19.10.2009 22:28

Örlögin ráðin...............



Kindastússið endalausa........................

Þið sem eruð að bíða eftir hestafréttum héðan úr Hlíðinni verðið að bíða í nokkra daga í viðbót því nú um stundir er ég sauðfjárbóndi. En törnin fer nú að klárast og á morgun fara héðan um 300 lömb í sitt síðasta ferðalag. Hér var tekin ærleg sveifla í gær vigtað og valið fram á harða kvöld og eitt er víst valið var erfitt. Í morgun mætti svo Lárus ráðunautur með sónarinn skoðaði og stigaði fjöldann allan af lömbum. Niðurstaðan varð 1oo lífgimbrar og 8 lífhrútar. Svo á eitthvað eftir að heimtast úr fjallinu og þá bætist hugsanlega eitthvað við fjöldann. Kröfurnar fara vaxandi með hverju árinu og margir góðir gripir verða að fara.
Góður hópur af lífgimbrum skiptu um eigendur í dag og vona ég að þær eigi eftir að verða nýjum eigendum til ánægju og  ræktendum sínum til sóma.
Það er ekki grín að vera hrútur frekar en karlmaður það skal ég segja ykkur. Það reyndu 19 lambhrútar í dag þegar þeir fóru í gegnum nákvæma skoðun Lárusar ráðunauts og annara sjálfskipaðra ,,sérfræðinga,, (sérvitringa) hér í Hlíðinni.
Eins og áður sagði hafði forvalið (prófkjörið) farið fram en nú voru það kosningarnar.
Eftir fyrst umferð var ljóst að einungið 12 ættu möguleika miðað við þær kröfur sem upp voru settar. Kröfurnar voru meðal annars....... meira en 82 stig frá Lárusi, góðar mæður, ennþá betri feður, fegurð og fönguleiki að áliti ,,sérfræðinganna,, og síðast en ekki síst að hafa náð tökum á því að heilla húsfreyjuna og tryggja sér hennar velvilja. Stundum reynst vel. Markmiðið var að lífhrútarnir yrðu 4 eða kannske 6 svo að niðurskurðurinn hélt áfram.
Tölur voru skoðaðar og gripir metnir fram og til baka. Baráttan harnaði og ég er sannfærð um að hjartað var farið að slá hratt í vini mínum Sindra Kveikssyni þegar endanlegur dómur var kveðinn upp.
Fyrstur til að fá rauðamerkið í ennið sem þýðir líf var hrútur undan Fannari frá Ytri-Skógum snotur hrútur með bara þó nokkrar níur. Síðan voru það tveir synir Dökkva frá Hesti sem báðir eru svartir og einn bróðir í viðbót sem er hvítur. Dökkvi kom afar vel út hér á bæ.
Mókollur sonur Mókolls frá Borgarfelli kom næstur 60 kg hlunnkur sem landaði 84 stigum og getur verið stolltur af því að vera eini kollótti hrúturinn sem valinn var úr lömbunum þetta árið. Þróttur frá Staðarbakka átti einn son í þessum hópi sem var virkilega jafn og góður og skoraði vel.
Það sem gerir sauðfjárrækt m.a skemmtilega er það að leggja sig fram um að þekkja gripina og sérstöðu hvers og eins í það væri frábært að hafa endalausan tíma en svo er nú ekki. Ein fullorðin kind er hér í hópnum sem ég hef alla tíð haft miklar mætur á en þetta er kind sem að Einar heitinn móðurbróðir minn valdi til lífs eitt haustið og líklega sú síðasta sem hann valdi. Kindin Snjóka klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og kom með gullgóðan 84 stiga hrút sem að ég er viss um að Einari hefði líkað.
Nú eruð þið örugglega orðin alveg viss um að ég kunni ekki að telja....................en ég verð að segja ykkur að svo er nú ekki, heldur eru fjöldamarkmiðin bara fokin útí veður og vind.
Og það sem meira er................ ég á að sjálfsögðu eftir að nefna einn gripinn sem að fékk náð fyrir augum allra í dag en það er enginn annar en Sindri Kveiksson. Hann raðaði á sig góðum stigum og stóð undir væntingum en ef að einhver efast um einhvern gæði hans þá hefur hann alltaf fullgilda afsökun..............................hann var rekinn úr kálinu.

Myndir af gripunum koma fljóttlega inná síðuna og þá er ykkar að dæma hvort valið var rétt.

17.10.2009 22:14

Hver verða örlög Sindra Kveiks???

 Það er orðið langt síðan ég hef gefið mér tíma til að setjast niður og færa ykkur fréttir héðan úr Hlíðinni. Síðasta vika var erilsöm í meira lagi og því lítið um skriftir og vangavelltur.
Á mánudaginn var fundur hjá okkur í stjórn Félags tamningamanna og á þriðjudaginn var síðan fundur í Fagráði í hrossarækt. Þetta voru góðir fundir og ýmislegt í farvatninu á báðum vígstöðum.
Vil ég minna ykkur á að Anton Páll Níelsson reiðkennari verður með sýnikennslu í Reiðhöll  Hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi næsta miðvikudag þann 21 október. Ég hef farið á sýnikennslu hjá honum áður og það var alveg frábært svo að þið verðið að koma og kíkja.

