19.02.2018 22:39

Veðrið, veislur og allt hitt.

 

Já nú er það hvítt eða réttara sagt var hvítt eins og þið sjáið á þessari mynd.

Þegar þetta er hinsvegar skrifað gengur á með vestan hriðjum og tómum leiðindum.

Já veður guðinn er ekki uppáhalds kallinn þessa dagana.

En ég verð þó að játa að góðu dagarnir gera það að verkum að leiðindin gleymast.

Að ríða út í færi og veðri eins og myndin sýnir er draumur, já algjör draumur.

Þessi mynd er tekin út við Hermannsholt og í áttina heim.

 

 

Þarna er ég komin aðeins nær eða í Þrepholtið.

Geirhjúkurinn og Skálarhyrnan gnæfa yfir og eru bæði virðuleikinn einn.

 

 

En veðrið er ekki alltaf eins og maður óskar sér, ó nei.

Þetta var útsýnið sem boðið var uppá í rúman sólarhring og það meira að segja stundum minna.

Þið látið það nú ekki fara lengra en húsfreyjan festi sig tvisvar og keyrði einu sinni útaf á rétt rúmum 2 tímum.

Já og ferðin var ekki löng nei frekar stutt og kunnulegar slóðir sem farið var um.

Ferðin hófst við bílskúrsdyrnar og var heitið uppí hesthús. Sennilega eru þetta u.þ.b 250 metrar og svo kunnuglegir að holurnar og hörslið gæti haft sitt eigið nafn. Engu að síður var boðið uppá viðburði alla leiðina eins og skipulagið krefðist þess að alltaf væri eitthvað í gangi.

Það er þó skemmst frá þvi að segja að Mummi kom til hjálpar á Claasinum og dróg bílinn, húsfreyjuna og girðingun upp........................

Hæfni húsfreyjunnar til aksturs er óumdeild enda ekki á hvers manns færi að krækja bíl í rafmagnsgirðingu nánast við rúmgaflinn.

Seinómor.

 

 

Blíðan var mikið notuð enda ekki á hverjum degi.

Á þessari mynd er Skúli á Leik Spunasyni sem stillti sér upp fyrir myndatöku uppá einum snjóskaflinum.

Annars var helgin notuð til að sýna sig og sjá aðra........... 

Á föstudaginn var brunað til þeirra heiðurhjóna Benna og Siggu sem nú búa á Ferjubakka.

Þar kom saman góður hópur sem hist hefur á heima þorrablóti hjá þeim hjónum í nokkur skipti.

Frábært kvöld með góðum mat og skemmtilegu fólki.

Laugardagurinn var svo Skjónufélagsfundardagur. Það eru dásamlegir dagar.

Þá komum við saman hér í Hlíðinni og höfum gaman.

Að sjálfsögðu tók hópurinn út reiðhöllina, hrossin og sauðfjárbúskapinn.

Aðalefni fundarins gleymdist en þessi í stað fór megnið af fundartímanum í að skipuleggja menningaferð til framandi landa.

Allir meðlimir félagsins voru mættir nema Erla en hún átti ekki heimangengt.

Við árlega myndatöku lék verðlaunagripur félagsins hlutverk Erlu og því má segja að við værum þarna öll.

 

 

Það er því ljóst að við verðum að halda framhalds aðalfund og halda áfram að skipuleggja.

Við teljum okkur vera vel í stakk búinn til að ferðast hvert sem er jafnvel til tunglsins.

Viðburðastjórnandi, reiðkennarar, tamningamenn, bændur, þroskaþjálfi, fjölmiðlafræðingur, húsasmíðameistari, kokkur og Guð veit hvað.

 

 

Þarna er t.d viðburðastjórnandinn að rita fundargerðina................ og leggja á ráðin.

 

 

Og undirtektirnar virðast frábærar..............

Það er svo Brá og Maron að þakka að liðið náðist á mynd................ ekki verra að hafa heimildir.

Skemmtilegt að koma saman og hafa gaman kæru vinir.

Takk fyrir komuna, þetta verður eitthvað.