24.06.2012 23:04

Landsmót handan við horniðÞá er brostið á með Landsmóti 2012 sem haldið er í henni Reykjavík.

Ég fór á fund í mótstjórn LM s.l föstudag og komst í nokkurskonar ,,þorláksmessuskap,, þegar ég skoðaði mig um í Víðidalnum. Þar var verið að leggja loka hönd á framkvæmdir og allt að komst í hátíðarbúning. Þetta verður vonandi gott landsmót og ekki vantar nú hestakostinn, þvílík veisla sem við eigum von á. Hlakka mikið til að eiga þar góða daga.

Mummi og Gosi fara í braut á morgun svo nú er bara að vona að allt gangi vel og að þeir félagarnir hafi í það minnst gaman af keppninni. Þeir félagarnir brunuðu í bæinn í dag og gista nú báðir hver í sinni svítunni. Gangi ykkur allt í haginn kappar:)

Við höfum ráðið harðsvíraðan mannskap til að sjá um allt heima kött, hunda, hesta og hús.
Já það er gott að eiga góða að þegar ,,liðið,, skreppur af bæ í smá tíma. Stefnir í fjölmennara heimilishald en oft áður.

Enn hefur bæst í folaldahópinn hjá okkur því Upplyfting kastaði jarpri hryssu undan Gosa frá Lambastöðum og Dimma brúnu folaldi undan Loga Glottasyni. Ekki vannst tími til að kyngreina það í dag, vonandi hryssa.

Annars er það helst í fréttum að við áttum frábærar stundir á ættarmóti í Laugargerði um helgina. U.þ.b 150 manns mættu, spjölluðu, höfðu gaman og borðuðu frábæran mat hjá honum Óla á Hótel Eldborg. Ættarmótið endaði svo með samverustund í Hlíðinni nú í dag. Takk fyrir skemmtilega helgi frændfólk og vinir.
Margar myndir voru teknar og eru þær væntanlegar á síðuna.

Á morgun er það svo Landsmót og móttaka góðra gesta sem ætla að líta við hjá okkur í Hlíðinni og skoða ,,ættaróðal,, hesta sinna sem nú eiga heima á erlendri grundu.