Vitið þið hvað? kella bara búin að gera slátrið fyrir þetta árið. Við mæðgur og harðsvírað aðstoðarfólk tókum okkur til og gerðum ein 23 slátur. Tilfinningin er frábær þegar þetta er búið en breytir ekki því að það er meira kjötstúss eftir á þessu heimili.

Hann Salómon er snillingur á því hefur aldrei leikið nokkur vafi í mínum huga, já og flestra annara líka. Þegar ég kom heim úr smalamennskunni í kvöld hafði hann lagt sitt af mörkum í sláturstússinu. Já hann aðstoðar mig við ýmislegt þessi höfðingi. Verkefna röðunin er svolítið öðruvísi hjá honum en mér ég legg mig fram um að ganga frá öllu kjötinu og borða það síðan en hann borðar helminginn og ætlar að ganga frá restinni síðar.
Þessi munur getur svo sem stafað af því að mínir skrokkar eru svolítið stærri en hans og hann leggur mun meira á sig við að veiða sína skrokka en ég mína.
Það eru jú ekki til nein músasláturhús ennþá.............................

Í gær byrjuðum við að smala aftur og einu sinni enn nú skal fjallið hreinsað. Veðrið var vægt til orða tekið ógeðslegt rok og rigning en það var hlýtt bara svo ég nefni eitthvað jákvætt. Við komum heim með þó nokkuð margt fé þrátt fyrir veðrið. Í dag var svo lagt í seinni herferðina með fullt af góðum aðstoðar smölum. Færið og veðrið var nokkuð gott hér niðri en þegar komið var inná fjall og Djúpadal var færðin slæm. Snjór sem hnoðaðist í hófa og útsýnið mjög lítið. Stemmingin var ljómandi góð og jólalögin glumdu í hausnum á mér alla leið heim. ,,Snjókorn falla,, og mörg fleiri.
En okkur varð nokkuð ágengt og komum heim með góðan hóp sem verður rekinn inn á morgun og dreginn í sundur.
Á morgun verður líka farið í það vandasama verk að velja líflömbin svona gróft forval nokkurs konar prófkjör. Þá verða góðu Tiger gleraugun sett upp og gripirnir skoðaðir og metnir hverjir eru hæfir til að fara í sónarskoðun á mánudaginn.
Þá kemur í ljós hvernig kynbótahrúturinn Sindri Kveiksson spjarar sig kannske fær hann ,,prófkjörsráð,, hjá nafna sínum og sleppur í gegn um forvalið. Ef að hann lendir í basli með forvalið hefur hann góða afsökun......................hann var rekinn úr kálinu í sumar.
Mókollur vinur Sindra er sjarmatröll og sæðingur eins og hann, hver verða örlög hans????
Nánar um það síðar................................

10.10.2009 13:49

Er fokið í flest skjól??



Á þessari mynd er gullið mitt hún Karún að kljást við unga Gosadóttir sem heitir því framsýna nafni Framtíðarsýn. Þær nutu saman veðurblíðunnar á dögunum og lögðu sig fram um að kynnst nánar. Hryssurnar eru ánægðar með að vera komnar á hauststaðinn sinn en voru samt svolítið öfundsjúkar þegar Skúta og litla Trilla fengu einhverja sér meðferð í sliddunni.
Þær vor teknar og settar í skjól sem er ofan, neðan og allt í kring sem sagt inn á meðan versta veðrið gekk yfir. Það er munur að vera uppáhalds þegar maður er bara eins og hálfsmánaða.

Veðrið þessa dagana er hreint ekki eins dásamleg eins og við fengum í réttarstússið um síðustu helgi, þegar ég einmitt tók fullt af myndum sem ég hef nú sett inná ,,myndaalbúm,,
Okkur hefur verið boðið uppá leiðinda rok og stundum sliddu en megum kannske þakka fyrir að fá ekki aftakaveður eins og víða annars staðar.



Þarna er hann Kynbótakollur hann fer á níunda vetur sem er nú nokkuð hár aldur í hrútaheimi. En takið eftir hann er ekki eins og þið kallarnir........hann er sko ekki að verða skollóttur þó að aldurinn færist yfir. Reyndar eru nú eyrun farin að vísa full mikið til jarðar, en hvað um það sjarmatröll á sinn hátt.

