Flokkur: Daglegt líf í Hallkelsstaðahlíð

11.04.2009 21:18

Uppsafnaðar fréttir.



Þetta er hann Vetur ,,okkar,, sem nú býr í Borgarnesi.

Úff ...það er búið að vera nóg að gera á öllum vígstöðum hér í Hlíðinni.
Hann Jan okkar frá Slóveníu fór frá okkur á mánudaginn eftir að hafa verið hjá okkur meira og minna síðan 26 febrúar s.l duglegur og skemmtilegur strákur sem vonandi kemur aftur til Íslands seinna. Og hver veit nema hann komi bara eftir að hafa klárað  læknifræðina og skelli sér á Hóla?  Jan takk kærlega fyrir skemmtilegan tíma sjáumst vonandi sem fyrst.

Á þriðjudaginn síðasta komu góðir gestir þau Tommi og Tóta vinir okkar, við áttum saman notalegan dag  skoðuðum hrossin og spjölluðum.
Á miðvikudaginn kom svo Mummi heim frá Hólum og sendi á undan sér tvo hesta sem við sóttum í Borgarnes. Annar var hann Vinningur minn sem nú er kominn heim og hefur heldur betur bætt sig, hitt er hann Dregill sem skrapp bara heim til okkar um páskana og fer sennilega aftur norður eftir páska.
Við erum svo heppin að fá hann Lalla okkar lánaðan um páskana, það gerir okkur þremur auðveldara að sinna hrossum frá morgni til kvölds.
Og nýtingin í hesthúsinu hefur verið hreint frábær alla dagana. Happafengur þessir strákar Mummi og Lalli, verst hvað páskafríið líður fljótt.
Margir góðir gestir hafa litið inn, einnig fórum við í afmælisveislu í gamla bæinn í gær hann Sveinbjörn átti nefninlega afmæli og af því tilefni var slegið í pönnsur og ýmislegt fleira góðgæti. Best er þó alltaf heimabakaða hveitibrauðið hjá henni Stellu.
Svo í dag var brunað suður að Miðfossum og þeir feðgar Mummi og Skúli tóku þátt í töltkeppni Skúli með Gosa og Mummi með Dregil, það gekk bara nokkuð vel og Skúli og Gosi komu heim með medalíu.

Bræðurnir Ófeigur og Þorri eru orðnir unglingar og eins og þið vitið fá unglingar gjarnan unglingaveiki. Þeir eru t. d alveg hættir að geta borðað úr sömu skál ef að þeim er boðið uppá það er nær alveg víst að þeir endi í hörku slag. Þeir fá ekki enn að fara í fjárhúsin og þeirra heimur nær ekki nema ákveðin radíus frá húsinu. Það gengur vel ennþá og eitt flaut nægir til að þeir þjóti heim að dyrum, hvað það verður lengi er svo spurning en er á meðan er.

Nokkrir dagar eru nú frá því að ég hef skrifað hér á síðuna og hafa fyrirmyndarhrossin því safnast upp í nokkra daga. Mig langar samt að nefna nokkur fyrst er það hún Kvika Hamsdóttir sem er alltaf að verða betri, síðan er það hann Vinningur minn sem er nýkominn heim og hefur bætt sig helling, Erla Piltsdóttir er alltaf að koma á óvart og að lokum verð ég að nefna einn frekan Víkingsson sem nú er að átta sig á gangi lífsins.

05.04.2009 20:08

Salli minn orðinn sjötugur???




Þessi elska varð 10 ára á laugardaginn, til lukku með það flotti draumaprins.

Ýmislegt hefur á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast. Á fimmtudaginn var mér boðið norður á Sauðárkrók til að halda fyrirlestur á málþingi um mikilvægi Háskólans á Hólum.
Í leiðinni var skroppið að Hólum, þar hitti ég Mumma ,,litla,, og  læddist svo inní verklegan tíma hjá verðandi reiðkennurum. Þórarinn Eymundsson var að kenna þeim og var gaman að fylgjast með og sjá hvað nemendurnir voru að gera. Skemmtilegt að koma í heimsókn á Hóla.

