Færslur: 2017 Janúar

29.01.2017 23:17

Myndasyrpa - Þorrablót 2016................

 

Já það er að koma þorrablót og þá kom í ljós að kella hafði alveg gleymt að smella inn myndum frá síðasta þorrablóti.

Úr því verður hér með bætt.

Hér á fyrstu mynd má sjá frú Áslaugu í Mýrdal stjórna línudansi af miklum myndarskap.

Ein spurning vaknar þó við þessa myndbirtingu..........................hvar er Gísli hreppstjóri ???

Gísli hefur í áraraðir stjórnað línudansi á þorrablóti en á myndinni er hann hvergi sjáanlegur.

Sennilega hefur frúin framið valdarán og tekið öll völd af Gísla hreppsjóra.

Spurning ársins er því .....................hver stjórnar línudansi á þorrablóti 2017 ???????????????

 

 

Þessi elska fór á sitt fyrsta þorrablót og brosti bara hringinn enda var gaman.

 

 

Lalli fyrrverandi vinnumaður brosti breitt með dömuna sína.

 

 

Þarna eru þau M og M.

Maron og Majbrit skemmtu sér afar vel á þorrablótinu.

 

 

Þóra og Björg voru hressar að vanda, hafa sennilega ekki verið byrjaðar að dansa.

Allavega eru þær enn í lopapeysunum.

 

 

Fulltrúar dalamanna voru þessi heiðurshjón frá Magnússkógum.

 

 

Þessi var hinsvegar fulltrúi hressra Borgfirðinga.

 

 

Frá Stóra Hrauni kom föngulegur hópur.

 

 

Þarna eru fulltrúar úr Eyja og Miklaholtshreppi.

 

 

Glatt á hjalla.

 

 

Þessir að ræða heimsmálin, Ásberg og Guðmundur Helgason.

 

 

Það er líka skálað á þorrablótum, Ystu Garða frúin tekur á því.

 

 

Og það var spjallað.

 

 

Og hlegið............

 

 

Þessi dama er verkstjóri skemmtanastjórans eins og þið sjáið er hún ábyrðarfull.

 

 

Þarna er hópur af Hvanneyrarskvísum , núverandi og fyrrverandi.

 

 

Þessi mættu á sitt fyrsta þorrablót í Lindartungu og voru þá nýbúar.

Núna eru þau glerharðir Kolhreppingar og mæta örugglega á næsta blót.

 

 

Lárus í Haukatungu sá um að allt færi vel fram, alltaf svo hress strákurinn.

 

 

Og þá er það kaffisopinn.

 

 

Þverárfeðgar spá í spilin.

 

Vonandi verð ég fyrr á ferðinni með myndir frá þorrablóti 2017 en það er einmitt næsta föstudag.

Hver veit hvað ég hef af.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

13.01.2017 22:13

Draugfullur í Hnappadalnum..........

 

Um það leiti sem ný ríkisstjórn tók til starfa þvældist hann um Hnappadalinn draugfullur.

Það geislaði af honum og ekki annað að sjá en að hann væri bara býsna sáttur eða hvað ???

Var hann kannski að drekkja sorgum sínum á viðeigandi hátt og valdi því Hnappadalinn sérstaklega.

Hann hefur nú svolitlar tengingar þangað blessaður.

 

 

Ég ætla að hlífa ykkur við pólutísku þrasi en ,,millilínulesarar,, skilja vonandi sitt.

Já máninn fullur fer um .............það er svo sem ekkert nýtt.

Og fallegur var hann blessaður þegar hann kom upp framundan Selkastinu.

 

 

Þessi fína Þerna dóttir Skýrs frá Skálakoti og Snekkju var ekki að hugsa um stjórnmál.

Hennar aðal áhugamál var traktorinn sem var að koma með rúllu handa henni og vinum hennar.

Folöldin ganga ennþá undir hryssunum en við förum líklega að taka þau inn fljóttlega.

Folaldshryssurnar og veturgömlu tryppin eru saman í hóp og er þeim gefið sér.

Við rekum stóðið reglulega heim í gerði og förum yfir holdafar þeirra og skoðum hvort að allt sé ekki eins og best verður á kosið.

Svo auðvita lítum við vandlega eftir þeim annan hvern dag en þá er þeim öllum gefið.

Veturinn hefur verið svolítið umhleypingasamur svo að myndast hafa kjör aðstæður fyrir hnjúska.

