17.02.2009 01:08

Hugleiðingar um dómaramál.


Var að koma heim af endurmenntunnarnámskeiði íþróttadómara. Hefði viljað fá meiri fróðleik og fyrirlestra eins og í fyrra, en það er ,,kreppa,, svo að það hefur ef til vill verið ill framkvæmanleg. Ekki margir sem fá að dæma það mikið að þeir vilji leggja í mikinn kostnað til að halda réttindunum. Það er mjög slæmt og tel ég það ákveðið áhyggjuefni hvernig þessum málum er háttað. Alvarlegast er þó hvað það er erfitt að koma á einhverju skipulagi varðandi úthlutun dómara á löglegmót sem haldin eru eftir reglum LH. Eðlilegast og það sem talað hefur verið fyrir af stórum hópi dómara og knapa er að úthlutun á öll löglegmót fari fram í gegnum LH eða dómarafélögin. Með því að gera það að skildu að dómurum sé úthlutað í gengum LH eða dómarsfélögin aukum við trúverðuleika og auðveldara verður að gæta hlutleysis þegar sami háttur er hafður á við öll mót. Úthlutað yrði á hvert mót með góðum fyrirvara og þess gætt að ekki dæmdu alltaf sömu dómarar hjá hverju félagi. Við úthlutun væri nauðsynlegt að sem flestir dómarar fengju að spreyta sig og þannig gert keift að fá reynslu. Góð menntun, mikil reynsla, samviskusemi og heiðarleiki eru þeir kostir sem prýða þurfa góðan dómara. Þessa eiginleika þurfum við að leggja rækt við og efla til þess að þeir sem leggja margra mánaða og ára vinnu í hendur dómara fái réttlátan dóm. Dómarar þurfa æfingu hana fá þeir ekki nema að vera virkir og nái að dæma nokkur mót á hverju ári.
Hestamennskan er harður heimur leggjum okkar af mörkum til að gera dómgæsluna faglega,heiðarlega og þannig að við öll getum verið stolt af.

16.02.2009 23:00

Smalinn á Hólum.


Jæja þar sem ég hef ekki verið duglegur að setja inn fréttir frá Hólum ákvað ég að skella inn einni dagbókarfærslu sem við eigum að skrifa á hverjum degi. Þetta er sem sagt dagbók fyrir nemenda hestinn minn hann Fannar. Vonandi skiljið þið hvað ég er að fara, en við notum fullt af hlutum og aðferðum sem ég nefni þarna eins og þið séuð búin að lesa dagbókina frá upphafi.

16.02.09

Markmið tímans: æfa okkur fyrir smala prófið.

Ég byrjaði á því að teyma Fannar um höllina og sína honum allt sem fyrir augu bar. Síðan byrjaði ég á að teyma hann upp á pallinn sem búinn er til úr brettum og var nú í fyrsta sinn orðinn þrjár brettahæðir. Hann labbaði rakleitt uppá pallana og þá losaði ég gjörðina á honum til að gefa honum umbun fyrir að fara þarna upp. Með því að losa svona gjörðina náði ég að gera þetta annars litla svæði að þægilegum stað og fannst honum bara nokkuð gott að vera þarna fyrst hann fékk umbun! Svo næst kastaði ég gærunni nokkrum sinnum í hann á alla mögulega og ómögulega staði og var hann alveg salla rólegur við það. Þá skellti ég mér á bak og prófaði að fara í að opna og "reyna" að loka hliðinu. Það gekk ekki alveg eins og ég hefði viljað svo ég verð að taka mér meiri tíma í það næst. Svo fór ég að boltanum og fór að reyna að koma honum á milli hringpunktanna  sem gekk bara furðu vel að mér fannst. Fannar er farinn að leyfa mér að drippla boltanum við hliðina á sér meðan ég er á baki, síðan hjálpaði Ísó mér við að drösla boltanum með mér á bak og var Fannar bara salla rólegur með það. En býsna erfitt verður að koma boltanum rétta leið þar sem hann lætur ekki alveg af stjórn og fótboltahæfileikar Fannars ekki alveg nógu góðir!:/ en það kemur hjá okkurJ Svo skeltum við okkur í að hoppa yfir tunnurnar í fyrsta skiptið með mig 100kg manninn á bakinu. Hann var aðeins smeykur fyrst enda ekki við öðru að búast þegar á að hoppa með svona ,,léttavarning,, yfir tunnur. Hann sveigði frá í fyrstu skiptin og við hittum ekki á tunnurnar. En þá kom Ísó okkur til bjargar og stóð við endann á tunnunum þannig að það var ekki um annað að velja en að fara á tunnurnar. Fyrsta stökkið enduðum við á maganum vegandi salt ofaná tunnunni, en svo í næsta stökki lenti ég á spari stellinu í hnakknum og verð víst bara að taka afleiðingunum af því. Þá kom að þriðja og okkar besta stökki þennan daginn og tókst það bara nokkuð vel!:) Svo var komið að lambinu ljúfa sem reiða þarf á tölti yfir tré ramp á tölti. Ég náði í lambið af gólfinu og gekk það bara furðu vel í dag að síga út á hlið hestsinns og ná því uppá. Svo var slegið í og riðið á tölti yfir og stöðvað hinumegin við pallinn og lambið lagt mjúklega niður svo ekki myndi það merjast. (eða eins og Ísó segir gjarnan "lítið fæst fyrir marið lamb")