Á föstudagskvöldið eftir góðan útreiðadag var hópferð á leiksýningu í Logalandi þar var sýnt leikritið Töðugjaldaballið. Alveg bráðskemmtilegt leikrit söngur og dans og ekki er nú verra að kannast við flesta leikarana. Daði smalinn minn góði fór með eitt af aðalhlutverkunum og var hreint frábær. Söng, dansaði og sannaði það svo sannarlega að hann er ekki bara góður smali.Það gerði einnig Þórður bróðir hans sem spilaði í hljómsveitinni af miklum móð og kemur sterkur inn í næstu ,,réttarhljómsveit,,
Skemmtilega kvöldstund sem endaði svo með kaffi og köku hjá Þóru og Magnúsi.

Laugardagurinn var frábær gott veður og mikið riðið út og eins og stundum kvöldmaturinn á ókristilegum tíma. Um helgina urðu svolítil umskipti í hesthúsinu og núna eru stóðhestarnir orðnir fjórir. Góðir gestir litu við í hesthúsinu og skoðuðu sína gripi.
Ég komst að einu þegar ég var að telja upp hrossin sem eru á járnum að þau eru undan a.m.k 24 stóðhestum. Þeir eru Gustur frá Hóli, Hlynur frá Lambastöðum, Hljómur frá Brún, Klettur frá Hvammi, Hrymur frá Hofi, Arður frá Brautarholti, Orion frá Litla-Bergi, Stæll frá Miðkoti, Svartur frá Sörlatungu, Víkingur frá Voðmúlastöðum, Oddur frá Selfossi, Hrókur frá Glúmstöðum, Piltur frá Sperðli, Frægur frá Flekkudal, Þorri frá Þúfu, Illingur frá Tóftum, Þór frá Þúfu, Deilir frá Hrappsstöðum, Randver frá Nýja-Bæ, Skorri frá Gunnarsholti, Hamur frá Þóroddsstöðum, Huginn frá Haga, Dynur frá Hvammi, Vetur frá Hallkelsstaðahlíð og ég  er örugglega að gleyma einhverjum. Vitið þið hvað ? Ég hef skráð upplýsingar um öll tamningahrossin sem verið hafa hjá okkur síðan 1992 þau eru komin vel á annað þúsundið. Gaman að fletta, rifja upp og skoða en gaman hefði verið að eiga myndir af þeim öllum.

Hann Axel vinur okkar í Hraunholtum fermdist í dag og fórum við í þessa fínu veislu sem haldin var í Lindartungu. Við fengum nú fleiri boð um fermingaveislur í dag en því miður gátum við ekki verið í þeim öllum. En innilega til hamingju krakkar.

Þrátt fyrir veisluhöld var þó nokkuð riðið út og var fyrirmyndarhestur dagsins engin önnur en hún Ósk sem er farin að splæsa þessu fína tölti.

01.04.2009 21:36

Syndir mínar......


Jæja nú verð ég að játa syndir mínar í það minnsta svolítið af þeim.........
Því miður var frétt dagsins umvafin smá skammti af ,,skrökulýgi,, hefði samt verið gaman ef satt hefði verið. En ég lofa að þegar ég fæ vinnu í lottóinu þá bara slæ ég til og framkvæmi allt sem átti að vera á dagskránni í dag.  Annars fékk ég mörg skemmtileg viðbrögð eins og hvernig fólk ætti að mæta klætt og hvort ég gæti reddað gistingu.
Lofa eingöngu sönnum fréttum á næstunni.

Núna verð ég að fara að sofa Skagafjörðurinn eldsnemma í fyrramálið.

01.04.2009 10:14

Það stendur mikið til.





