30.12.2014 22:24

Syndir á síðustu stundu.

 

Þegar húsfreyjan átti að vera heima að mylja kertavax úr jóladúkum, þurka af, krydda áramótasteikina og gera dásamlegan áramótadesert.......... stakk hún af.

Já já bara eins og áramótin væru ekkert svo merkileg eða í það minnsta húsfreyjuhlutverkið væri bara grín.

En verkefnið var mun mikilvægara en það að svona smotterí stoppaði hana. Kindur uppí fjalli þegar farið er að síga á háannatíma sparihrútanna.

Það var því brunað af stað til fundar við góðan granna í næstu sveit sem fundið hafði fimm kindur. Eftir snjó, flughálku og rok var veðrið gott en jörðin var í mýkra lagi og alveg nóg af vatni.

Þrír vaskir drengir ruku til fjalla en frúin æfði glæfra og torfæruakstur, þó ekki utan vega.........að neinu ráði. Freyja vestfirðingur var með í för karlpeningunum til halds og trausts.

Eftir drjúgan trimmtíma komu svo allir smalarnir (bæði menn og hundur) til baka með kindurnar fimm. Næstum ekkert smalabrjálaðir.

Þá hafði okkur bæst liðsauki en einn hrossaeigandi var á leið til okkar til að sækja hross úr tamningu. Hann var gripinn glóðvolgur í fyrirstöðu og uppá hestakerruna hans voru kindurnar reknar.

Við áttum tvær fullorðnar kindur en Bíldhólsbændur áttu eina tvílembu. Þær voru keyrðar heim og í leiðinni var spjallað yfir kaffi og smákökum í eldhúsinu á Bíldhóli.

Fjárheimtur hafa batnað til mikilla muna í desember og ef að hann hefði rúmlega 40 daga á sínum vegum yrði húsfreyjan ánægð.

Á myndinni hér fyrir ofan eru Einar Lambastaðabóndi, Mummi, Skúli, Freyja vestfirðingur og Flosi nágranni minn og bekkjarbróðir.

Já við Flosi vorum saman í grunnskólabekk ca 10 ár fyrir örfáum árum eins og þið hljótið að sjá.

Áður en haldið var af stað í morgun höfðum við fegnið vaska drengi úr Björgunarsveitinni Elliða í árlega heimsókn. Þar sem við höfum ekki skotið upp flugeldum í 15 ár fjárfestum við ekki í svoleiðis varningi. Enda fengið nóg af því að elta trylt hross um víðan völl (meira að segja í sparifötunum) nokkur ár í röð.

Það er þó alveg sjálfsagt að styrkja starf björgunarsveitarinnar sem alltaf er til reiðu þegar mikið liggur við. Það gerum við með glöðu geði enda alltaf að þvælast upp um fjöll og vitum aldrei hvenær við þurfum á þeim að halda. Fengum meira að segja góða aðstoð frá þeim í fyrra við að handsama kindur sem lent höfðu á glapstigum.

Átti alltaf eftir að sýna ykkur myndir frá því.

 

 

Þetta eru kapparnir sem handsömuðu Mókollu og Sprækuhvít í febrúar s.l

F.v Flosi á Emmubergi, Gísli í Mýrdal, Björgvin í Ystu-Görðum, Alti Sveinn í Dalsmynni, Andrés í Ystu-Görðum og Skúli.

 

 

Það var ekki árennilegt að færa þessar elskur til betri vegar..............enda eru þær ekkert lofthræddar.

 

 

Andrés er mikið fyrir mórautt og þarna er hann einmitt búinn að ná Mókollu ofaní gilinu.

 

 

Það gekk á ýmsu................en saman komu þau uppúr ánni.

 

 

Það þurfti að síga niður í gilið svo það var eins gott að finna traustan klett.................

 

 

Þarna er Sprækahvít komin í taum og meira að segja hreppsstjórinn heldur um taumana.

Eins gott að haga sér....................

 

 

Og þá er að komast upp..........

 

 

...................og það tókst.

Ef að myndatökumaðurinn (konan) væri aðeins minna lofthrædd hefðuð þið fengið alvöru glæframyndir.

Sennilega er dróni nauðsynlegur í svona myndatökur ef að vel á að vera með svona gunguljósmyndara.

Takk fyrir aðstoðina enn og aftur Björgunarsveitin Elliði og munið kæru sveitungar að styðja okkar menn.