19.04.2020 21:31

Hversdags...........er gott.

 

Hér í Hlíðinni gegnur lífið sinn vana gang með tamningum, þjálfun og öðru hversdagslegu stússi.

Já hversdagsleikinn er bara fínn og við í sveitinni upplifum þessa skrítnu tíma sennilega allt öðruvísi en aðrir.

Við höldum okkar striki gefum kindum (sauðburðarhlé um þessar mundir) og vinnum í tamningum og þjálfun  allan daginn.

Það er í raun og veru allt eins og venjulega nema það koma engir gestir og við förum lítið sem ekkert af bæ.

Auðvitað fylgjumst við vel með öllum fréttum og vonum það besta eins og allir aðrir. 

En stóri munurinn er að við höfum nóg að gera og getum ferðast aðeins meira daglega en bara innan húss.

Við getum farið í reiðtúr, labbað eða bara hvað sem er sem okkur dettur í hug hér heima í Hlíðinni.

Það er nefninlega þannig að hversdagsleikinn er stórlega vanmetinn upplifun.

Þar sem að vinnan er áhugamál og áhugamálið vinnan þar er gaman. 

Við erum með drjúgan hóp af hrossum í tamningu og þjálfun bæði frá okkur og öðrum.

Það er alltaf jafn spennandi að spá í efnilegum hrossum, hvernig þau koma út í tamningu og hvernig þau þróast.

Koma þau til með að hæfa því hlutverki sem þeim er ætlað ? Það er ætíð stóra spurningin.

Eins er gaman að spá í ætterni og einnig að kynnast gripum undan misunandi hrossum.

Þennan vetur höfum við verið einstaklega heppin með skemmtileg hross á öllum tamningastigum.

Bara svona fyrir þá sem eru á sama áhugasviði þá erum við að vinna með m.a. hross undan eftirtöldum hestum:

Skýr frá Skálakoti, Loka frá Selfossi, Spuna frá Vestukoti, Arion frá Eystra Fróðholti, Konsert frá Hofi, Ölnir frá Akranesi, Álfarni frá Syðri Gegnsihólum, Blæ frá Torfunesi, Ási Eyfjörð, Þyt frá Neðra Seli, Gaumi frá Aðsholtshjáleigu, Auði frá Lundum, Ramma frá Búlandi, Aðli frá Nýja Bæ, Þyt frá Skáney, Sóloni frá Skáney og Aldri frá Brautarholti.

Bara svo að eitthvað sé nefnt.

Hvað er uppáhalds ?? Það getur nú breyst dag frá degi og eins hvern ætlar þú að spyrja ??

Við erum jú fjögur að ríða út.

Gott veður, góður hestur, góður félagsskapur...................hvað er betra til að gleyma veiruvesininu ?

Já við höfum það gott í sveitinni.

Á meðfylgjandi mynd er augað hans Kafteins Ölnirs og Skútusonar, myndina tók vinkona okkar Christine Slawik.

Þetta auga er vörumerkið hans fullt af trausti, heiðarleika og ánægju. 

Já Kafteinn er uppáhalds.