Færslur: 2012 Nóvember

24.11.2012 23:03

Lopi í ýmsum myndum



Stellupeysa af bestu gerð og fyrirsætan glæsileg að vanda.

Ég hef alveg gleymt að segja ykkur að hún Stella frænka mín er mikil prjónakona og prjónar allt milli himins og jarðar.
Hún selur hestapeysur, barnapeysur, prjónakjóla og hvað eina, já og auðvitað venjulegar lopapeysur líka.
Þegar ég rakst á þessa fínu mynd af forsetafrúnni okkar datt mér í hug að koma með  hugmynd af jólagjöfum fyrir ykkur. Maður þyggur jú alltaf góðar hugmyndir þegar tíminn er naumur.
Myndin var tekin í opinberri heimsókn forsetahjónanna á Snæfellsnesið og það er svo langt síðan að ég var oddviti Kolbeinsstaðahrepps þá. Verst að ná ekki mynd af Ólafi í sinni peysu.




Og við höldum okkur bara við lopann........nú eru það sauðalitirnir.
Þessa mynd tók hann Kolbeinn skábróðir minn í réttunum en þarna bregðum við Jói sauður á leik. Getur verið gott að hafa féð svona meðfærilegt að stærð þegar hlutverk þess er eingöngu að vera til gamans en ekki gagns. Og þó Jói er að sjálfsögðu til gagns í forustuhlutverkinu.
Jói sauður er ,,langræktaður,, forustusauður af kynstofni Jóhanns föðurbróður míns í föðurætt og sonur forustukindarinnar Pálínu sem á ættir sínar að rekja að Haukatungu eins og við Jói. Nú eruð þið alveg búin að tapa þræðinum svo við förum ekki nánar útí þessa sálma.

Gaman að gramsa í myndum þær segja svo margt.

23.11.2012 23:24

Gosi gleður



Þessa mynd fann ég í myndatiltektinni sem nú er í gangi hjá húsfreyjunni.
Þarna eru Mummi og Gosi að keppa, nokkuð einbeittir kapparnir, en fókusinn hjá ljósmyndaranu ekki alveg í lagi. Spurning um að veita þessu myndasmið tiltal?



Og þarna eru þeir í hörðum slag..........á miklu skriði...................

Ég var einmitt að hugsa um hann Gosa þegar ég settist við tölvuna eftir að hafa verið að vinna með afkvæmum hans að undanförnu.
Og ég hugsa sko aldeilis vel til hans Gosa, hann er öðlingur og ekki eru afkvæmin að svíkja.
Yfirvegun og geðprýði eru fyrstu orðin sem koma uppí hugann eftir samskipti við kornung afkvæmi hans. Bara gaman að höndla með svoleiðis tryppi.



Mummi og Astrid að kanna Hlíðarvatnið.

Það var blíða í dag hér í Hlíðinni og engu líkara en það væri að koma sumar.....svona í smá stund. Reyndar er komin himna yfir vatnið svo ekki væri nú gott að taka svona sprett alveg í augnablikinu. En gaman er að rifja upp góða sumardaga og láta sig dreyma um sól og sumar.

Ég er að mana mig uppí að segja ykkur sögu sem þið megið ekki fara lengar með.......
Hún er neyðarlega fyrir húsfreyjuna svo það tekur tíma að safna kjarki til að koma henni hér á ,,blað,, en það kemur að því :) Þið hafið það hjá ykkur:)

22.11.2012 22:31

Gaman að gömlum myndum


Það er alltaf svo gaman að skoða gamlar myndir maður finnur alltaf eitthvað skemmtilegt.
Þarna er Mummi að spekja Mósart Otursson og ekki að sjá annað en það fari vel á með þeim.



Það voru margir ungir knapar sem nutu þess að þjálfa Gjóstu gömlu enda var hún vinsæl og notadrjúg. Þessi mynd segir okkur svo sannarlega að hestamennska er skemmtileg.
Þarna er Mummi að keppa á Gjóstu í barnaflokki á afmælisdaginn sinn þegar hann varð 7 ára.
Knapinn kammpakátur í Dúnupeysu og Nokíastígvélum.

