01.08.2016 20:43

Úr ýmsum áttum..............

Um helgina fór fram árleg kvennareið hjá kellunum í sveitinni og öðrum góðum konum.

Þema reiðarinnar var rautt og var því sjálfsagt að gramsa í fataskápnum og reyna að finna eitthvað við hæfi.

Hjá mér var ekki um mikið að moða en eina rauða flíkin var rifin út og að sjálfsögðu smelltum við á okkur varalit við hæfi.

Konurnar riðu frá Minni Borg að Söðulsholti með viðkomu hjá bændunum á Rauðkolsstöðum.

 

 

Það var líka herrareið sama dag en karlarnir voru að ég held ekki með neitt lita þema í gangi.

En ef svo hefur verið eru þeir væntanlega allir litblindir.

Það var heitt í veðri og logn á körlunum þó svo að konurnar hefðu aðra sögu að segja.

Karlarnir riðu frá Mýrdalsrétt í Laugargerði.

Á myndinni sést m.a Svanur bóndi í Dalsmynni svala þorstanum í sólinni.

 

 

Halldór í Söðulsholti og Óli hótel voru hressir að vanda.

 

 

Þessir lögðu sitt af mörku við að bjarga heiminum, þarna eru þeir á lokasprettinum.

Brynjar í Bjarnarhöfn og Jón í Hítarnesi.

Ferðirnar heppnuðust vel og allir komust í kjötsúpu hjá Óla hótelhaldara á Hótel Eldborg.

 
 
 
 

 

Það voru danskir dagar hjá okkur í Hlíðinni um helgina en þá kom hún Dorte að heimsækja okkur.

Ýmislegt var til gaman gert m.a var farið í Gullborgarhella en þar er einmitt þessi mynd tekin.

 

 

Þarna er mannskapurinn kominn upp úr hellinum og baðar sig í sólinni.

 

 

Jacob kvaddi okkur og Ísland í dag eftir tvo mjög stutta mánuði.

Við eigum svo sannarlega eftir að sakan hans mikið en vonum að við sjáum hann sem fyrst aftur.

 

 

Glundroði minn er gestrisinn og kann vel að gera dömum til hæfis.

Enda fór vel á með honum og henni Dorte þegar þau tóku reiðtúr uppí fjall.

 

 

Jacob brá sér líka á hestbak og tók góðan útsýnistúr uppí fjall og þeim samdi líka vel honum og Fannari.

 
 

Takk fyrir samveruna Jacob og Dorte þetta var mjög skemmtilegur tími.

 

Að öðru...........

 

Hryssan Svaðaborg var svo óheppin í vetur að slasa sig illa á fæti.

En það var eitt kvöldið í svarta myrkri og byl þegar Skúli vað að gefa útigangshrossunum að hann tók eftir hryssunni sem stóð álengdar.

Þegar að var gáð kom í ljós að hún hafði skorið sig mikið á afturfæti og tillti ekki í löppina.

Nú voru góð ráð dýr þar sem að hryssan var töluverðan spotta frá vegi, ótamin og ekki sérlega líkleg til samvinnu.

En með þolinmæði og aðstoð góðra manna hafðist þetta allt og hryssan komst í hús.

 

 

Eins og sjá má á þessari mynd var ekki sjálfgefið að þetta færi vel.

Svaðaborg er mjög álitlegt tryppi og því var ákveðið að fella ekki stóra dóm heldur kalla til Hjalta dýralæknir.

Hann kom og skoðaði löppina og ég verð að játa að bjartsýnin skein nú ekki af honum þegar sá herlegheitin.

En eins og hans er von og vísa fór hann í málið þreif upp sárið og bjó um löppina.

Hryssan var svo meðhöndluð í nokkrar vikur og kom Hjalti reglulega til að skipta um umbúðir og fylgjast með.

Það skal sérstaklega tekið fram að við notuðum mikið af rækjuspreyi á sárið með góðum árangri.

 

 

Í dag lítur löppin svona út einungis smá rönd sem minnir á hrakfarirnar.

Hryssan stígur af fullum þunga í löppina og engin hellti eða neitt annað sem háir henni.

Hleypur af miklum krafti upp um holt og hæðir eins og enginn sé morgundagurinn.

 

 

Hún hefur alltaf hreyft sig af krafti og vonandi verður engin breyting þar á.

Þessi mynd er tekin af Svaðaborgu á folaldasýningu í Söðulsholti.

Hún er undan Ugga frá Bergi og Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð.

 

Já stundum gengur vel ....................