Færslur: 2012 Júní
26.06.2012 23:00
Dagur tvö á LM
Dagurinn í gær var bara góður, Mummi og Gosi kepptu en söknuðu þess sárlega að í sérstakri forkeppni sem keppt er í á landsmóti er hvorki riðið fet eða stökk eins og í úrtökunni og milliriðlum. En kallarnir eru kátir og skemmtu sér ljómandi vel eins og svo mikilvægt er þegar um samskipti manns og hests er að ræða.
Við brunuðum í Hlíðina og tókum á móti góðum gestum frá Svíþjóð en þar voru á ferðinni áhugasamir hesteigendur og ræktendur. Sérstaklega var gaman að fá eigandann af henni Glotthildi ,,okkar,, í heimsók.
Takk fyrir komuna Helen og vinir það var gaman að fá ykkur í heimsókn.
Á landsmóti hittir maður svo marga og sérlega gaman er að hitta þá sem eru langt að komnir.
Ansu, Stine, Julie, Louise og allir hinir :)
Það var veisla á keppnisbrautinni í dag og nærri því óteljandi hestarnir sem mér fannst flottir.
Ætla samt að taka nokkra og nefna hér sem heilluðu mig. Fláki frá Blesastöðum og Þórður heilluðu mig algjörlega, frábær gæðingur sýndur af mikilli snild. Einfaldlega frábærir saman.
Það var gaman til þess að hugsa að heima væri nýfædd hryssa undan gæðingnum Frakki frá Langholti þegar hann og Atli Guðmundsson höfðu lokið keppni í dag. Glæsiparið Óttar frá Hvítárholti og Sússana Ólafsdóttir áttu góðan dag og uppskáru eftir því.
Loki frá Selfossi heillaði mest í b flokki gæðinga og flottu félagarnir Glóðafeykir frá Halakoti og Einar Öder Magnússon, það er svo gaman saman hjá þeim köppunum.
Af stóðhestunum í kynbótabrautinni var það Arion frá Eystra-Fróðholti sem heillaði mig mest en margir voru þeir samt flottir. Hryssurnar sá ég ekki en bíð spennt eftir því að sjá til þeirra síðar á mótinu. Veit samt að frændi minn Magnús Gunnlaugsson í Miðfelli er kátur með hestagullið sitt sem er komin með 9,5 fyrir tölt 4 vetra gömul.
Já það er hægt að vera dauðuppgefin við að horfa á hross en fátt er nú skemmtilegar skal ég segja ykkur.
Úr Hlíðinni er það að frétta að Skúta hans Mumma eignaðist brúnan hest í dag undan Sparisjóði mínum frá Hallkelsstaðahlíð. Hlýtur að verða kosta gripur eða hvað?
Dynjandi litli Dyns og Rákarson lenti í lífsháska en með snarræði tókst að bjarga gripnum og er voandi að honum hafi ekki orðið neitt um herlegheitin.
Á morgun er nýr dagur með þéttri dagskrá og ýmsum uppákomum bara spennandi.
24.06.2012 23:04
Landsmót handan við hornið
Þá er brostið á með Landsmóti 2012 sem haldið er í henni Reykjavík.
Ég fór á fund í mótstjórn LM s.l föstudag og komst í nokkurskonar ,,þorláksmessuskap,, þegar ég skoðaði mig um í Víðidalnum. Þar var verið að leggja loka hönd á framkvæmdir og allt að komst í hátíðarbúning. Þetta verður vonandi gott landsmót og ekki vantar nú hestakostinn, þvílík veisla sem við eigum von á. Hlakka mikið til að eiga þar góða daga.
Mummi og Gosi fara í braut á morgun svo nú er bara að vona að allt gangi vel og að þeir félagarnir hafi í það minnst gaman af keppninni. Þeir félagarnir brunuðu í bæinn í dag og gista nú báðir hver í sinni svítunni. Gangi ykkur allt í haginn kappar:)
Við höfum ráðið harðsvíraðan mannskap til að sjá um allt heima kött, hunda, hesta og hús.
Já það er gott að eiga góða að þegar ,,liðið,, skreppur af bæ í smá tíma. Stefnir í fjölmennara heimilishald en oft áður.