Þetta var þræl fínn tími og gekk bara nokkuð vel miða við það sjokk í morgun sem við fengum þegar okkur var gerð grein fyrir kröfum í tveim næstu reiðmennsku prófum sem eru ekkert lilla dæmi!!

Jákvætt: Fannar var rólegur og yfirvegaður, flest gekk upp.

Það sem þarf að bæta: Verð að æfa mig meira í að opna og loka hliðinu í næstu tímum.
13.02.2009 23:05

Hóladrengir Mummi og Vinningur.
Hér sjáið þið Mumma og hann Vinning minn Gautason hann fór ,,brokkandi,, norður að Hólum eftir áramótin en er bara farinn að stíga vel í spari ganginn. Mér sýnist fara vel á með þeim félögunum í það mynnsta á þessari mynd.emoticon

Annars er allt gott úr Hlíðinni færið og veðrið undan farna daga hefur verið gott og þá sérstaklega í gær. Vildi sko fá fullt af svoleiðis dögum.
Fyrirmyndarhestur gærdagsins var Freyja Hlynsdóttir, hún var síðasti hestur dagsins hjá mér og toppaði alla sem ég hafði farið á fyrr um daginn. Hennar tími var í gær.
Í fyrra dag fórum við uppí stóð og sóttum þrjú hross Skilding sem er að fara í skóla með einum vini okkar, svo Snerpu og Vörð sem eru komin í biðsalinn og koma inní hesthús fljóttlega.

Í dag fengum við góða gesti úr Gnúpverjahreppi með þeim fórum við í smá bíltúr um sveitina og skoðuðum búskapinn á nokkrum bæjum. Alltaf gaman að skoða búskapinn hjá góðum sveitungum.

11.02.2009 20:59

Létt(ir) fundir og fé.
Myndin sem birtist með blogginu mínu í kvöld er af henni Létt frá Hallkelsstaðahlíð, hún er 1 verðlauna hryssa undan Randver frá Nýja-Bæ og Sunnu frá Hallkelsstaðahlíð. Létt hefur átt tvö afkvæmi Léttfeta sem er geðþekkur 4 vetra foli sem varð til með frjálsum ástum í annari sveit þegar Létt var ung og haldin mikilli þörf fyrir útrás. Hennar útrás varð sem sagt til góðs svona þegar reiði eigandans var frá. Hún er því ekki raunverulegur útrásarvíkingur nútímans. Hitt afkvæmið er hann Léttlindur fallega skjóttur foli undan Hróðri frá Refsstöðum. Létt er núna fylfull við Arði frá Brautarholti.

Þessi vika hafði uppá heila 3 langa fundi að bjóða sem er aldeilis nóg þegar frúin vill vera heima að ríða út. En þetta voru alveg ágætir fundir og sumir bara nokkuð skemmtilegir fyrir utan það að vera gagnlegir. Alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk.

