28.03.2009 23:33
Skemmtilegir Sörlamenn og ýmislegt fleira.
Feðgarnir Gosi og Hlynur frá Lambastöðum stingja saman nefjum.
Góður dagur að kveldi kominn. Fengum góða heimsókn frá skemmtilegum strákum úr Hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði í dag. Þeir félagarnir voru í ,,menningarferð,, um vesturlandið og komu við og tóku út bústofninn. Við gátum sýnt þeim helling af hrossum auk þess bæði kindur og hænur.
Getur verið gott að bjóða uppá fjölbreytni, er það ekki ,,inn,, í dag?
Gaman að fá svona góða gesti í heimsókn hressir og kátir. Takk fyrir komuna strákar.
Á fimmtudaginn fór ég á fund í Fagráði í hrossarækt góður og skemmtilegur fundur, ýmislegt sem er í farvatninu þar. Þið getið lesið allar fundargerðir Fagráðs á bondi.is þar sem þær eru allar undir hnappnum hrossarækt.
Um kvöldið var svo samhæfinga og endurmenntunarnámskeið gæðingadómara sem ég mætti líka á. Var komin heim rétt um miðnættið syfjuð og þreytt eftir langan fundadag. Stundum er síminn skemmtilegur og góðir vinir hjálplegir við að halda mér vakandi.
Það eru forréttindi að reka tamningastöð í sveitinni það gerir marga hluti sem mér finnast skipta mjög miklu máli mögulega. Sem dæmi get ég nefnt að í gær settum við öll tamningahrossin út í nokkuð stóra girðingu þar sem þau gátu hlaupið og leikið sér að vild í nokkurn tíma. Það skal tekið fram að veðrið var mjög gott og þetta gerum við aldrei nema svo sé. Fátt finnst mér ömurlegara að sjá en þegar fólk lætur reiðhestana standa tímunum saman í litlum gerðum í misjöfnu veðri og telur sér trú um að það sé mjög holt. Væri það sjálft kannske til í að skokka og svitna heilmikið bíða svo á tröppunum heima eða útí garði í svona einn til tvo tíma til að njóta útiverunnar? Ég er ekki viss en finnst það ótrúlegt.
Þegar við svo settum hrossin aftur inn eftir þessa góðu útiveru voru þau afslöppuð og ánægð búin að leika sér og njóta þess að fá útrás án þess að við hefðum eitthvað um það að segja. Gott fyrir líkama og sál.
Í gær fórum við í Lyngbrekku á svokallað boðsball sem þetta árið var í boði Hraunhreppinga. Þarna áttum við góða kvöldstund frábær matur og skemmtiatriði einnig er alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk. Heppnaðist í alla staði vel.
Takk fyrir það Hraunhreppingar.
Jan vinur okkar kom aftur ,,heim,, í kvöld hefur verið í heimsókn hjá Benna Líndal og Siggu. Hann fór með Benna norður að Hólum þar sem að Mummi sýndi honum skólann, aðstöðuna og hrossin. Ég gat ekki betur heyrt í kvöld en að læknanámið hjá honum ætti orðið undir högg að sækja.
Bíllinn minn hefur átt við heilsuleysi að stríða undan farið og tók sér far með Hrannari frænda mínum í bæinn. Veit ekki hvort að bíllinn sé að hafa vit fyrir mér og kyrrsetja mig heima. Kemur í ljós en hann er að mínu mati svona rétt ,,tilkeyrður,, greyið.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Gosi kemur manni alltaf í betra skap þessi elska.
24.03.2009 22:23
Æi búin að vera svolítið löt að blogga.
Á myndinni erum við Ríkur minn að leika okkur í góða veðrinu sem er næstum alltaf í Hlíðinni.
Jæja þið hafið örugglega verið farin að halda að ég væri hætt að segja ykkur fréttir héðan úr Hlíðinni, en svo er nú ekki bara búið að vera alveg brjálað að gera. Eða eins og ég hef áður sagt sólarhringurinn hjá mér hefur þófnað að undanförnu.
