12.05.2009 23:27

Sauðburður..................




Undan farnir dagar hafa verið bara nokkuð rólegir og lítið að gerast í sauðburði, en það breyttist heldur betur í dag þegar allt fór á annan endann. Í morgun báru tvílembur hver í kapp við aðra og eftir hádegi byrjuðu þrílemburnar að keppa. Við reynum alltaf að taka eitt lamb af þremur hjá þrílembunum og venja undir einlemburnar ef þess er nokkur kostur. En í dag bar aðeins ein einlemba, ekki nokkurt skipulag á þessum ættleiðingamálum hjá kindunum.
Eftir hádegið fórum við svo með fullorðnu hrútana og geldfé á kerru suður að Hafurstöðum, það gekk allt vel þar til að Claasinn varð of þungur fyrir jörðina og hún gaf sig. En allt gekk þetta nú upp fyrir rest og núna er allt orðið með kyrrum kjörum í fjárhúsunum og Claasinn kominn heim á hlað. Þökk sé góðum granna. Okkur hefur bæst heljar liðsauki bæði utan og innan dyra sem gerir okkur kleift að láta þetta allt ganga. Núna eru bara skipulagðar vaktir allan sólarhringinn.

Fyrirmyndarhestar dagsins voru allir hestarnir í hesthúsinu sem tóku því með jafnaðargeði að við vorum meira og minna í fjárhúsunum í dag. En eins og áður hefur komið fram þá erum við komin með harðsnúið lið sem nú er á vöktum allan sólarhringinn. Svo að við getum snúið okkur að hestunum á morgun.

Mikið af myndum bíður þess að húsfreyjan hafi tíma til að smella þeim hér inn við fyrsta tækifæri.