15.03.2009 22:50

Kubbur og lopapeysur í pólitík.




Við Snotra fengum þessa fínu mynd senda í dag, þetta er hann Kubbur sæti Snotrupabbi.
Hann býr í Reykjavík og á bara eitt afkvæmi hana Snotru mína þannig að hún verður að standa sig í því að viðhalda stofninum.

Það er sko synd að segja að það séu rólegheit hér í Hlíðinni brjálað að gera á öllum vígstöðum. Nokkur stikkorð til upprifjunnar hestar,kindur,hundar,fundir,bókhald,ráðstefnur, leikhús,gestir,sími,prófkjör og svo ýmislegt fleira.

Ég horfði á Silfur Egils í dag og fannst gaman að þeim þætti eins og oft áður. Var sérlega ánægð með formanninn minn (eins og oft áður) finnst hann traustvekjandi og hef fulla trú á honum. Eins fannst mér græna skákkonan koma mjög vel út úr þessu spjalli talar mannamál og það skiptir nú engu smá máli núna.
Mér finnst mjög gaman að fylgjast með pólitíkinni núna enda mikið um að vera. Eitt er alveg snild hafið þið tekið eftir því hvernig sumir þingmenn og frambjóðendur reyna að komast frá ímyndinni um flottu ríku útrásarsnillingana? Það er lopapeysuaðferðin. Hef séð fjóra í dag sem nota þessa fínu aðferð til að freista þess að breyta ásýndinni í undirmeðvitund okkar sem eigum að kjósa þá. Ég get veðjað við ykkur um að enginn frambjóðandi hefði látið sjá sig í lopapeysu fyrir ári síðan eða tveimur.
Þetta er samt fínt fyrir sauðfjárbændur. Og þegar ég gekk framhjá ullarpokunum inní hlöðu í dag þá velti ég því fyrir mér hvað margir svartir sauðir yrðu á þingi ef að ég ætti að skaffa ullina. Það er svo mikið mislitt hér á bæ.

Hrútarnir voru hornskelltir í dag tveir vaskir drengir réðust til atlögu og snyrtu snillingana með stæl. Í vikunni kemur svo sá norski og telur lömbin í kindunum það er svona eins og að kíkja í jólapakkana. En það er hrein snild hvað þetta sparar mikla vinnu í kring um sauðburðinn. Svo er líka bara gaman að vita þetta snemma.

Fórum á Fló á skinni í gær það var mjög gaman og gott að hlæja svona mikið í einn og hálfan tíma. Vorum á fremsta bekk og litlu mátti muna að við fengjum fljúgandi mann í fangið. Rifjast alltaf upp hvað það er gaman að fara í leikhús þegar maður fer. Skondið.

Ýmislegt var stússað í hesthúsinu í dag og fyrirmyndarhestur dagsins var ung Deilisdóttir.