Kæru lesendur eins og þið hafið vafalaust frétt þá er stór dagur hér í Hlíðinni í dag. Ætlunin er að taka fyrstu skóflustunguna að veglegri nýbyggingu sem verður 2250 m2 að stærð.
Húsinu er ætlað að hýsa 100 hross og að auki er um að ræða reiðvöll, áhorfendapláss og skrifstofur. Í næsta áfanga er svo fyrirhugað að bæta við fjárhúsi fyrir 1500 fjár.
Fyrstu skóflustunguna mun svo Ásbjörn Óttarsson efsti maður á lista sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi taka, mun svo sveitungi okkar og sjálfstæðismaðurinn Björgvin Ölversson sjá um framhaldið.  Á eftir mun svo Hljómsveitin Upplyfting taka lagið og með henni tveir gestaspilarar þeir Guðmundur Steingrímsson og Grímur Atlason.
Meðan á athöfninni stendur munu þrír þekktir knapar standa heiðursvörð með vel þekkta stóðhesta sér við hlið. Þeir eru Daniel Jónsson og Þóroddur frá Þóroddsstöðum, Jakob Sigurðsson og Auður frá Lundum og ÞórðurÞorgeirsson og gamli höfðinginn Gustur frá Hóli.

Athöfnin hefst kl 16.00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

30.03.2009 22:14

Í sól og sumaryl ég samdi.....




Bylurinn er svo svartur í Hlíðinni núna að ég varð að fá mér sól í sinni og rifja upp góðan og ánægjulegan sumardag. Þarna sjáið þið heilan hóp manna og málleysingja leika sér í vatninu. Núna sjáið þið af hverju ég fer aldrei á sólarströnd, fer bara á fjörurnar eða í vatnið.
Á myndinni eru Mummi svo Hrannar og Ingvi Már í bátnum síðan koma Adda, Halla María og Magnús og að lokum Castró og Skúli. Ég stend uppí Hólmanum ( að sjálfsögðu í bikiníinu) og smelli af mynd rétt áður en ég stakk mér til sunds.
Svona dagar eru ógleymanlegir og gott að ylja sér við góðar minningar.

Hann Breki litli er mættur aftur í nám og tók nú með sér eina fína dömu. Það verður spennandi að sjá hvort að hann hefur einhverju gleymt.

Nokkrar geldar kindur og sauðir tóku sér far með honum Óla norður á Hvammstanga.
Þar mun fénaðurinn sinna nýju hlutverki í okkar þágu.

29.03.2009 21:57

Þessi fallegi dagur...........



Glundroði minn nýgreiddur.

Dagurinn í dag byrjaði eins og dagar eiga að byrja frábært veður sól, logn og blíða. Ég rölti í róleg heitum uppí hesthús og naut veðurblíðunnar. Salómon ákvað að þetta væri úrvalsveður fyrir kellingar og ketti og rölti með nokkuð sem að hann hefur ekki gert lengi. Þegar við komum í húsin settist hann uppá stóran kornpoka þar sem hann hafði gott útsýni og gat fylgst með að allt færi vel fram. Alltaf gott að hafa einhvern traustan í eftirlitinu.
Við vorum svo heppin að hafa tvo vaska sveina hér um helgina svo að við þurftum ekkert að hugsa um gegningar í blíðunni.

Ég byrjaði á því að taka langan reiðtúr á henni Rák reiðtúr sem ég á eftir að muna lengi.emoticon
Það var mikið riðið út í Hlíðinni í dag eða alveg þangað til skollin var á stórhríð, það gerðist eins og hendi væri veifað. Við lögðum af stað í smá snjókomu og logni sem breyttist á svipstundu í öskubyl. Þannig að síðustu tveir kílómetrarnir heim buðu uppá nákvæmlega ekkert útsýni og hreint engan sumaryl. Hljómar svona grobbsögulega en er hreina satt.

Hún Rökkva Reynisdóttir sem verið hefur hér í hagagöngu um nokkurt skeið fór heim til sín í dag. Bráðskemmtilegt tryppi sem á örugglega eftir að verða eigendum sínum til ánægju.

Bræðurnir Ófeigur og Þorri dafna vel og eru óaðfinnanlegir allavega að eigin áliti. Snotra og Deila eru stundum mjög þreyttar á þeim og reyna að finna færi á að stinga þá af. Ég held að þær séu komnar á sömu skoðun og Salómon það er að þetta séu vandræða gripir.

