferðir og fleira.

Framundan hér í Hlíðinni er það jólabakstur, jólakort, jólapakkar, jólaís og auðvitað sjálfur jólakötturinn. Að ógleymdum öllum jólahrútunum sem að hefja skyldustörf á næstu dögum.
Til að toppa allt þetta jóla verður valinn sérstakur jólahestur til að fara jólareiðtúrinn á þegar allt annað er í höfn. Hvenær sem það nú verður ?14.12.2011 22:59

Sauðfjárrækt og fleiraRollukelling nú og líka fyrir langalöngu...............hér með kynbótahrútinn Trassa.
Myndin er sennilega tekin haustið 1970 nánast inní gangi og við Trassi vafalaust ekki verið vinsæl þarna á dreglinum.

Já það munar ekki miklu að við séum farin að jarma eftir tilfæringar í þágu sauðfjárræktarinnar hér á bæ síðustu daga. Búið að raða, skipuleggja og endurskipuleggja fram og aftur um fjárhúsin með vonandi góðum árangri.
Á morgun verður svo sæddur vænn hópur af kindum sem fá það hlutverk að ,,skuttla,, ræktuninni fram á við með úrvals kynbótagripum. Nánar um það og hrútavalið á morgun.
Lífið er búið að snúast um sauðfjárrækt með smá skammti af hestastússi hjá mér síðustu daga. En þó með smá hliðarspori þegar ég gerðist einkabílstjóri dagpart fyrir góðar konur í jólainnkaupum.
Í þeirri ferð náði ég líka að heimsækja nýjustu frænku mína hana Svandísi Sif.
Maður verður nú að hafa smá fjölbreyttni í þessu öðru hvoru.

Ég fékk góðarfréttir frá Svíþjóð af henni Glotthildi sem að nú er komin í tamningu. Hún fer vel af stað svo það verður bara spennandi að fylgjast með henni.
Alltaf svo gaman að fá fréttir af hestunum sem að farnir eru til nýrra eiganda.Mér finnst gaman að eiga Glottaafkvæmi og vildi meira að segja eiga fleiri svoleiðis.........

10.12.2011 21:46

Tíminn líðurÉg sá þá á dagatalinu í dag að það styttist óðum tíminn til jóla................

Já tíminn flýgur áfram eins og venjulega hvar skildi þetta eiginlega enda ?
Við héldum aðalfund FT í gær ágætisfundur og mjög góðar umræður. Skoðið endilega fréttir og ályktanir frá fundinum þær verða settar á FT síðuna fljóttlega og eins munum við birta þær helstu á hestamiðlunum.

Ég eignaðist litla frænku í gær þegar að Ragnar bróðir og Elsa Petra eignuðust litla dömu. Það var svo í dag sem að hún var skírð og hlaut nöfnin Svandís Sif.
Amman var heldur betur ánægð þegar ég heyrði í henni eftir athöfnina, ekki amalegt fyrir hana að fá nöfnu.

Við sluppum alveg við vonda veðrið sem að ég heyrði af á suðvesturhorninu í dag, bara blíða í Hlíðinni. En það er samt vetur því verður ekki neitað.

08.12.2011 21:04

FT aðalfundurinnÁ morgun föstudag er aðalfundur Félags tamningamanna haldinn á Kænunni í Hafnarfirði og hefst kl 18.00. Vonandi sjá sem flestir félagsmenn sér fært að mæta en á dagskrá eru venjuleg aðalfundastörf og síðast en ekki síst jólahlaðborð í boði félagsins.
Já þau svíkja ekki jólahlaðborðin hjá honum Jonna á Kænunni.Smá sýnishorn frá fundinum í fyrra...........sjáumst sem flest á Kænunni FT félagar.

Er búin að setja inn nokkrar myndir frá aðalfundi Hrossvest í albúmin, kannske ég smelli svo af nokkrum myndum á fundinum á morgun.

08.12.2011 15:41

Gamlar myndir og fleiraGamlar myndir eru fjársjóður og það var einmitt í þannig leit sem að ég fann þessa mynd.
Þessi mynd er tekin í Mýrdalsrétt og á henni eru Sæmundur Halldórsson á Oddastöðum/Rauðamel, Sigurður Árnason oft kendur við Stóra-Hraun og Ragnar Hallsson, Hallkelsstaðahlíð.

Héðan úr vetrarríkinu eru svo sem ekki neinar fréttir aðrar en þær að þessa dagana er verið að stússa í hefðbundnum bústörfum sem að tilheyra þessu árstíma.
Í gær settum við ásetningsnúmerin í líflömbin og ormalyf fór í dágóðan hóp svo var aðeins byrjað að sortera fyrir fengitímann. Já vísindaritið Hrútaskráin 2011 er lesefnið þessa dagana og að ógleymdum niðurstöðum úr Fjárvis.is

Skemmtileg tamningatryppi sem að lokið höfðu ,,fyrsta bekk,, eru að týnast heim og önnur að koma í staðinn. Alltaf eitthvað að gerast í tryppadeildinni.
Allur útigangur er kominn á gjöf enda eins gott þar sem að jarðbönn eru víða á þeirra svæði.