Færslur: 2013 Nóvember
29.11.2013 16:06
Góð kvöldstund
Síðast liðinn miðvikudag var Mummi með sýnikennslu á Miðfossum en það voru félagar í Grana sem fengu hann til að fara m.a yfir þjálfun í byrjun vetrar.
Hestamannafélagið Grani á Hvanneyri er starfrækt af nemendum Landbúnaðar háskólans en er einnig opið starfsólki og staðarbúum á Hvanneyri.
Mummi fór með tvo hesta með sér þá Sprota frá Lambastöðum og Sparisjóð frá Hallkelsstaðahlíð. Sprota notaði hann til að sýna æfingar í hendi og hringteymingar. Sparisjóð notaði hann svo í reið og einnig smá leikaraskap.
Góð mæting var hjá nemendunum og mættu um 70 manns á sýnikennsluna.
Þessi mynd gæti kallast ,,bræðraspjall,, en þarna eru Reynisbræður að njóta veitinganna í hléinu.
Þessir flottu reiðkennarar mættu á sýninguna og að sjálfsögðu með litlu flottu hestamennina sína. Heiða Dís og Linda Rún hressar að vanda.
Þar sem ég er sérstök áhugamanneskja um lopapeysur varð ég að smella mynd af þessum myndarlega manni og nautgripapeysunni hans. Ég hef séð margar flottar peysur með hestum og kindum en aldrei áður svona góðri ,,beljupeysu,,
Sýningargestir ,,hesthúsuðu,, mörgum tugum af pizzum en þarna eru veitingastjórarnir að gera vörutalningu í lokin. Karen og Skapti sveitungar okkar.
Aðstoðardömurnar stóðu sig vel að vanda en þarna eru þær með Sparisjóð ný bónaðan.
Mummi og Sparisjóður enduðu svo á því að leika sér aðeins saman, fækkuðu reiðtygjum, sippuðu svolítið og þegar reiðtygin vor öll komin af var mál að hneygja sig.
22.11.2013 23:33
Fréttir dagsins með sauðfjár ívafi.
Það var vinalegt að hafa þetta útsýni út um eldhúsgluggann en nú er það búið þetta haustið enda allar kindur komnar á hús. Ja nema þær sem eiga eftir að koma fram sem ég vona að séu nokkrar. Enn of margt sem ekki hefur skilað sér svona m.v síðustu ár.
Það fer vel á með þessum enda er frábært fyrir kindur að fá góðan ,,nebbaþvott,, svona alveg frítt. Þær eru fljótar kindurnar að finna það út að Snotra dekrar við þær sem ekki stanga hana.
Eins og væntanlega glöggir fjármenn sjá þá er appelsínugult merki í þessari gimbur sem tilheyrir ekki þessu svæði hér. Þessi flotta gimbur kom saman við fullorðnu hrútana sem voru á túninu inní hlíð um daginn. Þar voru þeir settir til að sauðburðurinn byrjaði ekki á ókristilegum tíma en þangað kom þessi og nú er spurning hvort að hún beri snemma næsta vor. Móðir hennar og systir komu svo heim að Dunki og þegar þær mæðgur voru sóttar kom eigandinn (umráðamaðurinn) við til að sækja þessa gimbur.
Þar sem að hefðin var alveg að skella á þessa og hún passaði óaðfinnanlega vel í líflambakróna slóg ég til og smellti mér á þær báðar.
Nú röllta þær um með drotningarsvip og eru hæðst ánægðar með nöfnin sín Blesa og Lukka.
Loðmundur og Elvar Sterasynir eru þeir lambhrútar sem settir voru á hér í Hlíðinni þetta haustið. Vænir og fínir tvílembingar sem vonandi verað heiðurskappar með tíð og tíma. Þeir eiga sérstaka aðdáendur í Garðabænum enda synir Golsu sem þar á dygga vini.
Eftir það mikla ,,Steraæði,, sem rann á húsfreyjuna síðasta haust þegar hún kom í fjárhúsin á Dunki var þessum kappa bætt í safnið. Þarna er á ferðinni enn einn Sterasonurinn en þessi er frá Dunki. Við keyptum hrút þaðan fyrir nokkrum árum sem hefur reynst afar vel svo það var ástæðulaust að fara að flengjast eitthvað langt í burtu til að ná sér í góðan hrút.
Þessi hefur enn ekki fengið viðunandi nafn en fyrir á ég bæði Dunk og Kjartan svo eitthvað verður að finna á þennan sem hæfir. Guðrúnar er ekki sérlega þjált en hver veit ?
Nú er farið að sjást fyrir endann á rúningi þetta haustið en þarna er Vökustaur að fá sína jólaklippingu. Eins gott að vera vel til hafður fyrir fjörið sem framundan er hjá honum.
