Færslur: 2016 Nóvember
24.11.2016 22:58
Fallegur nóvember.
Þarna eru hrossin að njóta fyrstu gjafarinnar þennan veturinn. Þó nokkur hópur hefur haldið sig fyrir sunnan á eins og við segjum. En það þýðir að þau eru fyrir sunnan Fossá og Djúpadalsá eða í kringum Hafurstaði. Það eru að vísu ljómandi góðir hausthagar með góðum skjólum og öllu tilheyrandi. En vandamálið er að við viljum ekki að þau lokist þarna þegar árnar fara að verða ill færar af klaka og snjó.
|
||||||||
17.11.2016 23:16
Nokkur af árgerðinni 2013.
Þetta er hún Svaðaborg frá Hallkelsstaðahlíð, hún er undan Ugga frá Bergi og Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð. Svaðaborg er komin inn í tamningu en hún er einmtt af árgerðinni 2013. Svaðaborg heitir Svaðaborg eftir Svaðaborg sem er klettaborg hér í Hlíðarmúlanum. Já við notum einföld og góð nöfn á hrossin okkar hér í Hlíðinni.............nú finnst ykkur það ekki ??? En Svaðaborg var hrakfallabálkur síðasta vetur og lenti í ýmsum hamförum eins og fram hefur komið hér á síðunni. M.a þessu sem þið sjáið hér á myndinni fyrir neðan.
|
||||||||||
17.11.2016 22:17
Dásamlegur nóvember.
Hvað er betra en dásamlegur nóvember dagur í Hlíðinni ? Þegar þessi mynd var tekin vorum við að smala inn síðustu kindunum í rúning. Mikið skildi ég kindurnar sem voru hreint ekkert á því að fara inn í hús. En það átti nú eftir að breytast. Já við erum sem sagt búin að klippa allt féð en það kláraðist þann 11 nóvember. Heimtur eru þokkalegar sem virðist bara vera orðið árvisst hér í sveit en það eru ansi mörgum sem vantar margt fé af fjalli. Við höfum þó von um að eitthvað eigi eftir að draga til tíðinda þar sem okkur vanta nokkrar samstæður. Það er kindur með báðum lömbum og gelda gemlinga. Nokkrar árangursríkar eftirleitir hafa verið farnar en þær síðust gáfu frekar lítið jafnvel ekki neitt. Ég er nokkuð ánægð með líflambahópinn þetta árið en svo verður bara að koma í ljós hvernig hann stendur sig. Líflömbin er m.a undan Salamoni frá Hömrum, Kornilíusi frá Stóru Tjörnum, Kalda frá Oddsstöðum, Höfðingja frá Leiðólfsstöðum, Berki frá Efri Fitjum, Svima frá Ytri Skógum, Baugi frá Efstu Grund, Roða frá Melum, Krapa frá Innri Múla og Þoku-Hreini frá Heydalsá. Flest eru þó líflömbin undan heima hrúti sem heitir Salómon Salamonsson hann kom best út hérna heima. Svo hef ég fest mér kynbótagrip í annari sýslu ....................nánar um það síðar. Það er góð tilfinning þegar líflömbin hafa verið meðhöndluð á okkar hefðbundna hátt bráða, lungna og garnaveikibólusett auk ormalyfsgjafar. Þessi árgangur verður sennilega mjög kröfu harður á heilbrigðisþjónust þar sem að þau fengu hjúkrunarfræðing til að bólusetja....... Næst eru það svo fullorðinsmerkin og flokkun fyrir fengi tímann.
En það er meira um að vera í Hlíðinni en kindastúss, hesthúsið er orðið fullt og allt komið á fullaferð með mörgum skemmtilegum hestefnum. Nánar um það í næsta bloggi. Veðrið síðustu daga hefur verið ansi kalsalegt og ekki í samræmi við myndina sem tekin var um síðust helgi. Við byrjuðum að gefa folaldshryssunum og veturgömlu tryppunum fyrstu rúlluna í gær. Já það er kominn vetur.
|
||
- 1