Færslur: 2011 Nóvember
27.11.2011 22:30
Haustfundur Hrossvest.
Haustfundur Hrossvest var haldinn í Borgarnesi sunnudaginn 27 nóvember.
Á fundinum voru nokkrir félagsmenn heiðraðir fyrir störf sín í þágu sambandsins til margra ára.
Á myndinni hér fyrir ofan eru átta af þeim níu félagsmönnum sem hlutu gullmerki og viðurkenningu sambandsins. Aftari röð f.v Leifur Kr. Jóhannesson, Haukur Sveinbjörnsson, Árni Guðmundsson, Einar E. Gíslason, fremri röð f.v Gísli Höskuldsson, Sigurborg Jónsdóttir, Ólöf Guðbrandsdóttir og Ragnar Hallsson. Högni Bæringsson gat því miður ekki mætt.
Þarna eru svo þeir sem að hlutu verðlaun fyrir kynbótahross sem efst stóðu í hverjum flokki.
Hrossaræktarbúið Berg var valið hrossaræktarbú ársins hjá Hrossvest árið 2011.
Fundurinn var nokkuð vel sóttur en auk verðlaunaafhendinga voru tvö erindi á dagskrá.
Guðlaugur Antonsson fór yfir sýningaárið 2011 og Guðmar í Sandhólaferju flutti erindi um fóstuvísafluttninga og sæðingar.
Það voru ekki allir háir í loftinu sem voru á fundinum, hér er lítil vinkona mín og ,,ömmustelpa,, mætt á fundinn með alvöru ömmu sinni. Flottar skvísurnar.
Ég set svo inn fleiri myndir frá fundinum á næstunni.
25.11.2011 22:40
Jólasnjórinn...........
Alhvít jörð í Hlíðinni og ágætis útreiðafæri þó svo að kuldaboli biti smá í andlitið.
Ég greip myndavélina og smellti af nokkrum myndum í dag af því tilefni að hún Lisette var að fara heim til Svíþjóðar. Hún hefur verið hér hjá okkur í nokkrar vikur að kynna sér frumtamningar. Það er gaman að fá svona áhugasamt fólk sem til er í að breyta um lífsstíl og fara úr stjórnunnarstöðu í stóru fyrirtæki til Íslands að vinna við hesta í nokkrar vikur.
Myndin hér fyrir ofan er tekin í dag af Mumma og Lis en fljótt á litið er eins og þetta sé ein manneskja og hestur með margar lappir.
Ég er samt að ergja mig á línunni sem að kemur inná myndirnar en þetta er rekstrarspottinn okkar og því þarfa þing.
Síðasti reiðtúrinn á Íslandi í bili en svo kemur Lis aftur í sumar og fer m.a í hestaferðir.
Takk fyrir samveruna Lis og alla hjálpina, við munum sakna þín og örugglega Salómon líka.
Aftekningar ganga nokkuð vel og eru rúmlega hálfnaðar. Kindurnar sem að ekki er búið að taka af fara ennþá út á daginn en í dag fannst þeim að útivist þessa árs væri örugglega á enda.
Þær stóðu hundfúlar heim í rétt fram að hádegi en fóru svo á beit og hafa örugglega hugsað okkur þegjandi þörfina.
Hrúturinn Rótækur Raftsson heimtist svo í Dölunum í gær en þar kom hann fram í fylgd nokkurra kinda. Sá tími er nú kominn að líklegt má teljast að hann hafi náð að auka kyn sitt og því viðbúið að afkvæmin fæðist bæði í Hörðudalnum og Hraunhreppnum. Nú er bara spurningin hvort að einhverjir seðlar fari af stað bænda á milli ? Hvort það verða seðlar með hrútatollum eða seðlar með meðlagsgreiðslum kemur í ljós á næstunni. Annars eru seðlar af flestum tegundum að verða sjalséðir svo að sennilega verða þetta bara pappírslaus viðskipti.
Við síðustu stóðtalningu kom í ljós að tvö trippi hafa sennilega farið á flakk og væri gott ef að þið hefðuð það í huga. Annað er rauð hryssa tveggja vetra og hitt er jarpur hestur vetur gamall. Endilega látið mig vita ef að þið fréttið eitthvað hér í kring.