Síðast þegar að ég smellti fréttum hér inn þá vorum við ný búin að sóna kindurnar og eins og þið sáuð var ég ekki kát með þær niðurstöður. Núna hef ég jafnað mig smávegis og reyni að líta á björtu hliðarnar og hlakka til að fá á annað þúsund lömb í vor.
Dóttir hans Johns sónarsérfræðings frá Noregi Ann Helen var hjá okkur í nokkra daga og reið út með okkur og skemmti þess á milli, eldklár dama og vonandi upprennandi starfskraftur þegar hún hefur aldur til. Ég hef svo ljómandi reynslu að norskum vinnukonum ákveðnar, duglegar og klárar.
Jan frá Slóveníu hefur líka verið hjá okkur í nokkrar vikur og er nú á ferð um landið ætlar svo að líta við aftur áður en hann fer alfarinn heim. Frábært að fá svona góða gesti.
Við Jan fórum í heilmikla ferð um suðurland m. a til að skoða hross í síðustu viku, komum á marga staði og sáum ýmislegt. Alltaf gaman að skoða góða hesta. Annars var erindið líka að heimsækja nemendur hrossabrautar Fjölbrautaskóla suðurlands á Selfossi. Magnús Lárusson hestagúrú ræður þar ríkjum og hefur undanfarin ár fengið fulltrúa frá Félagi tamningamanna til að kynna félagið fyrir nemendum sínum. Þetta var mjög skemmtileg og fróðleg heimsókn, hressir og skemmtilegir krakkar sem höfðu margt til málana að leggja og sannarlega upprennandi tamningamenn framtíðarinnar.
Fórum í fermingaveislu á sunnudaginn bráðsnjöll hugmynd að ferma tvo unga frændur mína saman og það ekki um páskana. Frábær veisla og ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég var södd lengi eftir þessar frábæru veitingar. Hefði allavega ekki viljað ríða mikið brokk um kvöldið. Takk fyrir frábæra veislu, verst að þetta árið eru svo margar fermingar að ég held að það sé útilokað að við getum mætt í þær allar.
Heil mikil skipti hafa orðið í hesthúsinu nokkrir góðir gripir farið og aðrir komið í staðinn.
Í síðustu viku komu tvær fallegar og spennandi hryssur að vestan og einnig vinur okkar frá því í fyrra að sunnan. Já og ekki má gleyma dömunni að vestan sem kom í gær gaman að sjá hana aftur. Það var alveg æðislegt veður í Hlíðinni í gær frostlaust og logn, þannig vil ég hafa fleiri daga. Verð nú samt að játa að ég var ansi lúin þegar ég lagðist á koddann seinnt í gærkveldi en mjög ánægð með daginn og margir kílómetrar á hestbaki að baki.
Verð að fara að segja ykkur eitthvað meira um hrossin í hesthúsinu við tækifæri ættir og eitthvað sniðugt
En fyrirmyndarhestur dagsins var ungur, feitur og næmur sem vill ekki láta nafns síns getið á opinberum stöðum svo að ég læt þetta duga. En hann var bestur í dag þessi elska.
Eins og þið sjáið þá hef ég sett inn nýja könnun og vil ég endilega biðja ykkur um að taka þátt í henni. Niðurstaðan úr síðustu könnun var sú að 80% gefa hestunum sínum steinefni.
18.03.2009 22:52
Hrunin þrjú......
Ég verð að játa að ég er hundfúl í kvöld það er vegna þess að við vorum að kíkja í ,,jólapakkana,, okkar. Þessa sem við skoðum venjulega í mars með hjálp frá honum John frá Noregi. Með öðrum orðum við vorum að sónarskoða kindurnar í dag og kanna hvað væru mörg lömb væntanleg í vor. Niðurstaðan var slæm sérstaklega í gemlingunum, já og svo sem í öllum hópnum. Ég hef ekki geð í mér til að setja þessar upplýsingar hér inn en ef að einhver vill virkilega fá þessar upplýsingar þá sendið mér tölvupóst. Kannske verður pirringurinn runninn af mér og ég get deilt þessum leiðindum og kannske borðið saman bækurnar við aðra sauðfjárbændur. Verslings John var alveg miður sín að færa svona slæmar fréttir og taldi nokkuð öruggt að ég vildi ekki fá hann aftur í talningu. (Eins og þetta væri honum að kenna) En svo fór hann að rifja upp að ekki voru nema nokkrar vikur síðan ég suðaði í honum um að hann yrði bara að koma og telja því annars værum við í stórkostlegu basli í sauðburðinum. Við værum komin uppá svo mikil þægindi af þessari talningu. Að lokum skilgreindi hann þetta ergelsi mitt og pirring sem venjulegar kvennlegar geðsveiflur, konur og hryssur væru gripir sem aldrei væri hægt að skilja.