Nú fer að styttast í kindastúss hér heima fyrst verða það smalamennskur og eftirleitir svo val  á líflömbum og förgunarkindum. Mér finnst alltaf gaman að raga í fé spá og spekulegra skoða afkvæmi og rekja ættir. Þegar ég var lítil þá var dagurinn sem að lífgimbrarnar voru valda einn af þeim bestu þó svo að allar væntingar um líflömb stæðust ekki.
Nú bíð ég spennt eftir því að sjá hvernig ,,kynbótagripurinn,, Sindri kemur af fjalli einnig verður gaman að sjá Mókoll já og ýmsa fleiri. Það er ekki bara hrossaræktin sem er skemmtileg.
Það hefur verið að heimtast fé hér jafnt og þétt síðan í fyrstu leit en engin nákvæm talning farið fram. Við erum bara búin að senda lömb í förgun einu sinni í haust það var eftir fyrstu leit sem fóru 501 lamb. Fyrir þá sem hafa áhuga á meðalvigt þá var ég nokkuð sátt  en hefði að sjálfsögðu viljað hafa hana hærri en flokkunin var góð. Meðalvigtin var meira en 15 kg en minna en 20 kg og reiknið þið nú......
Annars höfum við gert mikla skissu undanfarin ár þegar við höfum verið að setja 5-600 lömb í fyrstu förgun. Við hefðum átt að setja bara þessi 100 þyngstu og hafa svo nótuna með meðalvigtinni til sýnis allt haustið.
Hver skoðar dagsetningu þegar kílóafjöldinn er stórkostlegur?

Eitt er það sem farið er að banka óþægilega á undirmeðvitund húsfreyjunnar......SLÁTURGERÐ mér finnst það nokkuð ljóst að ég verði að gera eitthvað í því í næstu viku.


05.10.2009 22:41

Hryssurnar í hausthagann.



Í dag fóru hryssurnar í haustgirðinguna sína þannig að það voru síðustu forvöð fyrir þær að príla. Þær tóku smá æfingu fyrir sig og sín folöld eins og þið sjáið hér á myndinni.
Þarna röllta þær og afkvæmin í halarófu eftir Syllunum eins og þessi staður er kallaður.
Það var gaman að sjá folöldin aftur eftir nokkrar vikur í fjallinu, sum höfðu stækkað mikið en aðal breytingin á öðrum var að núna voru þau orðin loðin og lubbaleg.



Þarna er hún Fáséð mín Baugsdóttir að rekja spor..............hvert ætli þau liggji????

Ég setti inn svolítið af nýjum myndum frá þessum góða degi inná ,,albúm,, flipann hér á síðunni. Myndasafnið var samt ekki eins mikið og ég ætlaði því myndavélin varð batterýlaus áður en að við komum í girðinguna og einnig áður en að allar hryssurnar voru komnar í hópinn. Bæti úr því við fyrsta tækifæri.

04.10.2009 21:35

Spá.......halda......vona....og stundum.......verða viss.




Máninn fullur fer um heiminn.....................................og tyllir sér á Geirhnjúkinn.

Það var yndislegt veður í dag sama hvort það var á Skógarströndinni eða í Hnappadalnum.
Ég tók margar fallegar myndir sem koma inná almbúnin mín á næstunni.

Í gær fórum við í leit inná Skógarströnd þar voru leitir á Háskerðingi, Grásteinsfjalli og síðan í Stóra og Litla-Langadal. Veðrið var gott en færið var nú ekkert sérstakt þungt og snjóföl.
Ég verð að játa að skógur, lyng og sina bjóða ekki uppá skemmtilegt göngufæri þegar svo snjór hefur bæst við. Allt gekk þetta nú samt ljómandi vel með hjálp góðra hunda og fjórhjóla. Var fénu safnað saman og rekið í réttargirðinguna við Ósrétt og gleymt þar þangað til í morgun þegar það var réttað í blíðunni.



Hér er aðeins tekið á þjóðmálunum ekki veitir af....................
Albert, Ásbjörn, Helga, Sveinbjörn og Jóel.



Það voru skemmtilegar andstæður í litunum hér í Hlíðinni eins þið sjáið, meira af því þegar ég hef sett inn fleiri myndir.

Eftir að Ósrétt var búin var smalað hér útí hlíð og síðan farið í Hraunholt þar sem féð var rekið inn. Við heimtum þó nokkuð margt fé í dag og eru heimtur að batna dag frá degi.
Eitt af mínum uppáhalds sparilömbum kom í dag, það er hvít gimbur undan afburðagóðri kind sem ég hef mikla mætur á. Þegar hún fæddist í vor var ég næstum ákveðin í að þetta yrði kynbótagripur sem mjög líklega yrði fyrir valinu þegar kæmi að vali á líflömbum. Þá leyfði ég mér bara að vona núna er ég viss.
Þið sem að ekki stundið eða hafið áhuga á búfjárrækt verðið að vita að það er þetta sem er svo gaman við þetta allt saman.
Spá............halda...........vona..........og stundum.......verða viss.

02.10.2009 21:51

Skúta fengin og Háskerðingur á morgun.