Fyrirmyndarhestur dagsins var Proffinn sem lenti í alversta veðrinu.




28.03.2009 23:33

Skemmtilegir Sörlamenn og ýmislegt fleira.





Feðgarnir Gosi og Hlynur frá Lambastöðum stingja saman nefjum.

Góður dagur að kveldi kominn. Fengum góða heimsókn frá skemmtilegum strákum úr Hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði í dag. Þeir félagarnir voru í ,,menningarferð,, um vesturlandið og komu við og tóku út bústofninn. Við gátum sýnt þeim helling af hrossum auk þess bæði kindur og hænur.
Getur verið gott að bjóða uppá fjölbreytni, er það ekki ,,inn,, í dag?
Gaman að fá svona góða gesti í heimsókn hressir og kátir. Takk fyrir komuna strákar.

Á fimmtudaginn fór ég á fund í Fagráði í hrossarækt góður og skemmtilegur fundur, ýmislegt sem er í farvatninu þar. Þið getið lesið allar fundargerðir Fagráðs á bondi.is þar sem þær eru allar undir hnappnum hrossarækt.
Um kvöldið var svo samhæfinga og endurmenntunarnámskeið gæðingadómara sem ég mætti líka á.  Var komin heim rétt um miðnættið syfjuð og þreytt eftir langan fundadag. Stundum er síminn skemmtilegur og góðir vinir hjálplegir við að halda mér vakandi.emoticon

Það eru forréttindi að reka tamningastöð í sveitinni það gerir marga hluti sem mér finnast skipta mjög miklu máli mögulega. Sem dæmi get ég nefnt að í gær settum við öll tamningahrossin út í nokkuð stóra girðingu þar sem þau gátu hlaupið og leikið sér að vild í nokkurn tíma. Það skal tekið fram að veðrið var mjög gott og þetta gerum við aldrei nema svo sé. Fátt finnst mér ömurlegara að sjá en þegar fólk lætur reiðhestana standa tímunum saman í litlum gerðum í misjöfnu veðri og telur sér trú um að það sé mjög holt. Væri það sjálft kannske til í að skokka og svitna heilmikið bíða svo á tröppunum heima eða útí garði í svona einn til tvo tíma til að njóta útiverunnar? Ég er ekki viss en finnst það ótrúlegt.
Þegar við svo settum hrossin aftur inn eftir þessa góðu útiveru voru þau afslöppuð og ánægð búin að leika sér og njóta þess að fá útrás án þess að við hefðum eitthvað um það að segja. Gott fyrir líkama og sál.

Í gær fórum við í Lyngbrekku á svokallað boðsball sem þetta árið var í boði Hraunhreppinga. Þarna áttum við góða kvöldstund frábær matur og skemmtiatriði einnig er alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk. Heppnaðist í alla staði vel.
Takk fyrir það Hraunhreppingar.

Jan vinur okkar kom aftur ,,heim,, í kvöld hefur verið í heimsókn hjá Benna Líndal og Siggu. Hann fór með Benna norður að Hólum þar sem að Mummi sýndi honum skólann, aðstöðuna og hrossin. Ég gat ekki betur heyrt í kvöld en að læknanámið hjá honum ætti orðið undir högg að sækja.

Bíllinn minn hefur átt við heilsuleysi að stríða undan farið og tók sér far með Hrannari frænda mínum í bæinn. Veit ekki hvort að bíllinn sé að hafa vit fyrir mér og kyrrsetja mig heima. Kemur í ljós en hann er að mínu mati svona rétt ,,tilkeyrður,, greyið.

Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Gosi kemur manni alltaf í betra skap þessi elska.

18.03.2009 22:52

Hrunin þrjú......


