22.11.2011 22:44

Ýmislegt skal ég segja ykkur

Í dag var fyrsti í aftekningu þegar tekin var smá skorpa eftir reiðtúr um fjallið, tamningar og gestamóttökur. Það er sálfræðilega gott að verð byrjuð í þessu ati og hugsa um að ekki sé allt eftir, hálfnað verk þá hafið er. Rúmlega 90 stykki komnar með jólaklippinguna.

Þrumur og eldingar rufu fjallaþögnina í nótt með þeim afleiðingum að hross úr annari sveit tóku sprettinn og komu heim að túngirðingu.
Greyin hafa sennilega ímyndað sér að nú væri gamlárskvöld og mannfólkið að trillast í flugeldabrjálæði einu sinni enn.
Það var ekki nóg með að það væri ljósagangur heldur var ísing yfir öllu í morgun og hreinlega heppni að takast að standa á löppunum.
Já það er sennilega veturinn sem er að heilsa uppá okkur þessa dagana.

Mér var litið á almanakið í dag og sá að óðum styttist í jólin, til að það mundi ekki valda mér hugarangri (sko húsfreyjuhlutanum af mér) þá settist ég niður og las aðeins meira í nýju góðu Hrossaræktinni. Og viti menn þessar hugsanir liðu hjá og ég fór í staðinn að hugleiða hvaða stóðhesta væri gáfulegt að nota næsta vor.
Nú ef að ég fer líka að stressast yfir skipulagi og hrútavali fyrir fengitímann þá er ekkert annað í stöðunni en að setjast niður og lesa hrútaskránna.
Það hressir, bætir og kætir rétt eins og Ópalið þannig að lífið verður leikur einn...........eða þannig.