26.12.2008 17:56

Jóla jóla



Gleðilega hátíð, vonandi hafa allir átt góða og ánægjulega jóladaga. Hér í Hlíðinni hafa jólin verið afar notaleg og góð, allt í föstum skorðum sem er kostur fyrir vanafasta konu eins og mig. Gamla jólaskrautið fór á gömlu staðina sína og jólahefðirnar í mat og drykk voru þær sömu og undanfarin ár. Við á heimilinu fengum heilan helling af frábærum gjöfum t.d gestaþrautir (uppáhald húsbóndans) hestadót, nokkur eintök af Samspili Benna Líndal og síðan Trivial Pursuit, stelpur á móti strákum. Það var gjöf frá fyrrverandi starfsmanni sem sannreyndi það í sumar að það er ekki sjálfgefið hvernig á að skipta í lið þegar keppnisskapið hefur tekið völdin. Margar útgáfur hafa verið reyndar til að gæta jafnræðis t.d háskólapróf á móti FT prófum, bændur á móti búaliði, smiðir á móti meistarakokkum og ýmislegt fleira. Nú á bara eftir að koma í ljós hvernig stelpur á móti strákum virkar.
Þúsund þakkir fyrir okkur öll.

En að öðru og alvarlegra máli, það eru hræðilegar fréttir sem við höfum heyrt undanfarna daga um veiku hrossin í Mosfellsbæ. Sem hrossaeigandi veit ég að þetta hafa verið erfið og slæm jól fyrir þá sem þarna eiga hross. Það er alltaf hræðilegt þegar að svona kemur upp, bæði er þetta fjárhagslegt tjón en ekki síður tilfinningalegt. Þarna er fólk að missa vini sína og félaga til margra ára og þarf kannski að horfa uppá langt og strangt veikindastríð.
Sendum ykkur alla okkar bestu strauma og óskir um bata hjá hestunum ykkar.
Svona veikindi minna mann enn og aftur á hversu mikilvægt það er að halda okkar íslenska bústofni, hver sem hann er, hestar, kindur, kýr eða hvað annað hreinum og lausum við sem flesta sjúkdóma. Mér hefur fundist á undanförnum misserum að nauðsynlegt sé að vera á verði og slaka aldrei á hvað þessar varnir varðar. Reynum nú einu sinni Íslendingar að gera ekki mistökin fyrst og læra svo.

Ég vil að lokum þakka frábærar móttökur við litla vefglugganum okkar og á næstu dögum munum við vera dugleg að bæta við. Margt er framundan, reka inn stóðið, klippa folöldin og taka fleiri hesta inn.