Allt gott að frétta úr hesthúsinu en rosalega var nú kalt að ríða út í dag frost og töluverð gjóla, var samt fínt á móti sólinni. Inni aðstaðan okkar í hlöðunni kom sér líka vel í dag eins og marg oft áður. Fyrirmyndarhestur dagsins var Kollhúfa hún hélt hita á Helga í frostinu í dag.emoticon

Ófeigur og Þorri stækka og stækka og stækka veit ekki hvar þetta endar, eru farnir að sjá og labba. Þó er göngulagið ekki sérlega reffilegt ennþá, mynnir helst á menn sem eru alveg að verða búnir að skemmta sér nóg.

Ný frétt......

Á mánudaginn fór sveit vaskra manna í Bakkamúlann og fann þrjár kindur. Kjartann á Dunk fékk kind með lambi og við fengum eina vetur gamla kind.
Allar kindurnar litu vel út miðað við árstíma. Ekki sem verst að heimta á þessum tíma betra seint en aldrei. Takk vösku sveinar.
 

08.02.2009 22:36

Skúta + Gaumur = eitthvað spennandi

Við bloggið mitt í dag er mynd af henni Skútu frá Hallkelsstaðahlíð, hún er 1 verðlauna hryssa í eigu sonar okkar Guðmundar Margeirs. Faðir Skútu er Adam frá Ásmundarstöðum og móðirinn hún Trilla okkar. Skúta er mikill höfðingi og hestagullið hans Mumma. Skúta hefur átt eitt afkvæmi hana Snekkju litlu Glottadóttur, bráð lipurt og hreyfingafallegt tryppi. Hún vann folaldasýninguna hjá Hrossvest sem haldin var í Söðulsholti í vetur og getið þið séð myndir af henni hér á síðunni og eins með því að smella á ,,söðulsholt,, undir tenglar til hægri á síðunni. Núna er Skúta fylfull við honum Gaumi frá Auðsholtshjáleigu og verður spennandi að sjá hvað kemur þar.

Helgin var alveg ljómandi góð, þorrablótið heppnaðist með allra besta móti og allir skemmtu sér vel og sumir lengi. Maturinn var besti þorramatur sem ég hef smakkað verð að nefna heita saltkjötið og súrmatinn, vel súr og ekkert vatnsbragð...........ummmmmmmmmmm.
Og til fróðleiks (hef engra hagsmuna að gæta) maturinn var frá Módel Venus við Borgarnes.
Morguninn eftir reif frúin sig upp og fór í Borgarnes að dæma ístölt sem haldið var á Álavatni. Þar var prýðisþáttaka og margir flottir gæðingar að keppa, spennandi að fylgjast með hverjir eru nú líklegir fjórðungsmótskeppendur.

Félagarnir Ófeigur og Þorri dafna vel og þurfa endilega að smella sér á vigtina einhvern daginn svo að þið getið ímyndað ykkur hvaða hlunkar þeir eru orðnir. Annars voru þeir að knúsa ljóskur í gær, sofnuðu báðir umvafnir ljósu hári fyrir framan sjónvarpið. Örugglega einhverjir sem hefðu öfundað þá.

Þorrablótsgestirnir týndust svo í burtu sumir í gær en aðrir í dag, við fórum að ríða út og nú fer allt í sinn vana gang. Mummi farinn á Hóla og bara við gamla settið og Helgi eftir heima og já náttúrulega Salli draumaprins líka.


05.02.2009 23:36

Kolla mín og danskur dagur
 

Ég er alltaf að reyna að standa mig í því að bæta inn upplýsingum á vefgluggann okkar.
Í dag setti ég myndir inná ,,hrossarækt,,af nokkrum hryssum sem við notum í ræktun. Hér með er mynd af henni Kollu minni sem heitir fullu nafni Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð. Hún er 1 verðlauna hryssa undan Dósent frá Brún og Karúnu frá Hallkelsstaðahlíð mikill uppáhalds gripur hjá húsfreyjunni. Kolskör hefur átt tvö afkvæmi Hlíð sem er móvindótt hryssa undan Glymi frá Skeljabrekku og svo Blástur undan Gusti frá Hóli. Núna er hún fylfull við Adam frá Ásmundarstöðum. Spennandi..................

