08.12.2013 11:42

Gullmerkið til hans Einars Öders



Það var einstakur heiður fyrir mig að fá að afhenda Einari Öder Magnússyni gullmerki Félags tamningamanna á aðalfundi félagsins í gær.
 Þetta var eitt af mínum síðustu embættisverkum sem formaður félagsins og örugglega eitt það skemmtilegasta á ferlinum.

Læt hér fylgja með það sem kom uppí hugann hjá mér við það tækifæri.

 

Gullmerki Félags tamningamanna er æðsta viðurkenning sem félagsmanni getur hlottnast. Til að hljóta gullmerki félagsins þarf stjórn að vera sammála um valið, og það var hún svo sannarlega á síðasta fundi.

 

Stjórn Félags tamningamanna hefur ákveðið að sæma Einar Öder Magnússon gullmerki félagsins.

Einar Öder er landsþekktur hestamaður og kunnur fyrir störf sín í þágu íslenska hestsins. Einar hefur um áratuga skeið unnið að framgangi hestamennskunnar  hér innan lands og verið öflugur talsmaður hestsins og íslenskrar reiðmennsku á erlendri grundu.

Hann var um árabil landsliðseinvaldur og í því starfi sýndi hann svo sannarlega að þar fór fagmaður á ferð. Að velja keppendur, styðja þá og styrkja til árangurs er ekki öllum gefið.

,,Og svo er hann svo asskoti skemmtilegur,, sagði einn sem fylgt hefur honum víða á stórmótum erlendis.

Einar hefur komið með einum eða örðum hætti að starfi Félags tamningamanna um áratuga skeið.    Hann gekk í félagið 1984 og lauk tamningaprófi árið 1987.

Einar var varaformaður félagsins í nokkur ár og hefur tekið þátt í starfi félagsins með einum eða öðrum hætti alla tíð.

Hann er einn af þessum góðu dýrmætu félagsmönnum sem láta í sér heyra ef þeim líkar ekki það sem gert er, en klappar líka á bakið ef vel er gert.

Hann lætur sig málin varða og er með því öflugur og mikilvægur félagsmaður.

Þegar ég rífja upp minningar af Einari kemur fyrst upp í hugann hann og Leira frá Þingdal.

Hann og Sauðárkrókshestar.

Hann og Oddur frá Selfossi á Vindheimamelum að keppa í gæðingafimi.

Einar að temja í Stykkishólmi.

Og ógleymanlegir eru þeir Einar og Glóðafeykir á síðasta Landsmóti.

Ég verð líka að nefna erindi sem Einar hélt á upprifjunar námskeiði dómara fyrir stuttu síðan.

Erindið bara yfirskriftina Fagmennska í fyrirrúmi,

ég er sannfærð um að það voru fleiri en ég sem hugsuðu um þetta innlegg hans í marga daga.

Því eins og áður hefur komið fram er strákurinn ekki bara fróður heldur líka bráð skemmtilegur.

Það er mér sérstök ánægja að næla í þig gullmerki FT og sýna þér með því þakklætisvott fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara í reiðtúr með þeim hjónum Einari og Svönu s.l haust en þá riðum við í þæfingsfæri yfir Kerlingaskarð með kvikmyndatöku fólk allt um kring. Þar voru á ferðinni fræknir frakkar að gera kvikmynd um íslenska hestinn.

Ég vona að þessi viðurkenning nýtist þér í því frábæra starfi sem þið hjónin og fleiri eruð að vinna í Frakklandi. Það verður bara að spennandi að fylgjast með þeim landvinningum sem þar eru í uppsiglingu.

Megi gæfan fylgja þér og þínum um ókomna tíð.

 

Á næstunni smelli ég inn fleiri myndum frá fundinum en læt hér fylgja upplýsingar um nýja stjórn.

Súsanna Ólafsdóttir formaður.

Line Norregard

Bjarni Sveinsson

Hrafnhildur Jónsdóttir

Marteinn Njálsson

Elvar Einarsson

Karen Emilía Barrýsdóttir

Innilega til hamingju nýja stjórn Félags tamningamanna og þið kæru félagsmenn takk fyrir ánægjulegt samstarf.