Færslur: 2014 September
30.09.2014 09:27
Kósý kvöld
|
||||||
Réttirnar eru tíminn til að æfa raddböndin og klappa gítarstrengjum. Þarna eru Hjörtur og Mummi í góðum gír.
|
27.09.2014 13:49
Vörðufellsréttarstemming
|
||||||||||||||||||
Það er alltaf gaman í Vörðufellsrétt og á því var engin undantekning þetta árið. Mummi, Astrid, Haukur og Randi Skáneyjarbændur. Þessi sem er verulega hátt uppi er hann Hjörtur yfir gítartæknir.
|
25.09.2014 18:02
Smaladagurinn heima
|
||||||||||||
Það sá ekki út úr augum fyrir þoku á föstudaginn þegar leggja átti af stað í leit héðan úr Hlíðinni. En það var bjart yfir mannskapnum sem beið þess að leggja af stað í fjallið. Nokkuð á eftir áætlun lögðum við af stað fram í sókn og samfylktum liði til fjalla.
|
23.09.2014 21:16
Réttarfréttir nú eða réttar fréttir.
Smalamennskan á Oddastöðum gekk vel og var fjöldi fjár rekin inn hér heima á fimmtudagskvöldið. Til að forðast enn meiri þrengsli en venjulega var ákveðið að draga allt ókunnuga fé frá og keyra það í safngirðinguna við Mýrdalsrétt.
|
17.09.2014 23:26
............. og fleiri myndir úr Skarðsrétt
|
||||||||||
Líf og fjör við réttarvegginn.
|
16.09.2014 22:30
Mannlíf í Skarðsrétt
|
||||||||||||||||||||||
Það var gaman að koma í Skarðsrétt og óhætt að segja að þar hafi verið margt um manninn. Það var allavega auðveldara að ná myndum af fólki en fé.
|
14.09.2014 23:29
Góður dagur
|
Það var hvasst í morgun og ekkert ferðaveður fyrir gæðinga á kerru því var skipulaginu breytt í snarhasti. Dagurinn átti að byrja með hrossaflutningum og fleiru. Hryssan bíður eftir blíðunni sem á að vera þegar hún fer frá okkur og heim til sín. En í staðinn urðu til nokkrar formkökur sem verða á boðstólnum um réttirnar og aðhaldsgirðingin kláraðist. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er þessi aðhaldsgirðing alvöru girðing fyrir kindur. Eftir hádegið var svo brunað inná Skógarströnd en þar voru bændur á Emmubergi að hefja sína smalatörn. Eins og undanfarin ár förum við og sækjum féð sem þangað kemur héðan úr Kolbeinsstaðahreppnum. Þetta er gert til að auðvelda bæði okkur skilamönnum í Vörðufellsrétt og Bergsbændum ragið. Það er jú alveg nóg að draga hverja kind einu sinni. Andrés og Björgvin Ystu-Garðabræður komu líka með og var góður hópur fluttur suður fyrir. Það er alltaf viss stemming sem skapast þegar fyrstu kindurnar koma heim. Þá er spáð og spekulegrað flett fram og til baka í rollubókunum og rífjað upp hver átti hvaða lamb og hvernig það var. Já rollukellingar eru spes og ekki síður kallar. Á morgun er það svo að gera skil í Skarðsrétt þangað höfum við ekki sent skilamann fyrr. Gaman að fara á nýjar slóðir, nánar um það síðar. |
13.09.2014 22:30
Vikan sem allt er að gerast
|
||
Þessi öðlingur hefur það gott fyrir utan eldhúsgluggann enda ekki annað hægt í svona blíðu. Sumarhiti og logn sem manni langar til að nota í allt mögulegt. Núna fer ein líflegasta vika ársins í hönd þar sem allt skal gert................ Eins og kom fram hér neðar á síðunni er komið skipulag fyrir leitir og réttir sem enn er verið að fín pússa. Skipulagasveikin heltók húsfreyjuna fyrir stuttu og í því kasti varð til langur listi sem æskilegt er að klára fyrir réttir. Enda eru allir á góðum snúningi. Yfirfara fjárhúsin, laga og bera ofaní réttina, girða ,,aðhaldsgirðinguna, fara með túngirðingunni, hreinsa uppúr skurðum, gera víggirðingu kringum rúllurnar og ýmislegt fleira. Þetta var bara fyrrihlutinn...... seinni hlutinn var einhvern veginn svona: Telja saman smalana, finna talstöðvarnar, baka (ekki bara vandræði) , taka upp kartöflur, skipuleggja nesti, horfa á matseðilinn og klappa regngöllunum. Já það er sko mikilvægt ég hef fulla trú á því að