Það var afar líflegur dagur hér í Hlíðinni þennan daginn fyrir utan venjulegt stúss var ýmislegt framkvæmt. Hjalti dýralæknir mætti á svæðið og sprautaði hvern einasta hest á bænum með ormalyfi, sónarskoðaði hryssurnar og gerði auk þess nokkur minni viðvik sem uppsöfnuð voru. Sprautaði einnig tæplega 160 ásetningslömb við garnaveiki.
Stóðinu er skipt upp í þrjá hópa svo þetta voru heilmiklar smalamennskur sér í lagi þar sem við þurftum að sandbera nokkra slóða til að verjast hálkunni. Allt var í góðu lagi og mikið er nú alltaf gaman að skoða stóðið spá og spekulegra.
Þessi vinkona mín hefur heldur betur stækkað frá því að þessi mynd var tekin fyrir bráðum tveimur árum. Hún var tekin inn í dag og kemst þar með í ,,fullorðins,, hrossa tölu.
Þetta er Auðséð mín undan Karúnu og Sporði frá Bergi.
Núna er bara að byrja að temja hana og sjá hvað setur, húsfreyjan er frekar spennt ;)
20.11.2013 21:48
Bara svona mynda.......
Svona var veðrið í Hlíðinni þegar ég fór að skoða og spjalla við folaldshryssurnar í vikunni.
Algjör draumur og eins og þarna sést er vatnið farið að legggja.
Sumir höfðu það betra en aðrir, fengu sér blund í miðri rúllunni. Alltaf gott að leggja sig eftir matinn.
Karún mín fær alltaf sérstakt knús en þarna er hún með syni sínum honum Símoni Arionssyni.
Þessar flottu mæðgur sá um það sjálfar að gefa knús, þetta eru þær Létt frá Hallkelsstaðahlíð og Topplétt dóttir hennar og Topps frá Auðsholtshjáleigu.
Já það er orðið vetrarlegt hjá okkur hér í Hlíðinni og nú fer að styttast tíminn þangað til að sólin fer í árlegt frí. Við sjáum nefninlega ekki sólin frá 30 nóvember til 14 janúar.
Þessar brosmildu dömur eru duglegar í hesthúsinu og standa sig með mikilli prýði.
Hanna og Molli frá Lambastöðum svo er það Natascha og Glitnir frá Hallkelsstaðahlíð.
Alltaf líf og fjör í Hlíðinni, mikið er nú gott að setja bara inn myndir þegar ritletin er við völd.
18.11.2013 12:24
Félagsmála málin.......
Um helgina var aðalfundur Félags hrossabænda haldinn í Reykjavík og einnig árleg ráðstefna um hrossarækt. Þangað var mér boðið sem formanni Félags tamningamanna.
Nokkrar breytingar eru framundan og ljóst að við þrjú sem erum þarna á myndinni munum ekki fara í hringferð um landið eins og við gerðum saman fyrir nokkrum árum.
Nú nema við smellu okkur þá í skemmtiferð en ekki vinnuferð eins og þá.
Á aðalfundinum lét Kristinn Guðnason formaður af störfum eftir 14 ár á formannsstóli.
Guðlaugur Antonsson sem verið hefur hrossaræktarráðunautur fer í ársfrí um næstu áramót og ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til endurkjörs sem formaður Félags tamningamanna á aðalfundinum nú í desember. Já þetta er bara orðið nokkuð gott finnst mér.
Það hefur verið gaman og lærdómsríkt að starfa með þessum herramönnum.
Takk fyrir skemmtilegan tíma Guðlaugur og Kristinn.
En þar sem ég veit þið farið ekki með það lengra þá hrökk ég nú svolítið við þegar ég fór að skoða hvað ég var búin að vera lengi að stússast í félagsmálum hestamanna.
En ég get sagt ykkur að 25 ár eru ekki lengi að líða.
Ég byrjaði mín störf fyrir Hesteigendafélag Borgarness og síðar Hestamannafélagið Skugga og var þar stofnfélagi. Síðan var það Hestaíþróttasamband Íslands og þegar það sameinaðist Landsambandi hestamannafélaga var ég kjörin gjaldkeri þess. Ég var formaður Hestamannafélagsins Snæfellings í nokkur ár en Snæfellingur var mitt fyrsta Hestamannafélag og við það hef ég alltaf haldið tryggð.
Þessu gamla góð mynd er sennilega tekin árið 1979 á Hestaþingi Snæfellings en þarna sigruðum við Skjóna mín unglingaflokkinn.