Það hefur verið næðingur og þá er kalt en allt stendur þetta til bóta og nú er bara að bíða eftir næstu blíðu. Og þá skulum við njóta.

Mummi er floginn til Svíþjóðar einu sinni enn og er þar í góðu yfirlæti eins og vant er.
Skemmtilegir nemendur sem eru áhugasamir um að bæta sig í hestamennskunni.
,,Gamla,, leikur lausum hala í hesthúsinu á meðan og skemmtir sér bara ljómandi vel.

Rúningur á kindum er frá en lömbin eru reyndar eftir og er það verkefni húsbóndans næstu daga. Enn eru væntingar í gangi með að finna fleira fé og hlýtur sá draumur að verða að veruleika fyrr en varir.

12.11.2012 22:36

Drama, dekur og dásemd



Svona var útsýnið af brúninni fyrir innan Svaðaganginn einn eftirleitardaginn fyrir stuttu.

Það er ekki af fréttaskorti sem ég hef ekki skrifað hér inn að undanförnu heldur hefur það verið skortur á ritdugnaði.
Veturinn hefur sýnt sig öðru hverju og þá mest með vindi og látum, snjórinn hefur meira verið svona í formi sýnishorns.

Kindunum fjölgar dag frá degi sem fengið hafa haustklippinguna og ekki er langt í að flestar þeirra verið komnar inn og á fulla gjöf. Það er alltaf góð tilfinning þegar allt hefur verið klippt sem til stendur að klippa. Við klippum allt fé á þessum tíma fyrir utan smálömb og lambhrúta.
Lambhrútarnir fá sérstaka ,kallaklippingu,, sem tekin var upp hér á bæ fyrir nokkrum árum og hefur reynst vel. Það var nefninlega þannig að við klipptum lambhrútana nokkur ár í röð og uppskárum bara vandræði og vanhöld. Ég var sannfærð um að þetta hefði eitthvað með karlmennsku að gera og til að kulsækið karlkynið yrði ekki niðurlægt að óþörfu var ekki um annað að gera en hanna klippingu. Klippingin er flott, sítt að aftan, hálsinn bera, bumban rökuð og ,,djásnin,, pössuð sérstaklega vel við raksturinn.
Já lambhrútarnir í Hlíðinni eru sko hátískutöffarar með meiru.
Vonandi get ég sett inn myndir af þeim þegar klippingin er afstaðin.

Eins og áður hefur komið fram eignaðist ég hrút frá Ásbirni bónda og frænda mínum í Haukatungu um daginn.
Þegar ég fór og sótti gripinn og fékk ættir og aðrar nauðsynlegar upplýsingar kom í ljós að nafnavalið yrði auðvelt. Gripurinn var undan hrútnum Seiði og kindinni Ást, þar með var nafnið komið Ástarseiður. Þegar ég svo kom heim himinlifandi með gripinn var nokkuð sjálfsagt að deila hamingjunni með fésbókarvinum mínum.
Ekki eyddi ég miklum tíma né mörgum orðum í að upplýsa vinina og varð stadusinn eitthvað á þessa leið:
,,Ástarseiður kominn í hús,,
Viðbrögðin létu ekki á sér standa og margir vildu fylgjast með ..........og hugmyndirnar um hvað væri á seiði voru margar.
Freyðibað, ástardrykkur, nútímadans, ilmvatn, landi og viagra voru á meðal þess sem fólki datt í hug.

Einn af mínum fésvinum var þó ekki í vafa hvað væri á seiði og sendi mér vísu.

Sigrúnar er gatan greið,
gengur hress að púli.
Er að brugga ástarseið,
svo ekki dofnar Skúli.

Já Kristján Björn Snorrason klikkar ekki:)

En til að fyrirbyggja allan misskilning þá er Ástarseiður hinn hressasti og unir sér vel í hrútastíunni. Hann er safna kröftum fyrir komandi annatíma og getur státað af heljarinnar hornahlaupum. Óumflýgjanlegt að birta mynd við fyrsta tækifæri.



