Færslur: 2013 Maí

11.05.2013 14:07

Allt á fullu í fjárhúsunum



Hér er hluti af liðinu sem mætti til okkar um helgina til að hjálpa okkur í sauðburði.

Það eru búnir að vera líflegir dagar og nætur síðan sauðburðurinn fór á fullt hér í Hlíðinni.
Við fórum með hluta af geldfénu út í gær og sennilega fer afgangurinn af því út á morgun, eins gott að hafa nóg af plássi.
Veðrið hefur verið mjög gott síðustu daga eða alveg eins og ég vil hafa það á þessum tíma, rigning, hlýtt og hægur vindur. Það er ótrúlegt hvað hefur grænkað síðust daga, þökk sé vætunni. Framundan slóðadraga, girða og svo að huga að áburði og vona að þetta séu ekki síðustu droparnir þangað til í júlí.

Köstunarhólfið fyrir hryssurnar er klárt og verða þær settar þangað á næstu dögum.


08.05.2013 00:42

Sýnishorn úr fjárhúsunum



Ó já ,,það er svo margt að minnast á,,  eins og segir í textanum góða en tíminn hefur þotið áfram og því hef ég ekki komið neinu í verk hér á síðunni.

Á myndinni hér fyrir ofan er hún Lene sem er komin frá Kaupmannahöfn til að hjálpa okkur í sauðburðinum. Þarna er hún að þjónusta hana Feru mína sem borin hefur þremur lömbum.
Þó svo að sauðburðurinn sé nú töluvert öðruvísi en síðustu ár þá eigu við okkar góðu tíma. Kella var t.d afar léttstíg þegar hún kom heim úr fjárhúsunum áðan búin að fá bónus lamb (m.v sónartalningu) undan sparikollu og Stera. Fyrir þá sem eru ekki á kafi í sauðfjárræktinni skal tekið fram að við erum ekki farin að sprauta rollurnar með sterum, heldur er þetta nafn á einum aðal kindasjarminum. Steri þessi var á sæðingastöðinni í vetur og var mikið notaður.
Annars fer sauðburðurinn frekar rólega af stað en það á örugglega eftir að breytast.



Lambadrottningarnar þær Vera og Óvera eru að verða unglingar og eiga enga samleið með þessum ,,barnalegu,, lömbum. Bíða bara spenntar eftir grænum grösum og vorblíðu.



Gemlingarnir eru rólegir og ekkert líklegir til að riðja úr sér lömbunum þó margir hafi náð tali.



Þessi mynd sýnir morgunverð í fjárhúsunum og að sjálfsögðu allir á heilsufæði.
Ég setti þessa mynd inná facebook síðuna mín og fékk þá eftirfarandi vísu til baka.

Áðan fór ég út í hlöðu
inn í jötu bar ég töðu.
Sentist inn í sinni glöðu
og setti á facebook þessa stöðu.

Takk fyrir vísuna Valur Óskarsson :)
  • 1