Er ekki græni liturinn alltaf notalegur???????????
Að minnsta kosti þegar slyddan þekur gluggann og vindurinn næðir,  já það er nú ekkert sérstök tilfinning að fara að smala Háskerðing á morgun. En rosalega verður það nú gaman ef að veðrið verður gott. Ég pannta logn, bjart og smá frost..........
Mér hefur alltaf fundist rollur og slydda passa illa saman þannig að veður eins og var í dag hér í Hlíðinni var sko ekki rolluvænt.
Ég verð nú að játa að ég er svolítið súr yfir því að hafa ekki getað þegið gott boð um að fara í stóðsmölun í Húnaþingi í dag. En það kemur dagur eftir þennan dag og þá verður sko tekið á því eins og þeir bröttu segja.

Á myndinni hér að ofan er dekur hrúturinn Snjall sem að á sér þann draum heitastan að fara til fjalla á sumrin. En Snjall er sparikind og alltaf til vandræða ef að hann fer í fjallið svo að hann eyddi sumrinu hér heima í túni. Ekki var nú ætlast til að hann kláraði kálið frá lömbunum svo að hér er Deila að berjast við glæpagengið snjalla.

Í dag voru sónarskoðaðar hryssurnar sem að voru hjá Glymi frá Skeljabrekku, þar var einmitt hún Skúta hans Mumma. Við höfðum beðið spennt eftir því að vita hvort að þetta síðsumarsskot hefði heppnast. Og heppnin var með að þessu sinni og sónaðist Skúta með 24 daga gömlu fyli. Skúta og litla Trilla Gaumsdóttir litu ljómandi vel út eins og við var að búast eftir dvölina á Eyri hjá þeim Lenu og Finni. Nú er bara að vona að allt gangi vel og ekki væri nú leiðinlegt ef að Skúta ætti þriðju hryssuna næsta vor.
Hann Einar í Söðulsholti var svo vinsamlegur að taka Skútu með sér heim því að við vorum í rollu stússi. Takk kærlega fyrir það Einar.
Núna eru bara tvær hryssur eftir að koma heim úr stóðhestagirðingum þær Tryggð og Spóla.

Ég var að skoða niðurstöðuna úr skoðanakönnunni hér á síðunni þær leiddu í ljós að 65% gesta lásu helst bloggið, 25% skoðuðu söluhrossin og 10% annað.
Þetta segir mér að ég ætti nú að fara að skrifa eitthvað gáfulegt og fjölga söluhrossunum.





01.10.2009 19:54

Viðja fundin, bræður í vanda, Kraftur og Tóti góðir.


Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað þið sjáið á þessari mynd.............ó jú þetta er hún Viðja sem var búin að vera týnd alveg síðan í október í fyrra. Ég var meira að segja búin að stroka nafnið hennar af hrossavitsblaðinu mínu en sem betur fer ekki búin að skrá hana dauða í Worldfeng. Viðja er þriggja vetra hryssa undan henni Tryggð minni og Faxa frá Hóli hún hvarf í október í fyrra og erum við búin að leita mikið. Ég var orðin sannfærð um að hún væri dauð og varð því ekki lítið ánægð þegar hún kom fram hjá honum Halldóri í Syðstu-Görðum. Viðja leit mjög vel út spik feit og hefur stækka helling, greinilega gott að vera í vist hjá honum Halldóri. Takk fyrir það.
Þegar Viðja kom heim var henni smellt beint inní hesthús og verður byrjað að temja hana fljóttlega. Já stundum gerast skemmtilegir hlutir.

Í gær fór ég á frumsýningu á myndinni ,,Kraftur síðasti spretturinn,, sem sýnd er í eina viku í Kringlubíói. Ég skemmti mér ljómandi vel og mæli hiklaust með því að fara og sjá þessa mynd. Hún er skemmtileg, tilfinningaþrungin og gefur fólki annað sjónarhorn á ýmsa þætti hestamennskunnar. Innslag bóndans í Kýrholti er tær snild, ég er enn að hugsa um það hversu mikill sannleikur var í orðum hans og ekki skemmdi fyrir að flétta köldum húmor saman við. Verð að játa að ég rúmlega brosi útí annað þegar ég hugsa um morgunvandræði verðbréfasalans sem hann vitnaði í. Ekki spurning skellið ykkur á myndina og munið að þið þurfið ekkert að vera forfallnir hestamenn til að hafa gaman af myndinni, þó það sé að sjálfsögðu ekki verra.
Áður en ég sá myndina var mér lofað gæsahúð, brosi og tárum..........það stóðst og ég notaði það allt.
Svo er ég líka rosalega ánægð að hafa eignast hryssu undan Krafti og bíð eftir að hún komist á tamningaaldur.