Ég verð að játa að ég er hundfúl í kvöld það er vegna þess að við vorum að kíkja í ,,jólapakkana,, okkar. Þessa sem við skoðum venjulega í mars með hjálp frá honum John frá Noregi. Með öðrum orðum við vorum að sónarskoða kindurnar í dag og kanna hvað væru mörg lömb væntanleg í vor. Niðurstaðan var slæm sérstaklega í gemlingunum, já og svo sem í öllum hópnum. Ég hef ekki geð í mér til að setja þessar upplýsingar hér inn en ef að einhver vill virkilega fá þessar upplýsingar þá sendið mér tölvupóst. Kannske verður pirringurinn runninn af mér og ég get deilt þessum leiðindum og kannske borðið saman bækurnar við aðra sauðfjárbændur. Verslings John var alveg miður sín að færa svona slæmar fréttir og taldi nokkuð öruggt að ég vildi ekki fá hann aftur í talningu. (Eins og þetta væri honum að kenna) En svo fór hann að rifja upp að ekki voru nema nokkrar vikur síðan ég suðaði í honum um að  hann yrði bara að koma og telja því annars værum við í stórkostlegu basli í sauðburðinum. Við værum komin uppá svo mikil þægindi af þessari talningu. Að lokum skilgreindi hann þetta ergelsi mitt og pirring sem venjulegar kvennlegar geðsveiflur, konur og hryssur væru gripir sem aldrei væri hægt að skilja.
En það er allavega ljóst að eitthvað hefur komið fyrir því ekki virðist skýringin augljós á því hvers vegna svo margar eru geldar.
Það er eins gott að standa í lappirnar og vona að ekki fari að hrinja úr Hlíðarmúlanum fyrir ofan okkur. En ég er smeik um eitt hrun í viðbót því tvö eru sannarlega búin og allt er þegar þrennt er. Það varð bankahrun og síðan lambahrun......... jú jú þetta er allt í góðu þriðja hrunið er líka frá fylgishrunið hans Jóns Baldvins.
Með bjartsýni að leiðarljósi og sól í hjarta vona ég það besta og fer að leggja mig.

15.03.2009 22:50

Kubbur og lopapeysur í pólitík.




Við Snotra fengum þessa fínu mynd senda í dag, þetta er hann Kubbur sæti Snotrupabbi.
Hann býr í Reykjavík og á bara eitt afkvæmi hana Snotru mína þannig að hún verður að standa sig í því að viðhalda stofninum.

Það er sko synd að segja að það séu rólegheit hér í Hlíðinni brjálað að gera á öllum vígstöðum. Nokkur stikkorð til upprifjunnar hestar,kindur,hundar,fundir,bókhald,ráðstefnur, leikhús,gestir,sími,prófkjör og svo ýmislegt fleira.

Ég horfði á Silfur Egils í dag og fannst gaman að þeim þætti eins og oft áður. Var sérlega ánægð með formanninn minn (eins og oft áður) finnst hann traustvekjandi og hef fulla trú á honum. Eins fannst mér græna skákkonan koma mjög vel út úr þessu spjalli talar mannamál og það skiptir nú engu smá máli núna.
Mér finnst mjög gaman að fylgjast með pólitíkinni núna enda mikið um að vera. Eitt er alveg snild hafið þið tekið eftir því hvernig sumir þingmenn og frambjóðendur reyna að komast frá ímyndinni um flottu ríku útrásarsnillingana? Það er lopapeysuaðferðin. Hef séð fjóra í dag sem nota þessa fínu aðferð til að freista þess að breyta ásýndinni í undirmeðvitund okkar sem eigum að kjósa þá. Ég get veðjað við ykkur um að enginn frambjóðandi hefði látið sjá sig í lopapeysu fyrir ári síðan eða tveimur.
Þetta er samt fínt fyrir sauðfjárbændur. Og þegar ég gekk framhjá ullarpokunum inní hlöðu í dag þá velti ég því fyrir mér hvað margir svartir sauðir yrðu á þingi ef að ég ætti að skaffa ullina. Það er svo mikið mislitt hér á bæ.

Hrútarnir voru hornskelltir í dag tveir vaskir drengir réðust til atlögu og snyrtu snillingana með stæl. Í vikunni kemur svo sá norski og telur lömbin í kindunum það er svona eins og að kíkja í jólapakkana. En það er hrein snild hvað þetta sparar mikla vinnu í kring um sauðburðinn. Svo er líka bara gaman að vita þetta snemma.