Enn hefur bæst í folaldahópinn hjá okkur því Upplyfting kastaði jarpri hryssu undan Gosa frá Lambastöðum og Dimma brúnu folaldi undan Loga Glottasyni. Ekki vannst tími til að kyngreina það í dag, vonandi hryssa.
Annars er það helst í fréttum að við áttum frábærar stundir á ættarmóti í Laugargerði um helgina. U.þ.b 150 manns mættu, spjölluðu, höfðu gaman og borðuðu frábæran mat hjá honum Óla á Hótel Eldborg. Ættarmótið endaði svo með samverustund í Hlíðinni nú í dag. Takk fyrir skemmtilega helgi frændfólk og vinir.
Margar myndir voru teknar og eru þær væntanlegar á síðuna.
Á morgun er það svo Landsmót og móttaka góðra gesta sem ætla að líta við hjá okkur í Hlíðinni og skoða ,,ættaróðal,, hesta sinna sem nú eiga heima á erlendri grundu.
21.06.2012 18:53
Af fákum, fírum og fjöri
Þetta er Kátur frá Hallkelsstaðahlíð þriggja vetra stóðhestur.
Faðir Káts er Auður frá Lundum og móðir Karún frá Hallkelsstaðahlíð.
Kátur er geðgóður og hreyfingafallegur foli sem okkur hlakkar til að temja í haust.
Þarna eru félagarnir Krapi og Mummi, mér sýnist að þeim finnist bara gaman að þessu.
Gosi frá Lambastöðum og Mummi gerðu góða ferð í Borgarnes og tryggðu sér farseðil á Landsmót í Reykjavík.
Núna eru fjórar hryssur í tamningu hjá okkur undan kappanum og þær eru bráð skemmtilegar bæði hvað ganglag og geðslag varðar svo ekki sé nú talað um prúðleikan.
Um síðustu helgi var Hestaþing Glaðs í Búðardal haldið en það er opin gæðingakeppni sem er árviss viðburður og hefur verði lengi.
Mummi keppti á þremur hestum í B flokki gæðinga og töltkeppninni.
Gosi og Sparisjóður fóru beint inní a úrslit og Krapi bættist við eftir b úrslitin.
Í úrslitunum smelltum við Skúli okkur svo í hnakkinn svo að þetta var orðin nokkurskonar þjóðhátíðarfjölskyldureið. Það vantaði bara einn hest í viðbót handa Astrid en hún sá um að taka myndir í staðinn.
Gosi fékk 8,37 í einkunn, Sparisjóður 8,32 og Krapi endaði í 8,13 en hafði áður fengið 8,37 í b úrslitunum. Það var svo hin síungi Ámundi Sig sem vann b flokkinn á gæðingnum Elvu frá Miklagarði. Nánar um mótið á heimasíðu Glaðs.
Þetta var bara gaman því á síðustu árum hef ég gert meira af því að dæma aðra bæði í gæðinga og íþróttakeppnum en keppa sjálf.
Góður þjóhátíðardagur þetta.
Þarna er Astrid með nokkrum vinum sínum sem voru í slökun í blíðunni.
Þetta eru Nótt og Birta frá Lambastöðum og Vörður minn frá Hallkelsstaðahlíð.
Rák kastaði í síðustu viku rauðum hesti undan Dyni frá Hvammi, hann hefur hlotið nafnið Dynjandi. Það var svo í gær að Létt kastaði rauðri hryssu undan Frakk frá Langholti, hún hefur hlotið nafnið Sunna. Þá er staðan jöfn hvað varðar kynjaskiptingu tvær hryssur og tveir hestar.
Baráttudagur kvenna var haldinn hátíðlegur hjá húsfreyjunni hér á bæ en þá brunuðu nokkrar kellur með hryssur undir Blæ frá Torfunesi. Blær er núna á Þingeyrum svo þetta var fínasti bíltúr. Ég fór með Kolskör mína og litlu Kolrúnu, Sæunn á Steinum fór með Vorbrá sína og Dóra á Lambastöðum fór með Klöru sína. Og þar sem við kellurnar áttum allar hesta sem við hér í Hlíðinni vorum að keppa á um síðustu helgi var ekki úr vegi að hafa eina með svona til að skakka leikinn ef að samkeppnin færi úr böndunum. Hún Dúddý sá um að allt færi vel fram í ferðinni. Takk fyrir skemmtilegt kvöld dömur mínar, þetta verður nú endurtekið.