Eftir afrek síðustu helgar hjá þeim bræðrum Ófeigi og Þorra þar sem þeir snæddu úlpu húsfreyjunnar var ráðist í framkvæmdir. Nú hefur verið komið upp búrum í þvottahúsinu sem hýsir kappana þegar þeir eru ekki við löglega vinnu. Ófeigur er þokkalega sáttur með nýja híbýlið en Þorri er hundfúll vildi fá stærð svona meira í anda ársins 2007 og viðbrögðin eru þau að rétt sé að vera ekkert að koma heim í þessa holu.
Húsráðendur eru alsælir með framkvæmdirnar en bræðurnir eru frekar súrir og kenna ríkisstjórninni um vandann eins og sjálfsagt er.

Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Skeggi Stælsson bara skemmtilegur.

27.09.2009 22:05

Laufskálinn,Sparisjóður á skólabekk, kaupfélagstuð og tilnefningar í vafasömum flokki......



Ef að ykkur finnst veðrið á myndinni hér að ofan ekki gottt þá ættuð þið bara að vita hvernig það varð þegar leið á daginn................
Þarna er verið að reka stóðið til réttar í Laufskálarétt en þangað var einmitt brunað um helgina í góðra vina hópi. Veðrið var frekar leiðinlegt en þó getur maður sagt svona eftirá að það hefði getað verið verra. Við vorum í sama góða félagsskapnum og síðasta ár ,,síungar sparisjóðsgellur,, og fylgdarlið. Og er eins líklegt að þetta verði framvegis árviss viðburður.
Við fórum norður á föstudaginn og var eftirlætið mitt hann Sparisjóður tekinn með. Enda alveg frábær hópur fyrir hann svona sparisjóðs eitthvað........... Sparisjóður verður á Hólum næstu vikurnar þar sem hann nemur gagnleg og gáfuleg fræði hjá Mumma. Það er vonandi að hann takið námið alvarlega og standi sig með prýði.
Ég fékk smá fréttir af þeim þremur folum sem að fóru norður að Hólum um daginn til náms og eru þær frekar jákvæðar.
Á laugardaginn byrjuðum við daginn með því að bruna í Kaupfélagið á Sauðárkróki. Mér finnst alltaf jafn gaman að koma í Kaupfélagið og skoða þessa flottu búð þar sem allt milli himins og jarðar er til. En ég er alltaf jafn örg þegar ég eftir heimsóknir í KS hugsa til þess hvernig allt hefur klúðrast og tapast í burtu úr mínu kaupfélagssvæði Borgarnesi. Væri nú ekki margt öðru vísi í Borgarnesi ef að það væri alvöru kaupfélag, sláturhús, kjötvinnsla og mjólkursamlag?  Ég held það, en ég er gamaldags og stuttskólagengin svo að þetta er kannske vitleysa. Mér er í fersku mynni svar gamals manns sem var spurður hvort að honum þætti ekki hræðilega dýrt allt í kaupfélaginu, hann var fljótur til svars þó níræður væri
,,það er dýrt að kaupa það, ódýrt að sleppa því,,
,,það er gott að hafa það, vont að vanta það,,
en nóg af svona kaupfélagsergelsi.

Um hádegið var svo brunað í réttina til að sýna sig og sjá aðra og um kvöldið var svo lifað og leikið sér framá rauða nótt.


Þarna er þessi föngulegi hópur saman kominn fyrir utan Hótel Varmahlíð,partur af hópnum var farinn heim. Það skal tekið skýrt fram að ég tók myndina bara svona til að fyrirbyggja allan misskilning um gegnsæi.
Helga Björk, Sigurbjörg, Arnar, Bjarni, Margrét, Guðríður Hlíf, Skúli og Guðjón.
Takk fyrir samveruna...........

Það er gott að eiga góða að eins og ég hef margoft reynt.
Þegar við komum heim höfðu Þóra, Astrid og Magnús klárað að taka upp allar kartöflurnar. Þvílíkur léttir...............og takið eftir þau urðu ekki úti þrátt fyrir rok, hagl og leiðindi.

Þessa helgina var ekki tilnefndur fyrirmyndarhestur dagsins heldur fóru fram tilnefningar í flokknum ,,vandræða, glæpajúða,uppátækjahundar helgarinnar,,
Flestar tilnefningar hlutu fyrirmyndarbræðurnir Ófeigur og Þorri fyrir verkið ,,úlpa húsfreyjunnar étin,,
Nánar um það síðar.....................................irrrrrrrrrrrrrrrrr irrrrrrrrrrrrrr

23.09.2009 22:20

Réttir í máli og myndum.



Eins og ég sagði ykkur frá í síðasta bloggi þá var gaman um réttirnar. Hér koma nokkrar myndir sem staðfesta það smá sýnishorn.



Það dugði ekki minna en þrír gítarspilarar, tveir þeirra eru þarna og auk þess sérstakur laga ráðgjafi sem valdi óskalögin.



Húsráðendurnir voru kátir með skemmtilega gesti.....................



..............og þarna er Hallur frændi minn að messa yfir lýðnum og þá sérstaklega Þóru.