En það er allavega ljóst að eitthvað hefur komið fyrir því ekki virðist skýringin augljós á því hvers vegna svo margar eru geldar.
Það er eins gott að standa í lappirnar og vona að ekki fari að hrinja úr Hlíðarmúlanum fyrir ofan okkur. En ég er smeik um eitt hrun í viðbót því tvö eru sannarlega búin og allt er þegar þrennt er. Það varð bankahrun og síðan lambahrun......... jú jú þetta er allt í góðu þriðja hrunið er líka frá fylgishrunið hans Jóns Baldvins.
Með bjartsýni að leiðarljósi og sól í hjarta vona ég það besta og fer að leggja mig.
15.03.2009 22:50
Kubbur og lopapeysur í pólitík.
Við Snotra fengum þessa fínu mynd senda í dag, þetta er hann Kubbur sæti Snotrupabbi.
Hann býr í Reykjavík og á bara eitt afkvæmi hana Snotru mína þannig að hún verður að standa sig í því að viðhalda stofninum.
Það er sko synd að segja að það séu rólegheit hér í Hlíðinni brjálað að gera á öllum vígstöðum. Nokkur stikkorð til upprifjunnar hestar,kindur,hundar,fundir,bókhald,ráðstefnur, leikhús,gestir,sími,prófkjör og svo ýmislegt fleira.
Ég horfði á Silfur Egils í dag og fannst gaman að þeim þætti eins og oft áður. Var sérlega ánægð með formanninn minn (eins og oft áður) finnst hann traustvekjandi og hef fulla trú á honum. Eins fannst mér græna skákkonan koma mjög vel út úr þessu spjalli talar mannamál og það skiptir nú engu smá máli núna.
Mér finnst mjög gaman að fylgjast með pólitíkinni núna enda mikið um að vera. Eitt er alveg snild hafið þið tekið eftir því hvernig sumir þingmenn og frambjóðendur reyna að komast frá ímyndinni um flottu ríku útrásarsnillingana? Það er lopapeysuaðferðin. Hef séð fjóra í dag sem nota þessa fínu aðferð til að freista þess að breyta ásýndinni í undirmeðvitund okkar sem eigum að kjósa þá. Ég get veðjað við ykkur um að enginn frambjóðandi hefði látið sjá sig í lopapeysu fyrir ári síðan eða tveimur.
Þetta er samt fínt fyrir sauðfjárbændur. Og þegar ég gekk framhjá ullarpokunum inní hlöðu í dag þá velti ég því fyrir mér hvað margir svartir sauðir yrðu á þingi ef að ég ætti að skaffa ullina. Það er svo mikið mislitt hér á bæ.
Hrútarnir voru hornskelltir í dag tveir vaskir drengir réðust til atlögu og snyrtu snillingana með stæl. Í vikunni kemur svo sá norski og telur lömbin í kindunum það er svona eins og að kíkja í jólapakkana. En það er hrein snild hvað þetta sparar mikla vinnu í kring um sauðburðinn. Svo er líka bara gaman að vita þetta snemma.
Fórum á Fló á skinni í gær það var mjög gaman og gott að hlæja svona mikið í einn og hálfan tíma. Vorum á fremsta bekk og litlu mátti muna að við fengjum fljúgandi mann í fangið. Rifjast alltaf upp hvað það er gaman að fara í leikhús þegar maður fer. Skondið.
Ýmislegt var stússað í hesthúsinu í dag og fyrirmyndarhestur dagsins var ung Deilisdóttir.
11.03.2009 21:04
Ferningur og fleira.
Þetta er hann Ferningur frá Hallkelsstaðahlíð, eins og þið sjáið er hann ferhyrndur sjarmur.