ef gallinn er hreinn, vís og klár þá séu minni líkur á að það rigni. Svo þarf líka að kanna járningar, fjórhjólið og litaspreyið. Og smalavestin auðvitað, enginn má nú týnast í fjöllunum. Annars var tekin smá æfing um síðustu helgi þegar við tókum þátt í smalamennsku og fjárragi með Skáneyjarbændum. Það er alltaf gaman að fara á nýjar slóðir að smala. Ég sá Reykholtsdalinn og Hvítársíðuna frá nýju sjónarhorni og ekki skemmdi nú fyrir hvað veðráttan var góð. Það var líka gaman að skoða féð og fylgjast með þegar verði var að velja sláturlömbin. Smá hluti af fjárstofninum er ættaður frá okkur og var gaman að sjá hvernig það blandast við hópinn. Það er alltaf gott að fá fimmstjörnu dekur hjá Skáneyjarbændum hvort sem það er á námskeiðum eða í leitunum. Á þessum árstíma gluggar maður gjarnan í markaskrá af gömlum vana enda er ég alin upp við það að telja markaskrár til gæða bókmennta. Nú orðið eru flestir sem draga sundur fé eftir bæjanúmerum en það er samt ákveðinn sjarmi yfir því að spreyta sig á mörkunum. Þegar ég var barn gerði ég mér það að leik að marka bréfeyru. Utan um Tímann kom bréf sem Lóa frænka mín klippti niður og bjó til eyru, þessi eyru ,,markaði,, ég svo með skærum. Ég horfði á frændur mína marka og tók upp sömu taktana og þeir höfðu við verkið. Það var alltaf sjálfsagt að læra svolítið af nýjum mörkum á hverju hausti. Man sérstaklega eftir því þegar að ég lærið mark sem eignað var þeim í vonda í neðra. Það var þrírifað í þrístíf og þrettán rifur í hvatt. Sennilega mundi MAST gera einhverjar athugasemdir við þetta mark í dag................. Já þau hafa ekki alltaf verið hefðbundin áhugamálin mín. |
12.09.2014 10:15
Hitt og þetta frá nýliðinu sumri
Nei nei þessi mynd er ekki tekin í dag en góð samt sem upprifjun á því sem í vændum er. Þarna er forustuféð að leggja á fjall en þessi fjölskylda fær alltaf bílfar á staðinn sinn. Það er löng hefð fyrir því að húsfreyjan keyri gripina þegar allar þessar eru bornar og að sjálfsögðu fer Jói ekki út á undan öðrum fjölskyldumeðlimum. Það er svo algjört aukaatriði hversvegna.........................nei ekkert svo óþekkar sko. Sauðurinn Jói lítur yfir hópinn eins og systir hans Pálína en Litla-Pálína og Fótfrá kanna beitina. Þessi góði hópur heldur sig svo hér í hlíðinni fyrir ofan bæinn allt sumarið, bítur gras og æfir flóttaleiðir. Það er kannske ekki tilviljun að þetta svæði er smalað fyrsta daginn.....................
|
08.09.2014 20:50
Þessir góðu dagar
03.09.2014 21:38
Vitið þið að það er kominn september ?
Sumarið er tíminn en nú er komið haust................. með allri sinni dýrð.
Þessa skemmtilegu mynd tók hann Maron okkar einhvern af síðustu dögunum sem að hann var hjá okkur. Nú er kappinn farinn í skólann og arkar menntaveginn eins og vera ber.
Sumarið hefur flogið frá okkur og margt sem gera átti verður að bíða betri tíma.
Kindurnar eru farnar að týnast niður og kanna grösin hér í kring.
Á allra næstu dögum smelli ég nákvæmu tímaplani hér inná síðuna með upplýsingum um réttirnar.
Já það er að koma að leitum og réttum.
Það er hressandi og skemmtilegt að taka sprett á Löngufjörum svo maður tali nú ekki um í góðum félagsskap. Það er gaman þegar allt gengur vel.
Þarna eru kátar kellur að ferðast með einum af fyrirmyndar hópunum sumarsins.
Gott veður, góðar fjörur, góður félagsskapur og góðir hestar.........gera lífið dásamlegt.
Mummi er nýkominn heim eftir velheppnaða kennsluferð til Danmerkur.
Astrid fór til Bretlands þar sem að hún var að byrja í fjarnáminu sínu í íþróttasálfræði og þaðan fer hún svo til Finnlands. Hún ætlar að kenna hjá henni Ansu okkar í tvær vikur og hitta nemendurna sína sem hún hefur verið að kenna þar að undanförnu.
- 1