22.11.2011 22:44
Ýmislegt skal ég segja ykkur
Þrumur og eldingar rufu fjallaþögnina í nótt með þeim afleiðingum að hross úr annari sveit tóku sprettinn og komu heim að túngirðingu.
Greyin hafa sennilega ímyndað sér að nú væri gamlárskvöld og mannfólkið að trillast í flugeldabrjálæði einu sinni enn.
Það var ekki nóg með að það væri ljósagangur heldur var ísing yfir öllu í morgun og hreinlega heppni að takast að standa á löppunum.
Já það er sennilega veturinn sem er að heilsa uppá okkur þessa dagana.
Mér var litið á almanakið í dag og sá að óðum styttist í jólin, til að það mundi ekki valda mér hugarangri (sko húsfreyjuhlutanum af mér) þá settist ég niður og las aðeins meira í nýju góðu Hrossaræktinni. Og viti menn þessar hugsanir liðu hjá og ég fór í staðinn að hugleiða hvaða stóðhesta væri gáfulegt að nota næsta vor.
Nú ef að ég fer líka að stressast yfir skipulagi og hrútavali fyrir fengitímann þá er ekkert annað í stöðunni en að setjast niður og lesa hrútaskránna.
Það hressir, bætir og kætir rétt eins og Ópalið þannig að lífið verður leikur einn...........eða þannig.
21.11.2011 21:38
Tíminn æðir áfram
Bráðlát og Svartasunna vorið 2008.
Það er líf og fjör að vanda hér í Hlíðinni og ekkert lát á skemmtilegum verkefnum.
Það var algjörlega orðið tímabært að skoða stóðið og taka stöðuna á því, það var sem sagt aðal verkefni dagsins. Ormalyf var gefið á línuna, holdafar og útlit metið með ,,stóru,, gleraugunum já og bara tekið svona alsherjar skoðun.
Margir voru um þau tvö pláss sem að laus voru í hesthúsinu en að lokum voru það tvær draumadrottningar sem að fengu að koma inn.
Það er eiginlega tvennt sem að mig vanhagar um í augnablikinu stærra hesthús og fleiri klukkustundir í sólarhringinn.
Æi maður má nú stundum láta sig dreyma, jafnvel vitleysu ef að maður hefur ekki hátt um það.
Félagarnir Blástur, Léttlindur og Kátur komu heim úr Lundareykjadalnum á föstudaginn.
Nú er bara að skoða hvernig kapparnir koma til þegar farið verður að líta á þá.
Það er margt um að vera í heimi hestamennskunnar um þessar mundir, aðalfundur Félags hrossabænda og Hrossaræktarráðstefnan voru um helgina.
Báðir þessir viðburðir heppnuðust með ágætum og alltaf jafn gaman að hitta hestamenn vítt og breytt af landinu.
Á laugardaginn var svo glæsileg og skemmtileg afmælisveisla hjá fimmtugri stelpu á Kaldárbakka. Takk fyrir ánægjulegt kvöld Hulda.
15.11.2011 21:44
Góður dagur
Það er lúinn bloggari sem skrifar þennan texta eftir góðan en langan dag í hesthúsinu.
Góða veðrið lék við okkur í dag og var mörgum sinnum betra en júní veðrið í vor.
Rúmlega þrjátíu hross voru hreyfð og sum þeirra buðu uppá frábærar samverustundir.
Til gamans þá ætla ég að nefna nokkra feður tryppanna.......... svona eins og tryppin eigi engar mæður. Gustur frá Hóli, Hrymur frá Hofi, Faxi frá Hóli, Baugur frá Víðinesi, Guðfinnur frá Skeljabrekku, Markús frá Langholtsparti, Blær frá Torfunesi, Arður frá Brautarholti, Sólon frá Skáney og svo fleiri og fleiri sem ég tel upp síðar.
Á næstunni þurfum við að sækja kappana sem að við eigum hjá honum Tomma á Kistufelli.
Spennandi hvernig þeir líta út eftir sumardvölina.
Nú er endanleg mynd að verða komin á rollubókina þ.e.a.s hún er að verða marktæk við afstemmingu á því hversu margt fé vantar enn af fjalli. Tölurnar er ekki orðnar ásættanlegar frekar en síðustu árinn þó stefnir í að heldur færra vanti af fjalli en í fyrra..