Ekki er nú meiningin að fjárstofnin verði allur ferhyrndur en mér finnst gaman að hafa fjölbreyttni í þessu. Ferningur er ekki bara ferhyrndur hann er líka ljómandi vel gerður kynbótagripur sem stigaðist vel í dómi hjá sauðfjárráðanautnum s.l haust. Í vor er von á nokkrum lömbum undan honum og verður spennandi að sjá hvernig þau verða.
Mummi á hann Ferning en ég hef ,,forræðið,, yfir honum og ekki lítur út fyrir neina forræðisdeilu á næstunni.
Eins og áður sagði þá smelltum við okkur norður í land í síðustu viku, Randi kom með okkur til að líta á sinn,vorum við komin norður að Hólum um miðjan dag á föstudaginn. Þar horfðum við á fyrsta árs nema þreyta smalapróf (gott fyrir sauðfjárbændur) nú fær Mummi að heyra það næsta haust að hann einn á heimilinu sé lærður smali. Ha ha, sér í lagi ef að illa viðrar þá er ekki hægt að notast við ófaglærða smala. Það var mjög gaman að fylgjast með þessu og frábært hvað prófið reynir mikið á traust og virðingu milli knapa og hests. Meðal annars þurftu nemendur að færa risabolta milli staða, ríða yfir tunnur, bakka langa vegalengd, reiða ,,lamb,, og ríða í sundur ,,lambfé,, og í lokin ríða uppá háan pall sem rétt svo rúmaði hest og varla knapa. Og að smalasveitasið bera hönd yfir augu og rína í kring eða taka eina hressilega hreppstjórasnítu.
Seinna um daginn fengum við svo að sjá hvernig gengur með auka hrossin hjá Mumma, þau Þríhellu, Vinning og Dregil. Vorum við bara mjög sátt með stöðuna á þeim og bíðum spennt eftir framhaldinu. Um kvöldið var svo borðað gæðalamb úr Hnappadalnum og spjallað við góða vini fram á rauðanótt. Morguninn eftir var svo stefnan tekin á Svínavatn þar sem óteljandi gæðingar öttu kappi. Margt var þar spennandi að sjá og væri það að æra óstöðugan að telja upp einhver nöfn.
Í dag var góður dagur í hesthúsinu mikið riðið út og nóg um að vera. Ein dama fór heim eftir að hafa verið hér í dágóðan tíma. Skemmtileg og afar efnileg hryssa hún Jara Kjarnadóttir. Í staðinn kom grár sjarmur sonur Hryms frá Hofi. Spennandi að sjá hvernig hann verður.
En fyrirmyndarhestur dagsins er hún Jara og er vissulega eftirsjá af henni úr hesthúsinu.
10.03.2009 22:46
Önnum kafin eins og alltaf.
Bræðurnir sýna á sér betri hliðina og Snotra hefur góða ,,yfirsýn,, í orðsins fyllstu merkingu.
Hvuttarnir stækka og stækka og allir þeir sem hafa hugsað sér að sjá þá sem litla hvolpa verða nú að hafa hraðann á og mæta á svæðið. Snotra er eiginlega meiri mamma heldur en Deila sem er farin að stinga bræðurna af ef færi gefst.
Eins og þið hafið séð þá hef ég verið löt við að segja ykkur fréttir hér í vefglugganum mínum að undan förnu. Það kemur til af því að afar mikið er búið að vera að gera á öllu vígstöðum.
Farin var frábær ferð norður í land á föstudaginn og laugardaginn frá henni skal ég segja ykkur seinna. Já og öllum flottu hestunum sem voru að keppa á Svínavatninu.
Í gær fór ég á fund í Borgarnesi þar sem þeir félagar Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur og Kristinn Guðnason formaður Félags hrossabænda kynntu stöðu mála hjá samtökunum. Góður og gagnlegur fundur fullur af fróðleik og gagnlegum upplýsingum til hestamanna. Léleg mæting sem er hundleiðinlegt þar sem mikið hefur verið lagt í efni fundarins. En þeir sem ekki mættu ja það er þeirra tjón. Ætla svo að mæta á málþing á Hvanneyri á föstudaginn sem ber nafnið ,,Út með ágripin,, frábærir frummælendur og opið öllum.