Nú hafa báðir hvolparnir hennar Deilu fengið nafn, að sjálfsögðu heitir hann Ófeigur bara Ófeigur. En nú hefur hinn hann Þorri litli fengið nafn, hann fæddist jú á Þorranum. Þeir dafna ljómandi vel og fara bráðum að sjá.

Í gær hringdi hún Astrid vinkona okkar frá Danmörku, hún var hjá okkur í haust og vetur og var að kanna hvort allt væri ekki í góðu lagi. Þennan sama dag fengum við líka bréf frá honum Per sem er danskur vinur okkar, þannig að þessi dagur var eiginlega ,,danskur,, Alltaf gaman að heyra frá góðum vinum. Takk Astrid og Peremoticon

Á morgun er þorrablótið okkar í Lindartungu, fullt af fólki að koma og við alveg að smella í gírinn. Gaman........................

02.02.2009 23:32

Sigrún ég lofa......

Veistu Sigrún ég er alveg hætt að gelta á hestana ég lofa.........

Dagurinn í dag var með þeim allra fegurstu sem gerast í Hlíðinni snjór, sól, logn og frábært reiðfæri. Hefði svo sannarlega þurft að taka myndir en hafði öðrum hnöppum að hneppa.
Fengum líka skemmtilegar heimsóknir jafnvel með veitingum og flotteríi ekki amalegt það.

Fyrirmyndarhestur dagsins var hún Rák Stælsdóttir sem ég er að þjálfa og Skúli prófaði í dag, var svona rosalega lukkulegur kallinn...emoticon

Á morgun verður vonandi jafn gott veður og færi svo að ég ætla bara að hafa þetta stutt í kvöld og drífa mig í draumalandið.


01.02.2009 22:57

Hestaferð-stjórnin-þorrablótið
Hestaferð 2007 frábær dagur á Stakkhamarsfjörunum.

Við gamla settið fórum í frábært matarboð í gær borðuðum hreindýr og spjölluðum við
góða vini. Rifjuðum upp skemmtilega hestaferð og byrjuðum að skipuleggja nýja.
Mig er strax farið að hlakka til, hestaferðirnar sem við höfum farið í á síðustu árum hafa verið hverri annari betri. Ferð norður í Húnavatnssýslu, ferð suður í Borgarfjörð, margar ferðir niður á Löngufjörur og á fjöllunum í kring um okkur. Hvert eigum við að fara í sumar?

Ný ríkisstjórn leit dagsins ljós í dag vonandi ber hún gæfu til góðra verka fyrir land og þjóð.
Var aðeins að velta fyrir mér hvernig muni ganga hjá Steingrími að höndla þrjú ráðuneyti.
Það virðist alltaf vera hægt að fjölga skúffunum í skrifborðunum nú til dags. Síðast var sjávarútveginum og landbúnaðinum smellt saman og nú fara fjármálin með, væri svo sem ágætt ef að peningarnir væru til. Hvað með tímann? Jú sólarhringurinn hjá Steingrími er örugglega miklu lengri en hjá okkur.

Þorrablótið okkar er á föstudaginn um að gera að fara setja sig í gírinnemoticon


30.01.2009 21:44

Var betra veður á Hólum en í Hnappadalnum???

Mummi setti inn nýtt albúm þar eru nokkrar myndir frá Hólum.
Þessi mynd sýnir veðurblíðuna sem var á Hólum í dag þarna eru Vinningur, Þríhella og Dregill að trimma rekstrarhringinn. Mummi og gollinn á eftir. Hvernig er það fara þeir ekkert á bak á Hólum?

Veðrið var líka frábært í Hlíðinni í dag og færið hreinn unaður. Eina vandamálið svolítið kaldar tær.
Hrossin kunnu vel að meta þetta eins og við voru kát, léttstíg og ekki laust við að það væri leikur í þeim sumum. Útigangurinn naut sín líka vel í dag rölti um og lék sér jafnvel gömlu höfðingjarnir voru að tuskast við tryppin á milli þess sem þeir fengu sér blund í heyinu.
Skuggsýn Stælsdóttir var fyrirmyndarhestur dagsins kunni vel að meta flott færi ís og snjó.

