Færslur: 2020 Janúar
26.01.2020 22:31
Hundarnir rokka
Það var líf og fjör þegar Smalahundafélag Snæfellsness og Hnappadals í samstarfi við bændur hér í Hlíðinni stóðu fyrir smalahundanámskeiði. Námskeiðið fór fram s.l laugardag og heppnaðist afar vel. Kennarar voru Svanur Guðmundsson í Dalsmynni og Gísli Þórðarson í Mýrdal. Nemendur komu víða að enda áhugi á smalahundaþjálfun og tamningum mikill. Á meðfylgjandi myndum fáið þið smá innsýn í fjörið. Fram kom hugmynd um námskeið sem ætlað er að verði að veruleika síðar í vetur. Stofnaður hefur verið hópur á fésbókinni með þeim þátttakendum sem voru á námskeiðinu. Hópurinn heitir Smalahundakvöld í Hallkelsstaðahlíð með Svani og Gísla. Áhugasamir hundaeigandur eru velkomnir í hópinn. Þeir sem að eru ekki á fésbókinni geta að sjálfsögðu haft samband við okkur í síma. Við stefnum á að byrja vonandi í febrúar þegar búið er að sónarskoða gemlingana hérna.
|
Á þessari mynd vantar einn....................
Hann stökk úr mynd til að taka mynd.....................
|
Svanur og Mummi einbeittir og Julla leggur sig alla fram.
|
Gísli og Fjóla taka stöðuna.
Halldóra og Gísli fylgjast með góðum tilþrifum.
Störukeppni................. og klukkan tifar á hlíðarlínunni.
Skúli og Gísli taka létta æfningu fyrir næsta haust................
Þarna stígur Gísli smaladans en ég veit að á þorrablótinu verður það línudans.
Magnús og Svanur taka stöðuna.
Þessir tveir sáum um kennsluna og voru bara assskoti góðir strákarnir.
Hér kemur annar aðstoðakennarinn hún Pippa.
Hún reyndar færði sig uppí stólinn þegar húsbóndinn fór að hækka róminn við hina hundana.
Það er líka miklu meiri virðing fyrir aðstoðarkennara að sitja í stól en að liggja á gólfinu.
Og hér er hinn aðstoðakennarinn meistari Smali.
Tveir á bekknum....................
Þessi flottu mæðgin voru kát og hress.
Þessi var fljótur að finna skemmtilega skvísu sem var alveg til í að leika við hann.
Amma í Óló var líka alveg til í fjörið með litla kalli.
,,Vá hvað þú ert flottur stóri frændi,, ég lít rosalega upp til þín.
|
Þessir voru kátir að vanda og hér er komið að kveðjustund. Ég veit ekki alveg hvað þeim fór á milli en um tvennt er að velja. ,,Þú ert klárlega besti nemandi sem ég hef kennt eða þú ert dásamlegur herra kennari,, Já þetta var skemmtilegur dagur þar sem gagn og gaman réðu för. Okkur er strax farið að hlakka til framhaldsins. |
14.01.2020 21:32
Og hún kom loksins....................
Þetta er dagurinn sem hún á að sjást hér í Hlíðinni blessunin. En það gekk nú ekki eftir enda þungbúið og hvasst með tómum leiðindum. Ég er auðvita að tala um sólina sem fer alltaf í árlegt jólafrí í desmeber og ekki væntanleg fyrr en 14 janúar. Já það er áratugahefð hér í Hlíðinni að fagna hækkandi sól og bjóða hana sérstaklega velkomna með því að baka pönnukökur. Hrafnhildur amma mín hélt held ég meira uppá þennan dag en afmælið sitt. Kannski ekki skrítið að hækkandi sól og lengri birtutími hafi verið eitt það eftirsóknarverðasta sem til var.
|
En það var ekki bara sólin sem þó kom ekki sem gladdi húsfreyjuna hér í Hlíðinni.
Ó nei............ húsfreyjan fékk símtal frá Herði bónda í Vífilsdal sem sagðist hafa fengið óvænta gesti .
Þessir gestir hans Harðar vöktu mikla lukku hér í Hlíðinni en þarna var á ferðinni sparikind húsfreyjunnar.
Hún Mýrdalsbotna kom labbandi eftir veginum heim að Vífilsdal og baðst gistingar fyrir sig og dóttur sína.
Bændur í Vifilsdal eru gestrisnir eins og ég hef oft reynt og ekki brugðust þeir Botnu og dótturinni.
Já það þarf ekki mikið til að gleðja sauðfjárbónda hjartað í freyjunni.
Hún Mýrdalsbotna er fullorðin heiðurskind sem hefur verið í miklum metum, skilað góðum afurðum og verið til fyrirmyndar.
Hún bar fallegum tvílembingum í vor hrút og gimbur. Þessi lömb voru skráð með feitu letri á lista yfir hugsanlegan ásetning.
Það var því hundfúllt að færa til bókar að þær mæðgur vantaði af fjalli eftir að hrúturinn kom innan úr Dölum 20 nóvember.
Eftir að hrúturinn kom hafa verið farnar margar ferðir til að kíkja eftir því hvort að þær mæðgur væru á leiðinni heim.
Kikjirinn á heimilinu hefur gengið á milli glugga og landið verið skannað seint og snemma. En án árangurs.
Mjólkurlagni Mýrdalsbotnu er þannig að á vorin notum við hana til að mjólka fyrir önnur lömb.
Þrátt fyrir það flóðmjólkar hún fyrir sín tvö og smellir sér bara til fjalla þegar ,,vorverkin,, eru frá.
Finnst ykkur skrítið að hún sé í uppáhaldi ? Nei ég vissi það.
Eitthvað hefur Mýrdalsbotna rugglast í ríminu því að venjulega hefur hún komið í leitum hér heima við.
Ef að einhverjum dettur í hug að halda að hér sé á ferðinni vandræða kind sem sé á leiðinni í grænu hagana hinumegin fyrir óþekkt............
Þá er það feitur misskilningur.
Stundum eru kindur bara í vandræðum með fólk. Það er alveg til í myndinni.
En afhverju Mýrdalsbotna ?
Jú nafnið fékk hún þegar hún var gemlingur eins og allar kindur hér í Hlíðinni.
Hún heimtist með mömmu sinni og bróður í Mýrdal og því var það næstum sjálfgefið.
Annars er það helst af veðri að frétta að norðaustan áttin sem hér leikur lausum hala sló öll met í nótt.
Það var í einu orði sagt brjálað en þessi átt hefur lengi verið talin alveg hættulaus hér á bæ en það var nú alveg á mörkunum í nótt sem leið.
Látum gott heita af leiðindum í veðri.
Góður dagur með hækkandi sól og batnandi heimtum.
- 1