Litli sæti drengurinn við hliðina á mér er Lárus Ástmar Hannesson, nafninu á hinum hef ég því miður gleymt. Takið sérstaklega eftir flottu hófhlífunum og að sjálfsögðu rauðu sokkunum.
Á þessari mynd erum við að bíða eftir úrslitunum og sennilega höfum við öll fengið veifu Hestamannafélagsins Snæfellings eins og vengja var á þessum tíma.
F.v Jóhann Hinriksson, Stykkishólmi, Kristjana Bjarnadóttir, Stakkhamri, ég og síðan Gunnar Sturluson, hrossaræktandi í Hrísdal.
En aftur að félagsmálunum hjá LH sat ég einnig í nokkrum nefndum og átti góðan og skemmtilegan tíma. Það var síðan18 janúar árið 2003 sem byrjaði að stússa í félagsmálum FT og hef verið þar viðloðandi síðan. Fyrst sem formaður FT suðurdeildar og síðan sem formaður félagsins.
Góður tími með skemmtilegu fólki, já hestamenn eru frábærir þegar þeir vilja það við hafa.
Nú eru þessi skrif farin að líta út eins og minningagrein en það var nú ekki ætlunin.
Fannst bara gaman að velta þessu fyrir mér þegar ég gerði mér grein fyrir hvað þessi tími hefur flogið áfram.
12.11.2013 11:38
Þriðjudagar eru námskeiðsldagar
Á þriðjudögum er Mummi með námskeið í Söðulsholti.
Hér á eftir koma nokkrar myndir sem teknar voru þegar hann var með sýnikennslu þar.
Það voru einbeittir nemendur sem þar voru saman komnir og greinilega eitthvað alvarlegt að gerast.
................og þessi voru ekki síður einbeitt á svip.
Þarna er góður hópur á hliðarlínunni.
Kennsla er hafin í knapamerki 1 og 4 svo eru að sjálfsögðu stakir tímar og einkatímar í boði líka. Um að gera að drífa sig nú eða bætast í hópinn þegar fólki hentar.
Hringgerði eru til margra hluta nytsamleg eins og sést á þessari mynd :)
Öll aðstaða í Söðulsholti er frábær og þarna er Einar bóndi að spjalla við mannskapinn yfir kaffibolla og kleinum.
Alltaf gaman að koma í Söðulsholt.
Þeir sem vilja smella sér í reiðtíma geta haft samband við Mumma í síma eða á netfangið hans.
10.11.2013 20:52
Örfréttir
Þegar það er slydda og slagveður er gott að rifja upp eitthvað sumarlegt og láta sig dreyma.
Það sumarlega er náttúrulega hestaferð en kannske ekki í snjó eins og þessi sem við eru í þegar þessi mynd er tekin. En veðrið var gott og ferðin skemmtilega þó ekki væri ágúst með grænu grasi og sumarblíðu.
Sá sem úthlutar okkur veðri var örugglega með sérstakt þema í dag........svona allt í boði þema. Fyrst var það haustblíða, svo kom snjófjúk, bætti í vindinn sem varð að roki og slyddu. Loks var það rok og rigning og núna er rok og svolítið kalt en ekki frost. Grófleg samantekt í fáum orðum, blíða, logn, gjóla,strekkingur, rok, snjór, rigning, slydda.
Þetta var boðið uppá í dag en aldrei lengi í einu. Spurning um nýjan veðurstjóra ?????
Hér í Hlíðinni er búið að klippa vel á fjórða hundraðið af kindum og eftir veðrinu að dæma er líklegt að útgöngubann kinda gangi í garð á morgunn.
Þessir voru hressir og búralegir einn morguninn í síðustu viku Sveinbjörn og Ásberg Hraunholtabóndi. Vinur þeirra sem er með þeim á myndinni er hinsvegar ekki eins vel fyrirkallaður. Kannski hefur hann eitthvað misjafnt á samviskunni sem snýr að lélegum heimtum bænda hér á svæðinu? En sú samviska er þá farin með honum á vit feðra sinna.
Ófeigur að teyma Freyju, nú eða öfugt.
Freyja er að verða liðtæk við smalamennskurnar og fær óspart að æfa sig þessa dagana þegar
kindurnar eru hýstar flesta daga. Áhuginn er mikill og framfarirnar ásættanlegar, ef að hún væri mennskur smali væri full ástæða til að hæla henni. Hún fer gáfulega að kindum, lítið ofvirk, lætur þær hlýða sér og hefur heyrn á við heilbrigðan karlmann.