Litlu hvuttarnir stækka og stækka. Ófeigur orðinn 830 gr og bróðir hans 780 gr. Deila leyfði sér þann munað að fara uppí fjárhús í kvöld og skilja hvuttana sofandi eftir heima. Þeir urðu ekki sérlega kátir þegar þeir vöknuðu og mjólkurbúið var ekki á staðnum og létu óánægju sína í ljós með miklum hljóðum. Salómon sannfærðist enn betur um að þeir séu ekki bara ljótir heldur líka leiðinlegir að hans mati. En samt verður hann alltaf að skoða þá reglulega.

Í gær fórum við í heimsókn í Skáney vorum að heilsa uppá Randi áður en hún fer út til Noregs og Finnlands að kenna og sjá hvernig hún hefði það eftir afmælið. Hún og Skúli urðu jú áttræð um daginn.emoticon  Frábært hvað hún er orðinn vinsæll reiðkennari þarna út, enda ekki við öðru að búast. Stendur sig alltaf með prýði stelpan.

28.01.2009 21:00

Góður dagur.
 Þetta er Snotra Kubbsdóttir upplýsingafulltrúi Deilu þarna er hún að ritskoða fréttirnar og passa að Októvía leki ekki mikilvægum upplýsingu.

Annars er allt gott að frétta af Deilu og litlu hvuttunum í dag,ég held að þeir hafi stækkað um helming síðan á sunnudaginn. Enda er dagsverk þeirra að sofa og drekka.
Ég var eins og alvöru ljósa og vigtaði hvuttana. Ófeigur var 710 gr en hin töffarinn 600 gr.

Dagurinn í dag var góður gott veður og frábært reiðfæri, enn bætist við í hesthúsið nú kom myndarleg Kjarnadóttir í tamningu. Spennandi að sjá hvernig hún verður.
Annars var allt hreyft í hesthúsinu nema draumaprinsinn Sparisjóður sem er aðallega að einbeita sér að því að verða eldri og komast á tamninga aldur.
Fyrirmyndarhestur dagsins er Gosi Hlynsson, hann og Skúli komu skælbrosandi úr síðasta reiðtúr dagsins.
Veður og færi eins og var í dag mætti nú alveg vera í nokkra daga jafnvel vikur, það mundi kæta bæði okkur og útiganginn.

Fékk skýrslu frá Mumma í dag varðandi hestana okkar sem hann er með í þjálfun á Hólum.
Gengur bara nokkuð vel þó eru þau afar mismunandi verkefni, en allavega bað hann mig ekki að sækja neitt.
Mummi stendur í ströngu í kvöld því hann er að dæma úrtökuna fyrir KS deildina á Sauðarkróki. Vonandi stendur hann sig strákurinn.

Þarf við tækifæri að segja ykkur hvernig staðan er á fylfullum hryssum hjá okkur, við hvað hestum þær eru fylfullar og  o.s.f.v
27.01.2009 21:07

Sorg og gleði í hundaræktinni.


Það er búið að vera nóg um að vera undanfarna daga í Hlíðinni, sumt skemmtilegt annað leiðinlegt.

Litlu hvuttarnir hennar Deilu voru svolítið bráðlátir að komast í heiminn, en þeir áttu eins og áður sagði að fæðast í kringum 3 febrúar. Á sunnudagsmorguninn ákvað Deila að vera heima þegar við fórum í hesthúsið. Það er mjög óvenjulegt en þar sem hún var orðin mjög þung á sér höfðum við ekki áhyggjur af henni töldum bara að hún vildi hafa það náðugt. Þegar við komum heim í hádegismat þá var fæddur einn hvolpur síðan hafa fæðst fjórir. En því miður lifa bara tveir af þeim, skýringin sennilega sú að hvolparnir hafa fæðst hálfum mánuði fyrir tímann.

En nóg um það þessu verður ekki breytt.