Er orðin syfjuð og andlaus kem von bráðar hress og kát með fullt af ferskum fréttum.
Já spennandi fréttum................úlla la.
05.03.2009 22:41
Siglir fluttur.
Jæja þá er að upplýsa ykkur um hvað hefur verið haft fyrir stafni í Hlíðinni undanfarið.
Í gær var sannkallaður fundadagur hjá mér ég fór á fund í búfjáreftirlitsnefnd og einnig mánaðarlegan fund í umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar. Bara fínir fundir.
Á meðan ég var á fundum gerðist heilmikið heima, drengirnir riðu út og tóku svo létta sveiflu í klippingum á eftir, snöruðu af heilum 85 kindum. Það gerðu þeir svo aftur fyrir hádegi í dag. Duglegir drengirnir
.
Í dag kvöddum við höfðingja og góðan vin hann Siglir okkar, hann brunaði suður til höfuðborgarinnar þar sem hann hefur fengið nýjan eiganda og nýtt heimili.
Til hamingju með það Siglir og nýji eigandi.
Í plássið hans Siglirs kom dama úr dölunum sem er að hefja sitt nám til reiðhests.
En fyrirmyndarhestur dagsins var að sjálfsögðu hann Siglir sem hefur veitt okkur margar ánægjustundir á undanförnum árum.
Eins og þið sjáið þá er ég farin að hugsa um hvaða stóðhesta væri skynsamlegt að nota næsta vor. Ég er nú svo sem ekki komin að neinni niðurstöðu en margt er spennandi í stöðunni.
Ég trúi nú ekki öðru en að þessir himinháu folatollar lækki nú eitthvað í sumar, eins gott að hafa aðgang að Hrossvest sem hefur á undanförnum árum boðið uppá fína hesta á góðu verði. Annars verður það alltaf svo að einstakir hestar anna ekki eftirspurn og þá má búast við háum folatollum hjá þeim. En að eigendur kjósi frekar að hafa hesta sína ónotaða ár eftir ár heldur en að lækka verðið skil ég ekki. En auðvitað langar manni að halda undir suma hesta sem eru rándýrir og með því að gera það samþykkir maður verðið.
Í vor eigum við von á folöldum m a undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu, Adam frá Ásmundarstöðum, Arði frá Brautarholti, Auði frá Lundum, Feikir frá Háholti, Gosa frá Lambastöðum og svo honum Sparisjóði mínum. Er búin að krossa putta og biðja um hryssur allavega undan sparihryssunum. Sem mynnir mig á það að ég á alltaf eftir að setja inn upplýsingar um fleiri ræktunarhryssur hjá okkur undir hnappnum ,,hrossarækt,, og ýmislegt fleira sem ég hef lengi ætlað að bæta við síðuna. Koma tímar koma ráð.
Á morgun er stefnan tekin á Hóla ef að veður leyfir. Meira um það síðar.
03.03.2009 22:23
Bylur og tískuklippingar.
Það er blessuð blíðan og bæjirnir allt í kring, það veit ég þó svo að ég sjái ekki út um gluggana. Með öðrum orðum það er öskubylur og búinn að vera meira og minna í allan dag.
Ég notaði því tímann og ruslaði í pappír fram að hádegi, hnoðaði brauð og lék myndarlega húsmóðir. Eftir hádegi var ég sauðfjárbóndi við Helgi fórum og endur skipulögðum rolluelliheimilið og færðum hrútana í sína venjulegu stíu. Læt mig dreyma um að hann John frá Noregi komi og sónarskoði fyrir okkur eins og venjulega, má ekki til þess hugsa að sleppa því. Bæði er John skemmtilegur svo er þetta ein mesta vinnuhagræðing sem hugsast getur í sauðfjárbúskap þ.e.a.s vita hvað mörg lömb koma úr hverri kind að vori. Þá getum við gert vel við tví, þrí og fjórlemburnar haft einlemburnar sér og farið yfir geldu kindurnar með stóru gleraugunum fyrir páskaslátrun. Þetta gerir það að verkum að allt verður auðveldara þegar kemur að því að deila út lömbum að vori þannig að sem flestar kindur gangi með tvö lömb á fjalli yfir sumarið.