Svo eru nokkrar eftirleitir á döfinni og vonandi skila þær einhverju.
13.11.2011 22:40
Haustró í Kindalandi
Haustró í Kindalandi.........................
Þær kunnu aldeilis að meta útivistina í dag þessar þegar ég smellti af þeim mynd og grasið það er gott þó aðeins sé það farið að fölna.
Veðrið í dag var Guðdómlegt og þegar það er þannig þá langar mig að gera allt.......
En þar sem að tíminn hefur algjörlega breytt um hraða frá fyrri árum er ekki mjög skynsamlegt að fá nýjar hugmyndir um verkefni sem að eru jafnvel hvorki gáfuleg eða arðvænleg. Svo að ég dróg bara andann djúpt og reyndi að gera bara skynsamlega hluti í blíðunni.
Ég ætla ekki að rekja nákvæmlega það sem ég afrekaði í dag því að eflaust er það misjafnt hvað ykkur finnst um mikilvægið á verkefnum dagsins.
Morgungjafir, kjötsúpugerð og veitingafluttningar í aðra sveit, eftirleitir (með misjöfnum árangri) skítmokstur, gjafir og hestastúss.
Úpps og einn dagurinn í víðbót bara liðinn eins og ekkert sé og það á algjörlega ólöglegum hraða.
Nú er lokið tveggja helga frumtamninganámskeiðinu sem að Mummi var með í Söðulsholti.
Ég gjóaði með öðru auganu á hópinn þegar ég kom með súpuna til þeirra í dag og sá bara snotur tryppi með flotta knapa.
Góður hópur sem að stefnir á að hittast aftur á námskeiði eftir áramót.
12.11.2011 22:16
Hestamannafélagið Snæfellingur árshátíð 2011
Sigurvegarar ársins Jón Bjarni og Anna Dóra á Bergi með formanni Snæfellings Gunnari Sturlusyni.
Árshátíð Hestamannafélagsins Snæfellings var haldinn í fjósinu á Kóngsbakka í Helgafellssveit þann 11.11.11. Já fjósinu það er rétt lesið hjá ykkur en fjósið er ekkert venjulegt fjós heldur þessi fíni veitingasalur sem að bændur á Kóngsbakka buðu fram til hátíðarinnar.
Og ekki nóg með það heldur skemmti Kóngsbakkatríóið gestum hátíðarinnar.
Þarna eru þeir Tryggvi og Hrólfur í góðum gír.
Maturinn var hreint frábær þökk sé góðum matreiðslumönnum þeim Sæþóri Þorbergs og Lárusi Ástmari Hannessyni.
Matseðillinn ekki af verri endanum lamb, svín og úrvals meðlæti, desertinn var svo sameiginlegt átak stjórnarinnar.................kaffi og tertur eins og allir gátu í sig látið.
Eins og áður sagði voru þau Bergshjón afar sigursæl á árinu og hlutu fjölda viðurkenninga fyrir ræktun sín. Ein verðlaun sem að Bergsbóndinn hlaut komu honum hinsvegar nokkuð á óvart en það voru verðlaunin fyrir frumlegasta höfuðfatið á hátíðinni.
Þarna er einn af staðarhöldurum Sæmundur sem að var jafnframt húfudómari að veita Jóni Bjarna verðlaunin fyrir höfuðfatið.
Á hátíðinni voru dregnir út vinningar í happdrætti félagsins sem að þessu sinni voru afar veglegir. Folatollar, spænir, reiðver, dekkjaúttektir, gisting, veitingar, reiðtúrar, úttektir í verslunum,unaðsolíur og ýmislegt fleira............................
Ekki slæmt að kaupa fimm miða og vinna á fjóra.......eins og ég gerði.
Formaður Hrossvest Gísli Guðmunds datt í lukkipottinn og vann folatoll, hér á myndinni fyrir ofan er hann brosmildur með gjafabréfið góða.
Þarna er Bjarnarhafnarbóninn einbeittur á svip að mynda spússu sína sem að hlaut vinning í happadrættinu.
Að sjálfsögðu var sungið mikið og þarna er það gert undir styrkri stjórn hetjutenóra félagsins.