Fórum á Fló á skinni í gær það var mjög gaman og gott að hlæja svona mikið í einn og hálfan tíma. Vorum á fremsta bekk og litlu mátti muna að við fengjum fljúgandi mann í fangið. Rifjast alltaf upp hvað það er gaman að fara í leikhús þegar maður fer. Skondið.

Ýmislegt var stússað í hesthúsinu í dag og fyrirmyndarhestur dagsins var ung Deilisdóttir.






10.03.2009 22:46

Önnum kafin eins og alltaf.




Bræðurnir sýna á sér betri hliðina og Snotra hefur góða ,,yfirsýn,, í orðsins fyllstu merkingu.


Hvuttarnir stækka og stækka og allir þeir sem hafa hugsað sér að sjá þá sem litla hvolpa verða nú að hafa hraðann á og mæta á svæðið. Snotra er eiginlega meiri mamma heldur en Deila sem er farin að stinga bræðurna af ef færi gefst. 

Eins og þið hafið séð þá hef ég verið löt við að segja ykkur fréttir hér í vefglugganum mínum að undan förnu. Það kemur til af því að afar mikið er búið að vera að gera á öllu vígstöðum.
Farin var frábær ferð norður í land á föstudaginn og laugardaginn frá henni skal ég segja ykkur seinna. Já og öllum flottu hestunum sem voru að keppa á Svínavatninu.

Í gær fór ég á fund í Borgarnesi þar sem þeir félagar Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur og Kristinn Guðnason formaður Félags hrossabænda kynntu stöðu mála hjá samtökunum. Góður og gagnlegur fundur fullur af  fróðleik og gagnlegum upplýsingum til hestamanna. Léleg mæting sem er hundleiðinlegt þar sem mikið hefur verið lagt í efni fundarins. En þeir sem ekki mættu ja það er þeirra tjón. Ætla svo að mæta á málþing á Hvanneyri á föstudaginn sem ber nafnið ,,Út með ágripin,, frábærir frummælendur og opið öllum.

Er orðin syfjuð og andlaus kem von bráðar hress og kát með fullt af ferskum fréttum.
Já spennandi fréttum................úlla la.

05.03.2009 22:41

Siglir fluttur.





Jæja þá er að upplýsa ykkur um hvað hefur verið haft fyrir stafni í Hlíðinni undanfarið.
Í gær var sannkallaður fundadagur hjá mér ég fór á fund í búfjáreftirlitsnefnd og einnig mánaðarlegan fund í umhverfis og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar. Bara fínir fundir.
Á meðan ég var á fundum gerðist heilmikið heima, drengirnir riðu út og tóku svo létta sveiflu í klippingum á eftir, snöruðu af heilum 85 kindum. Það gerðu þeir svo aftur fyrir hádegi í dag. Duglegir drengirnir
.
Í dag kvöddum við höfðingja og góðan vin hann Siglir okkar, hann brunaði suður til höfuðborgarinnar þar sem hann hefur fengið nýjan eiganda og nýtt heimili.
Til hamingju með það Siglir og nýji eigandi.
Í plássið hans Siglirs kom dama úr dölunum sem er að hefja sitt nám til reiðhests.
En fyrirmyndarhestur dagsins var að sjálfsögðu hann Siglir sem hefur veitt okkur margar ánægjustundir á undanförnum árum.