Skúli byrjaði að klippa snoðið af kindunum í dag, byrjaði rétt fyrir miðdegiskaffi og hitaði sig upp fyrir nokkur hundruð klippingar. Afraksturinn var 75 stykki. Býsna góð byrjun. Ef að veðrið verður svona næstu daga verður örugglega klippt af kappi annars verður bara tekinn smá hópur á hverjum degi með tamningunum. Því þó að inni aðstaðan okkar bjargi heil miklu á svona dögum þá rúmar hún ekki fjóra hesta og knapa í líflegum sveiflum alla í einu. Svo við bara skiptumst á.
02.03.2009 23:20
Ein vísa á dag kemur skapinu í lag.
Bókhaldið átti megnið af huga mínum í dag launaútreikningur, virðisauki og reikningarnir. Og vitið þið hvað ? það er alltaf gott veður um mánaðamót það finnst mér að minnsta kosti þegar ég sit inni við tölvuna. Hef litið öðru hverju út um gluggann og öfundað þá sem voru að ríða út í dag.
Var aðeins í tölvupóst sambandi við félaga mína í Fagráði í hrossarækt í dag m. a vorum við að skiptast á fréttum af veðrinu hvert hjá öðru. Hjá mér var blíða en bylkóf hjá hrossaræktarráðunautnum í framhaldi af þessum tíðindum kom vísa frá bóndanum á Þóroddsstöðum Bjarna Þorkelssyni.
Er Guðlaugur í blindum byl
ber sér milli élja
Sigrún læst í sumaryl
sólardaga telja.
Spurning hvort að fundagerðir Fagráðs fara að vera í bundnu máli?
Ég hef frá byrjun reynt að koma því inn hjá Ófeigi og Þorra að þeir séu vinnuhundar en ekki gæludýr. Þetta hefur tekist nokkuð vel meira að segja svo vel að þeir taka orðið þátt í þó nokkrum verkum. Húsfreyjan stundum svolítið vanþakklát við þessa dugnaðarforka. T. d verður hún að hafa hraðar hendur við að setja þvottinn í þvottavélina svo að þeir verði ekki á undan henni að ganga frá honum. Smá meiningar munur hjá okkur ég vil þvo og þurrka þvottinn ganga síðan frá honum á sinn stað. Þeir vilja spara tíma og ganga frá honum beint uppúr óhreinatauskörfunni.
Það kom enginn frambjóðandi til mín í dag svo að ég hef bara velt fyrir mér hvað væri nýtt við Jón Baldvin? Og hvort það væri ekki ljótt að vera með Sleggjudóma?
01.03.2009 21:53
Sunnudagurinn 1 mars.
Núna er ég grútsyfjuð en ætla samt að segja ykkur hvað ég hef verið að sýsla að undan förnu.
Í gærmorgun var frábært veður sem að við nýttum til þess að skoða og stöðumeta nokkur tryppi. Það fer þannig fram að tryppið er prófað og síðan skoðum við og ræðum hvernig staða þess er miðað við fyrirfram ákveðið skipulag. Þá kemur í ljós hvað þarf að bæta og hverju á að breyta til að ná sameiginlegu takmarki okkar með öll tamningahross, gera það besta úr hverjum einstaklingi óháð ætt og uppruna. Meðan á þessu stóð flaug tíminn eins og venjulega hér í ,,Hlíðinni,, sem þýddi að þegar góðir gestir birtust um kl 14 vorum við að borða hádegismatinn. Mikil óreiða á matmálstímum hjá húsfreyjunni þessa dagana.
Eftir þessar vangaveltur brunaði Mummi áleiðis í bæinn til að dæma svellkaldar aðþrengdar eiginkonur og aðrar heiðursdömur sem kepptu í Skautahöllinni í Laugadalnum.
