28.05.2009 23:28

Silungur og sauðburður



Jæja þá er silungsveiðin byrjuð og fer bara vel af stað þetta sumarið eins og sjá má á myndinni. Bræðurnir Hallur og Hrannar frændur mínir smelltu út neti um síðustu helgi og fengu þennan fína afla. Hallur kannaði hitastigið á vatninu og óð útí með endann á netinu en Hrannar veitti honum andlegan stuðning frá bakkanum. Hallur er ekkert óvanur því að vökna í Hlíðarvatninu svo að honum var ekkert meint af þessu brasi. Aflinn sem náðist á land þessa dagstund voru 16 stykki, bleikja og urriði í bland. Það sem er á myndinni er gott sýnishorn en þess skal getið að þegar myndin er tekin er Hallur stunginn af með allar stóru bleikjurnar. Einn veiðimaður kom hér í dag í rigningunni og sá ástæðu til að koma við eftir tveggja tíma stopp og sýna 4 vænar bleikjur og einn urriða. Sem sagt góð byrjun á veiðisumrinu.

Núna er að færast ró yfir sauðburðinn og þær örfáu kindur sem að eftir eru taka sér góðan tíma til að dreifa burðinum allan sólarhringinn. En það eru ýmsir snúningar eftir og mikil vinna að koma öllum út, marka og númera. Númerin standa núna í 945 og dágóður slatti eftir enn. Þetta er fyrsta árið sem að ég marka allan hópinn og er ég mjög fegin að hafa fengið góða æfingu í æsku við að marka. Það var nefninlega þannig að þegar ég var lítil og engan veginn fær um, dreymdi mig um að fá að marka. Til að róa stelpurófuna tók Lóa frænka mín það til bragðs að klippa út eyru úr pappírnum sem að kom utan um dagblaðið Tímann í gamla daga. Þegar svo þessi fínu eyru voru tilbúin settist ég með spekings svip og klippti öll mörkin á heimilinu samviskusamlega út. Við þetta naut ég leiðsagnar þeirra móðurbræðra minna Ragnars, Einars og Sveinbjörns. Nú hefur þessi gamli draumur ræst og ég marka og marka og marka. Sumir draumar ræstast sjáið þið til.
Tíminn það góða dagblað var til margra hluta nytsamlegur hvort sem var í pólutísku uppeldi eða til landbúnaðarstarfa.

Fjöldinn allur af fólki hefur hjálpað okkur við sauðburðinn og ætla ég ekki að nefna neinn því engum vil ég gleyma. Vil bara þakka öllum kærlega fyrir, án ykkar værum við með ennþá dekkri bauga, miklu hrukkóttari og Guð veit hvað. Takk fyrir alla hjálpina.