Vel heppnuð samkoma sem sannarlega er komin til að vera árlegur viðburður hjá félaginu.
Takk kærlega fyrir........... þið duglega fólk sem að gerðu þessa hátíð svona skemmtilega.
Ég hef sett inn fleiri myndir hér á síðuna undir myndaalbúm.
Í dag var það svo námskeið hjá Mumma í Söðulsholti og mörg skemmtileg verkefni hér heima í blíðunni, nánar um það síðar.
08.11.2011 21:09
Hitt og þetta.
Rokdagar í síðustu viku voru nýttir til að klára allt sláturstúss svo að nú eru allar kistur fullar og næsta mál að njóta.
Fundir tóku líka sinn tíma en á föstudaginn var formannafundur LH haldinn í Reykjavík. Þangað mættum við Landsmótsnefndar fólk, fylgdumst með og tókum þátt í umræðum um landsmótahald. Alltaf líf og fjör þar sem þau mál ber á góma.
Á föstudaginn kom hún Lis frá Svíþjóð til landsins og urðum við því samferða vestur um kvöldið. Hún ætlar að vera hjá okkur í nokkrar vikur og kynnast öllu atinu við tamningar og þjálfun hrossa. Aldeilis munur að fá áhugasama hestakonu með okkur í frumtamningarnar.
Á laugardagskvöldið var svo tekinn skyndirúnntur á uppskeruhátíð hestamanna, borðað úrvalslamb, spjallað og haft gaman með hestamönnum.
Síðan var brunað vestur eftir smá tjútt og móttaka á nýjum tamningatrippum undirbúin en dágóður hópur bætist við á sunnudaginn.
Já óhætt að segja að mörg spennandi hestefni séu á járnum hjá okkur núna.
Í dag var svo bundinn endir á frjálsar ástir hér á túninu en þá voru hrútarnir teknir inn, já einmitt svona í seinna lagi. En þá er bara að líta á björtu hliðarnar og gleðjast yfir því hvað sauðburðurinn fer snemma af stað og hvað meðalvigtin verður góð á snemmbornu lömbunum................því vorið verður svo gott.
Ég verð nú að tuða smá í lokin og það ekki af ástæðulausu................
Þið sem að hugsið ykkur að keyra upp Hnappadalinn og Heydalinn á næstunni í Guðsbænum búið ykkur eins og þið séuð að taka þátt í torfærukeppni. Vegurinn er ónýtur......
Mér þykir nokkuð vænt um vegagerðina og mína góðu kunningja sem þar starfa en nú er þetta alveg að verða gott.
Ég ætla samt að hlífa ykkur við myndum en þær koma samt innan skamms ef að þetta verður svona mikið lengur. Ég get þá allavega vælt í ykkur.
Mér finnst það samt ekki aðlaðandi að hafa vegaholumyndir á blogginu en nauðsyn getur brotið lög og margt fleira.
02.11.2011 22:07
Alltaf gaman að fá vísur....
Stungið saman nefjum í góða veðrinu........................þegar það var í boði.
Ég var að ..þvælast,, um heimasíðuna í gær og fann blogg frá því í október 2009 þar sem ég er að argast í rjúpnaskyttum og tuða svolítið. Mér fannst upplagt að deila þessum tengli á fésbókarsíðunni minni sem og ég gerði. Og viti menn það varð sko ekki til einskis skal ég segja ykkur því kella græddi þessa fínu vísu.
Einar upp til fjalla
yli húsa fjær
ramba rjúpnaskyttur
reiðist Hlíðarmær.
Karl minn komdu hérna
komdu ég er skass.
Hlaða skaltu hólkinn
og hitta í þeirra rass.
Skáldið góða er Valur Óskarsson.
Takk fyrir sendinguna Valur hvernig gat þér dottið í hug að ég væri skass? Hahahha.........
Nú liggur fyrir viðbragðsáætlun fyrir næstu helgi til að fækka óboðnum rjúpnaskyttum sem að flæddu um alla landaeignina síðustu helgi og trufluðu okkar sérþjálfuðu og sérvöldu elskur.
Spurning hvort að þetta verði örlögin???
http://skessuhorn.is/Default.asp?sid_id=24845&tId=99&Tre_Rod=001|002|&fre_id=121661&meira=1
- 1