Bíllinn hans ákvað að fara ekki lengra en að bensíndælunni við Hyrnuna í Borgarnesi. Þar leit um tíma út fyrir að hann væri ,,game over,, sem hækkaði blóðþrýsting dómarans um ríflega helming. Sem betur átti hann góða að í Borgarnesi og leystust málin þannig að Mummi brunaði á lánsbíl í höfuðborgina og bjargvætturinn fékk frúnna til að draga eðalvagn Mumma heim til sín. Niðurstaða málsins Mummi náði í tæka tíð á mótið og bílnum battnaði eftir smá yfirlegu. Takk fyrir þetta kæru vinir.
Við fórum í góðum félagsskap að horfa á úrslitin hreint frábærir hestar og flinkar konur.
Hún Von vinkona okkar fór heim í dag frábært gæðingsefni sem nú hefur lokið sýnum fyrsta kafla í náminu að læra til gæðings. Þvílíkt eðaltölt sem hún bauð uppá alveg óumbeðið.
Skarðið fylltist strax með bráðskemmtilegum grip sem mættur er í fitubrennslu.
Fyrirmyndarhestur dagsins er hún Von eðaltöltari.
Seinni partinn skrapp ég svo á fund í Borgarnes til að skoða frambjóðendur. Skemmtilegur fundur og nokkrir afar álitlegir kostir í boði. Spennandi kosningabarátta er hafin.
Ófeigur og Þorri hafa fengið fjölmörg aðdáendabréf á netfangið mitt og þakka þeir hér með fyrir þau. Annars eru þeir komnir með ný nöfn sem varla geta talist prennthæf en læt þau flakka hér í trúnaði. Hér á heimilinu eru þeir nefndir dúettinn ,,kúkur og piss,, Þið getið ykkur svo til af hverju? En þeir eru samt skemmtilegir.
28.02.2009 00:52
Ófeigur og Þorri.
Þetta eru Ófeigur og Þorri þeir eru fæddir 25 janúar 2009.
Þið getið skoðað fullt af nýjum myndum af þeim hér á síðunni undir hnappnum ,,albúm,,
síðar ætla ég að segja ykkur meira um þá bræður.
27.02.2009 23:12
Fimleikar og ýmislegt fleira.
Þetta er hann Léttir hann er sonur Randvers frá Nýja-Bæ og hennar Sunnu okkar.
Einn frambjóðandi í viðbót kom hér í dag hann drakk með mér morgunkaffið og spjallaði um daginn og veginn. Gaman að fá allar þessar heimsóknir, en þess ber að geta að ég er ekki haldinn valhvíða þrátt fyrir úrvalið. Er búinn að raða þessum flottu frambjóðendum í sín sæti svona fyrir mig. Fer svo á fund á sunnudaginn og staðfesti þessa uppröðun mína.
Mummi kom heim frá Hólum í gær alltaf jafn gaman að fá hann heim. Hann er í löngu helgarfríi og byrjar ekki aftur í skólanum fyrr en á þriðjudaginn.
Við vorum í ströngum æfingum í dag, sætisæfingum, leiðtogaæfingum, fimleikaæfingum já (bannað að hlæja) og svo mætti áfram telja. Verð sennilega að byrja á teyjuæfingum í fyrramálið ef að ég á að geta hreyft mig eðlilega síðdegis.
Alltaf sama niðurstaðan eftir svona æfingar, rosalega held ég að það sé gaman á Hólum.
Það var svo gaman í hesthúsinu að húsfreyjan fór ekki heim að elda fyrr en rúmlega átta svo að steikti fiskurinn var ekki snæddur fyrr en klukkan var langt gengin í tíu. Bara fínn tími fyrir kvöldverð svona stundum.
26.02.2009 23:00
Sá ekki aðþrengdar vinkonur mínar.
Í dag kom hann Jan vinur okkar frá Slóveníu til landsins hann ætlar að vera hér í nokkrar vikur skoða og prófa hross einnig að rifja upp hvernig var að vera í atinu með okkur.
Það er svo gaman þegar þessir frábæru krakkar ,,okkar,, koma í heimsókn.
Ég var á miklum þeytingi í dag gleymdi lyklum, týndi síma, mætti of snemma, kom of seint og ýmislegt fleira sem er ekki prennthæft. En svona eru bara sumir dagar allavega hjá mér. Verst af öllu var samt að gleyma ,,bestu,, vinkonum mínum aðþrengdum eiginkonum. En það er svo sem allt í lagi ég horfi bara á kellurnar í kringum mig og lít í eigin barm fram að næsta þætti.