Við höfum hinsvegar verið heppin með okkar hross og aðeins örlað á smávegis í tveimur tryppum.

 

 

Nú styttist sá tími sem að hrútarnir fá að leika lausum hala í kindunum.

Við tókum alla hrúta úr gemlingunum þann 8 janúar og fækkuðum hrútum í öðrum króm.

Það hafa nokkrar kindur gengið upp en þó enginn fjöldi, svo það lítur út fyrir að hrússarnir hafi staði sig.

Við sæddum rétt um 90 kindur og notuðum góðan hóp hrúta.

Fyrir þá sem til þekkja voru það : Toppur, Baugur, Voði, Borkó, Kjarni, Hnallur, Burkni, Dreki, Bekri, Brúsi Vinur, Ebiti, Kústur og Alur.

Og nú er bara að vona að eitthvað komi spennandi út úr þessu öllu saman. Nú kemur sér vel á eiga hrútaskrána.

 

 

Þarna sjáið þið hinsvegar einn af upprennandi kynbótahrútum búsins hann Litla-Vökustaur.

Hann er undan einni af okkar bestu kindum og sparihrút sem var frá hjónunum á Dunki í Hörðudal.

Litli-Vökustaur einbeitir sér nú að því að stækka og verða eðalgripur í eðlilegri stærð.

Um daginn fékk hann þessa fínu heimsókn þegar Svandís Sif frænka mín mætti í sveitina.

Það fór vel á með þeim og eins og þið sjáið þá brosa þau bæði til ljósmyndarans.

 

 

Ekki var samkomulagið hjá Svandísi Sif og Kafteini síðra en minnstu munaði að hún væri komin á bak.

Hefði þá verið sú fyrsta en Kafteinn er ógeltur foli á öðrum vetri undan Skútu og Ölni frá Akranesi.

Þarna brosa þau bæði og voru virkilega ánægð með hvort annað.

 

 

Svandís Sif þjálfað líka snillinginn Fannar fyrir Mumma frænda.

Eins og sjá má tók hún bara Dorit á þetta og veifaði til viðstaddra.

Elíza Reid hvað ???

 

 

Þau voru flott saman Svandís Sif og Fannar.

Hún var komin með allt á hreint..............áfram .....................stopp og allt.

Ætlar að koma í sveitina og stoppa lengi ..............sko alein..........mamma og pabbi bara í Reykjavík.

Mikið held ég að mamma Svandís sé ánægð með litlu sveitakonuna þegar hún fylgist með úr draumalandinu.

 

 

Já það er gaman í hestunum krakkar.

Svona er lífið dásamlegt.

 
 
 
 
 
 
 

 

 

 

 

 

 

 

06.01.2017 13:38

Með kaffibollanum í byrjun árs.

 

Gleðilegt ár kæru vinir með kæru þakklæti fyrir liðin ár.

Megi gæfa, gleði og góð heilsa fylgja ykkur á nýju ári 2017.

Árið 2016 var bæði sætt og súrt ef svo má að orði komast.

Góðar stundir með gæfu og gleðisporum en líka sár missir með söknuði og ósigrum.

Það er því með tilhlökkun, framsýni og gleði sem við tökum á móti nýju ári.

Við nýtum reynsluna frá árinu 2016 til að búa til góðar minningar.

 Og kæru vinir, fyllast þakklæti fyrir það sem það þó gaf okkur.

 

Áramótaheiti og ég eigum ekki samleið, því liggja okkar leiðir ekki saman.

Það breytir því þó ekki að um áramót er góður tími til að hugsa sinn gang.

Mínar áramótahugleiðingar voru tengdar því að hugsa vel um mig og mína, menn og málleysingja.

Passa uppá barnið í sjálfri mér og passa uppá að muna að leika mér og hafa gaman.

Og síðast en ekki síst svona eftir létta yfirferð um netmiðlana passa orðfæri og athafnir í garð annara.

Það er hreint ekkert grín hvernig sumir telja sig hafa leyfi til að öskra, dæma og skaða annað fólk í orði.

Ég get ekki sleppt því að nefna umræður um íslenskan landbúnað og bændur. Ótrúlegustu ,,sérfræðingar,, hafa stigið fram og farið mikinn í umræðum um landbúnað. Sem væri í sjálfum sér bara gott en þegar vanþekking og hatur fara saman þá er ekki von á góðu.

Því miður eru ,,svartir,, sauðir á meðal bænda eins og í vel flestum starfsgreinum en ég fullyrði að við erum ekki öll alslæm.

