29.12.2008 23:11

Rakstursdagurinn mikli og spilamennska.



Dagurinn í dag var skemmtilegur líka spilamennskan í gærkvöldi. Við gerðum innrás í það ,,efra,, í gær þegar við vorum búin að borða kvöldmatinn. Fórum gamla settið og unga settið og starfskrafturinn okkar og spiluðum Kana við þau í ,,efra,, til klukkan rúmlega 2 í nótt. Um miðnættið bættist við óvæntur skemmtikraftur sem átti að vera sofandi en fann það greinilega á sér að eitthvað spennandi var í gangi. Daniella lætur nú ekki svona fram hjá sér fara þó hún sé bara 2 ára.

Í dag var svo rakstursdagurinn mikli, við byrjuðum á því að raka undan faxi og nokkrar bumbur í hesthúsinu. Síðan var haldið í folaldastíurnar og heil 12 stykki fengu áramótaklippinguna. Allt gekk þetta ljómandi vel og ég held að allir hafi bara verið sáttir við útlitið á eftir.
Þegar að við erum að meðhöndla hrossin okkar sem að við þekkjum býsna vel þá er ég alltaf að velta fyrir mér persónuleika og geðslagi. Spá í hvernig þessi eða hin breggst við ólíkum og óvenjulegum aðstæðum.Ég tel það afar mikilvægt að þekkja vel sem flesta eiginleika þeirra hrossa sem við ætlum að nota í ræktun. Þegar við vorum að raka og snyrta í dag þá voru það þrjú systkyni sem voru til fyrirmyndar í hegðun, þau eru öll undan sama hesti en mjög ólíkum hryssum. Þegar klippurnar fóru í gang með miklum hávaða mátti lesa úr látbragði þeirra ,, þetta er í fínu lagi við vitum að þetta verður flott og við treystum ykkur alveg,, jafnvel þó við séum ekki mikið tamin.
Sumum hrossunum fannst þetta algjör óþarfi og reyndu með hæverskum hætti að fá okkur til að sleppa þessu, en í heildina gekk þetta frábærlega.
Það fjölgaði líka i hesthúsinu í dag Proffi minn kom inn, eiginlega ekki með hófa heldur sýnishorn af hófum eftir fríið og Glundroði minn kom líka inn því hann þurfti meðferð útaf stungu sem var að hrella hann.


Salómon svarti.
Ég hef fengið kvartanir vegna þess að ég hafi ekki sett inn mynd af aðal höfðingja heimilisins.
Aðdáendur og einnig þeir sem bera óttablandina virðingu fyrir honum hafa haft samband og spurt hverju þetta sæti. Því er auðsvarað ég varð að bera undir hann hvort að myndbirting af honum á vefnum bryti í bága við friðhelgi einkalífs hans. Hann kvað svo ekki vera og því fylgjir hér með mynd af okkur vinunum.