25.03.2017 23:31

Léttur laugardagur.

 

Norðurljósin fara henni Gangskör minni og knapanum bara vel.

 

Léttur en langur laugardagur að baki hér í Hlíðinni þar sem verkefnin voru fjölbreytt að vanda.

Dagurinn byrjaði með því að ég var vakin upp með andfælum til að draga lamb úr einni snemmbærunni.

Eitthvað sem er ekki venjulegt í lok mars en svona eru frjáslu ástirnar í Hnappadalnum.

Eftir mikið bras og átök hafðist að ná heljar stórum hrút í heiminn.

Hornin voru þannig að hver mánaðargamall hrútur hefði rifnað úr stolti af þeim. Þetta var ær númer fjögur sem þarna bar og eftir því sem spekin hans Bubba sónarmanns segir er tvær eftir í fyrri burði.

Svo ætla ég að vona það verði hlé þangað til 7 maí í það minnsta.

Þriggja mánaða sauðburður er ekki að mínu skapi og mikið dj....væri maður orðinn ljótur þá af vökunum.

Hér er búin að vera lítil aðstoðarkona í búskapnum sem hefur fylgst með öllu þessu ati af lífi og sál.

Hún er t.d búin að nefna öll lömbin sem komin eru afar tilkomu miklum nöfnum.

Það eru allt hrútar sem fæddir eru og bera þeir eftirtalin nöfn. Tómas og Emil fæddust fyrstir, þá kom Daníel, þá Jóhann og Ríkharður og að lokum var það Patrekur sem dreginn var í heiminn í morgun. Já hún Emilía Matthildur er alveg með þetta.

 

Tamningar, gestir og ýmislegt annað kryddaði svo daginn og gerði hann ljómandi góðan.