25.02.2020 10:04

Dagurinn hennar mömmu og afmælisgjöfin 2020

 

 

Það er dagurinn hennar mömmu í dag en hún hefði orðið 77 ára hefði hún fengið að vera lengur með okkur.

Minningar ylja en það sannast alltaf betur og betur þegar árin líða að þeir sem hafa mest áhrif á mann í lífinu fylgja manni um ókomna tíð.

Eins og alla daga hugsa ég til hennar en í morgun var sérstaklega létt yfir þegar ég áttaði mig á því hvaða dagur er í dag.

Já hún hefið nú aldeilis verið kát með það að eiga afmæli á sprengidaginn. Saltkjör og baunir voru eitt það besta sem hún gat hugsað sér.

Eldaði gjarnan í stórum potti og vildi hafa sem flesta í mat þegar sprengidags lostætið var á boðstólnum.

Við mæðgur höldum örugglega daginn hátíðlegan hvor með sínum hætti.

Mamma var mikil fjölskyldumanneskja og vissi fátt betra en vera meðal sinna. Börn, barnabörn og fjölskylda voru algjörlega númer eitt í hennar huga. 

Við nutum svo sannarlega góðs af því og vorum dekruð og dáð sem er eitt það besta sem hægt er að fá.

Já því dekur í hennar huga var aldeilis ekki að æða áfram lífsins veg og taka bara það besta.

Virðing, hlýja og gleði voru bestu vinkonu hennar. Að kunna að haga sér var afar mikilvægt.

Ég get endalaust rifjað upp setninguna ,,það á ekki að skamma börn það á að tala við þau,, sanngjarnt og árangusríkt.

Heilræði sem er gulli betra.

Stóran hluta ævi sinnar vann mamma við að passa börn ekki bara okkur börnin sín heldur fjöldan allan af börnum á leikskólum og gæsluvöllum.

Eins og flestir vita þá eru ekki há laun í boði fyrir ófaglærða starfkrafta í þessum geira. 

Þrátt fyrir að þetta fólk sé að vinna með það sem flestum er allra kærast ,blessuðu litlu börnin. 

Undanfarnar vikur hef ég fylgst með kjarabaráttu Eflingar og hugsað í því sambandi til mömmu.

Hún eins og þetta fólk stóð vaktina og lagði hart að sér til þess að öllum börnunum gæti liðið sem best.

Þessir starfsmenn fara ekki í skjól þeirra er framlínan allan daginn.

Með hækkandi launum kemur meira svigrúm. Svigrúm sem nýtist þeim sem blessunarlega hafa haft tök á að mennta sig. 

Svigrúm til að ná andanum þegar álagið er mikið, draga sig í hlé, fara afsíðis til að skipuleggja og gera skýrslur.

Þetta er ekki í boði fyrir þá sem í framlínunni starfa. Börnin hafa hátt, eru uppátækjasöm og sum ódæl jafnvel takast á og láta hafa mikið fyrir sér.

Framlínan stendur sína pligt og gerir það allan vinnutímann. 

Ég er ekki að halla á neinn en bendi samt á að þeir sem starfa líkt og mamma gerði eru raunverulega framlínufólk.

 

Afmælisgjafir geta verið allskonar.

Mín afmælisgjöf til minnar elskulegu móður að þessu sinni er þakklæti, virðing og gleði fyrir allt sem var.

Það er því með stolti sem ég í minningu mömmu minnar sendi Eflingarfólki baráttukveðjur. 

Það er alveg kominn tími til að ykkar verk verði metin.