15.02.2019 23:03

Snjóþota áhrifavaldur.

 

Það urðu heldur betur gleðifundir þegar hún Þota litla skilaði sér heim en hún hafði verið týnd í viku.

Þota er tæplega eins árs border collie tík frá Eysteinseyri í Tálknafirði en kom hingað í Hlíðina aðeins nokkurra vikna gömul.

Hún hefur unað sér vel aldrei stolist af bæ eða farið neitt langt frá bænum. En síðast liðinn laugardag brá svo við að þegar kallað var inn til morgunverðar eftir ca klukkustundar langan útivistartíma skilaði Þota sér ekki. Hófst þá leit sem stóð fram í myrkur en þá höfðu helstu staðir sem við töldum koma til greina verið skoðaðir í krók og kring. Húsfreyjan setti ákall á samfélagsmiðla og hringt var á næstu bæi til að kanna hvort að einhver hefði orði Þotu var.

Meira að segja var leit hafin að sporhundi sem hugsanlega gæti ráðið gátuna hvar Þota væri niðurkomin.

Næstu daga var svo leitað og leitað en ekkert kom í ljós sem gaf vísbendinngar um hvað af Þotu hefði orðið.  Mummi flaug drónanum hér fram og til baka þegar veður leyfði, brunað var á fjórhjólinu til fjalla, farið í göngutúra með hina hundana til að freista þess að láta þá finna Þotu.

Ýmsar voru tilgáturnar t.d hvort hún hefði farið í stóðið sem gefið er hér stutt frá og fengið högg í höfuðið, hvort hún hefði farið útá ísinn á Hlíðarvatni og farið niður, nú eða bara hlaupið á eftir skollans krumma sem stríðir oft hundunum. Meira að segja var farið að bera uppá eldri hundana sem stundum eru leiðir á hvolpalátunum að þeir hefðu vísvitandi komið henni fyrir kattarnef. Reiðtúrarnir voru hljóðir því alltaf var verið að hlusta eftir gelti.

Það voru ófá skiptin sem rokið var upp um miðja nótt þegar einhver þóttist hafa heyrst í hundi fyrir utan gluggann.

Og vonin dofnaði..................

........................en stundum gerist eitthvað sem fæstir eiga von á.

 

 

Tæpri viku eftir að Þota týndist kom hún heim að húsi svöng, mjóslegin og illa lyktandi.

Við höfðum öll farið til genginga um morguninn, Mummi skaust heim skömmu síðar til að taka á móti ferðamönnum.

Þegar hann kemur heim að húsi kemur Þota skríðandi á móti honum heldur fegninn að sjá lífsmark á bænum.

Vá hvað það var góð og skemmtileg tilfinninga að sjá hana aftur heila á húfi.

Það var ný fallinn snjór og því auðvelt að sjá förin í snjónum. Mummi var snöggur að smella drónanum á loft og fylgja förunum þá leið sem Þota hafði komið.

Rakti hann förin inn með Hlíðarvatni innað stað sem nefnd eru Horn.

Suður í Hornum eins og sagt er stendur kartöflugarðurinn í ca 15- 20 metra hæð fyrir ofan vatnið. Þegar litið er þar fram af á góðum sumardegi er ansi bratt niður að vatninu. Á þessum stað safnast of mikill snjór sem endar oft í fyrirferðamiklum hengjum sem falla fram af og útá ísilagt Hlíðarvatnið.

Drónanum hafði oft verið flogið að þessum stað og hengjan sem niður hafði fallið skoðuð vandlega. Erfitt var að meta hvort hengjan væri nýfallin eða hvort einhverjir dagar væru síðan.  Alla daga var skafrenningur og fljótt að fenna í för og hylja slóð.

Allir voru sammála um að lítill hundur gæti ekki verið á lífi undir þessu fargi. 

En annað kom í ljós, upp um lítið gat hafði Þota litla komist og hlaupið beinustu leið heim.

Ótrúlegt en satt hún hafði lent í snjóflóði legið þar undir í viku og lifað það af.

Já hún er sannkölluð Snjóþota hún Þota litla.

Til nánari útskýringa fylgja hér myndir sem sýna svolítið hvernig aðstæður voru.

 

 

 

Þarna sjáið þið kartöflugarðinn á brúninni, þar eru girðingastaurar í venjulegri stærð.

Niðri hægramegin á myndinni er fjarna og á miðri mynd er flóði sjálft.

 

 

 

 

Út um þetta gat komst Þota út og upp úr flóðinu.

 

 

 

Holan í nær mynd.

 

 

 

Af forvitnssökum fóru Mummi og Maron á staðinn til að skoða.

Þarna er Maron að skoða inní holuna en hún var þröng, köld og illa lyktandi enda hafði hún verið dvalarstaður Þotu í tæpa viku.

Ummerki sáust um að hún hafði grafið og krafsað sig upp langan veg og sennilega hefur ekkert verið í boði annað en að sleikja ísinn sér til bjargar.

 

 

 

Þarna sést hluti hengjunnar sem eftir er en gengið hefur fram.

 

 

 

Það hefði verið gaman að hafa eitthvað á myndinni til að sýna raunverulega stærðarhlutföll.

 

 

 

Þarna er drónanum flogið nær og sýnir hversu langa leið hengjan hefur náð.

Það rifjast líka upp fyrir mér af hverju það var stranglega bannað að renna sér á snjóþotu á þessu svæði.

Ég skildi það ekki þá en skil það núna eins og segir í góðum dægurlaga texta.

 

 

 

Enn meira af flóðinu.

 

 

 

 

 

Þessi er tekin beint fyrir ofan.

 

 

 

Kartöflugarðurinn er ca 400 metrum frá útihúsunum.

 

 

 

Hér sést svæðið myndin tekin úr mikilli hæð.

 

Já það er óhætt að segja að hún Þota litla hefur heldur betur átt viðburðaríka viku.

En hún hefur náð mjög eftirsóknarverðum markmiðum, allavega að sumra mati.

Á einni viku hefur henni tekist að ná mikilli athygli á samfélagsmiðlum. 

Hún hefur fengið  yfir 500 like á fébókinni, brjálað áhorf á snappinu og marga fylgendur á instagram.

Og hún er eins og alvöru áhrifavaldur.............. getur allt og er auk þess búin að ná af sér ótrúlegri fitu á einni viku.

 

Við í Þotu vinafélaginu þökkum þeim sem aðstoðuðu okkur við leitina að Þotu.

Hún sendir ykkur bestu kveðjur hérðan úr Hlíðinni þar sem hún vinnur nú hörðum höndum að því að endurheimta fyrri líkamsfitu.

Spurning hvort hún nái ekki góðum samningum við ,,orku,, mikla hundafóðursframleiðendur ??

Kannski á Þota litla eftir að verða fyrirmyndar smalahundur eins og til var ætlast.

En hún er nú þegar orðin snjóflóða Snjóþota.