02.10.2012 10:23

Smá kindaleg......



Það er komið haust á því er enginn vafi, kaldur strekkingur með smá úrkomu sem er ísköld.

En haustið hefur líka sjarma og næg er verkefnin í sveitinni á haustin. Smalamennskur, fjárrag, kartöflur og slátur eins og stundum er sagt. Síðasta helgi var svona dæmigert sýnirhorn af ,,hausti,, smalað, réttað, sóttar kindur hér, sóttar kindur þar. Spjallað í fjárhúsum á nokkrum bæjum, sumstaðar kaffisopi jafnvel með ,,Conna frænda,,  og allt uppí stórveislur. Já Bíldhólshangikjötið er svo sannarlega veislumatur af bestu gerð.

Framundan eru fleiri smalamennskur sem dreift verður á nokkra daga  síðan er það lambavigtun og líflambaval á sunnudag og mánudag.

Við vorum aðeins búin að taka forskot á líflambavalið svona í grófum dráttum á því sem komið var. En allt verður þetta endurskoðað eftir mælingar og sónarskoðun.
Þeir hrútar sem bíða frekari skoðunar eru m.a undan Grábotna frá Vogum.
Skemmtilegir á litinn í ofanálag,botnóttir og golsóttir.



Þarna eru golsarnir Grábotnasynir í vor en önnur mynd af öðrum þeirra er hér neðar á réttablogginu mín.

 Einn undan Dal frá Hjarðarfelli sem var stigaður í 85,5 og verður settu á, hann hefur hlotið
nafnið Gunni:)  Besti hrúturinn sem bíður nánari skoðunnar er undan honum Fyllirafti okkar Raftssyni.  Gerðarleg kind en væri sennilega tekinn úr umferð ef að hann væri hestur,  mundi allavega ekki hennta óvönum......
Síðan eru það synir Sigurfara frá Smáhömrum og Dunks frá Dunki sem koma sterkir inn.
Reyndar fór einn undan Hróa frá Geirmundarstöðum í sláturhúsið sem flokkaðist í E2 en stigaðist bara í 83.5. Ég er nú með smá skeifu yfir því að hafa látið hann fara en svona er þetta bara.
Gimbrarnar eru bara grófflokkaðar og ekkert búið að mæla eða sóna af þeim svo engar staðreyndir eru þar að hafa.

Heimtur er m.v dagatal nokkuð ásættanlegar og eru meira að segja komnar kindur sem ekki voru heimtar fyrr en um miðjan síðasta vetur.



Þessi hér eru núna komin heim en þau eyddu stórum hluta síðasta vetrar í góðu yfirlæti hjá nágrönnum okkar á ,,vestubakkanum,, eins og Svanur bóndi í Dalsmynni mundi segja.
Þetta eru þau Lambabamba og sonur hennar Svanur Gutti, myndin er tekin þegar þau komu á hús s.l vetur. Svo bættust að sjálfsögðu lömb við í vor hjá Lömbubömbu:)