Þessi hefðarhundur er hinsvegar með allt á hreinu brosir og hlær alla daga og er gædd mörgum góðum kostum. Gallarnir eru helst þeir að liggja ekki á skoðunum sínum né fara lágt með það sem efst er á baugi hverju sinni. Kemur henni stundum í koll en hvað er ekki hægt að fyrirgefa þegar maður sér þetta brosandi andlit með gleði og geislandi augum ????
Hún er alltaf tilbúin að aðstoða jafnvel við fleira en gott þykir þegar kemur að smalamennskum.
Og það síðasta en ekki það sísta
Málglöð í meira lagi................eins gott að ég er búin að gleyma......... ,,fé er jafnan fóstra líkt"
Natascha okkar fékk góða gesti um daginn þegar foreldrar hennar komu í heimsókn hingað.
Þessi mynd var tekin við það tækifæri og auðvita fékk Salómon að vera með vinkonu sinni á myndinni.
07.11.2013 22:50
Í fréttum er þetta helst....
Það er kominn vetur og mikið er nú langt síðan ég hef smellt inn fréttum héðan úr Hlíðinni.
Sumpart er það leti en ekki hefur ömurlegt netsamband hjálpað til við fréttafluttninginn.
Nú er ég stödd í höfuðborginni og læt því vaða hér inn gamla mynd til að lífga uppá.
Já það hefur margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast, tryppatamningar á fullu og hesthúsið orðið stút fullt af spennandi verkefnumu. Það er ekki hægt að nefna nein uppáhaldstryppi því að núna eins og oftast eru bara skemmtilegt hross inni. Það eru sko forréttindi að vinna við áhugamálin sín.
Mummi fór til Svíþjóðar og var þar með námskeið á nokkrum stöðum, bæði þar sem hann hefur verið áður og svo nokkrum nýjum. Hann var ánægður með ferðina og er strax farinn að hlakka til þeirrar næstu.
Mummi er líka byrjaður með reiðkennslu í Söðulsholti þar sem hann er með góða hópa á þriðjudögum. Hann kennir bæði knapamerkin og einnig eru stakir reiðtímar í boði.
Áður en að hann hóf kennslu þar var hann með sýnikennslu sem u.þ.b 30 manns mættu á.
Kella var á staðnum og tók nokkrar myndir sem væntanlega munu birtast þegar netið skánar.
Fyrir nokkru síðan var svo brunað uppað Skáney en þar var Jakob Sigurðsson með námskeið. Þegar Mummi var á öðru ári á Hólum fór hann í verknám í Steinholt til Jakobs og Torunnar. Hann var afar ánægður með dvölina þar um veturinn og hvatti því óspart til þess að fara á námskeið til Jakobs. Ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum faglegur og góður kennari.
Ekki skemmdi svo fyrir að vera í þessari flottu aðstöðu sem að Skáneyjarbændur hafa komið sér upp. Já og svo var veisla hjá Randi í öll mál með tilheyrandi dekri.
Aldeilis flott að taka sér ,,námsleyfi,, eða ,,húsmæðraorlof,, og njóta lífsins á lúxushótelinu.
Þessi góði hópur sem eyddi þarna saman heilli helgi var mjög ánægður og er örugglega til í slaginn aftur. Og ég á fullt af myndum sem þurftu svo sannarlega að komast hingað inn.
Takk fyrir okkur Skáneyjarbændur og að sjálfsögðu Jakob Sigurðsson.
Að öðru, lömbin voru tekin á hús fyrir nokkru síðan og í gær bættust veturgamlar kindur og gamlar við. Aftekning hafin og allt að færast í vetrarskorður.
Heimtur er ekki alveg nógu góðar en kannske er einhver von ennþá með það.
Lífgimbrarnar eru komnar hátt á annað hundraðið en lambhrútarnir bara þrír og eiga það allir sameiginlegt að vera undan Stera. Einn af þeim er frá Kjartani og Guðrúnu á Dunki en hinir eru heimahrútar undan henni Garðabærjar-Golsu. Já og þeir voru nefndir í vor og fengu nöfnin Elvar og Loðmundur. Það er aldeilis munur að hafa góðar dömur á kanntinum til að nefna gripina. Dunkurhrúturinn er ennþá ónefndur en það stendur til bóta.
Styttist í að á náttborðið komi uppáhaldslesefnið Hrútaskráin og Hrossaræktin.
Þessa dagana er mikið um fundi hjá húsfreyjunni, stjórn Félags tamningamanna hittist í Borgarnesi á mánudaginn, Fagráð í hrossarækt fundaði í dag og á morgunn er það svo formannafundur Landssambands hestamannafélaga.
Óðum styttist í aðalfund Félags hrossabænda og í desember er það svo aðalfundur Félags tamningamanna.
Já nóg um að vera og nú er bara vona að netinu ,,batni,, fljóttlega.
- 1