Við bændur og okkar starfsumhverfi erum ekki hafin yfir gagnrýni og eigum að þola málefnalega umræðu.

Og svo það sé á hreinu þá á velferð og aðbúnaður dýra að vera með þeim hætti að sómi sé að fyrir alla hlutaðeigandi.

Ég verð þó að játa að um tíma fannst mér best að lesa blöðin án gleraugna, stilla útvarpið lágt og gleyma að kveikja á sjónvarpinu.

En það dugði ekki til því eftir ótrúlega stutt stopp á fésbókinni fældist maður út og reyndi að rifja upp hvað fékk mann til að vera bóndi.

Sem betur fer eru þó enn til öflugir málsvarar sem leggja okkur lið og með yfirvegun færa umræðuna á annað plan.

Fjallaloftið er heilnæmt og eftir góðan reiðtúr rétti ég úr mér brosti framan í heiminn og fylltist stollti af því að vera íslenskur bóndi.

Það sem meira er eftir nákvæman lestur á þeim lista sem geymir handhafa listamannalauna hefð ég ákveðið að samgleðjast þeim öllum.

Þeir hafa jú allir fengið sínar niðurgreiðslur á listinni til að við, meira að segja bændur getum notið hennar á viðráðanlegu verði.

Þá er jafnt á komið þegar niðurgreiðslur á lambakjöti eru komnar í vasa okkar bænda til að listamenn og annað gott fólk fái sínar vörur á viðráðanlegu verði.  Sanngjarnt ? Sambærilegt ?

Hér verður ekki farið útí það hvað t.d lambakjöt og leikhúsmiði þyrftu að kosta til að allir yrðu sáttir og fengju sitt.

Sko án aðkomu ríkisins.

Þetta er eingöngu tekið sem dæmi í mínum hugleiðingum og þar sem ég veit að bæði bændur og listamenn eru vænsta fólk.

 

Hér í HLíðinni gekk flest sinn vana gang á árinu en þó er ég ekki fjærri því að árið sé eitthvað farið að styttast.

Það er eitthvað svo stutt á milli stórra viðburða, áramót, þorrablót, hestamót, mannamót.............

Já tíminn flýgur en það segir manni að lífið sé bara svo skemmtilegt.

Sauðburður, leitir og réttir skipa stóran sess í verkefnum sauðfjárbóndans. Þessir viðburðir heppnuðust afar vel þetta árið.

Þökk sé m.a okkar góða fólki sem kemur hjálpar og skemmtir okkur af lífi og sál.

Ég tileinkaði mér nýja tækni á árinu og er nú orðinn snappari, já ég veit þetta bara gaman.

Ef að þið viljið fylgjast með þá er bara að senda mér beiðni á sigrunhlid

 

Við urðum fyrir því á árinu að missa báða smalahundana okkar í blóma lífsins.

Freyja frá Eysteinseyri sú eldri fékk legbólgu sem á endanum dróg hana til dauða.

Freyja var orðin öflugur smalahundur og aðal smalahundur Skúla.

Mara mín frá Eysteinseyri var yngri systirin og sérstaklega lofandi og skemmtilegur smalahundur.

Ég var svo heppin að fá tamningu á Möru hjá Svani í Dalsmynni þegar ég varð einu árinu eldri.

Það var afar árangursrík ferð og ég alsæl með framtíðar smalahund en það fer ekki allt eins og best verður á kosið.

Mara lenti í slysi og þar með var draumurinn búinn.

 

Það hefur verið líflegt í hestastússinu þetta árið, mikið tamið og þjálfað. Einnig hafa nokkur hross skipt um eigendur bæði þau sem voru í okkar eigu og svo erum við alltaf með nokkur söluhross fyrir aðra. Það er gaman að fylgjast með og fá fréttir af hrossunum bæði þeim sem flutt hafa til annara landa nú eða bara flutt sig á milli bæja.

Hjá okkur fæddust fimm folöld og væntanlegur er svipaður fjöldi á næsta vori ef að allt fer eins og til er ætlast.

Við fórum í frábæra hestaferð með vinum og starfsfólki í ágúst.

Að öðru ólöstuðu var það sennilega toppurinn á sumrinu.

Auk þess sem við tókum á móti gestum og ferðamönnum sem komu gagngert til að skoða og njóta hestanna.

Það hefur verið mikið að gera hjá Mummi í reiðkennslunni og hefur hann farið 10-15 sinnum erlendis á árinu.