Ég hef alltaf nóg að gera sama hvort það er venjulegur dagur eða óvenjulegur dagur. En það versta er dagurinn er alltaf búinn löngu áður en ég er búin að því sem ég ætlaði að gera. Þannig var það í dag.
Þorri og Ófeigur fengu góða heimsókn í kvöld, önnum kafinn frambjóðandi úr Reykjavík gaf sér tíma til að renna með börnin í sveitaferð. Hvolparnir voru aðalnúmerin og mjög ánægðir með alla athygglina. Ég lofa frumsýningu á hvuttunum hér á síðunni um helgina því Mummi og myndavélin eru komin heim frá Hólum.
25.02.2009 23:11
Fambjóðendur - kjósendur
Dagurinn var bara góður eins og flestir aðrir, reyndar leiðinda veður fyrripartinn en skánaði svo undir kvöldið. Mikið riðið ,,út,, inni járnað og ýmislegt fleira gert sem passaði í svona veðri.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hún Jara Kjarnadóttir þrælefnileg hryssa.
Þetta var líka dagurinn sem að frambjóðendur komu í heimsókn gott að hafa ekki langt á milli svo að maður hafi samanburðinn. Annar kom og spjallaði yfir ,,sprengidagsbaunasúpunni,, sem borðuð var í dag sökum anna húsfreyjunnar í gær og hinn kom í kvöldkaffi. Ég raðaði þeim í fyrsta og annað sæti ekki amalegt dagsverk það. Kannske koma 3 og 4 sætið á morgun hver veit?
Nýr hestur kom líka í hesthúsið í dag eftir langt ferðalag og meira að segja siglingu.
Það verður spennandi að sjá hvernig hann verður.
22.02.2009 20:29
Salómon notar Porche og konubolludagurinn.
Salómon hefur einfaldan og látlausan smekk því velur hann Porche til að gá til veðurs.
Í dag byrjar Góan sumir kalla það konudaginn en hjá mér eru allir dagar konudagar svo þetta var bara venjulegur dagur. Góður Góudagur.
Í gær fór ég inní Búðardal að dæma vetrarmót hjá þeim Glaðsmönnum, gott mót og margir góðir hestar. Skemmtilegt þegar að vetrarmótin eru ekki bara töltmót heldur líka keppt í fjórgangi, um að gera að nýta ferðin þegar að fólk þarf að koma langt að eins og er hjá mörgum hestamannafélögunum á landsbyggðinni. Leit við hjá góðum vinum og skoðaði í nokkur hesthús. Alltaf gaman að koma í Dalina.
Einn höfðingi fór úr hesthúsinu í dag og um leið kom ný dama sem er nú öllu fyrirferðameiri en mjög spennandi. Hestar með stórbrotinn persónuleika eru alltaf heillandi.
Tveir vaskir Skagfirðingar komu í heimsókn til okkar í gær, gistu í nótt og tóku út bændur og búalið í dag. Við sýndum þeim nokkur vel valin spor á völdum gripum áður en þeir smelltu sér norður aftur.
Takk fyrir komuna drengir.
Við vorum boðin í ,,bollukaffi,, uppí ,,efra,, um miðjan daginn, ljómandi fínt að taka svona forskot á sæluna. Ég var að rifja upp skemmtilegar minningar frá því ég var ung (yngri en í dag ) og notaði bolluvönd. Forlátan bolluvönd framleiddan af henni Siggu sem var vinkona Fríðu frænku minnar. Fríða sá alltaf um að við frændsyskini hennar ættum svona verkfæri. Á bolludagsmorgun dreif ég mig á fætur til að ná örugglega að flengja alla á heimilinu. Mér hafði verið talin trú um að ef að ég næði þessu ekki þá væri ekki víst að ég fengi bollu. Seinna komst ég að því að þetta væri óþarfa fyrirhöfn og ég gæti alveg fengið bollu án teljandi vandræða. En bolluvöndinn fallega á ég enn.
Takk fyrir allar heimsóknirnar í vefgluggann okkar og munið endilega eftir að skrifa í gestabókina.