17.07.2013 18:58

Smá fréttaskot í bundnu og óbundnu



Allt að gerast gæti þessi mynd heitið.......................skoða, hrista, klóra og geispa.
Hafgola að skoða, Létt að hrista. Kolskör að kljást við Rák og nn litli Gosa og Rákarsonur geispar.

Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum hér um slóðir að það hefur verið frekar votviðrasamt síðustu vikurnar. Blautt Fjórðungsmót, blautt Íslandsmót og heyskapur hann er allavega ekki kominn eins langt og til stóð. Þó greyp um sig bjartsýni hér í gær og slegnir voru rúmlega 7 ha sem nú er verið að rúlla. Ekki er þorandi að treysta á langan þurk svo það er eins gott að klára bara að rúlla í kvöld.

Fjórðungsmótið sem haldið var á Kaldármelum um daginn heppnaðist afar vel nema veðrið það klikkaði allavega að nokkuru leiti. Hestakosturinn var mjög góður og komu fram nokkrar nýjar stjörnur, sérstaklega fannst mér 4 vetra flokkur stóðhesta frábær.
Það er alltaf gaman að gleðjast með góðu fólki á Kaldármelum og var þetta mót engin undantekning. Eftir svo vel heppnað mót tel ég fullvíst að aftur verði fjórðungsmót á Kaldármelum 2017. Mig er strax farið að hlakka til.

Fyrir og meðan á mótinu stóð reyndi ég að deila ,,veðurlæsi,, mínu á sem jákvæðastan máta mótinu hugsanlega til framdráttar. Þetta heppnaðist misjafnlega en hefur þó vonandi ekki orðið neinum til tjóns.
Einhversstaðar segir að maður eigi að líta á björtu hliðarnar er það ekki ?

Fésbókarvini mínum fannst ég bera mig vel miðað við veðurlýsingar annara af mótinu því urðu þessar vísur til.

Þó allt sé fokið út við Sogn
ær og líka seppi.
Hvirfilbyl menn kalla logn
í Kolbeinsstaðahreppi.

Norðanáhlaup, frost mun fylgja.
Fráleitt að ég norður skreppi
en þetta heitir hitabylgja
i Hlíð í Kolbeinsstaðahreppi.

Já hann klikkar ekki þessi þegar að skáldskap kemur.

Takk fyrir Valur Óskarsson eins gott að fara fá þurkvísu svo að heyskapurinn fari að ganga eitthvað.

Þann 9 júlí fóru fóru Þríhella og Skriða undir Stimpil frá Vatni en Kolskör undir Hersir frá Lambanesi.
Þann 11 júlí fóru svo Karún, Skúta, Létt og Rák undir Ölnir frá Akranesi. Nú er bara að bíða og sjá hvort að þessir fundir beri ekki tilætlaðan árangur.
Blika var síðasta hryssan til að kasta þetta árið og kom með gullfallegan og skjóttan hest undan Gosa frá Lambastöðum þann 10 júlí. Hann hefur hlotið nafnið Þytur.