Og sumir tóku því rólega og horfðu á góða mynd meðan söngurinn stóð sem hæðst.



Eins og sjá má þá tók söngurinn á og urðu menn jafnvel sveittir af átökunum.



Svo urðu sumir syfjaðir þó það væri fjör.



En það sofnaði bara einn í vaskinum þetta kvöld.............................og svaf þar þegar að Astrid myndatökumaður kom að honum. Eins gott að enginn skrúfaði frá vatninu.

22.09.2009 23:16

Í réttum er þetta helst.



Þarna eru vaskir sveinar að leggja af stað til að smala Oddastaðafjall þetta eru Skúli, Hrannar og Pétur. Þeir voru hluti af heilmiklu smalagengi sem smalaði Oddastðafjall á fimmtudaginn.
Smalamennskan gekk vel og var allt féð rekið hér heim í Hlíðina þar sem það var dregið í sundur, ókunnugar kindur fóru áleiðis til síns heima en okkar kindur útá tún.

Það var þoka niður í miðjar hlíðar svo það var eins gott að rata.



Þarna má sjá þau Astrid og Sveinbjörn á lokasprettinum.



Á föstudaginn var svo aðal smalamennskan hjá okkur þegar Hlíðar og Hafurstaðalönd voru smöluð. Við vorum svo heppin að fá mikinn fjölda af aðstoðarfólki sem kom og veitti okkur ómetanlega aðstoð við leitir og ýmislegt fleira.
Ég held að ég fari rétt með að kvöldmatinn í Hlíðinni borðuðu rétt um 40 manns.
Á þessari mynd eru Óskar, Ragnar og Pétur að slaka á eftir erilsaman dag.



Hrannar, Skúli og Óskar rifja upp eitthvað skemmtilegt úr fjallinu......



Ungar dömur laðast meira að sumum en öðrum..........þarna eru Halldóra, Sveinbjörn og Astrid.



...........gat nú verið kellurnar komnar í Grandið.



Þokkalega ánægðar..............húsfreyjan og Sigfríð súkkulaðikona.



Já ............Jón láttu hana heyra það...............æviráðni vinnumaðurinn frekar áhyggjufullur.



Á laugardaginn var svo Vörðufellsrétt þar var mætt með fríðu föruneyti og dregið af miklu kappi. Veðrið lék við okkur í réttinni þetta árið og þurftum við ekki að flýja haglél þetta árið.
Það tilheyrir að mæta í kjötsúpu á Bíldhóli þennan dag og síðan í réttarkaffi þegar réttarstörfum er lokið.
Þegar við komum heim var svo brunað í Hraunholt þar sem að við áttum þó nokkurn fjölda fjár. Á heimleiðinni þaðan greip okkur mikið hreingerningaræði hvað smalamennskur varðar og hugðstum við taka með okkur eina lambrollu frá okkur sem við sáum á leiðinni. Þetta töldum við að tæki svona 10- 15 mínútur og yrði létt verk og löðurmannslegt með fullt af fólki. En annað kom nú á daginn því Kolla hafði ákveðið að heim ætlaði hún ekki með góðu þrátt fyrir að hafa eytt langri ævi hér í Hlíðinni. Rauk hún af stað og þá í öfuga átt miðað við það sem eigndurnir hefðu helst kosið.Þegar útlitið var þannig að Deila hefði fullan sigur ákvað Kolla að nú skyldi gripið til rótækra aðgerða og ekkert minna en sund útí Hlíðarvatn dyggði til undankomu. Hvort að viljinn hjá Kollu var ekki nógu einbeittur eða ellin farin að segja til sín þegar kom að því að leggjast til sunds er ekki alveg á hreinu en eitt er víst Skúli var heldur sneggri og gat rétt svo rokið úti vatn og gripðið í sunddrottninguna áður en hún drekkti sér. Var Kolla handtekin með það sama og henni dröslað uppí bíl og flutt heim.
Klukkan var orðin margt þegar hangikjötið var snætt í því efra þann réttardaginn. Um kvöldið var svo aðeins kíkt í söngbók með undirleik og haft töluvert gaman vel fram á nótt jafnvel alveg fram á morgun. Það er bara þannig að menn þurfa mislangan svefn.



Á sunnudagsmorgunn var svo rekið inn allt safnið þá rigndi mikið og allt var sóðalegt.



Réttarstörfin gengu vel enda harðsvíraður mannskapur okkur til aðstoðar.
Ókunnugar kindur voru rétt um 5oo eins og venjulega þær voru keyrðar niður í safngirðingu við Mýradalsrétt. En fé granna okkar hér á næstu bæjum fór til síns heima.
Einnig voru tekin frá 500 lömb til slátrunnar og rúmlega 200 sem fóru á fóðurkál og ætla að stækka þar næstu vikurnar. Allt þetta at var búið kl 21.00 og er það algjört met á þessum langa ,,rolludegi,,

Eins og áður sagði kom fjöldi fólks að aðstoða okkur og vil ég þakka þeim öllum kærlega fyrir hjálpina. Það er okkur mikilvægt að fá alla þessa hjálp hvort sem hún er í fjallinu, réttinni eða eldhúsinu. Takk fyrir okkur.