Í þvottahúsinu eru núna tveir sprækir og fínir upprennandi smalar sem dafna vel þrátt fyrir bráðlætið að komast í heiminn. Annar heitir Ófeigur en hin hefur ekki enn fengið nafn.
Við vonum að þeir séu komnir úr hættu og hafi bara það markmið í lífinu að verða ofursmalar.
Snotra er mjög upptekin af þessum nýju gripum og með sérstöku leyfi Deilu fær hún að þefa og þvo sé til mikillar ánægju. Sjarminn fer sennilega af þessu þegar hvuttarnir fara að hanga í skottinu hennar og heimta endalausan leik.

Síðustu dagar hafa boðið uppá blíðu og frábært reiðfæri hér í Hlíðinni það hefur verið notað óspart og því ekki gefist tími til ritsmíða. Mummi kom heim um helgina og var liðtækur í hesthúsinu eins og venjulega. Sýndi okkur smá sýnishorn af því sem hann er að læra núna á Hólum. Vá væri ekki frábært að vera ungur (yngri) og vera á Hólum?

Fyrirmyndarhestur dagsins var Erla Piltsdóttir alltaf að verða betri og betri.

25.01.2009 00:22

Ísland í dag og tíkurnar....Salómon fyrirsæta.

Það er búið að vera vor í dag hiti og rigning, hálka og drulla er það ekki venjulegt vertarvor?
Í morgun bauð ég stóðhestunum uppá að vera úti í gerði að gera ,,ekkert sérstakt,, þessu góða boði mínu tóku þeir heldur fálega, ráfuðu um tóku smá hopp og skopp og komu svo heim að dyrum. Þegar ég opnaði dyrnar var beðið með óþreyju eftir því að komast inn úr rigningunni og sem betur fer hafði engum dottið í hug að velta sér. Þeim líkaði sem sagt ekki þetta vetrarvor því venjulega eru þeir ekki tilbúnir að fara inn þegar kallið kemur.

Þó nokkur endurnýjun var í hesthúsinu í dag, Dugur vinur minn Dynsson setti undir sig betri fótinn og tók sér far í höfuðborgina þar sem hann ætlar að vera fyrirmyndarhestur.
Í hans pláss kom svo ung hryssa sem er að byrja sitt nám í reiðhestafræðum, einnig kom í hesthúsið garpur sem hefur beðið á ,,hliðarlínunni,, um nokkurt skeið.

Í dag fengum við skemmtilegt bréf frá vinkonu okkar í Svíþjóð sem á tvo hesta frá okkur.
Hún er að spá í að heimsækja okkur í sumar og finna sér nýja arftaka þeirra hesta sem hafa verið hennar reiðhestar síðustu ár. Annars var aðal efni bréfsins spurningar um ástandið á Íslandi. Fréttirnar sem hún hafði úr fjölmiðlum úti voru hreint ekki glæsilegar, kreppa, borgarstyrjöld og endalaus mótmæli. En þetta er kjarkkona og ætlar samt að koma.

Hef verið afar hugsandi varðandi þennan pólitíska glundroða sem tryllir allt samfélagið þessa dagana. Veikindi leiðtoga beggja stjórnarflokka eru sorgleg og vonandi ná þau fullri heilsu sem fyrst. En langt gengur fólk til að halda völdum, getur verið að völdin séu heilsunnar virði? Ég held ekki, en ég bý líka í fjöllunum. Annars er það ljóst að það er bráð óhollt að vera ráðherra í fljótu bragði man ég eftir fjórum nú á síðustu árum sem veikst hafa meðan þeir gengdu embætti. Skrítin tilviljun eða kannske ekki tilviljun? Það gífurlega álag sem fylgir svona embættum rífur greinilega í og potar í veika punkta.
Pólitíkin er skrítin tík og nær hjá mér að fylgjast með okkar tík sem heldur áfram að blása út.

22.01.2009 21:56

Fimmtudagur 22 janúar.

Ég þakka fyrir allar góðu kveðjurnar og símtölin í gær, gott að eiga stuðning þegar aldurinn færist yfir. emoticon Kveðja Skúli

Annars var hundleiðinlegt rok hér í Hlíðinni í dag og eins gott að hafa inni aðstöðu til að geta farið á bak með góðu móti. Hefðum sennilega fokið af baki ef við hefðum farið út.
Veðurhljóðin glumdu svo á hlöðunni að sumum hrossunum var ekki vel við og voru mjög kvik og stressuð. En allt gekk vel og fyrirmyndarhestur dagsins er Urð Oríonsdóttir.
Vonum að eitthvað betra veður verði í boði um helgina.

