19.04.2018 23:06

Gleðilegt sumar.

 

Gleðilegt sumar kæru vinir, já og takk fyrir veturinn.

Það er ekki ofsagt að blíðan hefur leikið við okkur síðustu daga og gefið okkur fögur fyrirheit um gott vor.

Ég verð þó að leyfa mér að efast............. en bara í smá stund.

Eftir að hafa vaknað við fuglasöng undir öruggri stjórn stelksins er ég full bjartsýni og hlakka til að mæta góðu vori.

Lóan, tjaldurinn og stelkurinn ætla ekki að fá ,,seint í kladdann,, þetta vorið. Hrossagaukurinn og spóinn eru varkárari og taka sjensinn.

Eins og vera ber alin upp með Hrafnhildi ömmu er sumar dagurinn fyrst alltaf hátíðisdagur hér í Hlíðinni.

Góður matur og veglegt kaffi var málið og ekki mátti gleyma að fara í betri fötin til að taka nú vel á móti sumrinu.

Annað sem var mjög mikilvægt hjá henni ömmu minni var að fara ekki seint á fætur á sumar daginn fyrsta. Það gat hæglega gefið tóninn um ódugnað og sluks á komandi sumri. Það var bannað.

Hér á bæ var veturinn kvaddur með virtum, bústörf og hestastúss voru málið en þegar líða fór á daginn stakk húsfreyjan af og brunaði á hestamót. Það mót var þriðja mót Hestamannafélagsins Snæfellings á árinu sem hadið var í Grundarfirði. Hin tvö hafa verið haldin í Ólafsvík og Stykkishólmi.

Snildar mót sem hafa heppnast afar vel með góðri þátttöku félagsmanna. Mikið sem það er gaman hversu mikið líf er að koma aftur í hestamennskuna hér á Snæfellsnesinu.

Sumri var svo fagnað með góðum gestum sem mættu í húsin vel fyrir hádegi (hálfellefu) síðan var brunað í Norðurárdalinn.

Þar var opið hús í fjárhúsunum hjá Brekkubændum þeim Þórhildi, Elvari og börnum. Frábært framtak, gaman að skoða hjá kollegunum og hitta skemmtilegt fólk.

Takk fyrir góða mótttökur og ánægjustundir Brekkubændur.

Þegar heim var komið biðu bústörf og kröfuharður búpeningur sem hafði engan skilning á bæjarrápi og seinkun á gjöfum. Við vorum 0 stjörnu bændur að þeirra mati og áttum fátt gott skilið.

 

Annars gengur lífið sinn vana gang með dásemdar stundum í reiðhöllinni já og útá vegi.

Tamningar og þjálfun í fullum gangi og allt eins og til er ætlast.

Ja nema kannski tíminn hann fer alltaf minkandi hvað sem hver segir.