Eins fljótt og ég hef tíma mun ég setja inn fleiri myndir og segja ykkur hvað gerðist mánudag og þriðjudag.................læt hér staðar numið að sinni.

21.09.2009 23:19

Afsakið hlé.................


Ég er komin til byggða þó svo að lítið sem ekkert hafi heyrst eða sést frá mér að undanförnu.
Það er nú bara þannig að ég hef ekki haft neinn tíma til að setjast niður við tölvuna og segja ykkur fréttir. Ég tók fullt af myndum af mönnum og málleysingjum sem að koma inn um leið og ég hef tíma.

Hér kemur smá yfirlit yfir síðustu daga en allt kemur nánar við fyrsta tækifæri.

Miðvikudagurinn 16 sept sjá fyrra blogg.
Fimmtudagurinn 17 sept vel heppnuð smalamennska á Oddastöðum.
Föstudagurinn 18 sept smöluðum Hlíðar og Hafurstaðalönd (kannske pínu meira)
Laugardagurinn 19 sept farið í Vörðufellsrétt og einnig sótt fé í Hraunholt.
Sunnudagurinn 2o sept rekið inn hér heima dregið í sundur, lömb tekin frá í slátur og ókunnuga féð keyrt í Mýrdalsrétt.
Mánudagurinn 21 sept rákum inn 500 sláturlömb og smöluðum smá meira.
Þriðjudagurinn 22 sept 500 lömb fara norður á Sauðárkrók í slátur, Mýrdalsrétt og frúin bloggar örugglega...........................

16.09.2009 23:06

Fyrsti í leitum...............



Á þessari mynd er hún Ansu okkar frá Finnlandi að vinna með hest í hringgerðinu, Deila athugar hvort að allt fari ekki vel fram.

Það rigndi mikið í dag og fyrripartinn var það næstum eins og í leitunum í fyrra sem sagt rok í kaupbætir. En föstudagurinn aðal leitardagurinn lítur vel út samkvæmt nýjustu veðurspám.
Annars er ég að spá í að nýta mér speki sem mér var einu sinni sögð en þá í annari merkingu.
Það var þannig að kona nokkur var voða niðurdregin vegna þess að hana hafði dreymt draum sem táknaði eitthvað voðalegt samkvæmt draumráðningabókinni hennar. Þeim sem voru í kringum hana og tóku þátt í þessum dapurlegu umræðum leið ekki vel og reyndu eftir fremsta megni að hughreysta hana. Þá barst þeim þessi góði liðsauki sem var kona á áttræðis aldri sem sagðist hafa fundið góð ráð við svona málum fyrir u.þ.b 50 árum síðan.
Það væri til fullt af draumráðningabókum og ef að draumurinn boðaði illt í einni bók þá væri bara að fara í þá næstu. Draumarnir væru hvort eð er alltaf fyrir giftingu, dauða eða langlífi svo að ef að þér hugnaðist ekki dauðinn þá yrðir þú að velja langlífi eða giftingu.
Þannig að ég les veðurspá á mörgum stöðum og hlusta líka á hana í útvarpinu. Vel svo bara þá bestu og hef gott veður sem oftast.

Það var fyrsti í leitum í dag og við tókum smá upphitun fyrir næstu daga. Ég, Skúli og Astrid fórum af stað og Sveinbjörn veitti faglega ráðgjöf úr bílnum. Við smöluðum það sem við köllum inní hlíð og útá hlíð. Þetta er eina svæðið sem að við smölum ekki á hestum svo að þarna reyndi á lipurð og þol. Allir skiluðu sér heim hressir og kátir svo að við teljumst því vera bara nokkuð spræk. Afraksturinn voru ríflega hundrað kindur.

Í dag komu þær mæðgur Bráðlát og Svartasunna heim eftir dvölina hjá honum Stikli frá Skrúð. Gott fólk tók þær mæðgur með sér áleiðis hingað vestur þar sem við vorum í smalastússi svo að ég hef ekki ennþá fengið að vita hvort að Bráðlát er fengin.
Svartasunna hafði stækkað mikið og var spök og skemmtileg.

16.09.2009 10:49

Flipi með enskri kynningu.


Vildi bara láta ykkur vita að nú er kominn flipi hér fyrir ofan sem heitir ,,english,,  endilega komið því til skila til þeirra sem þurfa á því að halda.
Ég verð að deila því með ykkur hvað er gott að eiga góða að þegar halda á úti svona heimasíðu. Það þarf sko að halda mér við efnið ef að ég fengi nokkru ráði væri ég alltaf úti.