20.01.2009 22:42

Mótmæli og brotthvarf


Í dag var dagur mótmæla fólk safnaðist saman niður í miðbæ Reykjavíkur og mótmælti af líf og sál. Ég skil vel að fólk sé búið að missa þolinmæðina, ég hefði örugglega farið niður í bæ ef að ég hefði verið í Reykjavík. En mótmæli eru vandmeðfarin eins og velgengni auðvelt að fara úr leið og lenda í vandræðum. Vonandi ganga mótmælin vel og bera árangur án þess að allt fari úr böndunum.
Ég held að krummarnir hérna í Hlíðinni hafi líka verið að mótmæla í dag. Þeir sátu uppá staur og krunkuðu með miklum látum Snotru til mikils ama. Öðru hverju tóku þeir stutt útsýnisflug svona 50 metra í einu allavega passaði uppá meter að þegar Snotra var að ná þeim flugu þeir upp.emoticon  Spurning hvort að hún ætti að fá liðstyrk frá Badda frænda í Garðabænum til að stöðva þessa krummamótmælendur?

Deila blæs út og fer hægar yfir með hverjum deginum er orðin sannkölluð Bumbulína.
Hvað haldið þið að þeir verði nú margir hvuttarnir ?????  Bíðum spennt.

Allt gekk sinn vana gang í hesthúsinu riðið út, járnað og snyrt.
Fyrirmyndarhestur dagsins var Skjöldur Huginsson jákvæður og námfús foli.

Á morgun verðum við gamla settið sennilega týnd þannig ef að þið sjáið okkur þá eru það ofsjónir.emoticon

Skúli hefur samt ekki týnst síðustu hálfa öld emoticon

19.01.2009 22:23

Við Perla og ,,snjóflóðið,,Það var frábært veður í Hlíðinni í dag bara nokkuð hlýtt hægviðri og snjór. Sem sagt frábært útreiðaveður og skemmtilegt færi með snjó og ís á veginum.
Við Perla vinkona mín vorum einmitt að hugsa um hvað allt væri hreint og fallegt þegar við fórum framhjá hesthúsinu í dag. Vorum bara á rólegu feti og löngum taumi þegar við allt í einu heyrðum mikinn skruðning og læti. Perla ákvað að þarna væri á ferðinni ógurlegt snjóflóð sem best væri að forða (allavega) sér undan og líka knapanum ef að hann næði að fylgja með. Ósjálfráð viðbrögð og heppni gerðu það að verkum að þetta varð bara fín æfing af einhverskonar fljúgandi starti, þar sem hestur og knapi urðu samferða áfram. Ég veit samt ekki alveg hvernig en það er auka atriði þegar allt endar vel.
En snjóflóðið ógurlega var snjórinn sem sest hafði á þakið í nótt og var svo að bráðna í blíðunni í dag. Perla vildi bara vera viss.

Núna er hann Bassi okkar kominn í skóla. Jón Ben fékk hann lánaðan og er nú með hann í knapamerkjanámi á Hvanneyri. Þeir tóku smá æfingu hér heima áður en þeir fóru svona til að vera vissir um að þeir ættu samleið og stefndu að sama marki. Það er að verða ,,bestir,,emoticon æfingin gekk vel og nú vinna þeir bara saman að markmiðinu sínu.

Eins og þið vissuð þá var ég í Reykjavíkinni um helgina að reyna að finna góðan flokksformann. Það gekk nú aldeilis vel og nú eigum við í flokknum flottan formann já og flokksstjórn. Ungur og ferskur hópur sem hefur alla burði til að ná árangri. Leiðtogar annara flokka hafa pirrað sig í allan dag í fjölmiðlum og gert sitt besta til að finna eitthvað formanninum og flokknum til foráttu. Ég held að það fari svolítið í taugarnar á þeim hversu vel þetta flokksþing gekk. Þeim langar nú sumum að endurnýja hjá sér.  

Og ef þeir bara vissu hvað úrvalið var gott.