19.02.2013 21:08

Logn



Já veðurblíðan er með ólíkindum þessa dagana eins og sjá má á þessari mynd sem ég tók í gær. Það er engu líkara en Eyjahreppurinn sé kominn í vatnið hjá okkur og munar minnstu að bær aðalbloggarans í þeirri sveit sé þar með talinn.

Það er ekki laust við að manni detti í hug að vorveðrið verði slæmt nú eða Katla kerlingin fari að gjósa. En vonandi er þetta bara himnasending að ofan sem ekki gerir neitt nema gott.

Hún Becky okkar kom hingað í gær og ætlar að vera í nokkrar vikur, svo nú eru þær tvær dömurnar sem aðstoða okkur þessa dagana. Duglegar, skemmtilegar og hláturmildar.

Mikið er nú gaman þegar svona mikið líf er í hesthúsinu og riðið út í góðu veðri dag eftir dag.

Það er ansi fjölbreytt ,,feðrasafnið,, af þeim hrossum sem nú eru í þjálfun hjá okkur, gaman að spá í það fyrir hestadellufólk. Já svona eins og mig en vonandi fleiri.
Svo maður nefni eitthvað Arður frá Brautarholti, Dynur frá Hvammi, Blær frá Torfunesi, Feykir frá Háholti, Hrymur frá Hofi, Auður frá Lundum, Frægur frá Flekkudal, Glymur frá Skeljabrekku, Baugur frá Víðinesi, Hróður frá Refsstöðum, Kraftur frá Bringu, Gustur frá Hóli, Glotti frá Sveinatungu, Adam frá Ásmundarstöðum, Gaumur frá Auðsholtshjáleigu, Sólon frá Skáney og að við bættum ,,okkar,, hestum.

Vonandi verður framhald á góðu veðri þó svo ekki sé nú farið fram á vor.