Takk Tommi, Tóta, Hulda Geirsdóttir og  Mummi ,,litli,,

15.09.2009 22:42

Næstum út í veður og vind........



Ef að þið skoðið vel þá sjáið þið regnbogann þarna rétt við húshornið, ég held að hann þýði örugglega að það verði blíða um réttirnar. Enda búið að vera alveg þokkalegt veður í dag.

Í gær rauk húsfreyjan ásamt fríðu föruneyti úti kálgarð að taka upp kartöflur. Veðrið var nokkuð gott hlýtt en strekkings vindur. Þegar freyjan og föruneytið höfðu hamast þó nokkra stund fór heldur að bæta í vindinn. Loks kom að því að vindurinn og við fórum að togast á um kartöfluföturnar en þar sem við öll töldum okkur hraust og fær í flestan sjó héldum við áfram eins og ekkert væri.  Þegar lengra leið á daginn fór líka að rigna,  já og sko rigna í alvöru. Síðan bætti ennþá meira í vindinn en áfram var haldið af miklu kappi. Skyndilega fór Astrid danska vinnukonan okkar að segja okkur að ef að það væri svona veður í Danmörku þá kæmi maður í sjónvarpið og segði fólki að það ætti að vera heima hjá sér. 
Stuttu eftir þá umræðu fylltist fatan hjá húsfreyjunni og hún stóð upp úr moldarbeðinu og hugðist losa kartöflurnar í poka skammt frá. Kom þá í ljós að sennilega væri þetta vont veður og ekki bara á danskan mælikvarða. Þar sem að húsfreyjan hefur nokkurs konar innbyggð ankeri tókst hún ekki á loft, en litlu mátti muna. En Guði sé lofa að þetta var ekki vinnukonan hún hefur engin ankeri.
Þegar hér var komið við sögu var ákveðið að tímabært væri að taka hlé á kartöflu upptökunni og láta kartöflurnar spretta aðeins meira.
Var það samdóma álit allra viðstaddra að þær mundu spretta alveg ljómandi vel þar til að það kæmi gott veður.

Ég skrapp til Reykjavíkur í morgun á fund þróunarfjárnefndar í Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta var loka fundurinn hjá okkur í nefndinni en við erum búin að funda í þó nokkur skipti þetta árið. Mörg merkileg mál komu inná borð til okkar og var afar erfitt að gera uppá milli þessara góðu mála þegar kom að úthlutun.
Vonandi verður fjárúthlutun nefndarinnar hestamennskunni til góðs.



14.09.2009 22:02

Smalar kynntir til leiks..................



Þá er komið að því að kynna væntanlega stórsmala sem mæta til starfa nú í vikunni.

Fyrstan kynni ég til leiks Þorra Káts hann er ungur og efnilegur svolítið undirförull en afar áhugasamur smali. Hann á að baki örlítinn afbrotaferil sem er þó innan skekkjumarka og hægt að heimfæra að helst öllu leiti á aðra, svo sem tjaldbúa og illa staðsettar túnrollur.
Það vill svo illa til að Þorri þarf að stunda bóklegt nám í vikunni og hefur því boðað forföll.



Næstur er kynntur til leiks Ófeigur Káts hann er blíðlindur og svolítið óheppinn klunni sem vill allaf gera vel en með misjöfnum árangri. Hann á engan afbrotaferil að baki og helgast það helst af því að hjartað er frekar lítið og að hans mati mjög óskynsamlegt að vera yfir höfuð að fara að heiman. Helsti kostur hans er að eins strengs rafmagnsgirðing heldur honum alveg eins og ætlast er til með stórgripi eins og hann. Því miður verður hann upptekinn við að gæta hússins svo að hann tekur ekki þátt í smalamennsku að sinn.



Næst kynni ég til leiks íslenska fjára hana Snotru Kubbs hún er lítil, málgefin og afskiptasöm. Snotra hefur mjög mikilvæg hlutverk á heimilinu, vera mjúkur bangsahundur til að knúsa og kjassa og að bera ábyrgð á öllum afglöpum sem bræðurnir Ófeigur og Þorri framkvæma.
Af þessu sjáið þið að hún er þjökuð af vinnuálagi. Snotra vill ef að hún fær að ráða alltaf hafa síðasta orðið. Snotra er vinur vina sinna, vinir Snotru eru allir sem vilja.
Snotra verður ,,talsmaður,, hunda í leitunum.



Síðast en ekki síst er það svo hún Deila Flókadóttir gamla kempan yndislega ljúfur og góður hundur. Hún er algerlega ómissandi í leitirnar og stendur sig alltaf með prýði, verst hvað hún er að eldast. En synirnir tveir koma sterkir inn og verða vonandi búnir með það bóklega næsta haust. Deila er kurteisasti hundur sem að ég hef kynnst og vill alltaf gera manni til geðs. Deila verður yfirsmalahundur búsins eins og mörg undanfarin á.