08.07.2013 21:29

Sagan hennar HjaltalínSkúta og Mummi að keppa á Íslandsmóti fyrir nokkrum árum síðan.

Já aðalfréttin héðan úr Hlíðinni er að hún Skúta kastaði á föstudaginn alheilbrigðu merfolaldi.
Þetta væri svo sem ekki í frásögu færandi nema af því að hún barðist fyrir lífi sínu í rúman mánuð síðast liðinn vetur.  Sjá nánar á blogginu hér á síðunni í janúar 2013.
Síðast liðinn gamlársdag fárveiktist Skúta af hrossasótt og var svo hætt komin að henni var ekki hugað líf. Þennan dag var hálfgerður bylur, mikið rok og kuldi. Við höfðum gefið hryssunum daginn áður og þá var allt með felldu. Sem betur fer ef hægt er að orða það þannig erum við orðin svo kvekkt af flugeldaskotum áramótanna að við rekum hryssurnar inn. Það var einmitt þegar við komum út í girðingu til að smala þeim inn að við sáum að Skúta var ekki eins og hún átti að sér að vera. Hún stóð langt frá hryssunum og hafði greinilega engan áhuga á heyi eða samneyti við hinar hryssurnar. Þegar við komum nær sáum við að hún var uppþemd og mjög aumingjaleg. Hryssurnar voru reknar heim en Skúta teymd á eftir þar sem hún var slöpp og fylgdi varla hópnum. Þegar heim kom fórum við með hana inn þar sem við erum með reiðsvæði í hlöðunni. Þegar þangað kom bókstaflega lak hún niður og var engu líkara en hún væri að drepast. Ég hafði hringt strax í Hjalta dýralæknir þegar við sáum hversu veik hryssan var og sem betur fer var hann ekki langt undan. Hann brást fljótt og vel við, var kominn eftir ótrúlega stuttan tíma. Þegar hann kom og sá hryssuna duldist engum viðstöddum að vonin var lítil ef að þá einhver. Ég sagði honum að þetta væri algjör uppáhalds hryssa og eigandinn ( Mummi) væri í flugvél á leiðinni heim frá Svíþjóð. 
Þögnin var óþarflega löng en svo sagði hann ,,við getum svo sem reynt en gerðu þér ekki neinar vonir"  Ég ætla ekki að rekja það sérstaklega hvað hann gerði en fyrsta meðhöndlun tók drjúgan tíma. Þegar henni var lokið þurfti Hjalti að bruna í aðrar vitjanir og sækja meiri lyf . Það var því liðið vel á gamlársdaginn þegar hann kom til baka og hélt meðhöndlun áfram.
Hér í Hlíðinni var síðasta kvöldmáltíð ársins snædd afar seint og ekki var hún fyrr á ferðinni hjá Hjalta dýralækni sem brunaði heim í Stykkishólm.
Til að gera langa sögu stutta þá tóku hér við á nýju ári langar og strangar vaktir sem stóðu í einn og hálfan mánuð. Hrossasóttin hafði þær afleiðingar að það myndaðist lófastór poki á þarminn sem gerði það að verkum að skíturinn safnaðist þar fyrir og skilaði sér ekki út. Skúta fékk háan hita og um tíma leit ekki út fyrir að það næðist að halda henni á lífi.
Þegar hún veiktist gekk undir henni hestfolald, Skúti sem af öllu brölltinu varð spakur og meðfærilegur. Hann fékk ekki að sjúga þar sem að Skútu veitti ekki af allri sinni orku fyrir sig en hans hlutverk var að vera í næstu stíu og heimsækja mömmu sína öðru hverju. Þetta var gert til að hryssan rifi sig upp og hefði einhvern áhuga á að hreyfa sig og standa upp.
Skúti litli var sem sagt í fullri vinnu í nokkrar vikur við að hressa mömmu sína við.
Lyfjagjafir, úthreinsun, hitamælingar og ýmislegt fleira að ógleymdum parafínolíu og AB mjólkurgjöfunum voru dagleg verkefni. Já hún Skúta lifði á AB mjólk, parafínolíu og rennblautri há í allan vetur. Þegar hún fór að hressast og hafa meiri áhuga á að borða var henni gefið örlítið af há sex sinnum á sólarhring. Ein lúka í hvert skipti var meira en nóg engin áhætta tekin á að hún stíflaðist aftur. Undir vor var hún svo farin að braggast verulega og orðið alveg ljóst að folaldið sem hún átti að vera með í maganum var þar ennþá.
Það var nefninlega þannig að þegar Mummi útskrifaðist sem reiðkennari frá Hólaskóla fékk hann folatoll undir Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum að gjöf.
Það var svo föstudaginn 5 júlí að Skúta kastaði brúnni hryssu sem er heilbrigð, stór og falleg.
Mikil hamingja með þessa flottu hryssu sem að sjálfsögðu heitir eftir dýralækninum honum Hjalta.  Já Hjaltalín frá Hallkelsstaðahlíð er fædd og mæðgunum heilsast vel eins og sagt er á fæðingadeildinni.

Það er ekkert grín að fylgja ,,sjúklingi" af þessu tagi eftir í marga mánuði en trúið mér við vorum aldrei á því að gefast upp. Þetta hefði samt aldrei tekist nema með hjálp Hjalta dýralæknis sem af einskærri natni sinnti og fylgdist með Skútu og leiðbeindi okkur.
Kærar þakkir Hjalti Viðarsson, þér verður örugglega boði á bak þegar þar að kemur.