Hér í Hlíðinni voru geltir fimm folar í dag allt gekk vel og nú eru þessar elskur að jafna sig eftir þessa óumbeðnu ,,herraklippingu,,
Ég brá mér til Egilsstaða að dæma úrtökumót Hestamannafélagsins Freyfaxa fyrir stuttu.
Það er alltaf gaman að koma á nýjar slóðir til að dæma og ekki skemmir fyrir þegar flottir gæðingar mæta til keppni.
Framundan er Landsmót með allri sinni dýrð og hestaveislu en fyrst er það ættarmót hjá afkomendum þeirra Magnúsar og Sigríðar Herdísar Hlíðarhjóna sem haldið verður í Laugargerði um helgina.
13.06.2012 12:52
Sjaldséðin fína
Þetta er hún Sjaldséð mín frá Magnússkógum sem fór í 1 verðlaun á Miðfossum síðast liðinn mánudag. Sjaldséð er undan Baugi frá Víðinesi og Venus frá Magnússkógum.
Það var snillingurinn hann Þórður Þorgeirsson sem sýndi hryssuna fyrir okkur í dómnum.
Mummi hefur tamið og þjálfað Sjaldséð en Þórður prófaði hryssuna einu sinni í fyrra vetur og síðan aftur fyrir stuttu síðan.
Við erum ljómandi ánægð með hryssuna bæði tamningu, þjálfun og sýningu.
Það er gaman að segja frá því að þegar móðir Sjaldséðar hún Venus fór heim úr tamningu frá okkur falaði ég hjá eigendum hennar að fá að halda Venus einu sinni. Baugur frá Víðinesi var í Hólslandi svo að þangað var brunað með hryssuna. Við höfum kynnst mörgun hrossum af Magnússkógakyni og líkað vel, þau eru sjálfstæð en elskulegir höfðingjar. Nú er bara að vona að Sjaldséð fari í framtíðinni í tölur í líkingu við móðursystur sína hana Gjöf frá Magnússkógum sem hlaut 8,76 fyrir hæfileika og 8,55 í aðaleinkun.
Maður má nú láta sig dreyma.
Og þarna er brunað..........
Eins og þið hafið séð þá hef ég verið ódugleg við að setja inn efni en nóg er til og vonandi kemur það fljóttlega inná síðuna.
Og mikið er myndasafnið sem bíður birtingar.
01.06.2012 00:44
Smá fréttir
Þessari mætti ég útá vegi í gær og smellti einni mynd af því sem ég sá út um bílgluggann.
Sjaldséð mín bara nokkuð sæt með bleika nebbann sinn og eitthvað var mjög áhugavert sem hún sá útá túni.
Yndislegt veður en of heitt fyrir minn smekk ef maður er eitthvað að puða en golan bjargar málunum. Sól og blíða á daginn, náttfall og blíða á nóttunni.......hvenær á maður að tíma að sofa á þessum árstíma???
Á sunnudaginn var borið á þau tún sem við heyjum á öðrum jörðum og komum til með að byrja að heyja á. Hér heima verður að bíða þess að féð fari allt uppí fjall sem verður fljóttlega.
Rúmlega 30 kindur eru enn eftir að bera og biðin að verða svolítið þreytandi, nú er kominn sá tími að allt fé á að fara út og uppí fjall sem fyrst. Ég var að hugsa það í dag að líklega er ég búin að marka hátt í 2000 eyru á síðustu dögum. En allt tekur þetta enda og það fyrr en varir.
Folaldshryssurnar eru enn afar rólegar og ekkert bólar á öðrum folöldum en það breytist vonandi fljóttlega. Eins gott að þær verði kastaðar áður en þeirra tími kemur hjá stóðhestunum sem við eigum pláss undir.
Fullt af myndum bíður þess að mér auðnist tími til að setja þær hér inn en þær munu koma:)
Hestafréttir með kynbótaívafi koma við fyrsta tækifæri.
- 1