Eins og þið sjáið þá er ég farin að hugsa um hvaða stóðhesta væri skynsamlegt að nota næsta vor. Ég er nú svo sem ekki komin að neinni niðurstöðu en margt er spennandi í stöðunni.
Ég trúi nú ekki öðru en að þessir himinháu folatollar lækki nú eitthvað í sumar, eins gott að hafa aðgang að Hrossvest sem hefur á undanförnum árum boðið uppá fína hesta á góðu verði. Annars verður það alltaf svo að einstakir hestar anna ekki eftirspurn og þá má búast við háum folatollum hjá þeim. En að eigendur kjósi frekar að hafa hesta sína ónotaða ár eftir ár heldur en að lækka verðið skil ég ekki. En auðvitað langar manni að halda undir suma hesta sem eru rándýrir og með því að gera það samþykkir maður verðið.
Í vor eigum við von á folöldum m a undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu, Adam frá Ásmundarstöðum, Arði frá Brautarholti, Auði frá Lundum, Feikir frá Háholti, Gosa frá Lambastöðum og svo honum Sparisjóði mínum. Er búin að krossa putta og biðja um hryssur allavega undan sparihryssunum. Sem mynnir mig á það að ég á alltaf eftir að setja inn upplýsingar um fleiri ræktunarhryssur hjá okkur undir hnappnum ,,hrossarækt,, og ýmislegt fleira sem ég hef lengi ætlað að bæta við síðuna. Koma tímar koma ráð.

Á morgun er stefnan tekin á Hóla ef að veður leyfir. Meira um það síðar.

03.03.2009 22:23

Bylur og tískuklippingar.


Það er blessuð blíðan og bæjirnir allt í kring, það veit ég þó svo að ég sjái ekki út um gluggana. Með öðrum orðum það er öskubylur og búinn að vera meira og minna í allan dag.
Ég notaði því tímann og ruslaði í pappír fram að hádegi, hnoðaði brauð og lék myndarlega húsmóðir. Eftir hádegi var ég sauðfjárbóndi við Helgi fórum og endur skipulögðum rolluelliheimilið og færðum hrútana í sína venjulegu stíu. Læt mig dreyma um að hann John frá Noregi komi og sónarskoði fyrir okkur eins og venjulega, má ekki til þess hugsa að sleppa því. Bæði er John skemmtilegur svo er þetta ein mesta vinnuhagræðing sem hugsast getur í sauðfjárbúskap þ.e.a.s vita hvað mörg lömb koma úr hverri kind að vori. Þá getum við gert vel við tví, þrí og fjórlemburnar haft einlemburnar sér og farið yfir geldu kindurnar með stóru gleraugunum fyrir páskaslátrun. Þetta gerir það að verkum að allt verður auðveldara þegar kemur að því að deila út lömbum að vori þannig að sem flestar kindur gangi með tvö lömb á fjalli yfir sumarið.
Skúli byrjaði að klippa snoðið af kindunum í dag, byrjaði rétt fyrir miðdegiskaffi og hitaði sig upp fyrir nokkur hundruð klippingar. Afraksturinn var 75 stykki. Býsna góð byrjun. Ef að veðrið verður svona næstu daga verður örugglega klippt af kappi annars verður bara tekinn smá hópur á hverjum degi með tamningunum. Því þó að inni aðstaðan okkar bjargi heil miklu á svona dögum þá rúmar hún ekki fjóra hesta og knapa í líflegum sveiflum alla í einu. Svo við bara skiptumst á.

02.03.2009 23:20

Ein vísa á dag kemur skapinu í lag.


Bókhaldið átti megnið af huga mínum í dag launaútreikningur, virðisauki og reikningarnir. Og vitið þið hvað ? það er alltaf gott veður um mánaðamót það finnst mér að minnsta kosti þegar ég sit inni við tölvuna. Hef litið öðru hverju út um gluggann og öfundað þá sem voru að ríða út í dag.
Var aðeins í tölvupóst sambandi við félaga mína í Fagráði í hrossarækt í dag  m. a vorum við að skiptast á fréttum af veðrinu hvert hjá öðru. Hjá mér var blíða en bylkóf hjá hrossaræktarráðunautnum í framhaldi af þessum tíðindum kom vísa frá bóndanum á Þóroddsstöðum Bjarna Þorkelssyni.

Er Guðlaugur í blindum byl
ber sér milli élja
Sigrún læst í sumaryl
sólardaga telja.

Spurning hvort að fundagerðir Fagráðs fara að vera í bundnu máli?