Tengingar sem myndast í þessum ferðum eru afar mikilvægar fyrir okkur hér í Hlíðinni.

Ég dæmdi á þó nokkuð mörgum hestamótum á árinu, bæði gæðinga, íþrótta og firmakeppnir. Smellti mér meira að segja út fyrir landsteinana til þess að dæma hross sem var mjög gaman þar sem ég átti þess kost að heimsækja vini og kunningja í leiðinni.

Mér finnst þetta eitt af því skemmtilegasta sem ég geri. Að sjálfsögðu reyni ég að fara á alla þá endurmenntun sem í boði er og mikið verður nú gaman þegar ég hef það af að fara til Andalúsíu.

Með öðrum orðum að skoða hesta spá og spekulegra er hreint frábær skemmtun.

Við hér í Hlíðinni höfum undanfarin ár fengið úrvalsnemendur í verknám bæði frá skólum hér heima og ekki síður frá landbúnaðarskólum erlendis. Þessir krakkar hafa staðið sig með mikilli prýði og mikið sem þau bæta nú mannauðinn okkar.

Einnig hafa verið hér ungmenni til aðstoðar sem við höfum verið ótrúlega heppin með.

Já krakkarnir ,,okkar,, eru yndisleg.

 

En það var ekki bara gleði sem árið 2016 hafði uppá að bjóða, frændfólk og vinir kvöddu sumir alltof fljótt.

Þann 27 ágúst lést mamma eftir erfiða baráttu við krabbamein. Hún barðist fram á síðasta dag með dugnað og bjartsýni að vopni.

Það er sárt að missa einhvern sem stendur manni nærri og hefur alltaf verið til staðar. Mamma var miklu meira en bara móðir hún var mín besta vinkona. Ég hugsa til hennar á hverjum einasta degi auðvita með söknuði en fyrst og fremst með óendanlegu þakklæti.

Þakklæti fyrir allt sem var og ekki síður þakklæti fyrir allt sem verður, því þar á hún stóran hlut að máli.

 

Um áramót er dregin ósýnileg lína í tímann. Gamla árið hverfur á braut og það nýja kemur og verður okkur samferða.

Við hér í HLíðinni áttum góð áramót með blandi af gömlum hefðum og nýjum siðum.

Borða góðan mat, vera og njóta.

Mannskapurinn bæði úr því ,,efra,, og því ,,neðra,, saman kominn við eldhúsborðið.

Spilamennska er gömul hefð sem er í hávegum höfð hér í Hlíðinni á nýjársnótt nú sem fyrr.

Þetta árið var það kani sem varð fyrir valinu en hér áður fyrr var fjölbreytnin meiri.

Þá spiluðum við fleiri spil t.d hjónasæng og piparmey.

Mér verður alltaf hugsað til frænda minna Ragnars og Halls Magnússonar þegar spilamennska er annars vegar.

Ragnar spilaði af lífi og sál með miklum mettnaði en Hallur með miklum hávaða. Það var því gaman að spila piparmey við Hall því þá þurfti hann að þegja. Það var honum afar erfitt.

Ein er þó hefðin sem strikuð hefur verið út en það er skothríð flugelda.

Eftir að hafa eytt nýársnótt (um) í að leita að sturluðum hrossum eftir flugeldaskothríð var því sjálhætt.

Taugastríðið sem fylgdi því að kanna hvort sparihrossin hefðu hlaupið í pípuhliðið eða til fjalla var meira en þolmörkin leyfðu.

Það yrði mér því mikið gleðiefni ef að flugeldar yrðu bannaðir allavega í þeim stærðum sem framkalla hamfarahljóð sem margfaldast í klettunum hér fyrir ofan. Björgunarsveitirnar gætu verið með sýningar á afmörkuðum svæðum þar sem mönnum og málleysingjum stæði ekki ógn af. Auðvita veit ég að flugeldasalan er ein af aðal tekjuöflunum sveitanna en það er alveg hægt að styðja þær og styrkja þó það sé ekki launað með flugeldum. Það höfum við gert hér í nokkuð mörg ár.

Þess má geta að allt fór vel fram þessi áramótin.

 Að lokum koma hér hugheilar óskir um gleðilegt nýtt ár með þakklæti fyrir það liðna.

Vonandi eigum við eftir að eiga farsæla samleið á nýju ári.

Bestu kveðjur.

Bændur og búalið í Hlíðinni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 
  • 1