Það stemdi í mikinn drama hér í sauðfjárræktinni um daginn eða öllu heldur sauðfjárræktinni í Garðabænum. En þá sannaðist eins og oft þegar á reynir að það er ekki sama hverjir standa við bakið á manni (kindum) þegar á móti blæs.
Golsa hefur í gengum tíðina safnað að sér mörgum dyggum aðdáendum sem gjarnan heimsækja hana nú eða líta á hana hér á síðunni og rifja upp góðar stundir.
Eitt sinn var Golsa keypt og þá sannaðist nú heldur betur hvers virði hún er því það duggði ekkert minna en nokkurra fermetra málverk fyrir gripinn. Golsa flutti nú samt ekki héðan úr Hlíðinni enda er erilsamt fyrir hefðarkindur að búa í Garaðabænum.
Golsa er snillingur sem sífellt kemur á óvart með ýmsum uppátækjum og skemmtilegheitum.

Á hverju hausti er farið gaumgæfilega yfir allar kindur áður en sett er á veturinn, lambavigt og dómar lesið í þaula. Og það sem mestu máli skiptir júgurskoðun en þar eru gerðar strangar kröfur og allar kindur sem ekki eru í fullkomnu lagi fá ,,farseðilinn,,
Golsa kom galvösk og óhrædd beint í flasið á okkur þegar skoðunin var rétt að byrja.

Obbbobobob nú fór heldur betur um fjárhirðana sem litu hver á annan og hugsuðu sitt.
Til þess að enginn væri nú vafinn á því hvernig ástandið væri var Golsu snúið við og hún skoðuð af mikilli nákvæmni. Kom þá í ljós að hún var með júgurbólgu í öðru júgurinu.
Undir öðrum kringumstæðum hefði hún verið afgreidd með hraði og væri þá sennilega að naga guðdómlegar þúfur í grænu högunum hinumegin. En þar sem ,,baklandið,,  hjá Golsu var gott og Golsa í hópi útvalina ákváðum við að æfa okkur í hjúkrunarstörfum og gefa henni tækifæri. Nokkrar vikur eru liðnar og lítur út fyrir að Golsa verði ,,alheilbrigð,, einspena kind sem vonandi á eftir að skemmta aðdáendum sínum næstu árin.







01.11.2012 22:32

Veturinn kominn ??



Á svona dögum er eins gott að ylja sér við eitthvað skemmtilegt og helst frá einhverjum góðviðrisdeginum.
Þessa mynd tók hún Ansú okkar frá Finnlandi þegar hún kom í heimsókn eftir landsmótið í sumar. Þarna erum við Auðséð að spjalla saman og leggja drög að einhverju sniðugu saman.
Auðséð er tveggja vetra undan Karúnu minni frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi.
Hún Auðséð er spök og skemmtileg, tekur alltaf svo vel á móti mér þegar ég kem og skoða hana í haganum. Svona uppáhalds :)



Svona var hinsvegar umhorfs hér í Hlíðinni um miðjan daginn í dag en undir kvöld var komið enn meira rok og snjókoma. Hreinlega öskubylur.
Þær voru heldur kuldalegar folaldshryssurnar sem kíktu uppfyrir börðin og athuguðu hvort að ekki væri nú tímabært að fá rúllur.  Hafa sennilega orðið fyrir sárum vonbrigðum þegar þær sáu að við voru bara að smala kindum.



Kindurnar sem síðastar voru í hús nú undir kvöldið voru ansi vel uppfenntar og eins gott að vel hafi smalast hér á túninu.
Við erum búin að hýsa lömbin í nokkrar vikur og til stóð að hafa fé úti a.m.k. hálfan mánuð í viðbót. En í dag var tekin sú ákvörðun að byrja að taka af og þá voru það veturgömlu ærnar sem fyrstar fengu klippingu og að auki nokkrar spari kindur.


Gamla Grákolla var kát með að vera komin inn enda ekki veður fyrir eldri hefðarkindur.

Það er alveg saman hvenær veturinn kemur maður er aldrei tilbúinn, ýmislegt ógert sem átti svo sannarlega ekki að sitja á hakanum. Hugga mig samt við viskuna sem góður maður sagði við mig um daginn ,, veistu Sigrún ef þú verður einhverntímann búin að öllu þá ertu ekki lengur til,, ...........og ég er til og á helling eftir að gera Guði sé lof.

  • 1