Ég hef frá byrjun reynt að koma því inn hjá Ófeigi og Þorra að þeir séu vinnuhundar en ekki gæludýr. Þetta hefur tekist nokkuð vel meira að segja svo vel að þeir taka orðið þátt í þó nokkrum verkum. Húsfreyjan stundum svolítið vanþakklát við þessa dugnaðarforka.  T. d verður hún að hafa hraðar hendur við að setja þvottinn í þvottavélina svo að þeir verði ekki á undan henni að ganga frá honum. Smá meiningar munur hjá okkur ég vil þvo og þurrka þvottinn ganga síðan frá honum á sinn stað. Þeir vilja spara tíma og ganga frá honum beint uppúr óhreinatauskörfunni.

Það kom enginn frambjóðandi til mín í dag svo að ég hef bara velt fyrir mér hvað væri nýtt við Jón Baldvin? Og hvort það væri ekki ljótt að vera með Sleggjudóma?

01.03.2009 21:53

Sunnudagurinn 1 mars.




Núna er ég grútsyfjuð en ætla samt að segja ykkur hvað ég hef verið að sýsla að undan förnu.
Í gærmorgun var frábært veður sem að við nýttum til þess að skoða og stöðumeta nokkur tryppi. Það fer þannig fram að tryppið er prófað og síðan skoðum við og ræðum hvernig staða þess er miðað við fyrirfram ákveðið skipulag. Þá kemur í ljós hvað þarf að bæta og hverju á að breyta til að ná sameiginlegu takmarki okkar með öll tamningahross, gera það besta úr hverjum einstaklingi óháð ætt og uppruna. Meðan á þessu stóð flaug tíminn eins og venjulega hér í ,,Hlíðinni,, sem þýddi að þegar góðir gestir birtust um kl 14 vorum við að borða hádegismatinn. Mikil óreiða á matmálstímum hjá húsfreyjunni þessa dagana.
Eftir þessar vangaveltur brunaði Mummi áleiðis í bæinn til að dæma svellkaldar aðþrengdar eiginkonur og aðrar heiðursdömur sem kepptu í Skautahöllinni í Laugadalnum.
Bíllinn hans ákvað að fara ekki lengra en að bensíndælunni við Hyrnuna í Borgarnesi. Þar leit um tíma út fyrir að hann væri ,,game over,, sem hækkaði blóðþrýsting dómarans um ríflega helming. Sem betur átti hann góða að í Borgarnesi og leystust málin þannig að Mummi brunaði á lánsbíl í höfuðborgina og bjargvætturinn fékk frúnna til að draga eðalvagn Mumma heim til sín. Niðurstaða málsins Mummi náði í tæka tíð á mótið og bílnum battnaði eftir smá yfirlegu. Takk fyrir þetta kæru vinir.
Við fórum í góðum félagsskap að horfa á úrslitin hreint frábærir hestar og flinkar konur.

Hún Von vinkona okkar fór heim í dag frábært gæðingsefni sem nú hefur lokið sýnum fyrsta kafla í náminu að læra til gæðings. Þvílíkt eðaltölt sem hún bauð uppá alveg óumbeðið.
Skarðið fylltist strax með bráðskemmtilegum grip sem mættur er í fitubrennslu.
Fyrirmyndarhestur dagsins er hún Von eðaltöltari.

Seinni partinn skrapp ég svo á fund í Borgarnes til að skoða frambjóðendur. Skemmtilegur fundur og nokkrir afar álitlegir kostir í boði. Spennandi kosningabarátta er hafin.

Ófeigur og Þorri hafa fengið fjölmörg aðdáendabréf á netfangið mitt og þakka þeir hér með fyrir þau. Annars eru þeir komnir með ný nöfn sem varla geta talist prennthæf en læt þau flakka hér í trúnaði. Hér á heimilinu eru þeir nefndir dúettinn ,,kúkur og piss,,  Þið getið ykkur svo til af hverju? En þeir eru samt skemmtilegir.

28.02.2009 00:52

Ófeigur og Þorri.





Þetta eru Ófeigur og Þorri þeir eru fæddir 25 janúar 2009.
Þið getið skoðað fullt af nýjum myndum af þeim hér á síðunni undir hnappnum ,,albúm,,
síðar ætla ég að segja ykkur meira um þá bræður.